Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sandfok í fjöru.
Sandfok í fjöru.
Skoðun 28. febrúar 2017

Ofbeit í sjó veldur spjöllum á landi

Höfundur: Valdimar Össurarson

Við sláum því gjarnan föstu að lífríki sjávar og lands séu tiltölulega aðskilin. Fá dæmi eru þess að sveiflur í stofnstærð sjávarlífveru valdi beinum og mælanlegum spjöllum á landi. 

Hér verður fjallað um ferli sem er undantekning á þessu. Orsakasamhengi sem nýlega varð ljóst, og kann að vera allvíðtækt við strendur landsins. Miklar líkur eru á því að landrof og aðrar breytingar í landslagi megi beinlínis rekja til offjölgunar í stofni ígulkersins skollakopps á grunnslóð kringum landið. Þetta er sú niðurstaða sem greinarhöfundur hefur komist að, og unnt er að styðja margvíslegum rökum.

Strandhögg víða um land 

Á síðustu áratugum hefur sjór víða gengið hærra á land í brimi og stórstraumsflæðum en hann áður gerði. Rof hefur orðið í sjávarbökkum og ævaforn mannvirki og minjar orðið fyrir tjóni. Fornar verstöðvar eru víða að hverfa í hafið, og með þeim ómetanlegur hluti menningarsögunnar. 

Annars staðar hefur brimið rutt á land skeljasandi í meira mæli en áður voru dæmi um, með tilheyrandi sandfoki og landeyðingu. 

Breytingar í náttúrufari Kollsvíkur

Ég er einn þeirra sem hugleitt hafa orsakir þessa, en óvíða eru breytingarnar greinilegri en á mínum heimaslóðum, Kollsvík í Rauðasandshreppi, nú Vesturbyggð. Kollsvík er ein Útvíkna, sem eru vestast á skaganum milli Patreksfjarðar og Breiðafjarðar, hinar eru Breiðavík og Látravík. Í þeim öllum eru miklar skeljasandsfjörur, og sandfok hefur verið viðvarandi ógn um aldaraðir. Í öllum víkunum hefur sjór á síðustu árum valdið óvenju miklu rofi á sjávarbökkum og minjum sem á þeim standa, en útræði var fyrrum á hin gjöfulu fiskimið á grunnslóð. 

Hér verður litið til breytinga sem orðið hafa í náttúrufari í Kollsvík, en líklega á það sama við víðar um strendur landsins. Undir lok nýliðinnar aldar fóru menn að taka eftir því að eitthvað óvenjulegt var að gerast, sem lýsti sér einkum í eftirfarandi:

Rof sjávarbakka upphófst sunnan til í víkinni, í áður óþekktum mæli. Þar stóð hin forna og mikla verstöð Láganúpsver um margra alda skeið; líklega milli 1400 og 1700, og var hún þá ein stærsta verstöðin á sunnanverðum Vestfjörðum. Þessi forna verstöð er nú í verulegri hættu, en á um 200 metra kafla hefur brimið brotið bakkana. Í rofsárinu sjást gríðarmikil mannvistarlög: Hver steinhleðslan ofan á annarri, þykk beinalög, gólfskánir og öskulög; allt er það að hverfa í hafið. Minjastofnun hefur fylgst með þróuninni og skoðar hugsanleg úrræði í samráði við Vegagerðina.

Brimskaflar gengu á land nokkru sunnar og brutu skörð í langan steinhlaðinn garð sem liggur um 300 metra kafla ofan sjávarbakkanna, ævagamall að uppruna og áður óspilltur af sjávarágangi. Ég hef unnið að viðgerðum á þessu mannvirki í samstarfi við Minjastofnun.

Skeljasandur hlóðst upp við ströndina í gríðarmiklu magni. Sandfjörur hefur reyndar ávallt verið í Kollsvík, en á síðasta áratug 20. aldar jókst mjög þessi landburður. Í kjölfarið varð mikið sandfok sem valdið hefur töluverðum gróðurskemmdum í Láganúpslandi. Heimamenn vinna nú að uppgræðslustörfum, en stuðningur Landgræðslunnar þyrfti að vera miklu öflugri.

Lausaþari hvarf að mestu úr fjörum sunnan til í víkinni, en áður hafði sjórinn hlaðið þar upp þykkum bunkum af þara sem slitnaði upp frammi á víkinni í brimi. Engir þarabunkar hafa sest í fjöruna á síðari áratugum. 

Orsaka leitað

Greinilegt var að þarna höfðu orðið breytingar í gangi náttúrunnar. Ekki nóg með að brimskaflar gengu hærra og oftar á land en áður hafði þekkst, heldur náði brimið að róta upp skeljasandi, sem liggur í gríðarmiklu magni á flágrynninu, og ryðja honum á land upp.

Vangaveltur um orsakir beindust einkum að hækkandi sjávarstöðu vegna loftslagsbreytinga, sem mikið er í umræðunni. Sú skýring er þó alls ófullnægjandi, þó hún kunnið að vera meðvirkur þáttur.

Sjávarborðshækkunin er mun minni hérlendis en á heimsvísu Það stafar annars vegar af landrisi vegna bráðnunar jökla hérlendis og á Grænlandi og hins vegar af minnkandi þyngdarsviði jarðar á þessum slóðum. Hækkun síðustu þrjátíu ára er vart meiri en fáeinir sentímetrar. 

Skýringar hjá skollakoppnum

Ég set fram þá tilgátu að skýringa sé að leita í mikilli fjölgun í stofnstærð skollakopps og ofbeit hans á þaraskógum, sem allajafna draga úr afli brimöldunnar. 

Á síðustu áratugum nýliðinnar aldar stóð grásleppuútgerð með blóma í Rauðasandshreppi. Fjöldi smábáta reri þá frá Gjögrum og víðar, og netum var þéttraðað á hina miklu þaragarða við ströndina; allt frá Gjögrum útmeð sunnanverðum Patreksfirði, á Kollsvík og Breiðavík. Ég var í þessum hópi grásleppukarla.  Þegar kom framyfir 1980 varð hinn hvimleiði skollakoppur aukin plága í netum, en jafnframt hvarf þari og veiði af nokkrum svæðum.  Sömu fréttir bárust víðar að: Gríðarleg fjölgun var í stofni skollakopps við landið. Á grunnsævi Kollsvíkur er allmikill þaragarður; einkum í Bótinni norðantil, en sunnar eru sandflákar. Ég var stundum með net á Bótinni, en uppúr 1980 var greinilegt að skollakoppur var að eyða þaraskógunum og veiði var þá hætt.

Ég hef á sl. 8 árum fengist við tækniþróun til nýtingar á orku sjávar; einkum sjávarfalla, á vegum Valorku ehf. Það verkefni gengur framar vonum, en í þessari vinnu beinist athyglin óhjákvæmilega að afli í haföldu og áhrifum botnlags á það. Þær hugleiðingar vöktu m.a. spurningar um áhrif þaragróðurs á afl grunnbáru. Rannsóknir fræðimanna virðast staðfesta þau áhrif, þó enginn hafi áður skoðað heildarmyndina útfrá þessu sjónarhorni, eftir því sem næst verður komist.

Um skollakopp og átvenjur hans

Skollakoppur ,Strongylocentrotus droebachiensis, er algengust þeirra 12 ígulkerategunda sem finnast hér við land. Hann er grænbrúnn og verður allt að 7cm í þvermál. Að sögn fræðimanna er þekkt að gríðarleg fjölgun verði um tíma í stofnstærð skollakopps, með tilheyrandi eyðileggingu þaraskóganna sem hann lifir einkum á. Áhrif beitar skollakopps á þarabelti hafa töluvert verið rannsökuð. Má þar t.d. benda á rannsóknir Karls Gunnarssonar, Sophie Hall-Aspland og Öivind Kaasa sem gerðar voru í Garðsvík í Eyjafirði, og lýst í ritgerð árið 1996 „Fæðuval og fæðunám skollakopps“. Niðurstaða þeirra er að átvenjur skollakopps hérlendis líkist því sem þekkist við strendur Kanada, þ.e. að hann éti þaraskógana utan frá jaðrinum, og að ein uppáhaldsfæða hans sé stórþari, Laminaria hyperborea. Þéttleikann töldu þau vera um 10 dýr á fermetra, eða til jafnaðar 400-500 á metra strandlengju. Ígulker eru einungis á 3-5 m breiðu belti í jaðri þaraskógarins, og hraði eyðingarinnar reyndist vera 2,5 til 3 m á mánuði. Að jafnaði áætla þessir vísindamenn að frá hverjum kílómetra strandlengju hverfi 270-320 tonn af þörungum árlega. Þessar tölur miðast auðvitað við rannsóknarstaðinn, en ætla má að þær eigi við víðar. Þaraskógur í Kollsvík er samfelldur þar sem hann er þéttastur norðan til, en á blettum sunnar.  Má ætla að skollakoppurinn hafi fljótlega klárað blettina og gengið allnærri meginskóginum á 10-20 ára tímabili. Kemur það heim við að ofbeitin hafi hafist uppúr 1980 og að afbrigðilegs sjávarrofs farið að gæta fyrir aldamót.

Áhrif þaraskóga á afl brimöldu á grunnsævi

Með eyðingu þaraskógarins varð hafsbotninn ber eyðimörk. Rótarbrim kemur hreyfingu á sandinn sem legið hefur óhreyfður í lænum á botninum í skjóli af þaranum.  Öldurnar þurfa ekki lengur að róta þaranum til, með afltapi sem því fylgir, heldur æða af fullu afli uppyfir grynningarnar upp í fjöru; flytjandi gríðarlegt magn af skeljasandi í fjöruna.  Miklir brimhnútar veltast upp á land; rífa niður sjávarbakka ofan hæstu flæðarmarka, og geysast uppá þá sunnar.  Þarabunkar hverfa úr fjörum, þar sem enginn þari slitnar lengur upp í brimi; hann er horfinn. 

Ýmsar rannsóknir liggja fyrir um áhrif þaraskóga á grunnbáru: Árið 1996 birti norski haffræðingurinn Martin Mork ritgerð: „The effect of kelp in wave damping“. Rannsóknir hans sýndu að þar sem brimalda fór yfir 258m breitt þarabelti minnkaði afl hennar um 70-85%. Í sömu átt benda niðurstöður rannsókna Kevin Bradley og Chris Houser; „Relative velocity of seagrass blades: Implications for wave attenuation in low-energy environment“, frá 2009.  Ölduhæð brimöldu sem nær niður í þaraskóginn eykst í byrjun, en minnkar síðan verulega. Áhrifin eru þó hlutfallslega minni með aukinni ölduhæð, iðu og sveiflutíðni. Ástæða orkutapsins er að aldan þarf að sveifla þaraskóginum fram og til baka, með öllu viðnáminu sem því fylgir. 

Eru sömu öfl víðar að verki? 

Líklegt að í framangreindu ferli liggi meginskýringin á umræddu rofi, þó Kollsvík hafi e.t.v. sérstöðu vegna skeljasandsins.  Líklegt er að sama eigi við annarsstaðar á landinu.  Offjölgun skollakopps virðist hafa orðið á svipuðum tíma á öllum búsvæðum hans, með tilheyrandi hnignun þaraskóga. Á síðustu áratugum eru fornar verstöðvar víða að hverfa í hafið vegna óvenjulegs ágangs sjávar. Eyþór Eðvarðsson hefur líklega manna mest skoðað þessa heildarmynd og vakið athygli á því tjóni sem í húfi er fyrir menningararf þjóðarinnar. Minjastofnun hefur nú ráðið fornleifafræðing til að skoða þessa staði sérstaklega, og hef ég stungið þessari tilgátu að honum. Ég hef einnig borið hana undir sérfræðinga á sviði þara, ígulkera og landgræðslu, sem telja hana athyglisverða.

Rannsókna er þörf

Þessum skrifum er ætlað að vekja athygli á málefninu og hvetja til frekari rannsókna. Margt óþarfara er styrkt af almannafé. Ljóst er að af þessari eyðingu hlýst gríðarmikið tjón: Ekki aðeins fjártjón vegna fyrirhleðslna, uppgræðslu og minjaverndar; heldur er alvarlegri hinn óbætanlegi skaði sem verður við það að fornar verstöðvar hverfa í hafið; ein meginheimildin um atvinnusögu okkar fyrr á tímum. 
Minni ég í lokin á hið fornkveðna; til að fást við vandamál þarf að vita orsök þess.

Skylt efni: landeyðing | skollakoppur

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...