Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Pétur Snæbjörnsson.
Pétur Snæbjörnsson.
Fréttir 28. maí 2021

Óánægja í aðgerðahópi bænda með heimaslátrunarreglugerð

Höfundur: smh

Reglugerð um slátrun í litlum sauðfjár- og geitahúsum var gefin út og tók gildi 6. maí síðastliðinn. Aðgerðahópur bænda um heimaslátrun vann með sjávar­útvegs- og landbúnaðar­ráð­herra að undirbúningi útgáfu reglugerðar­innar. Pétur Snæbjörnsson má segja að sé fulltrúi kaupenda lambakjöts í hópnum, en hann starfar sem ráðgjafi og hefur verið viðloðandi ferða-, gisti- og veitingaþjónustu í 45 ár. Hann segir að reglugerðin sé alls ekki eins og lagt var upp með að slík reglugerð yrði – hún sé tyrfin og samin fyrir markaðssetningu á Evrópska efnahagssvæðinu.

Pétur vísar þar til sex evrópskra undirreglugerða sem er að finna í nýju reglugerðinni – sem ekki eru til á íslensku, en gilda samt á Íslandi. „Í okkar undirbúningsvinnu með ráðuneytinu var alltaf lagt upp með að gefa út reglugerð sem heimilaði sláturstarfsemina með einföldum og skýrum reglum, sem heimiluðu bændum að slátra fyrir heimamarkað.

Þörf á grundvallarbreytingum

„Það sem mér gengur til með starf­inu í aðgerðarhópnum er að kalla eftir meiri fjölbreytni í lambakjötsafurðum, en mér hefur fundist einsleitni vera ráðandi þáttur á markaði. Neytendur hafa haft lítið um það að segja hvernig afurðirnar er hlutaðar niður og meðhöndlaðar. Eins er furðulegt að merkingar á stærðar- og gæðaflokkum skili sér ekki inn á markaðinn,“ útskýrir Pétur.

„Að mínu mati er það alveg ljóst að það þurfa að eiga sér stað grundvallarbreytingar framleiðslukerfinu í sauðfjárrækt og það var í raun staðfest í skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands um afkomu sauðfjárbænda. Hluti af þeim breytingum er að auka vægi heimaslátrunar og -vinnslu. Almennt þarf að lengja sláturtímann til að minnka geymslukostnaðinn og setja meira af kjötafurðunum ferskar á markað. Því hefur aldrei verið almennilega svarað af hverju það þarf að slátra öllu nánast á tíu vikum á haustin og troða lömbunum inn í frystiklefa – í stað þess til dæmis að slátra í eina viku í hverjum mánuði í alls tíu mánuði ári. Þá verður kjötið bara mismunandi eftir því hvernig árinu vindur fram, en það er allt í lagi því það er mesti misskilningur að það þurfi allt að vera nákvæmlega eins.“

Mér hefur verið boðið ýmislegt miður gott

„Ég hef verið kaupandi að lambakjöti í um 30 ár en ég hef aldrei verið spurður að því hvernig kjöt ég vilji fá, en mér hefur hins vegar verið boðið ýmislegt miður gott til kaups sem ég hef ekki haft neitt val um að hafna. Við þurfum að sinna heimamarkaðnum almennilega.

Annað stórt vandamál í kerfinu er þessi gríðarlega sóun í framleiðslunni. Af kannski 40 kílóa lífmassa sem slátrað er, skilar sér kannski um 6–8 kíló af kjöti út úr ferlinu. Aðrar afurðir skapa engin verðmæti. Sjávarútvegurinn státar af því að skapa verðmæti út úr yfir 80 prósentum af lífmassanum, en við kannski úr 20 prósentum.

Það er ekkert verið að gera í þessum málum eins og er, engin verðmætasköpun að ráði úr þessum aukaafurðum og það er engin krafa á sláturleyfishafa að gera betur í að skapa verðmæti úr þeim lífmassa sem gefin er í dag,“ segir Pétur.

Hann bætir því við að með því að svara betur kröfum kaupenda aukast verulega líkur á að hægt sé að fá hærra verð fyrir framleiðsluna.

Tyrfnar og vandlesnar leiðbeiningar

Matvælastofnun hefur útbúið leiðbeiningar á grundvelli reglugerðarinnar, um helstu skilyrði vegna slátrunar og stykkjunar skrokka. Pétur segir að leiðbeiningarnar séu tyrfnar og vandlesnar – og bendir á að ekki séu sérstakar upplýsingar eða viðeigandi vefsíða fyrir umsóknarferli að starfsleyfi sláturhúsanna sem reglugerðin fjalli um, né umsóknarform. „Við erum búin að vera í samtali við ráðuneytið í tæpt ár út af þessu. Fyrst var tilraunaverkefnið sl. haust, sem tókst í alla staði vel. Það sem tókst minna vel er auðvelt að laga og þar sem þekkingu skorti er auðvelt úr að bæta. Til dæmis hefði vel verið hægt að laga hnökrana sem voru í heilbrigðisskoðun með fjarfundarbúnaði, þeir voru bara tæknilegs eðlis. Ferlið með slíku fyrirkomulagi hefði getað orðið mun þægilegra fyrir bændur.

Alltaf var lagt upp með það að gefa út reglugerð sem heimilaði starfsemina, einfaldar og skýrar reglur. Þannig gætu bændur slátrað fyrir nær- og heimamarkað. Þannig fengið meira af virðiskeðjunni, minnkað kolefnisspor og bætt dýravelferð í flutningum sláturgripa.

Svo kom bara eitthvað allt annað. Það þarf starfsleyfi, sem allir telja eðlilegt. En að það starfsleyfi veiti aðgang að öllum innri markaði EES var aldrei beðið um og fullkominn óþarfi.

Við fögnuðum mjög þegar reglugerð 500/2021 var auglýst, en brosið var fljótt að fara þegar við kynntum okkur innihaldið í þaula,“ segir Pétur.