Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sindri Sigurgeirsson og Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifa undir yfirlýsingu um samstarf í náttúruverndarmálum.
Sindri Sigurgeirsson og Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifa undir yfirlýsingu um samstarf í náttúruverndarmálum.
Mynd / smh
Skoðun 13. desember 2018

Nýtum 2019 til eflingar íslensks landbúnaðar

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Nú þegar skammt er til jóla og áramóta er siður að rifja upp það sem hæst hefur borið á árinu sem er að líða.  Það er sannarlega margt sem gengið hefur á í íslenskum landbúnaði á árinu 2018. Það hafa verið erfiðleikar víða og sést ekki fyrir enda sumra þeirra eins og í sauðfjárrækt og loðdýrarækt.  
 
Afurðaverð í báðum þessum greinum hefur verið í lágmarki síðustu árin og reksturinn neikvæður. Langt er síðan að teknar voru upp viðræður við stjórnvöld um stöðuna en enn sem komið er hefur þeim ekki lokið með ásættanlegri niðurstöðu en samtalið heldur áfram.  
 
Sótt að innlendri framleiðslu
 
Það hefur verið sótt að innlendri framleiðslu og líkur eru á að svo verði áfram.  Tollasamningur við Evrópusambandið tók gildi 1. maí sl. og um næstu áramót og næstu tvenn þar á eftir eykst tollfrjáls innflutningur hingað verulega, á sama tíma og sterk króna og lokaðir markaðir hafa gert okkur erfitt fyrir með útflutning.  Hagsmunabarátta heildsalanna í landinu gekk áfram vel á árinu. Eftir að hafa unnið mál fyrir EFTA-dómstólnum þá höfðu þeir einnig sigur fyrir Hæstarétti til að fá hnekkt takmörkunum á innflutningi á ófrosnu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og ógerilsneyddum eggjum. Rök um búfjár eða lýðheilsu voru þar að engu höfð því að markaðurinn er öllum slíkum staðreyndum æðri. 
 
Bændur hafa lagt á það áherslu að leitað verði pólitískra lausna til að standa vörð um þá sérstöðu sem felst í okkar viðkvæmu búfjárstofnum og okkar framleiðsluháttum sem felast í lágri tíðni sýkinga og lítilli sýklalyfja og varnarefnanotkun. Það er óljóst hvernig sú vegferð endar en miklu skiptir líka að greina betur á milli innlendrar og innfluttrar framleiðslu á markaði. 
 
Neytendur eru velviljaðir landbúnaði
 
Neytendur eru velviljaðir íslenskum landbúnaði en þá verður líka að tryggja það að þeir geti fengið að vita hvað þeir eru að kaupa hverju sinni.  Þá er ekki bara verið að tala um í stórmörkuðum heldur líka þar sem matvæli eru fram borin – til dæmis á veitingahúsum og í mötuneytum. Ástæða er til að hvetja neytendur til að spyrja eftir upprunanum sé hann ekki gefinn upp. Það er einfaldlega sjálfsögð krafa að þessar upplýsingar liggi fyrir. Stjórnvöld geta þarna stigið fastar fram og lagt þá kröfu á seljendur matvæla að uppruninn liggi ávallt fyrir. Það er líka umhugsunarefni fyrir stjórnvöld hvort ekki sé eðlilegt að hið opinbera setji sér innkaupastefnu sem miðist við ákveðna framleiðsluhætti.  Sé ekki hægt að upplýsa um þá ætti hið opinbera í það minnsta að ganga á undan með góðu fordæmi og takmarka innkaup við afurðir þar sem upplýsingar liggja fyrir um lyfja- og varnarefnanotkun, kolefnisfótspor, velferð dýra, aðbúnað starfsfólks og annað sem skiptir máli. Krafa neytenda um meiri upplýsingar fer vaxandi og við eigum að vinna að því að upplýsingagjöf verði hin almenna regla.
 
Þurfum að huga að fæðuöryggi
 
Það þarf líka stærri sýn á landbúnaðinn í heild. Það er meiri óróleiki í veröldinni, þó hér sé ekki verið að spá neinum ófriði þá virðist stundum ekki mega mikið út af bregða.  Öfgasjónarmið njóta meira fylgis en áður en lausnamiðaðar málamiðlanir síður.  Athyglin næst helst með nógu miklum og stórum upphrópunum. Þjóðir heims þurfa um leið að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga og sumir neita enn að horfast í augu við þær. Hvað þýðir þetta allt? Jú, það er skynsamlegt að huga að öryggi þjóðarinnar í víðum skilningi, þar með talið fæðuöryggi. Það er ekki endilega víst að við getum alltaf keypt allt sem við viljum erlendis frá og ættum við ekki að minnsta kosti að hugsa um hvað við ætlum að gera ef einhver slík vandamál koma upp. Reyndar hafa sumir einmitt bent á hlutverk landbúnaðarins í þjóðaröryggismálum. Það gerði til dæmis Ólafur Ragnar Grímsson, fv. forseti landsins, á ráðstefnu um fullveldi og þjóðaröryggi fyrir skemmstu. Það hefur forsætisráðherra líka gert og reyndar er vikið að fæðu- og matvælaöryggi í þjóðaröryggisstefnu landsins sem samþykkt var á Alþingi fyrir rúmum tveimur árum. Það er eitt skref en það á enn eftir að útfæra þá stefnu. Það má ekki gleymast.
 
Bændur eru fjölmennasti hópur vörslumanna landsins
 
Fyrir nokkrum dögum skrifuðum við umhverfisráðherra undir sameiginlega yfirlýsingu um samstarf í náttúrverndarmálum.  Meiningin er fyrst að láta greina hvernig bændur geta komið meira að skipulegu náttúruverndarstarfi. Bændur eru vissulega fjölmennasti hópur vörslumanna landsins og búa yfir mikilli og verðmætri þekkingu á náttúrunni og öllum hennar síbreytileika. Það hefur stundum verið ágreiningur um þessi mál – sumir verndunarsinnar hafa talið að náttúruvernd og nýting gætu aldrei farið saman og sumir bændur hafa talið að verndun þýddi algert nýtingarbann.  Hvorugt er rétt og með þessari yfirlýsingu er ætlunin að leita fleiri sameiginlegra flata á þessu mikilvæga máli. Ég vænti þess að vel takist til.
 
Að lokum þakka ég lesendum Bænda­blaðsins samfylgdina á árinu og óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsæls komandi árs. Árið 2019 þurfum við að nýta vel til uppbyggingar og eflingar íslensks landbúnaðar.  Lifið heil.
Vinnuaðferðum skilað til nýrrar kynslóðar
Fréttir 15. desember 2025

Vinnuaðferðum skilað til nýrrar kynslóðar

Út eru komnar þrjár bækur um verk Gunnars Bjarnasonar húsasmíðameistara sem smíð...

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...