Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Eitt lykilhlutverkum nýs forstjóra verður að tryggja góð samskipti við bændur og aðila í landbúnaði eins og alla þá sem stofnunin vinnur eða hefur eftirlit með.
Eitt lykilhlutverkum nýs forstjóra verður að tryggja góð samskipti við bændur og aðila í landbúnaði eins og alla þá sem stofnunin vinnur eða hefur eftirlit með.
Mynd / smh
Fréttir 15. september 2020

Nýr forstjóri MAST telur að viðhorf til eftirlits þurfi að breytast

Höfundur: smh

Hrönn Ólína Jörundsdóttir var á dögunum skipuð í embætti forstjóra Matvælastofnunar. Hún tekur við starfinu af Jóni Gíslasyni, sem gegndi embættinu í 15 ár. Hún segist koma að starfinu með nokkuð frjálsar hendur og er fráfarandi forstjóra þakklát fyrir að skilja borðið eftir hreint en nokkur stór verkefni bíða hennar.

Hrönn starfaði hjá Matís undanfarin 11 ár, síðast sem sviðsstjóri mæliþjónustu og matvæla­öryggis. Hún er með BS-gráðu í efnafræði og lauk meistara- og doktorsprófi í umhverfisefnafræði. Hún hefur sérhæft sig á sviði matvælaöryggis, áhættumats og áhættumiðlunar og er formaður áhættumatsnefndar á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru. Spurð um verksvið hennar hjá Matvælastofnun segir hún að fagleg og rekstrarleg ábyrgð á verkefnum stofnunarinnar sé á herðum forstjóra. „Ég þarf þannig að tryggja að stofnunin starfi á skilvirkan hátt sem ein heild og uppfylli þannig hlutverk sitt og skyldur samkvæmt lögum,“ segir Hrönn.

Mitt hlutverk að tryggja starfsfólkinu nauðsynleg verkfæri

„Forstjóri markar stefnu stofnunar­innar inn í framtíðina og sér til þess að stofnunin starfi sem ein heild. Forstjóri gætir einnig að því að stofnunin geti tekist á við áskoranir samtímans í síbreytilegu umhverfi á sviði matvælaöryggis, plöntu- og dýraheilbrigðis. Við vitum það að heimurinn er síbreytilegur þar sem nýjar hættur koma á sjónarsviðið og gamlar hættur birtast aftur. Við verðum því að hafa sterka sérfræðinga og innviði sem eru vel í stakk búin að svara þessum síbreytilega veruleika og mitt hlutverk er að tryggja það að starfsfólk Matvælastofnunar hafi þau verkfæri í hendinni sem þau þurfa til að vinna sína vinnu – ásamt því að vera andlit Matvælastofnunar út á við,“ útskýrir Hrönn.

Hún segist að stór verkefni séu fram undan, bæði innanhúss og utan. „Fyrir lá stefnumótun fyrir árin 2015–2020 og nú tekur við stefnumótun fyrir næstu ár með ýmsum tækifærum til að efla og styrkja stofnunina. Ég vil hrósa fráfarandi forstjóra fyrir að ganga frá málum þannig að ég tek við hreinu borði. Það eru engu að síður stór verkefni fram undan bæði innanhúss og utan. COVID hefur til dæmis kennt okkur að það er hægt að nýta rafrænar lausnir betur en við höfum gert hingað til.

Aukið samráð og samtal er mikilvægt

Þegar Hrönn er spurð um þann styr sem stundum stendur um Matvælastofnun, segir hún að eðli starfsemi hennar sé þannig að ákvarðanir sem þar séu teknar verði alltaf misvinsælar. „Hins vegar er aukið samráð og samtal alltaf af hinu góða. Ég hef þá framtíðarsýn að með skilvirku og sanngjörnu eftirliti, þar sem gegnsæi er í ferlum og ákvörðunum, náist betri sátt. Ég tel mjög mikilvægt að stuðla að samráði og samtali við iðnaðinn, hvort sem er landbúnað eða annan matvælatengdan iðnað, því þá skapast betri sátt. Slíkt eftirlit myndi einnig styrkja landbúnað og matvælaiðnað því það bætir frammistöðu og eykur traust almennings á greininni. Ég tel að Matvælastofnun sé ein af mikilvægustu stofnunum landsins, þar sem við kynnum okkur sem Matvælalandið Ísland og matvælaframleiðsla er ein af okkar kjarnastarfsemi, hvort sem það tengist landbúnaði, sjávarútvegi eða ferðaþjónustu,“ segir hún.

Hrönn telur það eitt af sínum lykilhlutverkum að tryggja góð samskipti við bændur og aðila í landbúnaði eins og alla þá sem stofnunin vinnur eða hefur eftirlit með. „Samskipti má alltaf bæta ásamt því að skapa sátt í samfélaginu og innan landbúnaðarins um störf Matvælastofnunar. Í mínu fyrra starfi hef ég unnið með fjölmörgum starfsmönnum Matvælastofnunar og ég veit að hjá Matvælastofnun vinnur frábært fólk. Lykilatriði þar er að tryggja að eftirlit sé samhæft og skilvirkt og að eftirlitsmenn séu þjálfaðir í að veita upplýsingar um fyrirkomulag eftirlits. Við þurfum alltaf að geta útskýrt okkar ferla til að tryggja gagnsæi í okkar ákvarðanatöku. Margt hefur verið unnið á þessu sviði síðastliðin ár og ég mun leggja áherslu á að halda þeirri vinnu áfram til að bæta okkar starf. Ég tel líka mjög mikilvægt að allir eftirlitsaðilar hérlendis séu samhæfðir og vinni sem ein heild.

Lykilatriði að hafa fjármagn til að sinna verkefnunum

Matvælastofnun var stofnuð 1. janúar árið 2008, þegar Land­búnaðar­stofnun, mat­væla­svið Umhverfisstofnunar og matvælasvið Fiskistofu voru sameinuð undir einum hatti. Síðan hefur á stundum komið fram gagnrýni þess efnis að hana skorti fjárhagslegt bolmagn til að geta sinnt þeim verkefnum nægilega vel sem eru á hennar ábyrgð. „Eftir því sem ég hef kynnt mér hefur Matvælastofnun ávallt verið vel rekin og ég mun leggja áherslu á að því verði haldið áfram. Starfssvið Matvælastofnunar er mjög viðamikið og kannski umdeilanlegt hvort fjármagn endurspegli verkefnin. Ég mun leggja áherslu á að skoða hvaða tæki og tækni við getum innleitt til að auðvelda okkur starfið, auka sjálfvirkni og gagnagrunna. Eins má skoða samtengingu milli stofnana sem dæmi í leyfisveitingum eða sameiginlegri nýtingu gagna. En það er vissulega lykilatriði að tryggja það að Matvælastofnun hafi nægilegt fjármagn til að sinna sínum verkefnum og að starfsfólk hafi getu og tæki til að takast á við þau verkefni sem okkur er úthlutað,“ segir Hrönn.

Eftirlit bætir framleiðsluhætti

Hrönn segir að til næstu fimm ára horfi hún til þess að viðhorf iðnaðarins til eftirlits breytist. „Mín framtíðarsýn er að viðhorf til eftirlits verði jákvætt og að iðnaðurinn sjái möguleika og tækifæri í sterku, skilvirku og sanngjörnu eftirliti sem er unnið í sátt milli eftirlitsaðila og eftirlitsþega.

Eftirlit hefur það að markmiði að bæta framleiðsluhætti og er styrkur en ekki baggi fyrir öflugan landbúnað. Til að tryggja traust almennings á íslenskri framleiðslu og tryggja útflutningsverðmæti Íslands, þá er lykilatriði að eftirlitið sé framkvæmt með réttum hætti. Matvælaöryggi er forsenda öflugrar og lifandi nýsköpunar í landbúnaði og matvælaframleiðslu í landinu,“ segir hún.

„Til að ná þessari framtíðarsýn þá þurfum við sem stofnun að stíga ákveðin skref og ég hlakka til að hefja þá vegferð. Á þessari leið verða mörg atriði sem við þurfum að breyta og margar hindranir sem við þurfum að yfirstíga, bæði innanhúss og innan stjórnsýslunnar, en ég er sannfærð um að þessi framtíðarsýn tryggi betri og hagkvæmari landbúnað og hagsæld bænda. Góðir framleiðsluhættir hjá bændum undir virku eftirliti opnar markaði fyrir afurðir þeirra og stuðlar að aukinni neytendavernd og velferð dýra,“ bætir hún við að lokum.

Hrönn Ólína Jörundsdóttir er nýr forstjóri Matvælastofnunar. Mynd / Matís

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...