Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Þegar blaðamaður var í heimsókn í Leyni þann 29. ágúst, taldi Guðmundur Óli Ingimundarson að gulræturnar hans myndu koma í búðir eftir viku.
Þegar blaðamaður var í heimsókn í Leyni þann 29. ágúst, taldi Guðmundur Óli Ingimundarson að gulræturnar hans myndu koma í búðir eftir viku.
Mynd / smh
Fréttir 10. september 2018

Nýjar íslenskar gulrætur í verslanir

Höfundur: smh
Guðmundur Óli Ingimundarson hefur rekið garðyrkjustöðina Leyni í Laugardalnum í Bláskógabyggð frá 1979. Hann ræktar meðal annars gulrætur og ætti fyrsta uppskera frá honum að hafa ratað í verslanir. Hann býst við því að heildaruppskeran verði fremur rýr þetta haustið.
 
„Móðir mín er héðan og foreldrar mínir ráku hér blandaðan búskap – og voru með svolítið af útiræktuðu grænmeti. Ég prófaði að vera með kýrnar í eitt ár, en mér fannst það bara svo leiðinlegt. Ég fór í Garðyrkjuskólann og lauk prófi þaðan 1978. Síðan hef ég fikrað mig smám saman út í það sem ég er með núna,“ segir Guðmundur Óli. 
 
Langmest af gulrótum
 
„Ég er með langmest af gulrótum í útiræktun, en líka hvítkál, kínakál og grænkál, sem ég er reyndar líka með inni allan ársins hring. Síðasta árið hef ég sent grænkál frá mér í hverri einustu viku. Mitt grænmeti fer í Bónus og ég læt Banana um að dreifa því fyrir mig og það á að fara í allar verslanir þeirra, sem ég held að séu hátt á þriðja tuginn. 
 
Þetta eru nálægt fjórum hekturum, landið sem ég nota undir gulræturnar. Uppskeran er breytileg eftir tíðarfarinu á sumrin – og það stefnir í að hún verði ekki mikil þetta haustið. Þetta getur þó bjargast ef veðrið verður hagstætt í september – hitastigið í moldinni skipti öllu máli fyrir vöxtinn. Þær þyngjast vel á sólardögum eins og í dag. Kálið skilar sér alltaf, því það þarf miklu styttri vaxtartíma,“ segir Guðmundur.
 
Lukas og Guðmundur Óli við pökkun á grænkáli. 
 
Aukinn áhugi á grænkálinu
 
Gulrótaruppskeran í Leyni hleypur á tugum tonna en mun minna er skorið upp af káli. „Það stefnir í að grænkálsuppskeran verði um fimm tonn,“ segir Guðmundur og bætir við að hann finni fyrir auknum áhuga almennings á þessu holla og góða káli. „Það er líka heilmikill aukinn áhugi í veitingageiranum á grænkálinu og við erum einmitt að pakka núna í eins kílóa pakkningar sem fer á tiltekna veitingastaði sem eru í viðskiptum við okkur. Bananar sjá líka um þá dreifingu fyrir okkur. 
 
Við ræktum bara í svokölluðum mómoldarjarðveg. Ég hef prófað að rækta gulrætur í sendnum jarðvegi, en mér finnst geymsluþolið verða minna. Íslendingar vilja íslenskar gulrætur og við finnum að það er mikil eftirvænting núna eftir því að þær berist í búðir. Ég var að taka stöðuna á þessu hjá mér í gær og ég hugsa að ég sendi frá mér fyrstu uppskeru í kringum 5. september.“ 
 
Sker upp hvít- og kínakál í samræmi við eftirspurn
 
Guðmundur var að skera hvítkál þegar blaðamaður kom í heimsókn og kom með uppskeru morgunsins á traktornum til móts við hann í vinnu- og geymsluskemmunni í Leyni. „Ég tók bara pásu þegar þú hringdir, en eins og þú sérð þá eru þetta fallegir litlir hvítkálshausar sem ég skar upp. Fyrirkomulagið virkar þannig að búðirnar láta vita hvað vanti mikið og ég sker þá bara upp jafnóðum í samræmi við það. Það var beðið um eitt bretti af hvítkáli og tvö bretti af kínakáli eftir helgina og ég var að byrja að uppskera fyrir þá pöntun. Þetta dugar í hálft bretti það sem ég er með hérna. Ég er með góðar kæligeymslur og get geymt bæði hvít- og kínakálið alveg í sex vikur þar inni áður en ég sendi frá mér.“ 
 
Upptökuvélin afkastar 10–15 tonnum á dag
 
Fjölskylda Guðmundar, kona hans og 13 ára dóttir, sinnir að mestu störfunum í kringum ræktunina og uppskeru. „Aðalvinnan er við uppskeru á gulrótunum og þá fáum við mann til að hjálpa okkur með hana. Við erum með góða upptökuvél sem afkastar 10 til 15 tonnum á dag. Tveir til þrír starfsmenn vinna á vélinni við upptökuna og flokkun.  Þegar við förum í upptöku þá hættum við ekkert fyrr en henni er lokið, gulræturnar mega ekki frjósa. Við fyllum þessa skemmu nær alveg með uppskerunni.  
 
Það var óvenju mikið frost í vor þannig að það var ekkert hægt að byrja að sá fyrr en um miðjan maí. Svo byrjaði að rigna og það rigndi látlaust. Þess vegna eru þær svo seint á ferðinni – eða hátt í mánuði seinna kannski en í meðalári.“ 
 
Enginn illgresiseyðir er notaður í kálræktinni í Leyni, en það eru viðvarandi vandamál með kálflugu og því þarf að verjast henni með eitri sem heitir Perfection – en notkun á því er í algjöru lágmarki, að sögn Guðmundar. „Grænkálið þarf reyndar engar varnir því það bítur alla óværu af sér. Gulræturnar þurfa hjálp til að verjast illgresinu en mjög lítið af illgresiseyði þarf og honum er mjög sjaldan úðað yfir akrana – aðallega í byrjun sumars þegar plönturnar eru að ná sér á strik, því annars myndi illgresið vaða yfir þær. Þetta er notað í það litlum mæli að engin hætta er af neyslu gulrótanna.“ 

5 myndir:

Nóg af sæði í hafrastöðinni
Fréttir 8. nóvember 2024

Nóg af sæði í hafrastöðinni

Nóg er til af frystu hafrasæði og geitabændur hvattir til að nýta sér það til að...

Eggjaskortur vegna dýravelferðar
Fréttir 8. nóvember 2024

Eggjaskortur vegna dýravelferðar

Litlar birgðir á eggjum í verslunum má rekja til umfangsmikilla breytinga sem bæ...

Hveitikynbætur alger nýlunda
Fréttir 8. nóvember 2024

Hveitikynbætur alger nýlunda

Á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands er verið að hefja vinnu að hveitikynbótum í f...

Japanir ætla sér mikla hluti í ræktun á Íslandi
Fréttir 7. nóvember 2024

Japanir ætla sér mikla hluti í ræktun á Íslandi

Japanskt fyrirtæki hyggst bæta hrísgrjónarækt við jarðarberjaframleiðslu sína á ...

Nýr verðlagsgrunnur og ný verðlagsnefnd
Fréttir 7. nóvember 2024

Nýr verðlagsgrunnur og ný verðlagsnefnd

Drög að nýjum verðlagsgrunni kúabús liggja fyrir, sem er uppfærsla á grunninum f...

Jafnvægisverð lækkar áfram
Fréttir 7. nóvember 2024

Jafnvægisverð lækkar áfram

Á markaði með greiðslumark í mjólk, haldinn 1. nóvember, myndaðist jafnvægisverð...

Áframhaldandi vöxtur í neyslu og framleiðslu á kjúklingi
Fréttir 7. nóvember 2024

Áframhaldandi vöxtur í neyslu og framleiðslu á kjúklingi

Nýtt kjúklingframleiðsluhús er á teikniborðinu á Miðskógi í Dölum, sem verður sö...

Framleiðslan dregst saman um 340 tonn
Fréttir 7. nóvember 2024

Framleiðslan dregst saman um 340 tonn

Áfram heldur þeim lömbum að fækka sem koma til slátrunar ár hvert. Í liðinni slá...