Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Gömul eik við Svaneholm á Skáni.
Gömul eik við Svaneholm á Skáni.
Á faglegum nótum 17. mars 2016

Nú eiga eikur leikinn

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason
Af ríflega sexhundruð tegundum sem taldar eru til ættkvíslar eika, Quercus, í ætt beykitrjáa (Fagaceae) vaxa aðeins tólf á því svæði sem við köllum Evrópu, flestar þeirra í suður- og suðausturhlutanum. Afgangurinn dreifist um laufskógabelti Asíu og Norður-Ameríku. Í Mexíkó einu og sér eru um 150 eikartegundir sem ekki finnast annars staðar. Á syðstu svæðunum eru tegundirnar sígrænar. En á norðurslóðum eru allar eikur bara sumargrænar með lauf sem sölnar hvert haust.
 
Tvær í okkar nágrenni
 
Í Vestur- og Norður-Evrópu vaxa aðeins tvær tegundir án aðstoðar manna. Báðar mynda þær stór og mikil tré. Tilsýndar eru þær mjög líkar, svo líkar að lengi vel var haldið að um aðeins eina tegund væri að ræða og því var enginn greinarmunur á þeim gerður þar til hinn þýsk-tékkneski greifi og grasafræðingur Heinrich Gottfried von Mattuschka (1734–1779) skilgreindi vetrareikina sem sérstakt afbrigði af sumareik í Slésíuflóru sinni sem kom út á árunum 1776–1777. Þýski grasafræðingurinn Franz Kaspar Lieblein (1744–1810) steig svo skrefið til fulls í flóru sinni yfir gróðurinn í Röhn-fjöllunum á mörkum Bæheims, Hesse og Türingen, Flora Fuldensis, sem kom út árið 1784, og taldi vetrareikina vera sjálfstæða tegund og gaf henni nafnið Quercus petraea sem útleggja má „klappareik“. Sú skilgreining stendur enn.
 
Sumareik og vetrareik
 
Sumareikin, Quercus robur, sem úttlegst eiginlega „hin máttuga eik“ og Carl von Linné nefndi svo í riti sínu Species Plantarum 1753 – bókinni sem talin er upphafsbók nútíma grasafræði og að því tvínafnakerfi sem síðan er notað um flestar lífverur. Að stórum hluta vaxa sumareikur og vetrareikur hver innan um aðra í Vestur-Evrópu. Sumareikin er þó upphaflega komin austar og norðar að. Útbreiðslusvæði hennar er samfellt frá Mið-Evrópu, norður að suðurströnd Finnlands við Kirjálabotn. Þaðan um Álandseyjar og um alla Suður-Svíþjóð og yfir til vesturstrandar Noregs. Hún nær að ströndum Atlantshafs yfir Bretlandseyjar og niður til Pýreneafjalla. Auk þess teygir hún sig í blettum austur um Litlu-Asíu, norður um Úkraínu og um miðbik Rússlands. Vetrareikin, aftur á móti, hefur dreifst frá sunnanverðu Svartahafi til vesturs yfir Balkanskaga, um Pólland yfir til Skáns og Oslófjarðar í norðri. En svo til suðurs og vestur yfir öll lönd Vestur-Evrópu niður í dali og hlíðar Pýrenaeafjalla. Á Bretlandseyjum nær hún yfir Írland og Stórabretland norður að Skotlandi. Í Eistlandi eru þéttustu frumskógar sumareikur í Evrópu. Annars staðar hafa eikur átt í vök að verjast, eins og síðar verður vikið að.
 
Hvor er hvað? 
 
Dags daglega gera menn engan mun á hvort athyglisverðar eikur séu vetrar- eða sumareik. Það er ekki fyrr en farið er að rýna í smáatriði að greina má nokkurn mun. Fyrst og fremst eru það vetrarbrumin sem best er að nota til að aðgreina þær. Á vetraeikinni eru þau grönn, ydd og að mestu leyti jafnstór. Á sumareik eru vetrarbrumin sverari, snubbótt og miðbrumið áberandi stæra en hliðarbrumin. En þetta er samt ekkert sérlega afgerandi, svo að næmustu grasafræðingar eiga fullt í fangi að greina tegundirnar í sundur á þessum eiginleikum. Og ekki auðveldar lögun laufanna neitt heldur, þó hefur vetrareikin yfirleitt blöð sem breiðust eru að neðan og með framvísandi flipum og blaðstilkurinn lengri og grennri en á sumareikinni. Á sumareik eru blaðstilkar stuttir og þykkir, blöðin venjulega mjóst neðantil en breikka fram og fliparnir vísa út frá miðju. En þessi munur er ekki heldur einhlítur. Það er fyrst þegar kemur að aldinunum, akörnunum, sem munurinn fer að verða greinilegur. Vetrareikin ber akörnin í klösum á löngum stilk og þau eru grannslegin og typpt. Sumareikin ber fá, sver og snubbótt akörn á stuttum blómstilk. En eins og mörg reklatré sem stíla upp á vindfrævun þá á víxlfrjóvgun milli tegundanna sér iðulega stað. Afkomendurnir draga dám af báðum foreldrum. Þeir eiga líka frjó afkvæmi sem geta líkst öðru hvoru frumforeldrinu. Og bendingarnir geta haft frjóskipti við frumtegundirnar. Því verður fjölbreytileikinn mikill og margvíslegur. Alveg nægur til að æra óstöðugan. En nokkuð örugg greining er að ef eikin vex í Skotlandi, Vestur-Noregi, Smálöndum Svíþjóðar eða sænska skerjagarðinum, Álandseyjum, í Finnlandi ellegar Eystrasaltslöndunum, þá er næsta víst að um sumareik er að ræða. Einn leiðarþráður enn er sá, að ungar vetrareikur halda sölnuðu laufinu að mestu allan veturinn. Af því dregur hún nafn sitt. Sumareikin, aftur á móti, fellir öll lauf þegar vetur gengur í garð. En til að einfalda málið á textinn hér að neðan við báðar tegundirnar án aðgreiningar.
 
Langhlauparar
 
Frá alda öðli hefur eikin verið talin eðlust trjáa og viður hennar verðmætastur viða hjá þeim þjóðum sem búa svo vel að eikarlundir og eikarskógar hafa vaxið sjálfsánir á lendum þeirra. En eikum er samt ekki eðlilegt að mynda þétta skóga, heldur vex hún yfirleitt í bland við önnur lauftré sem skýla henni í uppeldinu og halda uppi fjölbreytilegri rótamottu í skógarbotninum. Eikur eru langhlauparar. Í æsku, þ.e. fyrstu 25–50 árin, hefja þær sig samt nokkuð hratt af stað og helga sér rými sem þær hleypa ekki öðrum tegundum inn í fyrr en þær eru nokkuð öruggar um sinn framtíðarstað. Þá byrja þær að slaka á og fara að setja meira í gildisvöxt en hæðarvöxt, þótt þær tosist nú alltaf eitthvað uppávið þar til þeim finnst hæðin vera orðin mátuleg. Það tímabil tekur um 100 til 300 ár. Síðan hefst um þriggja alda blómaskeið og eikin stendur keik og státin, bætir við sig á alla kanta. Oft stendur tréð eftir eitt og sér í miðjum akri eða við aðalveg, hlíft við plógum og jarðýtum sem sett hafa verið í að brjóta nýtt land undir ræktun eða samgöngur. Menn fella ekki stórar eikur. Þær eru heilög tré. En sexhundrað ára gamlar eikur byrja smátt og smátt að sýna ellimerki. Þær geta þá verið all gildar, 8 til 15 metrar að ummáli, en iðulega orðnar nokkuð holar að innan. Elstu eikur sem vitað er um hafa náð 1500 til 2000 ára aldri.
 
Her- og kaupskip heimta sitt
 
Kóngum fyrri tíma var líklega ekkert heilagt og sennilega ekki kaupmönnum heldur, því að í upphafi fimmtándu aldar fóru menn að byggja stór skip sem siglt gátu um öll heimsins höf. Fyrst mest suður fyrir Afríku, inn á Indlandshaf og alla leið til Japanseyja. Auðvitað þurfti gott timbur í skipin og eina timbrið sem þótti hæfa var eik. Eikarviðurinn var sterkur og harður. Hann fór vel í sjó og tók ekki á sig hrúðurkalla, trjámaðk eða hegranef, enda vel varinn af náttúrulegum sútunarsýrum sem héldu aftur af þessum ófögnuði sem dró úr skriði og endingu skipanna. Þarna erum við í upphafi landafundatímanna. Skip Kristófers Kólumbusar voru úr eik. Einnig skip Hansakaupmanna og Austurindíaskipin. Eftirspurnin á eikarviði snarjókst svo að mjög gekk á evrópska eikarskóga. En það var ekki nóg. Nú voru kóngar Evrópu farnir að kíta, eins og svo oft fyrr, og fundu upp á því að líklega væru sjóorrustur og innrásir frá hafi heillavænlegasta leiðin til að gera upp sín mál. Enda hafði nú kunnáttan um púður, pístólur og kanónur borist til þeirra frá Kínaveldi. Allir kóngar, sem eitthvað þóttust vera, byrjuðu að koma sér upp miklum flota tígulegra orustuskipa. Úr eik auðvitað. Og með kanónum við borðstokkinn. Sjaldan komu þessi skip að miklu gagni, þannig séð. En þau voru mikil stöðutákn. Þó var það einn af þessum kóngum, Gústaf II Adólf hét hann og var Svíakóngur, sem lét byggja mikinn flota orustuskipa sem hann notaði til að herja á nágranna sína, einkum Dani og Pólverja sem honum var einhvern veginn afar illa við. Hann lét líka smíða hið fræga orustuskip Vasa, sem sökk nýsmíðað á bólakaf niður á 32 metra dýpi í Stokkhólmshöfn við sjósetninguna hinn 10. ágúst 1628 og með því fórust um þrjátíu sálir. Vasa var lyft upp úr sjávardjúpinu þrem öldum síðar og er nú til sýnis í Vasasafninu í Stokkhólmi. Mikið skip og skrautlegt, en á við rýrnunarvanda að etja, því þótt eikin haldi sér vel á sjávarbotni þá byrjar niðurbrot viðarins nokkuð snöggt eftir að súrefni fer að leika um hann. Á tímum Gústafs II Adólfs þurrkaðist eik svo til út í öllu Svíaríki. Aðeins voru eftir nokkrar stórar eikur sem ekki hentuðu til skipasmíða. En áðurnefndum Gústafi II Adólfi hefndist fyrir ágang sinn á sænska eikarskóga. Þótt hann kæmist til Póllands með mikinn her og héldi þar úti „mjög lukkulegum“ hernaði og var sjálfur í fararbroddi helsta árásarfylkisins, þá var hann svo nærsýnn að hann varð viðskila við herfylki sitt og álpaðist – í þoku og púðurreyk – inn í raðir óvinanna og var skotinn bæði í bak og fyrir. Þar með var það stríð búið spil. En kóngurinn var sendur líflaus heim til sín í einföldum trékassa sem slegið var utan um hann. Þar fékk hann að sjálfsögðu konunglega útför og gengið var frá jarðneskum leifum hans eins og kóngi bar. Síðan hafa Svíar verið friðsöm þjóð. En sænskir eikarskógar hafa ekki verið svipur hjá sjón eftir þetta brölt Gústafs II Adólfs, þótt nokkuð hafi verið gert til að endurreisa þá.
 
Eikur á Íslandi
 
Á síðustu árum hefur borið við að fólk hefur tekið með sér eikar­akörn sem það hefur rekist á í ferðum sínum um nágrannalöndin að haustlagi. Það er gott mál, ef fólk athugar að þvo vel af þeim með með mildu sápuvatni áður en þeim er sáð eða sleppt út í náttúruna til að ekkert óhreint berist með þeim. Akörnin (eikarfræin) þurfa að fara strax í sáðmold eða vikurblandaða mold úr gamalgrónum birkiskógi. Eitt í hvern djúpan pott, t.d. rósapott eða gataða mjólkurfernu. Um 3–4 cm moldarlag þarf að vera ofan á akarninu. Þetta er haft á frostlausum stað við 14–18°C í mánuð eða svo áður en pottarnir eru settir út í reit og hafðir þar í vari allan veturinn. Það er nauðsynlegt að mýs komist ekki í sáninguna. Þess vegna er mælt með að girða pottana af með músheldu neti allt í kring eða að hafa þá í geymslukössum úr plasti sem hægt er að smella lokinu á. Um vorið spíra akörnin og best er að láta plönturnar standa óhreyfðar fyrsta árið. Næsta vor má setja þær á uppeldisbeð eða gróðursetja þær í gróinn skóg, gjarna innan um birki eða víði, eikur geta hagnýtt sér svepparót slíkra tegunda. Og þær þurfa gott skjól og vel framræst land. Á Íslandi er nú að finna nokkur allvel stálpuð eikartré, svo að eikarrækt á Íslandi er ekki borin von.
 

3 myndir:

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...