Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Pétur Friðriksson á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd í Eyjafirði var með afurðahæsta kúabúið á árinu 2015.
Pétur Friðriksson á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd í Eyjafirði var með afurðahæsta kúabúið á árinu 2015.
Á faglegum nótum 15. febrúar 2016

Niðurstöður skýrsluhaldsársins hjá mjólkurframleiðendum 2015

Höfundur: Guðmundur Jóhannsson Ábyrgðarmaður í nautgriparækt hjá RML og Sigurður Kristjánsson Skýrsluhald hjá RML
Niðurstöður skýrsluhaldsársins í mjólkurframleiðslunni 2015 hafa verið reiknaðar og birtar á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins www.rml.is. 
 
Hér á eftir verður farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu. Þeir framleiðendur sem skiluðu upplýsingum um afurðir kúa sinna á nýliðnu ári voru 580 en á árinu 2014 voru þeir 579. Niðurstöðurnar eru þær helstar að 25.609,9 árskýr skiluðu 5.851 kg nyt að meðaltali. Það er hækkun um 130 kg frá árinu 2014 en þá skiluðu 23.861 árskýr meðalnyt upp á 5.721 kg. Mestar meðalafurðir 2015 voru í Austur-Skaftafellssýslu 6.138 kg eftir árskú. Árið 2014 voru meðalafurðirnar einnig mestar þar, 6.302 kg eftir árskú. Meðalbústærð reiknaðist 44,0 árskýr á árinu 2015 en sambærileg tala var 41,2 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 56,8 kýr en 2014 reiknuðust þær 54,2.
 
Mestar meðalafurðir voru í Austur-Skaftafellssýslu
 
Þegar litið er á niðurstöður eftir svæðum kemur í ljós að í Austur-Skaftafellssýslu eru meðalafurðir mestar, 6.138 kg eftir árskú. Næst á eftir eru Árnesingar en meðalárs­kýrin þar í sýslunni skilaði 6.098 kg, en í þriðja sæti, fast þar á eftir fylgja Skagfirðingar en hjá þeim eru afurðirnar 6.093 kg á árskú. Stærst voru búin í Eyjafirði, 54,5 árskýr en minnst í Suður-Þingeyjarsýslu 28,0 árskýr.
 
Mestar afurðir á einstökum búum árið 2015 voru á Gautsstöðum
 
Mest meðalnyt eftir árskú á nýliðnu ári, 2015, var á búi Péturs Friðrikssonar á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd, 8.308 kg á árskú. Þetta bú var fjórða afurðahæsta búið á árinu 2014. Annað búið í röðinni árið 2015 var bú Pálma Ragnarssonar í Garðakoti í Hjaltadal en þar var nytin 7.994 kg eftir árskú. Þriðja í röðinni við uppgjörið nú var bú Stóru-Tjarna ehf. á Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði, S-Þing. en þar var nytin 7.860 kg eftir árskú. Fjórða í röðinni að þessu sinni var Félagsbúið í Engihlíð í Vopnafirði þar sem árskýrin skilaði 7.834 kg að jafnaði. Fimmta búið var bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal þar sem meðalafurðirnar voru 7.816 eftir hverja árskú. Næsta bú, nr. 6 á listanum var bú Sigurðar og Báru í Lyngbrekku á Fellsströnd, en þar var meðalnytin 7.757 kg. Sjöunda var bú Sveins Ingvarssonar í Reykjahlíð á Skeiðum en þar skilaði meðalárskýrin 7.680 kg á síðasta ári. Áttunda í röðinni var Félagsbúið á Efri-Brúnavöllum 2 á Skeiðum þar sem árskýrin mjólkaði að meðaltali 7.677 kg. Hið níunda á listanum var bú Arnars Bjarna og Berglindar í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en þar voru meðal­afurðirnar 7.611 kg eftir árskú. Tíunda búið í röðinni að þessu sinni var bú Hvanneyrarbúsins ehf. á Hvanneyri í Borgarfirði þar sem hver árskýr skilaði 7.593 kg á nýliðnu ári.
 
Meirihluti þeirra búa, sem hér hafa verið talin, fannst á hliðstæðum lista fyrir ári síðan og þau þeirra sem ekki voru í 10 efstu sætunum þá mátti finna á fyrstu síðu listans yfir afurðahæstu búin árið 2014, þannig að hér eru þeim sem til þekkja öll nöfn kunnugleg. Á 51 búi reiknaðist meðalnyt árskúa yfir 7.000 kg árið 2015, en á 31 búi árið 2014.
 
Milla 317 í Hvammi á Barðaströnd mjólkaði mest 
 
Nythæsta kýrin á skýrsluhaldsbúunum árið 2015 var Milla 317 í Hvammi á Barðaströnd, undan Hersi 97033, en hún mjólkaði 12.511 kg með 3,54% fitu og 3,22% prótein. Burðartími Millu féll að þessu sinni ágælega að almanaksárinu en hún bar sínum sjötta kálfi 11. nóvember 2014. Milla er mikil mjólkurkýr, fór hæst í 47,3 kg dagsnyt á liðnu ári og skráðar æviafurðir hennar voru 54.976 kg um síðustu áramót en sinn fyrsta kálf átti hún 27. janúar 2008, þá 29 mán. að aldri. Önnur í röðinni árið 2015 var Urður 1229 á Hvanneyri í Andakíl, undan Laska 00010, en hún mjólkaði 12.489 kg með 3,11% fitu og 2,87% prótein. Þriðja nythæsta kýrin var Emma 738 í Keldudal í Hegranesi, undan Bolta 09021, en nyt hennar á árinu var 12.477 kg með 4,25% fitu og 3,61% prótein. Fjórða nythæsta kýrin var kýr nr. 1237 í Bjólu í Rangárþingi ytra, dóttir Áss 02048, en hún mjólkaði 12.457 kg með 3,54% fitu og 3,48% prótein. Fimmta í röðinni var kýr nr. 825 í Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum, dóttir 607 (undan Laska 00010), en hún skilaði 12.114 kg á árinu með 4,15% fitu og 3,24% prótein. Alls skiluðu 45 kýr afurðum yfir 11.000 kg og þar af sjö yfir 12.000 kg. Árið 2014 náðu 22 kýr nyt yfir 11.000 kg.
 
Miðað við heygæði veturinn 2014-2015 er þetta ágætur árangur. Fleiri niðurstöður úr skýrsluhaldinu verða birtar á vef RML og í Bændablaðinu á næstunni. 
 
Mjólkurframleiðendum óskum við til hamingju með þennan ágæta árangur og þökkum samstarfið á liðnu ári.

7 myndir:

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...