Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Niðurstöður búvörusamninganna vonbrigði
Fréttir 26. febrúar 2016

Niðurstöður búvörusamninganna vonbrigði

Höfundur: Vilmundur Hansen

Stjórn Svínaræktarfélags Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún lýsir vonbrigðum sínum með niðurstöður búvörusamninga, sem undirritaðir voru fyrir skömmu.

Í yfirlýsingunni segir að helstu ástæður vonbrigðanna séu að í  búvörusamningunum, sem gilda til 10 ára, séu framlög til uppbyggingar svínabúa samtals 440 milljónir króna. Þetta eru jafnframt einu framlög ríkisins til greinarinnar samkvæmt búvörusamningunum. Þetta er ekki í neinu samræmi við stuðning til svínaræktenda í nágrannalöndum okkar, þar sem yfirvöld hafa gert sambærilegar kröfur um aðbúnað.

Tjón svínabænda gríðarlegt

Hörður Harðarson, formaður Svínaræktarfélags Íslands, sagði í samtali við Bændablaðið að með yfirlýsingunni vilji Svínaræktarfélagið benda á þá stöðu sem búgreinin býr við og tengist einkum nýjum lögum um velferð dýra og tollasamningum við Evrópusambandið.

„Við gerð laganna horfðu stjórnvöld til landa sem fremst standa þegar kemur að dýravelferð og sérstaklega til landanna í Skandinavíu þar sem þessar reglur eru að mörgu leyti til fyrirmyndar. Við hjá Svínaræktarfélaginu erum að sjálfsögðu mjög ánægð með það enda viljum við að aðbúnaður dýranna sé sem allra bestur. Það sem hins vegar er ekki tekið með frá viðmiðunarlöndunum er fjármögnun þeirra fjárfestinga sem ráðast þarf í. Þessar 440 milljónir alls sem ríkisstjórnin ætlar að leggja til á móti kostnaði sem er áætlaður af Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins um 3 milljarðar króna dugir því skammt. Algengt er að sambærilegur stuðningur í Skandinavíu sé 40 til 50% af kostnaði.

Á sama tíma munu svínabændur verða fyrir gríðarlegu tjóni vegna nýju tollasamninganna sem taka gildi í upphafi árs 2017. Í skýrslu sem Bændasamtök Íslands létu gera vegna áhrifa samninganna á einstakar kjöttegundir er talað um að skerðing á tekjum svínabænda geti numið 308 milljónum á ári og er ekki jafn mikil á neina aðra kjöttegund.

Það sjá því allir að það er harla ólíklegt að viðskiptabankarnir séu tilbúnir til að koma að fjármögnun á fjárfestingum vegna nýrra aðbúnaðarreglna í því starfsumhverfi sem greinin býr við.

Hörður segir að í þessu ljósi sé eðlilegt að skoðað verði hvernig hægt sé að nota þær 440 milljónir króna sem ætlaðar eru til fjárfestinga samkvæmt nýjum rammasamningi til úreldingar á þeim búum sem rekstrargrundvelli hefur verið kippt undan með stjórnvaldsákvörðunum að hans sögn.

„Staða landbúnaðarins í dag er þannig að hann þarf á öflugum heildarsamtökum að halda. Heildarsamtökum sem hafa burði til að koma fram fyrir landbúnaðinn í heild og fyrir þá sem í sveitunum búa. Eins og staðan er í dag finnst okkur svínabændum að loknum búvörusamningunum að við stöndum eftir án þess að hafa fengið lausn á okkar málum. Í ljósi þess er eðlilegt að við veltum fyrir okkur hvort við eigum  samleið með Bændasamtökum Íslands eða einhverjum öðrum. Svo má líka velta því fyrir sér að ef svínabúskapur er að leggjast af í stórum stíl, hvort það skipti nokkru máli lengur hvort svínabændur séu hluti af einhverjum samtökum eða ekki,“ segir Hörður.

Nauðsynlegar breytingar kosta 2,5 til 3,2 milljarða

Í yfirlýsingunni segir stjórn Svínaræktarfélags Íslands að óháðir sérfræðingar telji að kostnaður við nauðsynlegar breytingar til að uppfylla ákvæði nýrrar reglugerðar um aðbúnað í svínarækt sé 2,5 –3,2 milljarðar króna og að með íþyngjandi reglugerð um aðbúnað, auknum heimildum til innflutnings á svínakjöti frá og með 2017 og nú síðast nýjum búvörusamningum er vegið alvarlega að rótum svínaræktar á Íslandi.

Við gerbreyttar forsendur, sem alfarið eru að tilstuðlan ríkisins, hlýtur að vera sanngjörn krafa að úrelding búa sé hluti af nýju rekstrarumhverfi greinarinnar. Þannig gefist bændum sem það kjósa kostur á að hætta rekstri án þess að taka með sér skuldaklafa.

Skoða hvort hagsmunum sé betur borgið utan BÍ

Þá segir að gerð nýrra búvörusamninga hafi verið með þeim hætti að Svínaræktarfélag Íslands hljóti að skoða það alvarlega hvort hagsmunum þess er betur borgið utan Bændasamtaka Íslands. Tillaga þess efnis liggur fyrir fundi sem boðaður hefur verið 2. mars næstkomandi.

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...