Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Nær helmingi minni kolefnislosun á Íslandi en að meðaltali á heimsvísu
Mynd / smh
Fréttir 10. júní 2021

Nær helmingi minni kolefnislosun á Íslandi en að meðaltali á heimsvísu

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Samkvæmt úttektum sem Stefán Gíslason og Birna Sigrún Halls­dóttir hjá Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice) hafa gert fyrir Félag eggjaframleiðenda og Félag kjúklingabænda, þá eru þessar greinar á Íslandi í mun betri stöðu hvað varðar losun kolefnis en sömu greinar í Evrópu og jafnvel á heimsvísu.

Þegar á heildina er litið virðist kolefnisspor íslenskra kjúklinga því vera langt neðan við heimsmeðaltalið. Er þar miðað við samantekt vísindamannanna dr. Stephen Clune, Enda Crossin og Karli Verghese um kolefnisfótspor landbúnaðar­afurða sem þeir gáfu út í skýrslu 2016. Af þeim samanburði má einnig ráða að kolefnisspor íslenskra kjúklinga sé minna en flestra annarra dýraafurða til manneldis.

Úttekt Umhverfisráðgjafar Íslands sýnir svipaða niðurstöðu varð­andi eggjaframleiðslu á Íslandi.  Virðist kolefnis­spor íslenskra eggja vera lægra en í flestri annarri framleiðslu á dýraafurðum til manneldis, bæði innan­lands og utan.

Nær helmingi minni kolefnislosun af íslenskri  kjúklingaframleiðslu

Meginniðurstaða verkefnisins er að heildarlosun gróður­húsa­lofttegunda vegna kjúklingaræktar á Íslandi hafi verið um 20.846 tonn CO2-ígilda árið 2019, eða sem nemur 2,25 kg CO2-ígilda á hvert kíló af tilbúinni afurð. Til að bera þessa tölu saman við niðurstöður erlendra útreikninga á kolefnisspori kjúklinga og/eða annarrar matvöru þarf að umreikna hana í kg CO2-ígilda á hvert kíló af beinlausu kjöti.

Í safngrein Stephen Clune og félaga frá 2016 er gert ráð fyrir að 77% af kjúklingnum sé beinlaust kjöt og sé sá stuðull notaður reiknast kolefnisspor íslenskra kjúklinga vera 2,25/0,77 = 2,92 kg CO2 -ígilda á hvert kg af beinlausu kjöti. Í samantekt Clune er vísað í 95 tiltækar niðurstöður útreikninga á kolefnisspori kjúklinga. Meðaltal allra niðurstaðnanna var 4,12 kg/kg og helmingur þeirra lá á bilinu 2,77-5,31 kg/kg.

Um 60% hluti kolefnissporsins liggur í erlenda fóðrinu

Stærsti einstaki hlutinn af kolefnis­spori íslenskra kjúklinga (rúm 47%) liggur í framleiðslu og flutningum á fóðri sem notað er á kjúklingabúunum og er að mestu framleitt erlendis. Það kolefnisspor myndast því að mestu utan landsteinanna en ekki á Íslandi.

Um 16% liggja í uppeldi foreldra­­fugla. Um 76% af þeirri tölu á upptök sín í fóðri þessara fugla, en það samsvarar rúmlega 12% af heildar­kolefnisspori greinarinnar. Samtals er hlutur fóðursins því nær 60% af heildarsporinu.

Í fóðrinu liggur væntanlega einnig hluti skýringarinnar á því að kolefnisspor kjúklingaframleiðslu á Íslandi virðist lægra en algengt er erlendis.

Samkvæmt upplýsingum frá birgjum hérlendis er kjúklingafóður sem selt er hér eingöngu af plöntu­uppruna, að undanskildu óverulegu hlutfalli fiskimjöls.

Sums staðar erlendis kunna dýra­afurðir að vera stærri hluti af kjúklingafóðrinu – og dýraafurðum fylgir alla jafna hærra kolefnisspor en afurðum úr jurtaríkinu. Uppruni raforku hefur líka sitt að segja í þessu samhengi, en kolefnisspor íslenskrar raforku er aðeins 9,8 g/kWh.

Til samanburðar má nefna að meðal­losun vegna rafmagns­framleiðslu í löndum Evrópu­sam­­bandsins var 275 g/kWh árið 2019. Ef losun vegna raforku­framleiðslu hérlendis væri jafnmikil og meðallosun í löndum ESB yrði kolefnisspor kjúklinganna 2,31 kg á hvert kg af heilum kjúklingi í stað 2,25 kg.

Kolefnisspor íslenskra eggja með því lægsta sem þekkist

Sömu sögu er að segja af íslenskri eggjaframleiðslu samkvæmt skýrsl­­um Umhverfisráðgjafar Íslands. Þegar á heildina er litið virðist kolefnisspor íslenskra eggja vera lægra en í flestri annarri fram­leiðslu á dýraafurðum til manneldis, bæði innanlands og utan.

Meginniðurstaða verkefnis­ins er að heildarlosun gróður­húsa­lofttegunda vegna eggja­framleiðslu á Íslandi hafi verið um 8.874.535 kg CO2-ígilda árið 2019, eða sem nemur 2,02 kg CO2-ígilda á hvert kíló af eggjum.

Þessi niðurstaða er lægri en í flestum erlendum útreikningum sem höfundum þessarar skýrslu er kunnugt um.

Vekur ýmsar spurningar um  kolefnisútreikninga á matvælum

Samkvæmt skýrslu Environ­ice  skiptir miklu máli í kolefnis­útreikn­ingi dýraafura hvar fóðrið er framleitt. Því má segja að stærstu útflutningsþjóðir kornvöru í heiminum, eins og Rússar og Bandaríkjamenn, séu að taka á sig drjúgan hluta þeirrar kolefnislosunar sem aðrar þjóðir svo hagnýta sér og losna við að skrá í sitt kolefnis­bókhald. Það varðar t.d. alifugla- nautgripi og svínaeldi í Evrópu og víðar. ESB-löndin flytja árlega inn um 20 milljónir tonna af korni frá Bandaríkjunum. Því gæti kolefnis­spor á innfluttu nauta­kjöti frá Evrópu, sem alið er á amerísku korni, hæglega reiknast lægra en kolefnisspor á slíku kjöti sem hér er framleitt. Þrátt fyrir að uppistaðan í fóðrinu hér sé íslenskt hey.

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári
Fréttir 20. mars 2025

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári

Hagstofan gaf á mánudaginn út uppskerutölur úr grænmetisog salatræktun síðasta á...

Í fremstu röð í þrjátíu ár
Fréttir 20. mars 2025

Í fremstu röð í þrjátíu ár

Bændablaðið hefur í þrjátíu ár stuðlað að upplýsandi umræðu um landbúnað á víðum...

Vanburða innviðir hringrásarhagkerfis
Fréttir 20. mars 2025

Vanburða innviðir hringrásarhagkerfis

Ekkert eftirlit er á Suðurlandi með því að garðyrkjuúrgangur úr íslenskri útiog ...

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi
Fréttir 17. mars 2025

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi

Talsvert hefur verið fjallað um mikilvægi fæðuöryggis landsins að undanförnu, bæ...

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt
Fréttir 14. mars 2025

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt

Eitt af þróunarverkefnum búgreina sem nýlega var veittur styrkur úr matvælaráðun...

Tangi besta nautið
Fréttir 14. mars 2025

Tangi besta nautið

Tangi 18024 frá Vestra-Reyni undir Akrafjalli hlaut nafnbótina besta naut fætt á...

Áform dregin til baka
Fréttir 13. mars 2025

Áform dregin til baka

Áform fjármála- og efnahagsráðherra um frumvarp til breytingar á tollalögum, þar...

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins
Fréttir 13. mars 2025

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins

Kvíaból í Köldukinn var útnefnt fyrirmyndarbú nautgripabænda árið 2025 á deildar...