Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Mikil sala í kindakjöti undanfarnar  vikur og gengur vel á birgðir
Fréttir 15. júní 2015

Mikil sala í kindakjöti undanfarnar vikur og gengur vel á birgðir

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Vel hefur gengið á þær birgðir sem til eru af kindakjöti síðustu vikur, en neytendur hafa í auknum mæli snúið sér að því undanfarið.  Nautakjötsbirgðir eru aftur á móti á þrotum hjá afurðastöðvum.
 
Verkfall dýralækna sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur gerir að verkum að lítið er um slátrun, sem aftur hefur í för með sér að verslanir bjóða ekki sama úrval af kjötvörum og þegar ástand er með eðlilegum hætti.
Steinþór Skúlason, framkvæmda­stjóri SS, segir að verkfall dýralækna hafi áhrif á rekstur stórgripasláturhúss félagsins, en þar liggur slátrun niðri. Starfsfólk er á launum, sinnir öðrum verkum, en húsið er tekjulaust. „Þetta er auðvitað mjög neikvætt, við leggjum í mikinn kostnað en fáum engar tekjur inn,“ segir Steinþór.
 
Valkostum neytenda hefur fækkað
 
Sala á kindakjöti hefur að hans sögn tekið mikinn kipp upp á við. „Við merkjum söluaukningu þar og vel hefur gengið á birgðir. Hjá okkur er staðan sú að allar birgðir sem við höfðum yfir að ráða í nautakjöti eru uppurnar. Það er greinilegt að valkostum neytenda hefur fækkað, það er lítið um kjúkling og svín, nautakjötið svo til búið og þá snýr fólk sér að öðru. Það eru nægar birgðir til af kindakjöti og raunar jákvætt að svona vel gengur á þær. Fólk velur eitthvað annað í matinn, þar hefur lambið komið sterkt inn, pylsur af ýmsu tagi og kryddkjöt svo eitthvað sér nefnt,“ segir Steinþór.
 
 Nautakjötsbirgðir á þrotum
 
Ingvar Gíslason, markaðsstjóri hjá Norðlenska, segir að áhrifa verkfalla hafi farið að gæta í síðustu vikunni í maí. „Þá kláruðust okkar nautakjötsbirgðir endanlega og við höfum ekki framleitt neitt af hakkvörum og hamborgurum undanfarnar vikur,“ segir Ingvar. Að einhverju leyti segir hann að skortur á ákveðnum kjöttegundum hafi skilað sér í aukinni sölu á lambakjöti, „en þau áhrif eru óveruleg“. 
 
 Á sama tíma hefur útflutningur til Færeyja legið niðri, en fyrir Norðlenska sé um verulegt magn að ræða. Ingvar segir að þrátt fyrir leiðindatíð í vor hafi gengið ágætlega að selja grillkryddaðar vörur og félagið sé nú að hefja markaðssetningu á nýjum vöruliðum sem fengið hafi fínar viðtökur hjá neytendum. „Sumarið er rétt að byrja og við trúum ekki öðru en að það verði gott,“ segir Ingvar.
 
Kindakjöt til bjargar
 
Ólafur Már Þórisson, markaðsstjóri Kjarnafæðis, segir að fyrstu vikur verkfallsins hafi verið í lagi, en félagið hafi náð að birgja sig þokkalega upp af nauta-, svína- og kjúklingakjöti. 
 
„Það hefur auðvitað sést á sölutölum undanfarinna vikna að erfitt er að fá þessar afurðir. Kindakjötssala hefur aukist töluvert að undanförnu á móti og má þar nefna læri, gúllas, grillvörur úr lambakjöti, kótilettum í raspi og svo síðast en ekki síst kindaborgara sem við kjósum að kalla Fjallaborgara. Þeir hafa komið inn í staðinn fyrir nautahamborgara og eru ekki síðri að mínu mati. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu góðir þeir eru,“ segir Ólafur Már.
 
Ástandið nú er orðið slæmt, einkum í nautakjöti og innfluttum kjúklingi, lítið sem ekkert sé til af þeim vörum. „Hakk og hamborgarar úr nautakjöti hafa ekki sést hér í húsi í nokkrar vikur. En á meðan svo er þá kemur kindakjötið okkur til bjargar. Það er því búið að létta aðeins á birgðum af lambakjöti sem getur ekki verið neitt annað en jákvætt,“ segir Ólafur Már.
 
Sala á frystivöru jókst
 
Hann segir að fyrir nokkrum vikum hafi hræðsla við tímabundin verkföll og jafnvel allsherjarverkföll ásamt skorti á öðrum tegundum orðið til þess að sala í frystivöru jókst umtalsvert. „Ég held hins vegar að það hafi verið eðlilegur ótti landsmanna og gott að fólk brást við. Það er alltaf hægt að borða upp úr frystikistunni þótt verkfall leysist.“ 
Hretið seinkar vorverkum
Fréttir 13. júní 2024

Hretið seinkar vorverkum

Óveðrið sem gekk yfir Norður- og Norðausturland á dögunum hafði aðallega þau áhr...

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum
Fréttir 13. júní 2024

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum

Í byrjun maí sendi ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, erindi til matvælaráðuneytisins þ...

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar
Fréttir 13. júní 2024

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar

Matvælaráðherra hefur sett á laggirnar viðbragðshóp vegna þeirra erfiðleika sem ...

Bein og langvinn áhrif á búgreinar
Fréttir 13. júní 2024

Bein og langvinn áhrif á búgreinar

Matvælaráðherra stofnaði þann 7. júní sérstakan viðbragðshóp vegna ótíðarinnar á...

Sjálfbærninám á háskólastigi
Fréttir 12. júní 2024

Sjálfbærninám á háskólastigi

Fulltrúar Háskóla Íslands (HÍ) og Hallormsstaðaskóla hafa staðfest samstarfssamn...

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar
Fréttir 11. júní 2024

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar

Íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs er komið í samstarf við breska fyri...

Gjaldskráin einfölduð
Fréttir 11. júní 2024

Gjaldskráin einfölduð

Matvælaráðherra hefur undirritað nýja gjaldskrá fyrir eftirlit og önnur gjaldsky...

Staða sníkjuormasýkinga metin
Fréttir 10. júní 2024

Staða sníkjuormasýkinga metin

Kortleggja á stöðu sníkjuormasýkinga hjá íslenskum nautgripum á næstu misserum.