Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sveinn Margeirsson hefur gegnt stöðu forstjóra Matís frá árinu 2010.
Sveinn Margeirsson hefur gegnt stöðu forstjóra Matís frá árinu 2010.
Mynd / Matís
Viðtal 9. mars 2017

Matís hefur tvöfaldast að stærð á tíu ára starfstíma

Höfundur: smh
Matís ohf. er opinbert hlutafélag, stofnað 1. janúar 2007 og fagnaði því tíu ára afmæli nú í upphafi árs.
 
Með stofnun Matís runnu saman rannsóknastofa Umhverfisstofnunar, MATRA, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins og líftæknifyrirtækið Prokaria, og mynduðu eina sterka heild þar sem rannsóknir á matvælum og í líftækni fengu samastað. Markmiðið var að auka verðmætasköpun í íslenskri matvælaframleiðslu, stuðla að matvælaöryggi og lýðheilsu.
 
Sveigjanleikinn heppilegur í starfseminni
 
Sveinn Margeirsson hefur gegnt starfi forstjóra frá 2010. Hann segir að þetta rekstrarform hafi reynst vel. „Það hefur gefið okkur vissan sveigjanleika varðandi uppbyggingu á fyrirtækinu, sem er viðeigandi þar sem starfsumhverfi okkar er líka mjög sveigjanlegt og miðar að nýsköpun. Það er líka okkar hlutverk, meðal annars, að búa til og nýta sveigjanleika fyrir okkar viðskiptavini hvort sem það er í sjávarútvegi, landbúnaði, matvælaframleiðslu eða líftækni. 
 
Við störfum eftir skýrum reglum, heilindi eru mikilvægasta gildi starfseminnar og hlutverk okkar í víðum skilningi er að auka verðmæti lífauðlinda. Í því samhengi er matvælaöryggið algjört lykilatriði, það er í raun ómögulegt að búa til verðmæt matvæli án þess að matvælaöryggi sé alger undirstaða. Matvælaöryggi og heilnæm matvæli, næringaröryggið, eru svo undirstaða bættrar lýðheilsu, sem er mjög ofarlega á baugi í þjóðfélaginu núna. Það er alltaf að verða meiri og meiri áhersla á forvarnarhluta af heilsu mannfólks, enda ómögulegt að byggja heilbrigði þjóðarinnar eingöngu á „viðgerðum“ á sjúkrahúsum eftir að heilsu tekur að hraka. Við höfum skipt um skipurit þegar við höfum viljað herða áherslurnar á ákveðnum sviðum og njótum þessa sveigjanleika einmitt á slíkum tímum. 
 
Við leggjum áherslu á að afrakstur vinnu okkar hafi raunveruleg áhrif inn í fyrirtæki og stjórnkerfið, til dæmis í kringum stefnumótun á lýðheilsu og varðandi matvælaöryggi. Kjarninn í fyrirtækinu er rannsóknastarfið og nýsköpunarvinnan. Það starf byggir svo alveg á innviðunum, sem eru þá tækin og tólin, en líka þjálfað starfsfólk og þeir verkferlar sem unnið er eftir,“ segir Sveinn um eðli starfsemi Matís.  
 
Er sjálfur afsprengi Matís
 
Sveinn er matvælafræðingur og iðnaðarverkfræðingur og var hluta síns náms einmitt við störf hjá Matís. Hann segist á vissan hátt vera afsprengi starfsins sem þar er unnið. „Ég er kannski ágætt dæmi um það sem Matís getur skilað af sér, því það eru ekki bara  nýir verkferlar eða verkefnið sem við erum að fást við hverju sinni sem skipta máli. Aukin þekking er mjög mikilvæg og við höfum komið mjög að margvíslegu menntunarstarfi, til dæmis matvælafræði, landbúnaðarháskólanum, verkfræði og viðskiptafræði. Þá höfum við einmitt lagt áherslu á þessa hagnýtu tengingu við matvælafyrirtæki, frumkvöðla og menntageirann.“
 
Mikill vöxtur á tíu árum
 
Að sögn Sveins hefur kannski mesta breytingin frá stofnun falist í því hversu mjög fyrirtækið hefur vaxið. „Hvað veltu varðar hefur fyrirtækið nánast tvöfaldast í stærð. Sá vöxtur hefur byggst aðallega á því að sækja tekjur í samkeppnisumhverfi; til dæmis mikið í samkeppnissjóði. 
Ég get nefnt dæmi um verkefni þar sem við höfum sótt fjármagn í slíkan samkeppnissjóð, sem í þessu tilviki væri Tækniþróunarsjóður RANNÍS. Samstarf við frumkvöðla leiddi af sér hugmynd um að búa til lýsi án þess að hita hráefnið meira en upp að ákveðnu marki. Við þróuðum þá hugmynd áfram, sóttum fjármagn í samstarfi við frumkvöðlana til Tækniþróunarsjóðs og í dag er varan Dropi á markaði, sem er afurð verkefnisins. 
 
Það sem hefur svo breyst síðastliðin ár er að slík verkefni eru orðin mun stærri en áður var. Þá er gjarnan líka verið að horfa frekar til erlendrar fjármögnunar heldur en innlendrar.
 
Það sem er svo breytt núna – og er kannski tímanna tákn að ýmsu leyti – er að það er orðið mun meira af sölu á rannsóknarþjónustu beint til fyrirtækja. Það er snar þáttur af tekjum okkar núna, en var mun minni áður. Það er því orðið minna en þrjátíu prósent af tekjum Matís sem kemur beint vegna þjónustusamnings okkar við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.“
 
Stefnumót hönnuða og bænda
 
Sem dæmi um vel heppnað verkefni á sviði landbúnaðar nefnir Sveinn Stefnumót hönnuða og bænda. „Það var einmitt unnið í samstarfi Listaháskólans og bænda með stuðningi frá Tækniþróunarsjóði. Afraksturinn af því verða ýmsar vörur og ákveðin stefna eða hreyfing í þá átt að búa til annars konar verðmæti úr sömu vörum og voru til fyrir. Við höfum einnig unnið að mörgum áhugaverðum verkefnum með Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Til dæmis mætti nefna í því sambandi verkefnið um Hvannarlambið, með bændunum í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd, sem fólst í því að kanna áhrifin á bragðgæði lambakjöts að beita lömbunum á hvönn.“ 
 
Stærsti hlutinn í starfsemi Matís er sjávarútvegstengdur, að sögn Sveins. „Við höfum fengist mjög mikið við verkefni tengdum ferskum fiski. Líka tengdum ýmsum ferlum sem fiskurinn fer í gegnum, eins og kælingu og meðhöndlun. Allir þessir ferlar hafa gjörbreyst á síðustu tíu árum. Það hefur mikil vinna farið í að búa til verðmæti úr aukaafurðunum, við höfum unnið að þróun á kælibúnaði með tæknifyrirtækjum og að umbúðaþróun svo ég nefni dæmi. En við höfum einnig sinnt frumkvöðlastarfi og smærri verkefnum í sambandi við vöruþróun. Ég get nefnt vöruna Dropa sem dæmi, en það er kaldhreinsuð þorskolía, en hún var þróuð meðal annars með beitingu líftækni. Hún hefur þá aðra markaðsmöguleika en hefðbundin fiskiolía.“
 
Talsverðir vaxtarmöguleikar varðandi verðmætasköpun
 
Sveinn telur vaxtarmöguleikana í landbúnaði vera mikla, varðandi verðmætasköpun og frumkvöðlastarf. „Hlutfallslega eru þeir að mínu mati enn meiri en í sjávarútvegi til dæmis, þar sem nýsköpun hefur skilað miklum árangri á síðastliðnum árum. Ef við horfum á þær tæknibreytingar sem eiga sér stað í heiminum í dag, nýtum þær og markaðstækifærin sem felast í auknum vilja fólks til að tengjast við framleiðendur, þá eru ótrúleg tækifæri fram undan. Svo er líka mikilvægt í mínum huga hvernig við virkjum drifkraftinn hjá fólki til að vilja stunda nýsköpun í landbúnaði. Þá ekki bara í sjálfri matvælaframleiðslunni, heldur í þátttöku í raunverulegri verðmætasköpun með nýsköpun og þeirri tæknivinnu sem slíku fylgir. Þá er ég að hugsa um svið eins og matvæla- og snyrtivöruframleiðslu, en einnig á sviði hönnunar og heilsu. Það eru möguleikar á svo mörgum sviðum. 
 
Það sem mér finnst svo mikilvægt í nálgun á því verkefni að auka nýsköpun í landbúnaði er að hugsa eins og bóndinn sjálfur gerir í sínum búskap. Það þarf að heyja fyrir veturinn. Það þarf að vanda til verka og ekki fara fram úr sér, en samt ganga hreint til verks án þess að vera of varkár.“
 
Gildi vandaðra upplýsinga
 
„Ég sé fyrir mér að fyrirtækið þróist í þá átt að verða enn einbeittara í því að sjá fyrir endann á því hvaða áhrif starfsemi okkar hefur á okkar viðskiptavini; á bændur, sjómenn, frumkvöðla og á nýsköpun í matvæla- og líftæknigeiranum – hvernig við getum náð tilteknum markmiðum. Líka held ég að við getum gegnt mikilvægu hlutverki í því að aðstoða við það verkefni að markaðssetja Ísland og íslensk matvæli með vísindin að vopni. Notkun á vísindalegum niðurstöðum til að miðla til neytenda, til dæmis, því við sjáum að vandaðar upplýsingar skipta alltaf meira og meira máli,“ segir Sveinn að lokum um framtíð fyrirtækisins. 
 
Hrönn Ólína Jörundsdóttir, Erna Óladóttir, Natasa Desnica og Branka Borojevic á rannsóknarstofu.
Mynd / Matís
 
 
Kjarninn í fyrirtækinu er rannsóknarstarfið og nýsköpunarvinnan. Mynd / Matís
Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...