Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Íslenskir atvinnurekendur auglýsa eftir sjálfboðaliðum á fjölmörgum vefsíðum.
Íslenskir atvinnurekendur auglýsa eftir sjálfboðaliðum á fjölmörgum vefsíðum.
Fréttir 25. júlí 2016

Lögbrot að reka efnahagslega starfsemi með sjálfboðaliðum

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

Ólaunuðum starfsmönnum, hvort sem þeir kallast sjálfboðaliðar eða starfsnemar, hefur fjölgað hratt síðustu misseri í íslensku atvinnulífi. Mest ber á slíku í ferðaþjónustu, landbúnaði og við barnagæslu og heimilisaðstoð. Ásókn erlendra ungmenna í sjálfboðaliðastörf hér á landi er einn fylgifiskur þess að Ísland er komið á kortið sem ferðamannaland. Þetta segir Dröfn Haraldsdóttir, sérfræðingur og verkefnastjóri hjá Alþýðusambandi Íslands, en hún starfar meðal annars við átakið „Einn réttur, ekkert svindl“ sem ætlað er að vinna gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi.

„Í þessum töluðu orðum eru 167 auglýsingar þar sem íslenskir atvinnurekendur auglýsa eftir sjálfboðaliðum virkar inni á þeirri vefsíðu sem mest er notuð, 79 á annarri en síðurnar eru fleiri og þá eru ótaldar Facebook-síður og hópar eins og Farm and au-pair jobs in Iceland og fleiri. Í sumum tilfellum reka fyrirtæki sig eingöngu á sjálfboðaliðum og eru jafnvel með vel á annan tug ólaunaðra starfsmanna í vinnu,“ segir Dröfn og ítrekar að sjálfboðastörf og önnur ólaunuð störf í efnahagslegum tilgangi séu lögbrot. Dæmi eru um að atvinnurekendur óski eftir fólki og lofi þeim 4–5 tíma vinnudegi fimm daga vikunnar. Að sögn stéttarfélaga sem hafa fengið mál sem þessi inn á borð til sín er það sjaldnast það sem bíður fólksins.

„Ólaunuð vinna við efnahagslega starfsemi, framleiðslu og sölu á vöru eða þjónustu á markaði, í hagnaðarskyni og oft í samkeppni við fyrirtæki í sömu atvinnustarfsemi, felur í sér óásættanleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði og stenst hvorki kjarasamninga né lög. Það telst varla eðlilegt að atvinnurekendur byggi samkeppnisforskot sitt á launalausum starfsmönnum. Það keppir enginn við fyrirtæki sem sleppa við allan launakostnað auk þess sem grafið er undan kjörum launþega í landbúnaði og ferðaþjónustu og eru launin í þessum greinum ekki há fyrir,“ segir hún.

Samkvæmt lagabókstafnum eru sjálfboðaliðastörf einungis réttlætanleg þegar um störf fyrir mannúðar- eða hjálparsamtök er að ræða, störf sem annars væru ekki unnin. Um öll önnur störf gilda ákvæði kjarasamninga, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks, sem segja að kjarasamningar eru lágmarkskjör samkvæmt lögum og samningar um lakari kjör eru ógildir.

Ungt fólk í ævintýraleit

„Atvinnurekendur brjóta því meðvitað og ómeðvitað lög í landinu með því að vera með ólaunaða starfsmenn og þau erlendu ungmenni sem ráðin eru á slíkum forsendum eru yfirleitt í ævintýraleit og gera sér enga grein fyrir því að verið sé að brjóta á þeim,“ segir Dröfn.

Alþýðusamband Íslands hefur undir merkjum verkefnisins „Einn réttur, ekkert svindl!“ unnið að því að upplýsa og leiðbeina atvinnurekendum um hvað á við þegar ráðnir eru erlendir starfsmenn. Margs konar misskilningur og fáfræði virðist vaða uppi þó eðlilegt sé að gera þá kröfu á þá sem standa í rekstri og ráða til sín erlenda starfsmenn að þeir kynni sér þau lög og reglur sem um slíkt gilda að sögn Drafnar. Á vef ASÍ, asi.is, má nálgast bæklinginn „Ráðning erlendra starfsmanna“.

Getur verið dýrkeypt að hafa ólöglegan vinnukraft

„Margir atvinnurekendur telja sig vera að gera þessu unga fólki mikinn greiða og skilja ekki hvert vandamálið er því fólkið er svo ánægt og hrifið af landinu. Oft heyrum við að sjálfboðaliðarnir séu bestu starfsmenn sem viðkomandi hafi haft. Yfirleitt eru sjálfboðaliðarnir hvergi skráðir, eru ekki með kennitölu, alveg ótryggðir sem getur reynst dýrkeypt ef slys verða á vinnustað. Nokkur fjöldi þessara starfsmanna er frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins og þarf því atvinnuleyfi til að starfa hér á landi. Ekki eru greiddir skattar fyrir fæði og húsnæði sem yfirleitt er eina greiðslan fyrir vinnuna. Í flestum tilfellum eru þessir starfsmenn því ekki bara launalausir heldur réttindalausir, algerlega upp á vinnuveitanda sinn komnir,“ segir Dröfn.

Starfsnemar koma ekki í stað annarra starfsmanna

Sem viðbrögð við neikvæðri umræðu um sjálfboðaliða virðist færast í vöxt að kalla ólaunaða starfsmenn „starfsnema“. Starfsnemar eiga að vera í námi og ekki er ætlast til þess að þeir vinni einir eða beri ábyrgð, segir Dröfn.

„Starfsnemar geta því aldrei komið í stað eða gengið í störf annarra starfsmanna. Langt í frá öll fyrirtæki geta tekið á móti starfsnemum og er eðlilegt að þau sem slíkt gera hafi viðeigandi viðurkenningu menntamálayfirvalda. Það þarf að vera fyrir hendi faglærður leiðbeinandi sem hefur fengið þjálfun í leiðbeiningu nýliða. Það verður að vera fyrir hendi samningur milli viðkomandi skóla og fyrirtækis þar sem m.a. er tekið til tímalengdar samningsins, starfskjara nemans, trygginga og réttinda.“

Leitið til viðurkenndra vinnumiðlana

Sumir atvinnurekendur hafa borið því fyrir sig að það sé erfitt að fá starfsfólk eins og atvinnuástandið er um þessar mundir. Dröfn nefnir í því sambandi að Vinnumálastofnun reki evrópska vinnumiðlun, EURES, sem hefur í gegnum tíðina miðlað fjölda fólks bæði í landbúnaðarstörf og ferðaþjónustu hér á landi. EURES veitir aðgang að starfsfólki frá öllu Evrópska efnahagssvæðinu sem telur í kringum 500 milljónir manns.

Nánari upplýsingar

Ítarefni um ráðningar starfsfólks og sjálfboðaliðastörf má meðal annars finna á vef Bændasamtakanna, bondi.is, og á vef Alþýðusambandsins, asi. is. Um árabil hafa Bændasamtök Íslands og samtök launþega gert með sér samninga um kaup og kjör starfsmanna sem vinna almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum. Bændasamtökin hafa hvatt félagsmenn sína til að kynna sér vel á bondi.is þá kjarasamninga og reglur sem gilda hverju sinni og tryggja þannig að þessi mál séu í góðum farvegi.

 

Dæmi um auglýsingar á vefnum

„Verk sem sjálfboðaliðinn þarf að sinna: Garðyrkja, passa börn, elda, sinna viðhaldi, vinna búverk, hjálpa til við húsverkin, aðstoða ferðamenn og gesti, kenna tungumál og fleira. Vinna 4–5 klukkustundir á dag, fimm daga vikunnar.“

Sjálfboðaliði óskast á tjaldsvæði: „Gistiaðstaðan er í tjaldi á tjaldsvæðinu. Við getum útvegað þér tjald og svefnpoka ef þú átt ekki slíkan búnað. Klósett- og sturtuaðstaða fyrir hendi sem þér er velkomið að nota. Frjáls aðgangur að þvottavél og geymslu. Þú færð morgunmat og hádegismat (aðallega samlokur og salat) á hosteli við hliðina á tjaldstæðinu. Á miðvikudögum borða starfsmennirnir heitan hádegismat saman. Að auki hefur þú aðgang að körfu með fötum og mat sem skilinn hefur verið eftir af gestum, í fínu lagi.“

„Mig vantar aðstoð við hefðbundið viðhald á býlinu, aðstoð með kindurnar og enskukennslu. Þú færð herbergi út af fyrir þig og að sjálfsögðu með rúmi. Það eru þrjár máltíðir á dag og tveir kaffitímar. Þar sem þetta er sveitabær er alltaf nóg að borða. Vinnutími er í mesta lagi fimm klukkustundir á dag, fimm daga vikunnar.“

„Við erum með 36 mjólkandi kýr og 160 geldneyti. Að auki 2 hross, 60 kindur, 40 hænur, 3 ketti, 1 hund og 7 börn (tvö flutt að heiman). Vinnutími 4–5 klukkustundir á dag, fimm daga vikunnar (umsemjanlegt). Getum haft tvo sjálfboðaliða í einu.“

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...