Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Andi hlutana og hið kosmíska eðli er með í spilunum.
Andi hlutana og hið kosmíska eðli er með í spilunum.
Á faglegum nótum 23. október 2014

Lífrænt – ólífrænt og allt það!

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Við sem erum komin hátt á sjöunda áratuginn eða eitthvað ofar en það í aldri og munum eftir sveitastörfum og sveitalífi um miðbik síðustu aldar getum eiginlega með sanni sagt að við höfum lifað tímana tvenna.

Í minni sveit var ekki kominn bílfær þjóðvegur, ekkert rafmagn og varla símasamband nema á tveim bæjum. Tún slegin með orfi og ljá og engjaheyskapur nokkur. Hálfþurr slægjan reidd í sátum heim á klifberum, eða flutt á bátum yfir fjörð, til þurrkunar á velli. Þar var hún rifjuð, rökuð upp í föng, lanir eða galta eftir því hvernig viðraði á heyskapinn. Það var stungið út úr fjárhúsum og mykjan beið í fjóshaugnum. Hvort tveggja var svo borið á túnið á réttum tíma. Svo slóðadregið. Slóðinn hengdur aftan í hross. Áður en grænkaði um of var því sem ekki vannst ofan í völlinn rakað af. Afrakinu safnað saman og notað til að reykja kjötið að hausti. Tilbúinn áburður þekktist, en kaup á honum voru býsna takmörkuð.

Mig rekur minni til að eitthvað hafi það aukist eftir að búnaðarráðunauturinn Agnar Guðnason fór að setja upp markvissar áburðartilraunir á svo til hverjum bæ í minni sveit um miðjan sjötta áratuginn. Þar hafa sennilega orðið tímamót í búskaparsögunni: „Hefðbundin ræktun“ hóf innreið sína og traktorinn kom strax á eftir.

Hvað þýða hugtökin?

Myndin hér að ofan kemur upp í hugann í nútímanum þegar minnst er á „lífræna ræktun“, „lífaflsræktun“, „vistræktun“ ­og eitthvað eru hugtökin og skilgreiningarnar fleiri þegar talað er um ræktunaraðferðir sem heppilegri séu fyrir hollustuhætti og heilbrigði lýðs og láðar en þeir búskaparhættir sem almennt eru gildandi um allt land í víðri veröld núorðið og kallast „hefðbundin ræktun“. En hvað fela þessi hugtök í sér og hvernig eru þau skilgreind? Hinar „óhefðbundnu“ ræktunaraðferðir eru nokkuð samhljóma um að hollara og eðlilegra sé að stunda ræktun og landbúnað í takti við tif árstíðanna, líkt og var hér áður fyrr, og getu landsins til að fæða og klæða það líf sem reiðir sig á það. Og víst er um að kenningarnar ná yfir stærra svið en ræktunina eina. Hvert hugtak er eiginlega lífsstíll sem nær til allra þátta í lífi þeirra sem aðhyllast þau. Og eins og í öllum trúarbrögðum er auðvitað hinn eini og rétti sannleikur fólginn í kenningunni.

Lífræn ræktun – organic

Lífræn ræktun felur í sér að við ræktunina megi hvergi og aldrei notast við áburð eða efni sem ekki eru náttúruleg að eðli eða uppruna og falla hundrað prósent inn í hringrás lífræns efnis á Móður Jörð. Allt sem til fellur í náttúrunni eða verður til eftir náttúrulegum lögmálum er aðalmálið. Ekki má ganga á náttúruauðlindir eða nota neitt sem orðið er til við kemísk eða tæknifræðileg inngrip í náttúruferlin. Tæki og tól er æskilegast að séu gerð í höndunum, úr efnum sem mannkynið þekkti og kunni að nýta sér í upphafi skipulagðrar ræktunar þegar hún hófst á skilum brons- og járnaldar. Öll vinna og viðvik eru framlag fólks. Hver og einn einstaklingur fær að njóta sín eftir getu og hæfileikum. Í öllu skal hlúð að hinu smáa. Sjúkum skal sinna og um aldraða skal annast af virðingu. Samfélagið er samfellt og háir sem lágir hafa sama rétt. Í framkvæmd er lífræn ræktun samt allmjög móderníseruð. Hagræðing og vottun beinist fyrst og fremst að því að skilyrðunum um takmarkaða efnanotkun – eða rétta sagt um rétta efnanotkun – sé fullnægt. Félagslegu þættirnir eru síður teknir með í dæmið og að mestu er horft framhjá þeim vélakosti og eldsneytisnotkun sem starfseminni fylgir til að hún standi undir sér.

Lífaflsræktun – biodynamic

Í stórum dráttum er lífaflsræktun ekki frábrugðin lífrænni ræktun. Helsti munurinn er að í lífaflsræktun er mikið hugað að andlegum og kosmískum háttum. Andi hlutanna og hið kosmíska eðli er með í spilunum.

Afstaða himintungla, hnattstaða, jarðeðlið með straumum og orkusviði. Þakkir til æðri máttarvalda, hver sem þau eru og hvar sem þau eru, jákvætt lífsviðhorf og samhverfing við allt umhverfið er snar þáttur í þeirri lífspeki sem lífaflsræktun byggist á. Allt sem er í einu samfelldu flæði efnis og orku. Eitt er öðru háð og ekkert undanskilið.

Vistrækt – permaculture

Hugtakið vistrækt er eiginlega vond þýðing á hugtakinu „permaculture“. Enska hugtakið er samsett nýyrði sem á að halda utan um orðin „permanent“ sem þýðir stöðugur og „agriculture“ sem þýðir akuryrkja.

Hugsanlega væri betra að segja „síyrkja“ á íslensku. En vegna staðhátta hérlendis gengur það ekki vel upp. Í vistrækt er í stórum dráttum unnið eftir lífrænum aðferðum og viðmiðunum. En fyrst og fremst með því að nýta náttúrulegar aðstæður og vinna eftir þeim og með þær til að skapa kjörlendi fyrir sjálfbært mannlíf og mannlegar þarfir í sjálfbærri ræktun og afkomu. Uppruna „Vistræktarhreyfingarinnar“ má rekja til tveggja Ástrala, Bills Mollison og Davids Molmgren, sem settu kenninguna fram um 1978. Áður höfðu að sjálfsögðu komið fram margar svipaðar kenningar, sem höfðu einhvern veginn ekki náð fram.

Og hátt uppi í austurrísku Ölpunum var bóndinn og „sérvitringurinn“ Sepp Holzer kominn vel af stað með sitt sérstæða býli þar sem sjá mátti ótrúlegan árangur í ræktun á alls kyns viðkvæmum gróðri sem ættaður er frá mildari slóðum, jafnvel frá ylsælustu héruðum við strönd Miðjarðarhafsins. Holzer hafnar því að kenna búskap sinn við „permakúltúr“ og segist bara beita eigin hyggjuviti og oft nokkuð stórtækum aðgerðum við að laga jörð sína að vistfræðilegum endurbótum. Holzer býr á svæði sem ef til vill er sambærilegt við Dalvík veðurfarslega en þar er mun lengra sumar með mörgum hitafarstoppum. Sepp Holzer verðskuldar ýtarlegri umfjöllun hér síðar. En þeir Mollison og Holmgren settu fram mjög skipulega skipulögð skipulög í mörgum liðum og mörgum greinum. Þau má lesa á netinu með því að slá inn leitarorðið í síðari lið millifyrirsagnarinnar hér. Og þeir kunnu að markaðssetja markmið sín og kennisetninguna. Sjálft orðið „permaculture“ er markaðsverndað og þrátt fyrir að leiðir þeirra hafi skilið vegna nokkurs ágreinings þeirra í milli fyrir nokkrum árum hala þeir inn, hvor um sig, drjúgan skilding með fyrirlestrahaldi víða um lönd. Og enginn má leiðbeina í fræðunum nema að undangenginni leiðbeinendaskólun. Út af fyrir sig er hugmyndin samt mjög áhugaverð.

Aðeins þrjú fyrirtæki hefðu fengið undanþágu
Fréttir 30. maí 2024

Aðeins þrjú fyrirtæki hefðu fengið undanþágu

Formaður atvinnuveganefndar Alþingis segir grein forstjóra Samkeppniseftirlitsin...

Margrét Ágústa nýr framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands
Fréttir 30. maí 2024

Margrét Ágústa nýr framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands

Margrét Ágústa Sigurðardóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Bændasa...

Stórtjón á túnum við Eyjafjörð
Fréttir 30. maí 2024

Stórtjón á túnum við Eyjafjörð

Miklar kalskemmdir eru í túnum nokkuð víða við Eyjafjörð. Í Svarfaðardal er ásta...

Styrkja vöruþróun út frá matarhefð
Fréttir 29. maí 2024

Styrkja vöruþróun út frá matarhefð

Tíu milljónum króna var fyrir skemmstu úthlutað af innviðaráðuneytinu til verkef...

Afhending Kuðungsins
Fréttir 28. maí 2024

Afhending Kuðungsins

Sorpa og Bambahús eru handhafar Kuðungsins árið 2024.

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum
Fréttir 28. maí 2024

Leyfa gas- og jarðgerð úr matarafgöngum

Matvælastofnun hefur nýlega tilkynnt um að Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu (GAJA) h...

Heimaframleiðsla lögleg
Fréttir 28. maí 2024

Heimaframleiðsla lögleg

Heimaframleiðsla nefnist umgjörð sem sköpuð var til að heimila litlum aðilum í F...

Bjórinn Naddi sló í gegn í London
Fréttir 28. maí 2024

Bjórinn Naddi sló í gegn í London

Fjórir íslenskir bjórar frá KHB brugghúsi á Borgarfirði eystra hlutu bresk bjórv...