Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Leikur að eldi
Skoðun 15. febrúar 2016

Leikur að eldi

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
EFTA-dómstóllinn hefur gefið út það álit sitt, að sú tilhögun að skylt sé að frysta hrátt kjöt í að minnsta kosti 30 daga áður en það er flutt hingað til lands, standist ekki EES-samninginn. 
 
Mál þetta er eitt af þeim sem Hagar hafa rekið til að ná enn frekari tökum á verslun í landinu. Félagið (ásamt tveimur öðrum fyrirtækjum) hafði sigur fyrir skömmu þegar að ríkið var dæmt til að endurgreiða útboðsgjald á tollkvóta. Það vannst á þeim forsendum að ráðherra mætti ekki hafa val um hvort tollkvótum væri úthlutað með hlutkesti eða útboði. Vegna þess þarf ríkið nú að endurgreiða útboðsgjald sem þegar var búið að velta út í verðlagið. Fyrirtækin fá það því greitt tvisvar, sem þau eru vitanlega ánægð með. Reyndar segjast Hagar núna ætla að skila gjaldinu til neytenda. Vonandi gengur það eftir, en það verður gaman að sjá hvernig það verður útfært. Í millitíðinni er síðan búið að breyta lögum þannig að nú hefur ráðherra ekki lengur val um hvernig tollkvótum er úthlutað. Þá ber að bjóða út.
 
Hvers vegna 30 daga frystiskylda? 
 
Nú hefur EFTA-dómstóllinn sagt að frystiskyldan fari gegn EES-samningnum. Þetta álit fer nú til Héraðsdóms Reykjavíkur sem dæmir efnislega í málinu og þaðan eftir atvikum til Hæstaréttar.  
Við innleiðingu á matvælalöggjöf Evrópusambandsins, beittu Bændasamtök Íslands sér fyrir því að löggjöfin yrði þannig úr garði gerð að staðinn yrði vörður um sérstöðu Íslands varðandi heilbrigði búfjár og lýðheilsu. Samtökin skiluðu viðamikilli umsögn um málið þegar það kom fyrst fyrir Alþingi vorið 2008. Það var ítarlega fjallað um málið bæði frá lagalegu og dýrasjúkdómafræðilegu sjónarhorni. Umsögnin innihélt meðal annars álitsgerðir frá Lagastofnun Háskóla Íslands og sérfræðinga á sviði dýrasjúkdóma, þar með talið dr. Margrétar Guðnadóttur sem er einn þekktasti veirufræðingur landsins. Þeir sem vilja glöggva sig á umsögninni geta gert það á slóðinni: bondi.is/pages/23/newsid/395 
Verjum landbúnað og lýðheilsu
 
Í umsögninni var þess meðal annars krafist að beitt yrði til hins ýtrasta þeim möguleikum sem EES-samningurinn og ESB-réttur gefa til þess að verja okkar landbúnað og lýðheilsu. Sérstaklega er bent á nauðsyn þess að fjalla um vilja stjórnvalda til að beita 13. gr. EES-samningsins í greinargerð, en þar er ákvæði þar sem að aðildarríkin hafa svigrúm til sérstakra aðgerða til að vernda heilsu manna og dýra. 
Niðurstaða löggjafans var í stuttu máli sú að binda í lög áframhaldandi bann við innflutningi á hráu kjöti og fleiri hráum dýraafurðum, þegar frumvarpið hlaut endanlega afgreiðslu í desember 2009 með lögum nr. 143/2009.
 
Rökin eru skýr
 
Síðla árs 2011 sendu Samtök verslunar og þjónustu kvörtun yfir þessu banni til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Hefur það mál fyrst verið til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum gagnvart ESA og svo síðar gagnvart EFTA-dómstólnum eftir að ESA vísaði málinu til meðferðar þar. Í viðamiklu svarbréfi til ESA frá 20. febrúar 2013, kafla 4.3.2, eru sjónarmið Íslands fyrir nauðsyn banns við innflutningi á ófrosnu og hráu kjöti rakin og eru samhljóma rökum Bændasamtaka Íslands í öllum megin atriðum.
 
Einangrun búfjárkynja og þar með lág mótefnastaða gegn sjúkdómum, jafnvel sjúkdómum sem valda litlum eða engum einkennum í öðrum búfjárkynjum.
 
Verjast alvarlegum búfjársjúkdómum sem aldrei hafa greinst hér á landi
 
Hætta á að alvarleg skörð verði höggvin í íslensku búfjárkynin og þar með verði líffræðilegum fjölbreytileika ógnað sem og þeim menningararfi sem felst í íslensku búfjárkynjunum
Verndun lýðheilsu en strangar reglur gilda hér á landi um aðgerðir gegn sjúkdómum sem geta borist með matvælum s.s. salmonellu og kamfýlóbakter sýkingum.
 
Fæðuöryggi Íslands geti verið ógnað
 
Ógn við lýðheilsu vegna þess að sýklalyfjaþolnar bakteríur geti borist hingað til lands.
Mál ESA gegn íslenskum stjórnvöldum er enn til meðferðar og er aðskilið frá því máli sem rekið er fyrir dómstólum hérlendis.
 
Ekki virðist vera hlustað á vísindaleg rök í þessu máli, að minnsta kosti ekki ef þau rekast á viðskiptahagsmuni. Margoft hefur verið bent á að eitt af þeim fjölmörgu atriðum sem eru sérstaða íslensks landbúnaðar er að hér er sýklalyfjanotkun í algeru lágmarki. Þar sem notkunin er mest er hún mörgum tugum sinnum meiri en hér.  
 
Sýklalyfjaónæmi er mikil ógn
 
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Evrópu­sambandið og Smitvarnamiðstöð Bandaríkjanna hafa lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein mesta ógnin við lýðheilsu í heiminum í dag. Þrátt fyrir það eru sýklalyf víða notuð sem vaxtarhvati í landbúnaði og fram eru komnar ofurbakteríur sem geta borist í menn og eru ónæmar fyrir öllum sýklalyfjum sem eru á markaði í dag.
 
Ýmsir hafa vakið athygli á þessari stöðu hér heima, auk bænda, ekki síst Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við Háskóla Íslands.  Í samtali við Bændablaðið fyrir skömmu sagði hann meðal annars:
„Ónæmar bakteríur geta hæglega borist til landsins með innfluttum matvælum og líkurnar eru meiri sé um að ræða kjöt frá verksmiðjubúum þar sem notuð eru sýklalyf til að örva vaxtarhraðann eða grænmeti sem vökvað eða skolað er með bakteríusmituðu vatni. Sýklalyfjaónæmi í búfé er nánast óþekkt hér á landi og við ættum því að reyna að koma í veg fyrir að fjölónæmar bakteríur berist til landsins í lengstu lög. Komi slík tilfelli upp getur reynst erfitt að losna við þau aftur.“
 
Andstæðingar takmarkana á innflutningi gera gjarnan lítið úr þessum staðreyndum og spyrja af hverju séu ekki allir dauðir sem borða útlendan mat, eða hvort að við ættum ekki að banna farfugla eða annað álíka gáfulegt. Staðreyndin er vissulega sú að við getum alls ekki útilokað að hingað berist fjölónæmar bakteríur. En við vitum hins vegar að við erum að auka áhættuna með því að flytja inn hrátt kjöt. Við aukum hættu á sýkingum bæði í fólki og búfénaði. Er einhver ástæða til að tefla á tvær hættur þegar þess er ekki þörf?
Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...