Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Kirkjan í Möðrudal er glæsileg. Hún var byggð á árunum 1847-48 af Jóni A. Stefánssyni. Hann byggði hana í minningu konu sinnar, Þórunnar Vilhjálmsdóttur Oddsen.
Kirkjan í Möðrudal er glæsileg. Hún var byggð á árunum 1847-48 af Jóni A. Stefánssyni. Hann byggði hana í minningu konu sinnar, Þórunnar Vilhjálmsdóttur Oddsen.
Mynd / Úr einkasafni
Líf og starf 20. ágúst 2018

Kyrrð og ró í faðmi fjalla

Höfundur: Bjarni Rúnars
Þar sem ekkert blasir við nema hálendið endalausa birtist skynd­ilega vel merktur afleggjari. Hann vísar heim að Möðrudal á Fjöllum sem skipar stóran sess í byggðarsögu Íslendinga, en þar hefur verið búið allt frá landnámi. Bærinn stendur við þröskuld hálendisins og því er stutt að fara inn á hálendið og komast í tæri við náttúruperlur eins og Herðubreið og Herðu­breiðarlindir, Kverkfjöll og Öskju. Fjallasýnin sem mætir manni á hlaðinu er með ólíkindum og glottandi hundarnir bjóða mann velkominn.
 
Hundarnir á hlaðinu taka blíðlega á móti gestum. 
 
Áralöng saga Möðrudals
 
Búskapur á jörðinni á sér jafnlanga sögu og íslensk byggðasaga, en fyrir um 10 árum síðan fundu fornleifafræðingar gröf á jörðinni frá árinu 964. Það bendir til þess að búskapur hafi hafist ennþá fyrr á Möðrudal en áður var talið.
Bærinn hefur verið hluti af ferðaleiðum fólks á milli landshorna og skipað mikilvægan sess í samgöngukerfi landans í gegnum aldirnar. Ferðalangar áðu gjarnan á Möðrudal, enda einn af fáum áningastöðum í boði á þessum slóðum lengi vel. Búskapurinn hefur tekið talsverðum breytingum með árunum, sér í lagi í seinni tíð. Sú ætt sem nú býr á staðnum tók við búskap árið 1874 og hefur því búið á staðnum í tæp 150 ár. Núverandi ábúendur eru Elísabet Svava Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Vernharðsson. Vilhjálmur er ættaður frá Möðrudal en Elísabet Svava á ættir sínar að rekja til Grundarfjarðar þar sem hún er uppalin.
 
Gestir eru áhugasamir um refinn og lítill yrðlingur er vinsæll meðal ferðamanna.              
 
Gestirnir sækja í ró og frið
 
Vilhjálmur flutti austur á Möðrudal í kringum aldamótin. Hann stofnaði svo ferðaþjónustuna Fjalladýrð árið 2001 og gerði þá út á fjallaferðir, tjaldstæði og gistingu. Um svipað leyti var þjóðvegurinn færður úr hlaðinu á Möðrudal og Vilhjálmur tók þá við rekstri Fjallakaffis. Hann segist hafa tekið við gríðarlega góðu búi af Ástu Sigurðardóttur sem hafi byggt upp gott orðspor. Árið 2004 flutti svo Elísabet í Möðrudal og þá hafa þau byggt upp ferðaþjónustu og bú síðan þá. Hann segir að margir séu agndofa yfir þeirri ákvörðun þeirra að búa í slíkri einangrunarvist og byggja upp víðs fjarri annarri byggð. Þá segir hann að margir telji að þau séu að þiggja ríkisstyrki fyrir að búa á Möðrudal, en svo sé vitaskuld ekki. Hins vegar séu erlendir gestir heillaðir af slíku víðerni og frelsi sem fylgir því. Þeir séu oft búsettir á mjög þéttbýlum svæðum og leiti í kyrrðina og friðinn sem fylgir því að vera staddir á hæsta byggða bóli landsins, í 469 metra hæð, þar sem fólk gæti kúplað sig algjörlega út úr róti stórborga og notið náttúrunnar í friði og ró. Elísabet segir marga ferðamenn sækja í hreina náttúru og matvæli sem séu ræktuð og framleidd á staðnum.
 
Matseðill Fjallakaffis er sniðinn að framleiðslu bæjarins.                                                    
 
Gera út á hreinleikann
 
Sjálfbærnin er í fyrirrúmi hjá ábúendum á Möðrudal, en þau hafa ekki lagt lambakjöt inn í afurðastöð undanfarin ár, heldur nýta afurðirnar allar heima á bænum með beinni sölu til ferðamanna á veitingastaðnum. Hlutur ferðaþjónustunnar hefur aukist undanfarin ár, en sauð- og geitfjárbúskapurinn, ásamt kjötvinnslunni, er órjúfanlegur hluti af starfseminni.  
Matseðill Fjallakaffis er sniðinn að framleiðslu bæjarins með það að leiðarljósi að vera sjálfbær og bjóða aðeins upp á matvæli af bænum, lamba­kjöt, hreindýr, geitakjöt, bleikju, gæs og fjallagrös meðal annars.
Kjötið er svo unnið í kjötvinnslu sem er heima á bænum og reykt í reykofni bæjarins. Vilhjálmur segist auka verðmæti afurða til mikilla muna með því að selja þær beint frekar en að leggja þær inn í afurðastöð. „Við værum ekki í búskap öðruvísi en að gera þetta svona,“ segir hann.
 
Refurinn er gæfur og færir sig upp á skaftið þegar forvitnir ferða- og blaðamenn munda myndavélarnar. 
 
Uppbygging í ferðaþjónustunni
 
Þau Elísabet og Vilhjálmur hafa byggt upp ferðaþjónustu með miklum glæsibrag, og hráefnið er fengið úr nærsamfélaginu því lerki úr Hallormsstaðaskógi sést bókstaflega upp um alla veggi. Vilhjálmur er smiður og hefur aflað sér þekkingar í grjóthleðslu og torfhleðslu og fengist við húsgagnasmíði sem er notuð í ferðaþjónustunni. Nýjasta viðbótin var tekin í notkun fyrir örfáum dögum, en það er upplýsingaskáli fyrir ferðafólk þar sem hægt er að sjá myndband sem gert var sérstaklega í tengslum við eldgosið í Holuhrauni. Í skálanum er einnig ullargallerí og upplýsingar fyrir ferðafólk. Allar byggingar sem tengjast ferðaþjónustunni eru byggðar í sama stíl í anda burstabæjanna. 
Í kjölfar bruna í fjárhúsum bæjarins árið 2003 voru reist ný fjárhús þá um haustið. Sá bruni er Vilhjálmi í fersku minni.
„Þetta var í lok sauðburðar, ég fór inn að sofa um eittleytið. Þá var allt með kyrrum kjörum. Svo þegar ég kom út um klukkan sex var allt brunnið til kaldra kola. Sem betur fer voru langflestar kindur komnar út.“ 
 
Elísabet Svava Kristjánsdóttir og Vilhjálmur Vernharðsson, bændur á Möðrudal, innan um geiturnar.                                                                                                                 Mynd / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
 
Breytingar á ferðamannahópnum
 
Undanfarið hefur verið ritað og rætt um breytingar innan ferðaþjónustunnar hvað varðar fjölda og samsetningu ferðamanna. Ferðamálastofa gaf nýverið út nýja skýrslu sem sýnir fækkun meðal Evrópubúa en fjölgun meðal Bandaríkjamanna og Asíu. Vilhjálmur segist finna fyrir þessum breytingum en ekki fyrir fækkun.
„Það er greinileg fækkun úr Evrópu, en á móti kemur að það er að fjölga talsvert frá Ástralíu, Ameríku og Kanada. Einhverra hluta vegna eru okkar gestir mikið þaðan. Ég veit alveg að það er ekki bjart yfir hótelum sem hafa einblínt á Evrópumarkað, en þetta er bara þróun.“
 
Á Möðrudal hefur verið byggð upp ferðaþjónusta með miklum glæsibrag. Efniviður í byggingum er fenginn úr nærsamfélaginu því lerki úr Hallormsstaðaskógi sést bókstaflega upp um alla veggi. 
 
Heimavirkjanir vannýtt auðlind til sveita
 
Skammt frá bænum er 76 kW heimavirkjun sem sér bænum alfarið fyrir rafmagni. Hún leysti af hólmi gamla dísilrafstöð sem hafði séð bænum fyrir rafmagni til margra ára. Vilhjálmur segir að eftir að húsunum fjölgaði þurfi aðeins að miðla orkunni svo að hún dugi, en hún sleppi enn sem komið er.
Hann segir jafnframt að það séu víða tækifæri til sveita að koma á koppinn heimavirkjun. Fallið þurfi ekki endilega að vera svo mikið svo að hægt sé að nýta krafta náttúrunnar til raforkuframleiðslu. Það séu miklir möguleikar víða til að leysa raforkuskort með heimavirkjun.
Elísabet segir að tilkoma virkjunarinnar hafi verið mikil framför, áður fyrr hafi þau þurft að slá inn dísilrafstöðinni oft á dag. Þá hafi raftæki og tölvur skemmst af óstöðugu rafmagni og sífelldum útslætti.
Vegna þess hve afskekktur Möðrudalur er töldu yfirvöld á þeim tíma ekki mögulegt að afhenda ábúendum á Möðrudal rafmagn nema fyrir íbúðarhús og fjárhús, en lagning raflínu hefur þótt of dýr. Allt umfram það þyrftu þau að útvega sjálf. Því hafi þau leitað leiða til að framleiða rafmagnið sjálf og reist stíflu sem framkallar 11 metra fall og heimavirkjun.
 
Skammt frá bænum er 76 kW heimavirkjun sem sér bændunum alfarið fyrir rafmagni.        
 
Tilheyrði Skálholti, ekki Hólum
 
Jón A. Stefánsson byggði kirkju á Möðrudal á árunum 1947-48 í minningu konu sinnar, Þórunnar Vilhjálmsdóttur Oddsen, sem lést árið 1944. Jón málaði altaristöfluna sem þykir sérstök en þar sést Jesú flytja fjallræðuna. Jörðin hefur lengi verið kirkjustaður og  sennilega hafa flestar staðið á svipuðum stað og nú, því beinagrindur hafa fundist þegar grafa hefur þurft á svæðinu umhverfis kirkjuna, en ekki annars staðar. Allt frá kristnitökunni árið 1000 var Möðrudalskirkja undir Skálholtsumdæmi en ekki Hólum. Sennilega hefur Möðrudalur talist á Austurlandi, en ekki Norðurlandi. Raunar segir í bók Pjeturs Hafsteins Lárussonar, „Fjallakúnstner segir frá“, að sá misskilningur að Möðrudalur sé á Norðurlandi sé alrangur og ítrekað að staðurinn tilheyri Austurlandi. Bókin er samansafn frásagna Stefáns frá Möðrudal.

Búskapurinn í Möðrudal hefur tekið talsverðum breytingum með árunum, sér í lagi í seinni tíð. Sú ætt sem nú býr á staðnum tók við búskap árið 1870 og hefur því búið á staðnum í tæp 150 ár. Ferðaþjónusta hefur leyst sauðfjárbúskapinn af hólmi sem aðalbúgrein á bænum, en veitingaþjónusta hefur verið rekin á Möðrudal síðan 1976. Myndir / Bjarni Rúnarsson

17 myndir:

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...