Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga.
Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga.
Mynd / MÞÞ
Fréttir 24. janúar 2022

Kostnaður við að fjölga neyðarstöðvum í Vaðlaheiðargöngum yfir 10 milljónir króna

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir

Kostnaður við að setja upp nýjar neyðarstöðvar í Vaðlaheiða­r­göng­um nemur 10 til 15 millj­­ónum króna. Í reglugerð um öryggis­kröfur fyrir jarðgöng frá því 2021 er gerð krafa um að 150 metrar séu á milli neyðarstöðva í jarðgöngum. Undantekningar eru hvað varðar jarðgöng sem fyrir eru og í jarðgöngum utan samevrópska vegakerfisins sem tekin voru í notkun frá maí 2006 fram að ársbyrjun í fyrra og eru með neyðarstöðvar með ekki meira bili en 250 metrum og að í þeim sé farsímasamband.

Reglugerðin sem um ræðir byggir á Evrópusambandsreglugerð en Samgöngustofa hefur eftirlit með því að reglugerðinni sé framfylgt.

Unnið hefur verið að því undanfarnar vikur að fjölga neyðar­stöðvum í Vaðlaheiðargöngum til að unnt sé að uppfylla kröfurnar. Alls verða 60 neyðarstöðvar í göngunum eftir að framkvæmdum við uppsetningu viðbótarstöðvanna lýkur í febrúar. Í hverri neyðarstöð er beintengdur sími til Neyðarlínunnar og tvö slökkvitæki. Símarnir verða því 60 talsins og slökkvitækin 120.

Unnið hefur verið við það síðustu vikur að koma upp fleiri neyðarstöðvum í Vaðlaheiðargöngum, alls verða 60 símar til taks í gögnunum en hér er verið að setja þá saman.

Algengara að grípa til eigin síma

Valgeir Bergmann, framkvæmda­stjóri Vaðlaheiðarganga, segir fuðulegt að ekki sé gerð krafa um að í öllum jarðgöngum sé GSM samband, sama hvort þau séu ný eða gömul, né heldur almennt í öllu vegakerfinu. Fjölgun neyðarsíma í göngunum sé gott dæmi um óþarfa peningaeyðslu. Fjarskiptasamband fyrir GSM síma sé í öllum göngunum. Algengara og eðlilegra sé að fólk grípi til eigin síma til að hringja inn til Neyðarlínu komi upp neyðartilfelli heldur en að hlaupa að næsta síma með snúru. Bendir hann á að við suma vegakafla á Íslandi sé á sama tíma ekki hægt að hringja vegna sambandsleysis, sumir þeirra teljist jafnvel til hættulegustu vega á Íslandi, m.a. við Ísafjarðardjúpið. „Á þeim slóðum er ekki einu sinni verið að koma upp sambærilegum neyðarstöðvum og í göngunum, þar sem til dæmis væri NMT sími eða gervihnattasími á standi sem hægt væri að nota í neyð, en slíkt þekkist víða erlendis,“ segir hann.

Aldrei verið notaðir til að tilkynna um neyðarástand

Eftir að búið er að bæta neyðar­stöðvum við í göngunum verða 125 metrar á milli þeirra, en var áður um 250 metrar. „Þetta verkefni hefur unnist vel og við gerum ráð fyrir að búið verði að tengja alla síma við rafmagn í febrúar,“ segir hann en einnig þarf að setja upp skilti ofan við neyðarsímana. GSM-símsamband er alls staðar í Vaðlaheiðargöngum að sögn Valgeirs. „Í þau þrjú ár sem göngin hafa verið opin fyrir almennri umferð hafa neyðarsímarnir aldrei, mér vitanlega, verið notaðir til að hringja inn neyðarástand til Neyðarlínunnar. Erlendir ferðamenn hafa í nokkur skipti tekið upp tólið og hringt úr þessum símum til Neyðarlínunnar til að spyrja hvar eigi að borga vegtollinn, en neyðarsímaklefar í útskotum og utan ganganna minna svolítið á rauðu bresku símaklefana,“ segir hann.

Vinna við Almannaskarðsgöng hefst í vetur eða vor
Neyðarstöðvar í Vaðlaheiðargöngum verða með 125 metra millibili eftir að verkefni við fjölgun þeirra lýkur í febrúar.

G. Pétur Matthíasson, upplýsinga­fulltrúi Vegagerðarinnar, segir að einungs þurfi að bregðast við vegna fjölgunar neyðarstöðva í Almannaskarðsgöngum. Þar er millibil milli neyðarstöðva um 340 metrar, en má mest vera 250 metrar. Einnig þurfi að skipta út í þeim göngum núverandi neyðarsímum og neyðarsímaskápum því þeir séu úreltir. „Það er búið að kaupa síma og símaskápa en eftir er að setja þá upp og þá þarf einnig að leggja ljósleiðara að göngunum,“ segir hann. Fyrirhugað er að fara í þetta verkefni í vetur eða vor.

Pétur segir að önnur göng Vegagerðarinnar uppfylli kröfur um bil milli neyðarstöðva. Einungis er gerð krafa um 150 metra millibil milli stöðva í nýjum göngum en þegar verið er að uppfæra eldri göng má bilið vera 250 metrar. Hann bendir á að farsímanotkun sé mjög almenn og því hafi uppsetning GSM-sambands verið talið mikilvægara en uppsetning neyðarsíma í jarðgöngum, enda væru þeir lítið ef nokkuð notaðir.

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...