Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Garðyrkja, ræktun
Garðyrkja, ræktun
Á faglegum nótum 29. maí 2015

Kerguelen – kál, kindur og kanínur

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Á sunnanverðu Indlandshafi, hérumbil við 49° suðlægrar breiddar og um 70° austlægrar lengdar, liggur eyjaklasi sem um margt minnir á Ísland. Þar eru eldfjöll, jöklar, hverir og háhitasvæði. Landið er jökulnúið og sæskorið. Þverhnípt björg og gígtappar upp úr sjó en inn á milli ávalir ásar og lygnir firðir og víkur með malarkömbum.

Landið liggur eiginlega í hvirfil austur frá heitum iðustrók úr iðrum jarðar og heldur eyjunum uppi. Ef við berum staðsetninguna saman við staðsetningu eylanda í Atlantshafi má segja að Nýfundnaland sé um það bil á sambærilegum stað hvað pólfjarlægðina varðar. Stíf vestanátt ræður veðri og sjaldan er logn. Hitafarið er álíka og í Færeyjum. Snjór sest í fjöll yfir vetrarmánuðina. Og hæsta fjall eyjanna, Cook-jökull, er hulið jökli.

Íslandsvinurinn

Eyjarnar eru kenndar við bretónskan fransmann, lávarð, landkönnuð og aðmírál, Yves Josep de Kerguelen Trémarec, sem reyndar hefur líka komið við Íslandssöguna. Sett var upp mikil sýning honum til heiðurs í Þjóðmenningarhúsinu sumarið 2014. Þar var fjallað um ferðir hans um Norðurhöf og tengsl hans við Ísland á árunum 1767 og 1768. En hér verður ekki minnst á þá tengingu meir. Heldur haldið beint til Suðurhafa. Þangað var hann sendur tvisvar sinnum í umboði Lúðvíks fimmtánda til að finna hið rómaða „Suðurland“ (sem nú er fundið og kallað Ástralía), og menn höfðu haft spurnir af síðan á dögum Forn-Grikkjans Aristótelesar. En engum Evrópumanni hafði á þessum tíma samt heppnast að finna.

Kerguelen fór tvisvar sinnum og leitaði og leitaði. Í fyrri ferðinni, árið 1773, kom hann auga á eyjarnar og hélt að þar væri „Suðurlandið“ komið í leitirnar. En ekki fór hann í land. Gat þess þó að þar hafi hann séð fólk og búpening á ströndinni. Og honum þótti landið allt hið búsældarlegasta, svona í fjarska að sjá. Eitthvað mun það hafa verið málum blandið og líklega um að kenna lélegum sjónaukum þess tíma. Því það sem hann sá munu hafa verið státnar mörgæsir og makindalegir sæfílar. Svo halda að minnsta kosti síðari rannsakendur.

En ári síðar kom hann aftur að eyjunum og sté á land hinn 6. janúar 1774 í vík, sem nú er kölluð Jólahöfn í Fuglaflóa, á norðvesturhorni aðaleyjarinnar. Brá honum þá í brún, því ekki bar mikið á búskap og landgæðum. Hvað þá mannfjölda. Engu að síður taldi hann sig hafa fundið það sem hann leitaði að og gert skyldu sína fyrir konung sinn. Með það hélt hann heim. En mun hafa verið nokkuð lengi á leiðinni.

Lólíta og hið ljúfa líf

Því þegar heim kom var Lúðvík kóngur fimmtándi dauður og stjórntaumarnir í franska sjóhernum höfðu verið endurnýjaðir. Það var nefnilega ekki milt á því tekið að Kerguelen hafði smyglað með sér hinni fjórtán ára gömlu Marie-Louise Seguin sem hann dulbjó sem þjón sinn. Og stúlkan hafði líka skapað honum drjúga ástæðu til að vera ekkert að flýta sér á heimleiðinni. Því valdi hann að eyða nokkrum góðum mánuðum í fjörugum félagsskap á eynni Madagaskar hjá vini sínum, ungverska greifanum og ævintýramanninum Maurice Benyovszky. Benyovszky þessi hafði tekið að sér að koma þar á fót franskri nýlendu. En heldur urðu sú áform endaslepp og aðferðafræðin alls ekki viðurkennd af hinum nýju valdhöfum. Benyovszky þessi var ekki við eina fjöl felldur. Nafni hans bregður fyrir í ýmsum formum og saga hans hefur verið sögð í mörgum bókum, skáldsögum og óperum. En ekki orð um hann meir hér.

Laun heimsins

Í ofanálag hafði James Cook komið við á Kerguelen-eyjunum eftir að leiðangur Kerguelens hafði verið þar. Cook mun hafa fest nafn Kerguelens við eyjarnar en gaf þeim jafnframt enska heitið „Desolation Islands“, þ.e. „Einstæðingseyjar“ eða „Öræfaeyjar“ eftir því hvaða skilningur er lagður í hugtakið, því honum þótti þær fremur ókræsilegur staður. Cook gerði góða lýsingu á eyjunum. Og sú lýsing hafði náð til Parísar á undan skýrslu Kerguelens sjálfs. Viðtökurnar sem Kerguelen hlaut við heimkonuna voru því ekkert blíðar. Hann var sakaður um að ljúga til um landgæðin og við það bættist „lólítuævintýri“ hans með telpunni Marie-Louise. Hið síðara tók víst alveg steininn úr. Fyrir vikið missti hann stöðu sína og starf. Hann var dæmdur í sex ára stofufangelsi sem hann afplánaði.

Marie-Louise mun hafa farið frá borði jafn hljóðlega og hún kom. Í réttarhöldunum sagðist Kerguelen hafa greitt henni 300 lífra lífeyri og boðið henni að lifa í klaustri til æviloka. Hvort úr því varð, eru fáar fréttir. En Kerguelen náði sér á strik eftir þetta. Komst aftur til metorða og var meðal annars í samskiptum við hinn bandaríska Benjamín Franklín. Hann lést í París 1797, sextíu og þriggja ára gamall.

Lífríkið

Lífríki Kerguelen-eyja er ekki mjög fjölskrúðugt. Engin landspendýr eru þar upprunaleg. En á upphafsárum norskra hvalveiðimanna á eyjunum fluttu þeir með sér hreindýr til eyjanna. Sá stofn kom af sama svæði og íslensku hreindýrin. Hann er nú talinn vera um 4000 dýr. Hreindýrin synda á milli eyja og virðast hafa nóg að bíta og brenna á þeim ríkulega fléttu- og mosagróðri sem er í fjallendinu. Kanínur voru fluttar í tvígang inn frá Suður-Afríku á síðustu árum nítjándu aldar til að sjá sjómönnum fyrir fersku kjöti.

Stofn af hinu franska og nú næstum horfna Bizet-sauðfé var fluttur inn frá Frakklandi. Féð gengur um villt á einni af stærri eyjunum en tímgast fremur illa. Stofninn hefur ekki aðlagast árstíðum á Suðurhveli, svo að ærnar bera áfram í mars og apríl. Það er að hausti til á Kerguelen. Lömbin eiga því erfitt með að komast á legg. Fjallafé, mútonfé, frá Korsíku var flutt til Haute-eyjar 1959. En því var öllu eytt árið 2012 af umhverfisástæðum. Kanínurnar og sauðféð hafa gjörbreytt gróðurfari á þeim svæðum sem dýrin ná til. Rottur og villikettir gera talsverðan usla í fuglalífi þeirra eyja þar sem áður voru verstöðvar hvalfangara og fiskveiðimanna.

Krían kemur við

Fuglalíf er talsvert. Stórir flotar pipunefja, alabatrosa og mörgæsa verpa á eyjunum. En samt hefur fækkað í fuglabyggðunum þar sem kanínur, sauðfé og hreindýr hafa breytt gróðurlaginu. Líflegar kerguelenkríur eiga þar varpstað og fleiri kríutegundir hafa þar viðdöl á leið sinni milli pólanna. Meðal annars okkar íslenska kría.
Sjávarspendýr eru nokkur við eyjarnar, selir og sæljón eiga þar látur. Útifyrir er mikil hvalagengd og auðug fiskimið. Ekki er lengur sjávarútgerð af neinu tagi frá Kerguelen. Mannvist þar byggir fyrst og fremst á vísindaiðkun. Þar er föst byggð 80-120 vísindamanna sem rannsaka jarðfræði, veðurfræði og vistfræði eyjanna. Eins var þar starfrækt geimvísindastöð með viðeigandi eldflaugaskotpöllum þar til fyrir nokkrum árum.

Vísindaþorpið er kallað Port aux Français og er við Morbihanflóa á austurströnd aðaleyjarinnar. Engir flugvellir eru á eyjunum. En þar hafa skip viðkomu nokkrum sinnum á ári með fólk, póst og vistir.

Fjaðrandi þekjuplöntur

Gróðurríki Kergueleneyja er ekki fjölbreytilegt. Land ofan við fimmtíu metra frá sjávarborði er mjög gróðursnauð túndra með fléttugróðri og mosum. En á lægri svæðum eru nokkrar grastegundir og tvíkímblöðungar. Trjágróður er engin. Sá grasgróður sem þarna vex myndar sjaldan samfelldar spildur. Heldur toppa og flekki hér og hvar þar sem yfirborðið er nægilegar rakt. Sá gróður sem einna mest ber á á láglendinu eru plöntur sem við könnumst nokkuð vel við úr görðunum okkar og eru af ættkvíslinni Acaena. Þær hafa verið kallaðar þyrnihnetulauf, rósalauf og fleiri slíkum nöfnum og ræktaðar sem sígrænar beðaþekjur og steinhæðajurtir hér. Ættkvíslin er mjög algeng í Suðurhöfum og hefur lag á að dreifa sér með fuglum eyja og landa á milli. Á fræjunum eru örfínar klær sem geta fest sig í fiður fuglanna.

Þar sem plönturnar fá að vaxa ótruflaðar af grasbítum mynda þær þétt og þykk stóð sem geta myndað þétta, fjaðrandi þekju allt að í tveggja metra hæð. Í þessum gróðri þrífast vel þeir sjófuglar sem vilja hafa hreiður sín í holum. Eftir að grasbítar fluttust til eyjanna hefur þetta þyrnihnetulaufastóð mjög látið á sjá.

Krásjurt með framtíð

Það á líka við um stolt eyjanna, kergúelen-kálið. Vísindaheiti þess er Pringlea antiscorbutica. Ættkvíslarheitið er því gefið til heiðurs Jóni Pringle sem var forseti Konunglega Breska Vísindafélagsins um það leyti sem James Cook kom til eyjanna og gerði sína vísindalegu úttekt á þeim. Viðurnefnið bendir til að plantan sé góð gegn skyrbjúg. Kerguelenkálið er stórvaxin planta af krossblómaætt. Ungar plöntur minna dálítið á hvítkál. En plönturnar eru fjölærar, sígrænar og ná að vaxa upp úr þyrnihnetulaufaþekjunum. Blöðin eru matarmikil, með mildu piparrótarbragði. Þau eru dálítið hærð og ólystug ómatreidd. Vöxturinn er hægur og viðkoman lítil við þau miskunarlausu skilyrði sem tegundinni hafa verið úthlutuð í náttúrunni. Blómin eru í þéttu og sveru axi. Frjóvgunin er tvenns konar. Fyrst og fremst með flugutegund sem sérhæfð er til að fást við verkefnið. En ef flugurnar bregðast, grípur plantan til sjálfsfrjóvgunar.

Eftir að beitardýrin komu til sögunnar á kerguelenkálið mjög í vök að verjast. Þar sem kanínurnar eru, hefur það næstum horfið og á sauðfjársvæðinu er það algjörlega á bak og burt. Á síðari árum hafa Ástralir lagt sig fram um að rækta kerguelenkál til manneldis. Velja úr og bæta. Það er auðvelt í ræktun í kældum gróðurhúsum, gjarna í vatnsrækt eins og Lambhagasalatið. En einnig þar sem land er hálent og svalt. Þessi tilraunastarfsemi hefur spurst út, svo að nú þegar er að myndast nokkur eftirspurn á ástralska heimamarkaðinum. Kerguelenkálið þykir nefnilega passa einkar vel við sjávarétti úr „nýja ástralska eldhúsinu“.

Og hjá þeim sem til þekkja, þykir það taka fram hinu japanska „wasabi“ í því samhengi. Kannski er hér komin tegund sem hentar í íslenska krásjurtarækt og á framtíð fyrir sér í vaxandi veitingahúsarekstri íslenskra ferðaþjónustubýla.
 

Nýir liðsmenn Bændablaðsins
Fréttir 21. júní 2024

Nýir liðsmenn Bændablaðsins

Lesendur hafa kannski tekið eftir nýjum efnisþáttum í blaðinu í vor. Hugarleikfi...

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun
Fréttir 21. júní 2024

Opnað fyrir milljarða króna fjármögnun

Lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi fá aðgengi að 3,2 milljarða króna fjármög...

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...