Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Kartöflur – besti hlutinn er neðanjarðar
Fréttir 30. apríl 2015

Kartöflur – besti hlutinn er neðanjarðar

Höfundur: Vilmundur Hansen

Kartöflur eru fjórða mest nýtta planta í heimi og sú af helstu nytjaplöntum veraldar sem Íslendingar þekkja best. Þær eru mest nýttu plöntur í veröldinni sem ekki eru korntegund. Heimsframleiðsla á kartöflum árið 2013 var um 370 milljón tonn og mun það magn aukast jafnt og þétt í framtíðinni. Kartöflur voru fyrst ræktaðar á Íslandi árið 1758.

Árið 2013 nam heimsframleiðsla á kartöflum um 370 milljón tonnum. Kínverjar eru atkvæðamestir í ræktun á þeim og það ár nam framleiðslan þar 89 milljón tonnum. Indverjar eru næst stærstu framleiðendurnir en einungis hálfdrættingar á við Kínverja með 45 milljón tonn, Rússar framleiddu 30 milljón tonn, Úkraína 22,3 og Bandaríkin tæp 20 milljón tonn. Til samanburðar ræktuðu Íslendingar 6 þúsund tonn af kartöflum árið 2013 samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofunnar. Asíubúar borða um 50% af öllum kartöflum sem ræktaðar eru í heiminum.

Miðað við að íbúar í Kína séu 1,4 milljarðar rækta þeir að meðaltali 64 kíló af kartöflum á mann en Íslendingar um 18 kíló á mann.

Viðskipti með ferskar kartöflur á heimsvísu eru ekki nema um 5% framleiðslunnar, aftur á móti eru viðskipti með afurðir unnum úr kartöflum, til dæmis franskar kartöflur og vodka, talsverð milli landa.

2/3 heimsframleiðslunnar til manneldis

Kartöflur eru 78% vatn, 18% kolvetni sem er að mestu sterkja, um 2% sykur og 0,1% fita. Hægt er að fá daglegan próteinskammt úr kartöflum ef borðað er nóg af þeim. Í kartöflum er líka C-vítamín en það er óstöðugt og brotnar niður við suðu. Næringargildi kartöflunnar er mest næst ysta laginu og er því allt of oft flysjað burt.

Kartöflur eru af náttskuggaætt og sýnir ættrækni sína í því að jurtin er öll eitruð að hnýðinu undanskildu. Hnýði sem vaxa nálægt yfirborðinu eru oft græn á litinn og eitruð, en eitrið hverfur við suðu. Til eru dæmi þess að búfé hafi drepist hafi það étið kartöflugrös.

Jurtin er fjölær og geta stönglar hennar náð 1,5 metra hæð. Blöðin fjöðruð, tennt og eilítið loðin, blómin með fimm krónublöðum, fölbleik eða hvít á litinn, berin sem myndast að lokinni blómgun eru græn og ekki ósvipu óþroskuðum tómötum enda jurtirnar skyldar. Fræi kartaflna er yfirleitt ekki sáð nema til að fá fram nýja stofna í kynbótaskyni. Kartaflan sjálf er rótarhnýði og forðabúr plöntunnar sem myndast við endann á neðanjarðarrenglum.

Kartöfluafbrigði í ræktun skipta þúsundum og mjög ólík að stærð, lögun og lit. Þyngsta kartafla sem mælst hefur vó rúm 11 kíló og óx í Líbanon.

Um 2/3 af heimsframleiðslunni á kartöflum fer til manneldis en restin í dýrafóður og aðra framleiðslu. Sterkja úr kartöflum er til dæmis notuð til að framleiða léreft og til pappírsgerðar. Einnig er bruggaður vínandi úr kartöflum sem svo aftur er notaður til víngerðar og gúmmíframleiðslu. Kartöflur hafa líka verið notaðar sem kítti, þá eru þær flysjaðar hráar, marðar í mortél og blandaðar köldu vatni, kíttið þykir einnig gott smyrsl á brunasár og blöðrur.

Uppruni kartöflunnar

Kartöflur rekja uppruna sinn til Andesfjalla í Suður-Ameríku. Villtar kartöflur hafa verið mikilvægar sem fæða allt frá því að menn byrjuðu að neyta þeirra fyrir 7 til 10 öldum síðan. Kartöflur voru fyrst ræktaðar hátt til fjalla, þar sem þær hafa aðlagast köldum vaxtarskilyrðum og kann það að vera skýringin á því hversu vel þær hafa aðlagast veðurfari á norðurslóðum.

Fræ hafa löngum skipað æðri sess og þótt merkilegri fæða en rætur og hnýði. Það eins og margt annað stafar af hreinum hagkvæmnisástæðum eins og þeirri að auðveldara er að geyma fræ. Indíánarnir í Andesfjöllum komust aftur á móti snemma upp á lagið með að þurrka kartöflur þannig að hægt var að geyma þær í langan tíma. Svipaðar aðferðir eru notaðar enn í dag í Perú og Bólivíu. Kartöflunum er dreift á jörðina og þær látnar frjósa yfir nótt. Indíánarnir koma í veg fyrir frostskemmdir með því að traðka á kartöflunum berfættir og merja þannig allt vatn úr þeim. Eftir það má geyma kartöflurnar í langan tíma, ekki ósvipað og kartöfluflögur. Eftir að búið er að þurrka marninginn er hann næstum hrein sterkja og óvanir segja að hann bragðist eins og sag. Indíánarnir segja þurrkuðu kartöflurnar aftur á móti lostæti og nauðsynlegar með öllum mat. Máltíð án chu’o, sem er nafnið á kartöflunum eftir að búið er að þurrka þær, er eins og hjartað í kaldlyndum karli eða konu og sálarlaus matur.

Leiðin til Evrópu

Í fyrstu voru kartöflur aðallega ræktaðar upp til fjalla og líklegt að verslað hafi verið með þær við fólk sem bjó við ströndina og að þar hafi evrópskir landkönnuðir kynnst þeim fyrst.
Þegar Evrópubúar tóku stefnuna á Indland og römbuðu á S-Ameríku voru kartöflur ræktaðar í Chile, Perú og Kólumbíu en þær voru óþekktar í Mið- og Norður-Ameríku. Spánverjar, sem fyrstir Evrópubúa kynntust kartöflum héldu að þær væru skyldar trufflusveppnum sem er þekkt hnossgæti í Evrópu.

Ekki er vitað fyrir víst hver kom fyrstur með kartöflur til Evrópu en margt bendir til að það hafi verið annaðhvort verið Francis Drake eða Walter Raleigh.

Elsta skipulega kartöfluræktunin í Evrópu sem vitað er um var á Tenerífe á Kanaríeyjum enda eyjan algengur viðkomustaður spænskra og portúgalskra skipa á leiðinni til og frá Suður-Ameríku. Þaðan er til farmskrá frá 1567 sem nefnir heimaræktaðar kartöflur sem var verið að flytja til Antwerpen sem í dag er í Belgíu.

Telja má víst að Walter Raleigh hafi fyrstur manna flutt kartöflur til Írlands og ræktað þær á landareign sinni. Sagan segir að hann hafi vitað ansi lítið um plöntuna sem hann var að rækta og fyrst reynt að borða berin. Þegar hann uppgötvaði hversu eitruð berin eru, lét hann taka plönturnar upp og fyrirskipaði að þeim yrði hent. Sagt er að garðyrkjumennirnir sem fjarlægðu þær hafi uppgötvað gildi hnýðisins sem duldist neðanjarðar. Kartöflur áttu síðar eftir að verða undirstöðufæða fátæklinga á Írlandi og síðar reglulegur réttur á matseðli manna um allan heim.

Kartöflunördar eru ekki sammála um hvaðan í S-Ameríku kartöflurnar sem bárust fyrst til Evrópu hafi verið. Hafi þær komið frá Chile blómstra þær við langan dag, en komi þær frá svæðum við miðbaug blómstra þær við stuttan dag og óheppilegar til ræktunar í Evrópu. Þrátt fyrir þetta er líklegt að fyrstu kartöflurnar í Evrópu hafi komið frá svæðum við miðbaug og blómstrað við stuttan dag, en þróast vegna náttúruvals og grisjunar af manna völdum þar til að þær fóru að blómstra við langan dag. Á þeim tíma sem kartaflan flyst til Evrópu voru Evrópumenn ekki búnir að leggja undir sig Chile og styður það nokkuð þá kenningu að þær séu upprunnar frá svæði nálægt miðbaug eins og Kólumbíu eða Ekvador.

Með kartöflu í klofinu

Kartöflunnar er fyrst minnst á prenti árið 1596 af enskum grasalækni, John Gerard að nafni. Hann kallar þær „potatoe“ frá Virginíu en þekkingarskortur Gerard í landafræði átti eftir að valda óendanlegum misskilningi og deilum um uppruna kartöflunnar. Enska nafn kartöflunnar „potato“ er dregið af batata sem er nafn sem indíánar nota á alls óskylda jurt af belgjurtaætt. Orðið kartafla er upprunalega þýskt kartoffel og er líklega hingað komið frá Danmörku eins og svo margt annað gott. Á ítölsku nefnast þær tartufolo sem dregið er af tarufo, líklega vegna samlíkingarinnar við trufflusveppi. Frakkar nefna þær pomme de terre sem á íslensku útleggst jarðepli en það er gamalt íslenskt heiti.

Latneska heiti kartaflna er Solanum tuberosum L. og lýsir það nafn jurtinni vel. Solanum stendur fyrir ættkvíslina sem þær tilheyra og tuberosum þýðir hnýði, L stendur svo fyrir Linnaeus en það var sænski grasafræðingurinn Carl von Linné sem gaf henni þetta nafn. Linnae var í fyrst mótfallinn ræktun kartafla vegna ætternis hennar, hún tilheyrir náttskuggaættinni en plöntur af þeirri ætt eru yfirleitt eitraðar og voru á vissum tíma sögunnar taldar í beinum tengslum við Djöfulinn. Aðrar jurtir af náttskuggaætt eru til dæmis tómatar, piparjurt, eggaldin og tóbakshorn.

John Gerard fór aftur á móti mörgum fögrum orðum um ágæti kartöflunnar, hvort sem þeirra væri neytt með kjöti til ánægju, soðnar, borðaðar með olíu, ediki eða pipar, eða meðhöndlaðar á annan hátt af hæfum matreiðslumanni. Ekki voru samt allir sammála Gerard. Kartöflur voru ólíkar flestu því matarkyns sem Evrópubúar áttu að venjast, þetta voru hnýði sem ekki líktust neinum öðrum plöntum sem þekktust í álfunni. Þetta eitt hefur eflaust haft lítið að segja ef ekki hefði komið til að blóm kartöflugrasa eru eins og blóm gaddeplis sem er margrómuð galdrajurt. Ekki er ólíklegt að menn hafi litið svo á að bölvun náttskuggaættarinnar hafi hvílt á kartöflunni og til voru þeir sem héldu því fram að hún ylli sjúkdómum eins og holdsveiki.

Breskir hreintrúarmenn mótmæltu ræktun kartaflna á þeim forsendum að hennar væri hvergi getið í Biblíunni og því ekki ætluð til manneldis.

Annars staðar var reynt að fá alþýðuna til að borða kartöflur með ýmsu móti. Loðvík VI Frakklandskonungur og hirðmenn hans tóku upp þann sið að ganga með blóm af kartöflugrasi í hnappagatinu. Auk þess var farið að rækta kartöflur í görðum við alfaraleið og kvartað yfir því að þeim væri stolið og að í framtíðinni yrðu garðarnir vaktaðir. Fólk taldi því að hér hlyti að vera eitthvað dýrmætt ef konungur léti vakta garðana en vörðurinn var aðeins hafður á daginn og á nóttinni rændi fólkið kartöflum úr görðunum. Friðrik Vilhelm I konungur í Þýskalandi gekk svo langt til þess að fá þegna sína til að rækta kartöflur að hann hótaði að láta skera nefið af þeim bændum sem neituðu að setja þær niður.

Smám saman jukust vinsældir kartöflunnar, en þó mest þegar önnur uppskera brást. Kartöflur eru vel varðar neðanjarðar og eftir að hersveitir höfðu farið yfir akrana voru þær oft og tíðum eina fæðan sem eftir var.

Á sautjándu öld trúðu menn því að kartöflur ykju kyngetuna og læknuðu liðagigt, þá var til siðs að ganga með hráa kartöflu á sér. Karlmenn höfðu þær í buxnavasanum en konurnar áttu litla útsaumaða tösku undir kartöfluna sína eða þá að saumaður var sérstakur vasi á kjólana þeirra.

Kartöflur og fólksfjölgun

Á sinn hátt má segja að tilkoma kartaflna sé orsökin fyrir mikilli fólksfjölgun í Evrópu, ekki þó vegna áhrifa hennar á frjósemina, heldur fremur því hversu mörgum hún bjargaði frá hungurdauða. Árið 1841 eru íbúar Írlands um átta milljónir og fátækt gífurleg. Írar lifðu í orðsins fyllstu merkingu á kartöflum, það voru kartöflur í öll mál flesta daga ársins. Talið er að á þeim tíma hafi fátæklingarnir á Írlandi borðað um 4 til 5 kíló af kartöflum á dag. Írar voru svo háðir kartöfluneyslu að 1845 þegar kartöflumygla eyðilagði uppskeruna varð allsherjarhungursneyð. Í beinu framhaldi af því hófust svo fólksflutningar Íra til Ameríku og Ástralíu. Í dag líta Írar á kartöflur sem þjóðarfæðu sína.

Ottó von Bismark, fyrsti kanslari hins nýja Þýskalands, sagði að Þjóðverjum væru allir vegir færir, meðan þeir ættu kartöflur og fallbyssur.

Kartöflur og fóstureyðingar

Í Idaho-ríki í Bandaríkjunum kom upp á sínum tíma allsérstætt mál sem tengist kartöflum. Í ríkinu eru framleiddar ódýrustu kartöflurnar í Bandaríkjunum. Til stóð að samþykkja í ríkinu ströngustu fóstureyðingalög sem þekkjast og banna fóstureyðingar með öllu. En það kom babb í bátinn þegar National Organization for Women hóf áróðursherferð þar sem skorað var á fólk að kaupa ekki kartöflur frá Idaho ef lögin yrðu samþykkt. Mál þetta vakti mikla athygli þar sem talið var að það gæti lamað efnahag ríkisins ef fólk hætti að kaupa kartöflur þaðan.

Kartöflur á Íslandi

Kartöflur voru fyrst ræktaðar á Íslandi af sænska baróninum F. W. Hastfer. Baróninn seti þær niður á Bessastöðum á Álftanesi vorið 1758 og fékk þokkalega uppskeru.

Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, séra Guðlaugur Þorgeirsson í Görðum á Álftanesi og séra Jón Bjarnason á Ballará munu svo hafa reynt kartöflurækt árin 1759 og 1760. Björn hvatti menn mjög til að rækta kartöflur en það mun hafa gengið illa fyrstu árin. Kartöflurækt hófst ekki fyrir alvöru hér á landi fyrr en á árunum1807 til 1814, en þá var matarskortur í landinu og þá lærðu landsmenn að borða þær með bestu lyst.

Hér á landi eru ýmis íslensk afbrigði í ræktun, eins og til dæmis rauðar íslenskar. Talið er að ræktun þeirra hafi hafist hér á landi fyrir um 150 til 200 árum. Þær eru hnöttóttar með djúp augu og djúpan nafla. Hnýðið er rautt en kartaflan fölgul að innan með rauðum hring. Talið er að þessar kartöflur hafi komið hingað frá Danmörku. Ólafur Jónson tilraunarstjóri valdi úrval af rauðum íslensku til ræktunar og kallast þær Ólafsrauður.

Gullauga er gamalt norskt afbrigði sem farið var að rækta hér um miðja síðustu öld. Þær eru hnöttóttar með gult hnýði og gulan mjölva. Augun eru venjulega rauð.

Helga er afbrigði sem talið er að hafi myndast vegna stökkbreytingar á gullauga. Helgu svipar mjög til gullauga nema hvað hnýðið er rautt.

Til eru nokkur fleiri afbrigði sem bera íslensk nöfn og má þar nefna bleikrauðar íslenskar, Akraneskartöflur, Akureyrar­kartöflur, Helguhvammskartöflur, bláar kartöflur, akurblessun, jarðargull, stóri skoti, Blálandsdrottning, blálandskeisari og bláeygð. Fjöldi afbrigða sem hér hefur verið reyndur skiptir hundruðum bæði í skipulegum athugunum og sem einstaklingar hafa flutt inn og reynt sjálfir. Nöfn afbrigða sem einstaklingar hafa flutt inn eru mjög á reiki og hætta er á að sjúkdómar fylgi með. 

Kartöflurækt og kartöfluneysla er svo almenn á Íslandi í dag að segja má að Íslendingar borði kartöflur með öllum mat og mörgum finnst máltíðin fátækleg séu ekki kartöflur í boði.
Gamall enskur málsháttur segir að sá sem sífellt gortar sig af forfeðrum sínum sé eins og kartafla. Bestu hlutar hans eru neðanjarðar.

Skylt efni: Nytjajurtir | kar

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi
Fréttir 26. september 2023

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi

Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands vinna fjölbreyttar rannsóknir og tilraunaver...

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar
Fréttir 26. september 2023

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar

25 af 33 eyfirskum bændum sem spurðir voru, sögðu að þeir myndu myndu nýta sér k...

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...

Ágúst verður forstöðumaður
Fréttir 25. september 2023

Ágúst verður forstöðumaður

Ágúst Sigurðsson hefur verið skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stof...

Skeljungur kaupir Búvís
Fréttir 25. september 2023

Skeljungur kaupir Búvís

Samningar hafa tekist um kaup Skeljungs á öllu hlutafé í Búvís. Bæði fyrirtækin ...

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins
Fréttir 22. september 2023

Ævintýralegt ferðalag fjallkóngsins

Heimildamyndin Konungur fjallanna var frumsýnd 12. september í Bíóhúsinu á Selfo...

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi
Fréttir 22. september 2023

Sauðfjárafurðir af sjálfbæru beitilandi

Nú í haust verða íslenskar sauðfjárafurðir af vel grónu og sjálfbæru beitilandi ...

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum
Fréttir 21. september 2023

Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum

Laugardaginn 2. september var réttað í Ljárskógarétt í Dölum, rétt norðan Búðard...