Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Jarðhitaleit hefur staðið yfir við Djúpavog og nú eru boraðar rannsóknaborholur á svæðinu á vegum HEF veitna ehf
Jarðhitaleit hefur staðið yfir við Djúpavog og nú eru boraðar rannsóknaborholur á svæðinu á vegum HEF veitna ehf
Mynd / HEF veitur ehf
Fréttir 4. mars 2025

Jarðhitaleitin mjakast

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Ráðherra orkumála boðar aðgerðir vegna jarðhitaleitar. Stór hluti hitaveitna hefur verið í vanda vegna versnandi rekstrarskilyrða.

Í skýrslu sem Íslenskar orkurannsóknir (ISOR) unnu fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, og kynnt var í maí 2023, segir að tveir þriðju af hitaveitum á Íslandi eigi í vanda. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn um hvort gripið verði til aðgerða vegna vanda hitaveitna á næstunni, segir m.a.: „Ekki þótti ástæða til að grípa til sérstakra aðgerða af hálfu stjórnvalda í kjölfar skýrslunnar 2023 og það hefur ekki breyst, enda er gert ráð fyrir að veiturnar sjálfar tryggi að framboð af heitu vatni sé í samræmi við eftirspurn,“ segir í svarinu. Hitaveitur þær sem fjallað er um í skýrslu ÍSOR séu í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

Þá kemur fram að Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra muni innan skamms kynna næstu aðgerðir stjórnvalda vegna jarðhitaleitar en ekki gefinn ádráttur um í hverju þær muni felast.

Jarðhitaleit á rafhituðum svæðum

Í greiningu ISOR vorið 2023 kom fram að rekstrarskilyrði hitaveitnanna hefðu versnað mikið og verð til notenda þeirra hækkað talsvert. Helsta ástæða þess væri að Landsvirkjun hefði þurft að skerða afhendingu á raforku til kyntra veitna vegna orkuskorts og veiturnar því þurft að nota olíu í staðinn með tilheyrandi kostnaði og mengun.

Í svari ráðuneytisins segir að áhersla stjórnvalda að undanförnu hafi verið á jarðhitaleit á rafhituðum svæðum. „Árið 2023 var farið í þriggja ára jarðhitaleitarátak, sem lýkur á þessu ári (átakið var fyrir árin 2023- 2025). Alls var 450 m.kr. úthlutað í styrki til jarðhitaleitar á þessu tímabili, á grundvelli umsókna frá hitaveitum og/eða sveitarfélögum, með áherslu á stuðning við verkefni sem hafa það að markmiði að hefja nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar,“ segir jafnframt í svari ráðuneytisins.

Mjakast í heitavatnsleitinni

Í tíð forvera Jóhanns Páls var Orkusjóði falin framkvæmd átaks í leit og nýtingu jarðhita fram til ársins 2025. Hafði þá ekki verið farið í jarðhitaleitarátak í fimmtán ár.

Var einkum horft til svæða þar sem vísbendingar væru um að heitt vatn fyndist sem nýta mætti beint inn á hitaveitu, eða volgt vatn í nægilegu magni sem nýta mætti á miðlæga varmadælu á svæðum þar sem innviðir fyrir veitu væru þegar til staðar. Til ráðstöfunar voru 450 m.kr. og gat styrkupphæð fyrir hvert verkefni numið allt að tveimur þriðju af heildarkostnaði þess gegn mótframlagi umsækjanda. Hæsta styrkinn fékk Orkubú Vestfjarða, tæpar 188 m.kr. í þrjú verkefni á Ísafirði og Patreksfirði og HEF veitur ehf., tæpar 135 m.kr. í jarðhitaleit við Djúpavog. Aðrir styrkhafar voru Vopnafjarðarhreppur, Grundarfjarðarbær, Kaldrananes-hreppur og Skaftárhreppur.

Síðan þá hefur m.a. fundist heitt vatn á Ísafirði, boranir eru í gangi á Djúpavogi og Vopnafirði og varmadæla er komin í gang sem nýtir volgru á Grundarfirði, að sögn Sigurðar Friðleifssonar, sviðsstjóra orkuskipta og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisog orkustofnun. Staða annarra verkefna sé á mismunandi stigi.

Tilraunavinnsluhola við Djúpavog

Sem dæmi um hvað áunnist hefur í kjölfar átaksins má nefna að eftir töluverðar rannsóknir og tilraunaboranir við Djúpavog frá ársbyrjun 2024 eru HEF veitur ehf. nú að hefja borun tveggja nýrra rannsóknarborhola á svæðinu. Fyrri holan á að verða um 200 metra djúp og sú síðari allt að 400 metrar.

Er vonast til þess að í kjölfarið verði hægt að staðsetja tilraunavinnsluholu á svæðinu sem gæti orðið 800 metra djúp. Stefnt er á að bora þessa tilraunavinnsluholu í sumar, að sögn Glúms Björnssonar hjá HEF veitum ehf. 

Skylt efni: orkumál | jarðhitaleit

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti
Fréttir 25. apríl 2025

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti

Fyrirtækið Pure North í Hveragerði hefur nú náð að loka hringrás endurvinnslu á ...

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs
Fréttir 25. apríl 2025

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs

Reykjavík Open, sem hófst miðvikudaginn 9. apríl í Hörpu, hefur fyrir löngu fest...

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar
Fréttir 24. apríl 2025

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar

Fiskeldi á landi er vaxandi atvinnugrein, allnokkur stór eldisfyrirtæki eru í up...

Framleiðsla á Hrym í Búðardal
Fréttir 23. apríl 2025

Framleiðsla á Hrym í Búðardal

Fyrirhuguð er stórtæk framleiðsla á lerkiafbrigðinu Hrymi í Dalabyggð á næstu mi...

Skógur alltaf til bóta
Fréttir 22. apríl 2025

Skógur alltaf til bóta

Rannsóknir sýna að áhrif skógræktar á kolefnisforða jarðvegs eru nær alltaf orði...

Fjársjóður fjalla og fjarða
Fréttir 22. apríl 2025

Fjársjóður fjalla og fjarða

Tveggja daga íbúaþing, undir stjórn Sigurborgar Kr. Hannesdóttur, fór fram í Rey...

Er plantað nóg?
Fréttir 16. apríl 2025

Er plantað nóg?

Skógarbændur gegna mikilvægu hlutverki við landgræðslu og skógrækt. Þannig er sk...

Trump skellir í lás
Fréttir 16. apríl 2025

Trump skellir í lás

Alþjóðasamfélagið er skekið eftir tollahækkanir Trumps í þarsíðustu viku.