Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Greiðsluflokkar fyrir blóð til bænda eru þrír. Borgað er fyrir bestu heimtur. Úr stóðaréttum. Mynd tengist ekki blóðmerabúskap eða starfsemi Ísteka.
Greiðsluflokkar fyrir blóð til bænda eru þrír. Borgað er fyrir bestu heimtur. Úr stóðaréttum. Mynd tengist ekki blóðmerabúskap eða starfsemi Ísteka.
Mynd / ghp
Fréttir 16. desember 2021

Ísteka umfangsmesti hesteigandi landsins

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Ríflega 600 lifandi hross eru í eigu líftæknifyrirtækisins Ísteka ehf. sem gerir það stærsta ein­staka hesteiganda í landinu. Þar sem fyrirtækið nýtir hross við starfsemi blóðtöku auk þess að framleiða vöru úr blóðinu telst fyrirtækið lóðrétt samþætt og er að öllum líkindum með markaðsráðandi stöðu.

Markaðsráðandi staða er þegar fyrirtæki hefur þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á markaði og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda, að því er fram kemur í 4. grein samkeppnislaga nr. 44 / 2005.

Þar sem Ísteka ehf. er eina fyrirtækið hér á landi sem kaupir merarblóð af bændum og vinnur úr því getur það falið í sér að fyrirtækið sé markaðsráðandi í skilningi fyrrgreindrar 4. greinar. Í 11. grein sömu laga er misnotkun markaðsráðandi stöðu bönnuð. Misnotkun getur meðal annars falist í því að beint eða óbeint sé krafist ósanngjarns kaup- eða söluverðs eða aðrir ósanngjarnir viðskiptaskilmálar settir.

Lóðrétt samþætting kallar á ríkari skyldur

Ísteka ehf. er stærsti einstaki hesteigandi á landinu en fyrirtækið á ríflega 600 lifandi hross. Rúmlega 5% af þeim hryssum sem notaðar voru til blóðtöku á þessu ári eru í eigu Ísteka – 283 talsins. Fyrirtækið er því ekki eingöngu kaupandi merarblóðs, heldur enn fremur framleiðandi þess.

Kallað var eftir skoðun Sam­keppnis­eftirlitsins á þeirri staðreynd:
„Þar sem Ísteka á einnig merar sem væntanlega eru nýttar fyrir starfsemina er fyrirtækið jafnframt að því er virðist lóðrétt samþætt og kaupir eða nýtir sömu vöru af bændum og það framleiðir sjálft. Þessi staða leiðir til þess að Ísteka þarf að gæta þess að hegðun þess raski ekki samkeppni m.a. gagnvart viðskiptavinum sem í þessu tilviki eru bændur.

Hin lóðrétta samþætting getur einnig falið í sér ríkar skyldur um að raska ekki samkeppni þegar kemur að kaupum á eigin framleiðslu annars vegar og framleiðslu bænda hins vegar,“ segir í svörum frá Samkeppniseftirlitinu. Tekið er fram að svör þeirra eru sett fram án skoðunar þeirra á starfsemi Ísteka eða þeim mörkuðum sem um ræðir.

„Ef slíkt fyrirtæki er t.d. í senn viðsemjandi og keppinautur sömu fyrirtækja þarf að vanda mjög verðlagningu gagnvart þeim sem þurfa að eiga í viðskiptum við fyrirtækið en eru um leið að keppa við það.“

Samkeppniseftirlitið bendir á að hafi bændur áhyggjur af verðlagningu fyrirtækisins eigi þeir þann möguleika að senda eftirlitinu ábendingu um það. Slíkar ábendingar eru metnar og í kjölfarið tekin ákvörðun um hvort formleg rannsókn fari fram.

Flokkaskiptar greiðslur fyrir afurðir

Miðað við að Ísteka sé eini kaupandi afurða blóðmerarbænda má fastlega gera ráð fyrir að samningsstaða blóðmerarbænda gagnvart Ísteka sé nokkuð snúin. Bændur geta ekki selt afurð sína annað og verða að treysta á sanngirni kaupandans.

„Við semjum um afurðaverð við fulltrúa bænda og eins og er alltaf í samningum fær hvorugur aðili allt sitt fram. Þetta samtal hefur þó leitt til raunhækkunar á blóðverði ár hvert eins langt og ég man. Samið er til margra ára í senn þannig að bændur vita að hverju þeir ganga fram í tímann,“ segir Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka.

Samkvæmt Gæðahandbók sem Ísteka gefur út og er leiðbeiningarit sem blóðmerarbændur fá, er sagt frá þremur greiðsluflokkum fyrir blóð. Flokkarnir eru grunnflokkurinn F5 og árangurstengdir flokkar H og H2. Borgað er mest fyrir bestu heimtur, þ.e. góða fyljun og mikið blóðmagn. Til að lenda í hæsta gæðaflokki, og fá þá hæsta verðið fyrir blóðið, þarf hryssa að gefa af sér að meðaltali 5 lítra í hvert sinn. Minni heimtur og minni fyljun hryssa leiðir til þess að afurðin er metin í lægri gæðaflokki.

„Þetta hefur gengið mjög vel en þegar H flokkur, og svo síðar H2 flokkur, voru settir á þóttu inntökumörk í þá vera fremur há og var mikið kvartað yfir því að erfitt væri að komast í þá. Hvatningin hefur þó virkað og árið 2021 reiknaðist rétt ríflega helmingur bæja í hæsta flokkinn (H2) og hinn helmingurinn skiptist jafnt á milli F5 og H. Þegar hin ýmsu „vör” sem boðið er upp á komu inn voru 2/3 bæja komnir í H2 greiðsluflokk og einungis 13% eftir í grunnflokknum F5,“ segir Arnþór og vísar þar í lista yfir frávik, t.a.m. ef foli fyljar illa eða þegar nýjar hryssur eru teknar til notkunar.

Ör vöxtur starfseminnar

Ísteka er eina fyrirtæki sem vinnur afurð úr blóði fylfullra hryssa hér á landi. Starfsemi og framleiðsla kringum blóðtökur og vinnslu á blóði hefur blásið verulega út á síðastliðnum árum, fjöldi búa í blóðtöku fóru úr 99 í 119 milli áranna 2020 og 2021.

Hryssum sem notaðar eru fyrir slíka starfsemi hefur einnig fjölgað mikið. Árið 2013 voru þær tæp 1.600 en í fyrra 5.383 talsins. Miðað við fjölda hryssa í fyrra má gróflega áætla að unnið hafi verið úr 150–200.000 lítrum af blóði og framleitt 5–7 kg af PMSG.

Afurð úr meðalhryssu færir bónda um 70.000 krónur á ári. Velta Ísteka ehf. í fyrra var
1,7 milljarðar króna.

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...