Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Íslenskt snakk hlýtur alþjóðleg verðlaun fyrir umbúðahönnun
Fréttir 4. janúar 2021

Íslenskt snakk hlýtur alþjóðleg verðlaun fyrir umbúðahönnun

Höfundur: smh

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Bifröst Foods hreppti á dögunum gullverðlaun á verðlaunahátíðinni London Design Awards. Verðlaunin fékk fyrirtækið fyrir umbúðahönnun á Fish & Chips heilsusnakkinu sem nýlega kom í verslanir á Íslandi. 

Fish & Chips pokinn samanstendur af sjötíu grömmum af íslenskum kartöfluflögum og þrjátíu grömmum af íslenskum harðfiski. Á vef viðburðarins kemur fram að verðlaunin séu veitt fyrir hugmyndaríka og vel útfærða hönnun umbúða, texta, myndmáls, lita og fleiri þátta sem stuðla að jákvæðri tengingu milli vörunnar og væntanlegra viðskiptavina fyrirtækisins.   

Góð viðurkenning

Að sögn Rúnars Ómarssonar, forsvarsmanns fyrirtækisins, hefur það nú skipað sér á bekk með Bifröst Foods og þar með á bekk með PepsiCo, Doritos og fleiri stórfyrirtækjum sem fengið hafa útnefningu undanfarin ár. Hann segir óvanalegt að nýstofnað fyrirtæki hljóti verðlaun sem þessi. „Þetta er góð viðurkenning á því starfi sem fram hefur farið í fyrirtækinu, auk þess sem verðlaunin vekja áhuga endursöluaðila og neytenda á fyrirtækinu og vörunni. Verðlaunin eru viðurkenning á hugviti okkar, markaðsrannsóknum, vöruþróun sem staðið hefur í tvö ár og útfærslu umbúðanna sem við unnum í samstarfi við Birgi Ómarsson hjá Kaktus auglýsingastofu. Þau auka við áhuga innlendra sem erlendra dreifingar og smásöluaðila á vörum okkar sem er auðvitað mikilvægt nú á fyrstu skrefum í sölu á vörunni. 

Mögulega auka verðlaunin líkurnar á að fyrirtækið fái einhvern stuðning úr stoðkerfi nýsköpunar á Íslandi, en fram undan er stórt verkefni sem snýst um að hagnýta þann áhuga sem við finnum fyrir vörunni víðs vegar um heiminn,“ segir Rúnar.

Heilsusnakk úr íslensku hráefni

Bifröst Fish & Chips er heilsusnakk úr íslensku hráefni. Hráefninu í kartöfluflögurnar væri annars hent því lögunin á því mætir ekki kröfum markaðarins og því stuðlar slík nýting að minni matarsóun í íslenskri kartöflurækt. 

Í hverjum hundrað gramma poka eru sjötíu grömm af kartöfluflögum og þrjátíu grömm af frostþurrkuðum íslenskum bitafiski. Tvær bragðtegundir eru í boði sem stendur; ein með salti og pipar og önnur með salti og ediki – sem er hin upprunalega breska útgáfa fish & chips. „Hugmyndin á bak við vöruna var að búa til hollt og umhverfisvænt snakk úr náttúrulegu, íslensku hráefni. Frá upphafi hefur verið horft á möguleikann á alþjóðlegri markaðssetningu. Harðfiskur er 84 prósent prótein og sannkallað súperfæði, eins og Íslendingar vita best. Það hefur hins vegar gengið misvel að þróa harðfiskinn og markaðssetja utan Íslands. Kartöfluflögur eru ódýrara hráefni og þekktasta snakk í heimi. Með réttum aðferðum má blanda þessu tvennu saman og fá út frábært, náttúrulegt og heilsusamlegt snakk eða skyndimáltíð. Viðtökurnar hafa verið framar vonum hér á Íslandi og mikill áhugi frá ýmsum heimshornum gerir verkefnið mjög spennandi,“ segir Rúnar.

Fish & Chips snakkið frá Bifröst Foods er nýkomið í sölu í verslunum Hagkaups og í Melabúðinni, auk nokkurra sérhæfðari sölustaða; reiðhjólaversluninni Markið og Kaffi kyrrð í Borgarnesi.