Jón Ingi með nýuppskornar nípur.
Jón Ingi með nýuppskornar nípur.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 24. nóvember 2025

Íslenskar nípur í boði í fyrsta sinn

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Á undanförnum tveimur árum hafa bændurnir Linda Guðmundsdóttir og Jón Ingi Ólafsson, í Þurranesi í Saurbæ í Dalabyggð, gert tilraunir með nípuræktun [e. parsnip] í bland við annan búskap á bænum. Búið er að uppskera nokkur hundruð kíló núna sem tilbúin eru til markaðssetningar og eiga þau von á því að nípurnar verði fljótlega sýnilegar í verslunum á höfuðborgarsvæðinu.

Linda Guðmundsdóttir og Jón Ingi Ólafsson.

Linda segir að Sölufélag garðyrkjumanna muni sjá um dreifingu á afurðunum en þær sem eru í b-flokki – og henta síður í almenna dreifingu – ætla þau að selja beint frá býli.

Enn í yrkjaprófunum

„Við byrjuðum á þessari tilraun sumarið 2023 og prófuðum að setja aðeins niður og sjá hvort fræin myndu spíra og hvernig plönturnar myndu dafna á akri. Í fyrra sáðum við svo tveimur yrkjum og kom annað betur út en hitt, þótt tíðin í fyrra hafi í raun komið niður á allri uppskeru,“ segir Linda.

„Í ár hefur sumarið heldur betur staðið með okkur og við sjáum fram á nokkra uppskeru. Við settum niður þrjú yrki í ár, eitt var þokkalega gott, annað yrkið var sæmilegt og það þriðja var alveg ónýtt.

Uppskeran er og verður smá í sniðum, þar til við erum búin að ná tökum á ræktuninni en við vorum með um 0,35 hektara undir í ár og það verður svipað á næsta ári. Ef þetta gengur vel munum við skoða að stækka umfangið.“

Langur spírunar- og ræktunartími
Linda Guðmundsdóttir og Jón Ingi Ólafsson.

Langan tíma tekur að fá nípufræ til að spíra og ræktunin tekur langan tíma – eða allt íslenska sumarið og gott betur. Hins vegar þolir hún frost og því liggur ekki eins mikið á að uppskera hana eins og ýmsar aðrar tegundir.

Að sögn Lindu var seint byrjað að uppskera. Það hafi á stundum verið erfitt og kostnaðarsamt að stunda þetta frumkvöðlastarf en þau sjái árangur með hverju árinu sem líður. „Við erum heppin að vera með aðrar góðar stoðir undir búrekstrinum, rekum ferðaþjónustu í Þurranesi og gott sauðfjárbú og svo vinn ég í fullu starfi utan heimilis, sem verkefnisstjóri hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi. Við höfum líka ræktað gulrætur sem við seljum beint frá býli og tókum upp um tvö tonn í sumar. Við höfum fengið frábærar viðtökur í okkar heimahéraði og nærsveitum og er gott að finna að samfélagið stendur þétt við bakið á okkur í þessu brasi. Við munum halda áfram að selja gulrætur eitthvað fram eftir vetri en við eigum slatta í geymslu.“

Bragðgott rótargrænmeti

Linda segir að næsta skref í nípuræktuninni sé að skoða hentugan upptökubúnað. „Sá búnaður sem er notaður erlendis líkist mest kartöfluupptökuvélum. Við þurfum að nýta veturinn í að grúska í því að finna hentug tæki sem passa við umfangið sem við erum að vinna með. Svo væri ótrúlega gagnlegt að komast út og hitta bændur sem stunda þessa ræktun á Norðurlöndunum eða í Bretlandi og fá að læra af þeirra reynslu.“

Hún segir nípurnar þurfa töluvert langan ræktunartíma, en á móti þá þolir plantan frost – og þurfi í raun frost. „Nípurnar hafi mjög sérstakt en sætt bragð og lykillinn í ræktuninni er einmitt sæta bragðið og plantan þarf að upplifa frost svo hún fari að brjóta niður sterkju í sykrur.

Nýuppteknar nípur.

Þetta rótargrænmeti er dásamlega bragðgott og víða vinsælt, eins og til dæmis á Bretlandseyjum,“ útskýrir Linda.

Ofnbakaðar nípur og nípumauk

Linda telur að margir hafi líklega smakkað ofnbakaðar nípur eða nípumauk á veitingastöðum á Íslandi. Við matreiðslu á þeim sé gott að skera nípur í skífur eða strimla, setja á þær góða ólífuolíu, salt og pipar og baka í ofni við 190 gráður, þar til þær verða aðeins brúnaðar og stökkar á kantinum. Bil þurfi að vera á milli bitanna, svo þær nái að brúnast á alla kanta.

„Einnig er hægt að baka þær með öðru rótargrænmeti eins og sætum kartöflum eða gulrótum. Nýuppteknar nípur þarf ekki að afhýða, þar gildir það sama og með gulrætur eða kartöflur – það er smekksatriði hvort fólk vill flysja þær eða ekki. Eftir því sem þær eru geymdar lengur, getur bragðið af hýðinu hins vega orðið örlítið beiskara.

Svo er hægt að gera hefðbundna kartöflumús en skipta hluta af kartöflunum út fyrir nípur, það er sérstaklega gott með pönnusteiktum fiski,“ segir Linda að lokum um mögulegar matreiðsluaðferðir

Skylt efni: Nípur

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...