Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Í Tómatalandi ZEN-NOH
Á faglegum nótum 29. apríl 2016

Í Tómatalandi ZEN-NOH

Höfundur: Vilmundur Hansen

Tíðindamaður Bændablaðsins var á ferð um Japan fyrir skömmu og heimsótti, í boði japönsku bændasamtakanna, tilraunastöð í tómatarækt – ZEN-NOH Agricultural Research and Development Center. Yrkið, sem komið hefur best út í rannsóknum, kallast Ann Jellet og mun fara á almennan markað í Japan á næstu misserum.

Rannsóknastöðin, sem kallast í daglegu tali Tómataland Zen-Noh, er í borginni Hiratsuka, sem er 60 kílómetra sunnan við Tókýó og 60 kílómetra austan við fjallið Fuji og sést það vel frá tilraunastöðinni í heiðskíru veðri.

Stöðin er rúmir 27 þúsund fermetrar að flatarmáli og þar af tæplega 4,5 þúsund fermetra gróðurhús og 14 þúsund fermetra rannsóknaraðstaða og skrifstofubyggingar. Hún er rekin sem samstarfsverkefni bændasamtakanna og háskólans í Chiba, sem er höfuðborg samnefnds héraðs. Rannsóknastöðin er skammt frá bökkum Sagami-gava árinnar sem borgin Hiratsuka stendur við. Borgin er fremur lítil á japanskan mælikvarða en þar búa um það bil jafnmargir íbúar og á öllu Íslandi.

Yukinori Hirando rannsóknastjóri segir að stöðin hafi verið sett á laggirnar fyrir fimm árum og að tómatarnir sem þeir séu að gera tilraunir með séu ekki enn komnir á almennan markað. „Hugmyndin er að helmingurinn af því sem við ræktum hér verði selt til að afla stöðinni tekna en hinn helmingurinn fer í kynningar- og markaðsstarf, bæði fyrir almenning og bændur.

Zen-Noh rekur sölumiðstöð sem höndlar með um 10% af allri tómatasölu í Japan og í gegnum hana er hluti framleiðslu rannsóknarstöðvarinnar seldur.

Í samvinnu við fimm fyrirtæki

Hirando segir að um þessar mundir starfi rannsóknastöðin í samvinnu við fimm alþjóðleg landbúnaðarfyrirtæki við rannsóknir á tómötum. „Fyrirtækin greiða rannsóknastofunni fyrir tilraunirnar sem meðal annars felast í ræktun á mismunandi yrkjum og ræktunartækni. Tæknin sem unnið er með í dag er upprunnin frá Hollandi en mikið endurbætt í Japan og yrkin í ræktun eru 33.

Meðaluppskera á fermetra af tómötum í Japan er um 30 kíló á ári. Ræktunartæknin sem um ræðir fer fram í 18 lítra ræktunarkössum sem með réttri áburðargjöf, sem er um tveir lítrar af fljótandi áburði á dag, geta gefið af sér um 70 kíló af tómötum á fermetra á ári og því um gríðarlega framleiðsluaukningu að ræða. Í ræktunarkössunum sem Zen-Noh framleiðir er mold og í hana bætt næringarefnum og vatni eftir þörfum.“
Tómatar vinsæl neysluvara

Tómatar urðu vinsælir og mikilvæg neysluvara í Japan fyrir um það bil 40 árum og eftirspurn eftir þeim er sívaxandi og framleiðslan þar í landi um 700 þúsund kíló á ári. Hirando segir að í dag sé Japan ofarlega á lista þeirra þjóða sem borði mikið af tómötum en að Grikkland sé í því fyrsta.

„Neyslan í Grikklandi er um 140 kíló á mann en 27 kíló á mann í Japan.“ Hirando segir ástæðuna fyrir þessum mikla mun vera þá að í löndunum við Miðjarðarhaf séu stórir tómatar mikið notaðir við matargerð en að Japanir noti nær eingöngu litla tómata í salat. „Japönum bregður oft þegar þeir sjá stóra bufftómata í fyrsta sinn og þeim þykir eitthvað óeðlilegt við þá. Fyrir vikið eru þeir nánast ófáanlegir í landinu.“

Hirando segir að Japanir leggi mikla áherslu á útlit og gæði matvælanna sem þeir neyti og þegar kemur að vali yrkja leggi stöðin ekki síður áherslu á útlit þeirra og bragðgæði en uppskerumagn. „Það er ekki aðalatriðið að fá sem mesta uppskeru af hverjum fermetra því fólki verður að þykja tómatarnir bæði fallegir og bragðgóðir til að kaupa þá.“

Einkunn eftir bragði og áferð

„Mínar rannsóknir felast aðallega í því að bera saman bragð, lit og áferð mismunandi tómatayrkja og skoða niðurstöður úr neytendakönnunum. Fljótlega munum við bjóða til okkar starfsfólki grænmetisdeilda stórmarkaða og neytendum og leyfa þeim að smakka ólík yrki og biðja þá að gefa yrkjunum einkunn eftir bragði og áferð. 95% af tómötum sem seldir eru í Japan eru rauðir en sala á gulum og appelsínugulum tómötum er að aukast. Af þeim 33 yrkjum sem eru í ræktun í stöðinni er ef til vill eitt sem nær vinsældum og fer í einhverja ræktun að ráði.“

Hirando segir að Japanir vilji litla, rauða og sæta tómata sem þeir noti í salat og að yrkið sem komið hafi best út hjá þeim eftir fimm ára rannsóknir kallist Ann Jellet.

Ann Jellet-tómatarnir eru virkilega bragðgóðir, sætir en ekki of, áferðin á þeim er falleg, lyktin góð og þeir mátulega safaríkir og festan í holdinu passleg. Ann Jellet mundu örugglega falla vel að smekk Íslendinga.

Annað gríðarlega bragðgott yrki sem smakkað var á er frá japönsku fyrirtæki sem heitir Suntory Flowers, Yrkið er gríðarlega bragðgott en uppskeran af því lítil og segir Hirando aðallega rækta það sér til skemmtunar handa sér og starfsmönnum rannsóknastöðvarinnar. „Bændur rækta yrkið í smáum stíl en þeir tómatar eru mjög dýrir í verslunum.“

Býflugur á sveimi

Býflugur eru notaðar til að frjóvga plönturnar og eru þær á sveimi um allt gróðurhúsið. Hirando segir að allar plönturnar í tilraunaræktuninni séu arfhreinar F1 plöntur og því ekki hætta á víxlfrjóvgun milli ólíkra yrkja.

Samvinna við Syngenta

„Yrkið Ann Jellet er upprunalega þróað af svissneska fyrirtækinu Syngenta í Hollandi og til bæði rautt og appelsínugult.

Samvinna okkar og Syngenta hefur gengið mjög vel og vegna hennar hefur orðið til nýtt afbrigði af Ann Jellet sem fellur mjög vel að kröfum og smekk Japana. Eftir að rannsóknunum lýkur mun Zen-Hoh eiga framleiðsluréttinn á afbrigðinu í Japan en Syngenta annars staðar í heiminum.

Í dag er rautt Ann Jellet ræktað á 20 hekturum undir plasti og uppskeran aðallega seld í verslunum í Choshu-héraði til reynslu. Miklar vonir eru bundnar við að framleiðsla þess eigi eftir að aukast verulega á næstu árum. Vegna vinsælda rauðra Ann Jellet stendur einnig til að hefja ræktun á appelsínugula afbrigðinu í stórum stíl,“ segir Yukinori Hirando, rannsóknastjóri hjá Tómatalandi Zen-Noh í Japan.  

Nautakjöt og egg hækka mikið í verði
Fréttir 13. júní 2025

Nautakjöt og egg hækka mikið í verði

Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ hefur verðlag á matvöru almennt hækkað ört á síðu...

Bændur sem kusu Trump sitja nú í súpunni
Fréttir 13. júní 2025

Bændur sem kusu Trump sitja nú í súpunni

Enginn deilir um það að Donald Trump vann kosningasigur í nóvember 2024 í flestu...

Vorhretið vægara en í fyrra
Fréttir 13. júní 2025

Vorhretið vægara en í fyrra

Tjón varð víða á Norðurlandi í norðanáhlaupi í byrjun júní. Annað árið í röð þur...

Framleiðsluvirði landbúnaðarins jókst um 4% árið 2024
Fréttir 13. júní 2025

Framleiðsluvirði landbúnaðarins jókst um 4% árið 2024

Heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins árið 2024 er áætlað 93 milljarðar sem er ...

Heimsmet í skráningum
Fréttir 12. júní 2025

Heimsmet í skráningum

Hið árlega Reykjavíkurmeistaramót Fáks fer fram nú í vikunni í Víðidalnum. Þetta...

Heildarlög um loftslagsmál
Fréttir 12. júní 2025

Heildarlög um loftslagsmál

Drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um loftslagsmál hefur verið birt í Samrá...

Auðhumla sýknuð í máli um umframmjólk
Fréttir 12. júní 2025

Auðhumla sýknuð í máli um umframmjólk

Héraðsdómur Suðurlands sýknaði samvinnufélagið Auðhumlu af kröfum einkahlutaféla...

Landbúnaðarstuðningur ígrundaður
Fréttir 12. júní 2025

Landbúnaðarstuðningur ígrundaður

Í nýrri skýrslu um svæðisbundinn stuðning í íslenskum landbúnaði er nokkrum mögu...