Hvammshlíðardagatal og reikningsskífa
Venju samkvæmt gefur Karólína Elísabetardóttir, bóndi í Hvammshlíð, út dagatal á þessum árstíma fyrir komandi nýtt ár, með ýmsum fróðleik um íslenskt sveitalíf fyrr og nú.
Þetta er í áttunda sinn sem það kemur út. Auk þess hannaði hún nú líka sérstaka reikniskífu – og lét prenta í Reykjavík – sem getur sagt til um hvenær ungviði eru fædd en hún nýtist líka til að finna upphafsdaga gömlu mánaðanna.
Nafngiftir heyhauga
„Sérstakan kafla fá að þessu sinni hundurinn Baugur og lambið Úlfur, sem urðu vinir í vor og þeir prýða einnig forsíðu dagatalsins. Svo finnst yfirlitskort í dagatalinu sem sýnir hvað heyhaugar af ýmsum stærðum og gerðum hétu áður fyrr. Til að mynda hét „beðja“ á Austurlandi „bólstur“ sums staðar fyrir norðan,“ segir Karólína.
„Einnig eru áhugaverðar upplýsingar um stökkbreytinguna T137 í sauðfé að finna þar, um kaupstaðarferðir um 1900, um Hraundalsréttina, svo finnst kort af Árnessýslu frá 1731, æviágrip Medoníu Guðmundsdóttur sem bjó í Hvammshlíð á árunum 1865–1866 og auðvitað margar gamlar og nýjar myndir í viðbót.
Efnið barst úr öllum áttum, að þessu sinni sérstaklega umfangsmikið frá Gróu Jóhannsdóttur í Hlíðarenda og Sigursteini Bjarnasyni í Stafni.“
Öll ungviði sem skipta máli
Hún segir að reikniskífan sé það nýstárlega að þessu sinni úr hennar smiðju. Bjarney Jónsdóttir, bóndi og ljósmóðir á Tjörn, sagði Karólínu frá reikniskífu sem hún notaði til að finna út fæðingardag barna, en hún hafði betrumbætt eintakið sitt með því að líma einnig fæðingardaga lamba, kálfa og folalda á skífuna. Hún lagði til við Karólínu að hún gæti birt þetta í Hvammshlíðardagatalinu, sem hún gerði með viðbótum fyrir fæðingardaga kiðlinga, hvolpum og kettlinga – eða öll þau ungviði sem skipta máli fyrir íslenska bændur.
„Þá varð mér ljóst allt í einu að gömlu íslensku mánuðirnir á borð við þorra eða gormánuð fylgja einnig föstu vikukerfi: Þar með var hægt að hafa þessar upplýsingar einnig með á reikniskífunni, dýrmæta þekkingu á alíslensku kerfi sem fáir búa yfir í dag. Til varð „fjölnotaskífa“ þar sem allt er á sama stað og notendavænt,“ segir Karólína.
Hvammshlíðardagatal og Bjarneyjarskífan
Að sögn Karólínu er það Bjarneyju að þakka að þessi skífa leit dagsins ljós, það hafi verið að hennar frumkvæði og þess vegna kallar Karólína tólið Bjarneyjarskífu. Lítil frumútfærsla skífunnar til að klippa út finnst í dagatalinu, en ítarlega útgáfan er 20 sentímetrar í þvermál og var prentuð sér.
Hún segir að Kristján B. Jónsson hjá Kraftbílum hafi veitt prentstyrk þannig að hægt væri að framleiða hana á Íslandi. Bæði Hvammshlíðardagatalið og Bjarneyjarskífan fást víða á landinu og einnig beint hjá Karólínu í gegnum Facebook-spjallið eða netfangið lina@ridaneitakk.net
