Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hjónin Jenný Dagbjört Erlingsdóttir og Sveinn Steinarsson, bændur á Litlalandi í Ölfusi, reka nú í sameiningu fyrirtækið Svampur.is á Vagnhöfða í Reykjavík. Þau sérhæfa sig í innflutningi og vinnslu á svampi.
Hjónin Jenný Dagbjört Erlingsdóttir og Sveinn Steinarsson, bændur á Litlalandi í Ölfusi, reka nú í sameiningu fyrirtækið Svampur.is á Vagnhöfða í Reykjavík. Þau sérhæfa sig í innflutningi og vinnslu á svampi.
Mynd / TB
Líf&Starf 29. júlí 2019

Hrossabændur gerast iðnrekendur í Reykjavík

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Hjónin Sveinn Steinarsson og Jenný Dagbjört Erlingsdóttir, bændur á Litlalandi í Ölfusi, keyptu nýlega lítið iðnfyrirtæki á Vagnhöfða í Reykjavík sem sérhæfir sig í innflutningi og vinnslu á svampi. Sveinn, sem er formaður Félags hrossabænda og fyrrum sveitarstjórnarmaður, skipstjóri og útgerðarmaður, segir að það sé spennandi að breyta til. Þau ætla sér að byggja upp fyrirtækið en jafnframt stunda hrossarækt heima á Litlalandi. 
 
„Við vorum búin að vera að leita okkur að fyrirtæki til kaups um nokkurt skeið. Við höfum alla tíð verið í rekstri en höfum aðeins dregið saman seglin í hrossaræktinni. Okkur langaði í raun að eignast fyrirtæki þar sem við gætum unnið í uppbyggingunni saman. Við skoðuðum margt og eyddum töluverðum tíma í þetta. Svo kom þetta tækifæri en við veittum því raunar litla athygli fyrst. Þegar við fórum að skoða málið nánar sáum við að þetta gæti hentað okkur og slógum til. Við keyptum þetta fyrirtæki sem gengur undir nafninu Svampur.is. Það er búið að vera til í upp undir 20 ár og við ætlum okkur að halda rekstrinum á svipuðum nótum og hann hefur verið,“ segir Sveinn.
 
Þjónusta einstaklinga og fyrirtæki
 
„Við flytjum inn svamp í stórum blokkum frá Hollandi. Hann er skorinn og sniðinn fyrir alla sem það vilja, einstaklinga og fyrirtæki. Við erum mest að þjónusta bólstrara og svo er stór viðskiptavinur innlend rúmaframleiðsla, RB-rúm í Hafnarfirði. Við þjónustum mikið einstaklinga sem eru að kaupa dýnur eða gera upp gamla hluti eða endurnýja.“
 
Jenný segir að framleiðslan sé nokkuð fjölbreytt og það sé nóg að gera. „Dýnur í húsbíla og hjólhýsi er mögulega það algengasta sem við gerum þessa dagana,“ segir hún en að auki bjóða þau upp á bólstrun og ýmsar sérlausnir þar sem svampur kemur við sögu.
 
Á verkstæðinu er boðið upp á saumaþjónustu og bólstrun á nýjum og notuðum húsgögnum og fleiru. 
 
Eigum að nýta hlutina betur
 
Þeim blöskrar báðum sú mikla sóun sem á sér stað í samfélaginu. Fólk er alltof gjarnt á að henda hlutum og kaupa endalaust af nýju dóti að þeirra mati. „Hluti af því sem okkur fannst vera áhugavert við þetta er að þjónusta þá sem eru að endurbæta gömul húsgögn. Við fögnum því sérstaklega að fá fólk hingað sem er að endurnýta og gera upp. Ekki veitir af í veröld þar sem þarf nauðsynlega að fara að breyta hugarfarinu. Við eigum ekki að kaupa og henda heldur kaupa og nýta!“ segir Sveinn. 
 
Bólstrarinn Ágúst Örvar Ágústsson hefur í nógu að snúast á verkstæðinu. Dýnur í tjaldvagna og ferðabíla eru fyrirferðarmiklar á þessum árstíma. 
 
Hjá fyrirtækinu eru auk Jennýjar og Sveins, saumakona og bólstrari. „Það er saumakona í vinnu hjá okkur, Ragnhildur Axelsdóttir og bólstrarinn Ágúst Örvar Ágústsson hefur aðstöðu hjá okkur. Þau unnu hérna áður og búa að mikilli reynslu sem er dýrmæt fyrir okkur. Þá hefur Sigmar Egilsson, fyrri eigandi, einnig starfað með okkur. Svenni hefur í gegnum tíðina smíðað mikið, gert upp, báta, hús og íbúðir og ég hef alltaf haft gaman af saumaskap og handavinnu. Þetta bræðist ágætlega saman og það er gaman að geta unnið við það sem maður hefur ánægju af,“ segir Jenný. Sveinn bætir við að þau séu með margra ára reynslu af samvinnu og segir að sem bændur séu þau vön henni.
 
Sveinn var um árabil skipstjóri en þegar Bændablaðið heimsótti hann á dögunum var hann að leðurklæða nýjan bekk í skipslúkar.
 
Hægja á í hrossaræktinni
 
Þau kvíða því ekki að fyrirtækja­rekstur í Reykjavík muni koma niður á búrekstrinum. „Það fer ágætlega saman þannig lagað. Við höfum verið í hrossarækt en við hugsum okkur svona heldur að hægja á í þeim efnum. Við höfum verið með manneskju í tamningum undanfarin ár en þó ekki síðasta vetur. Sendum líka svolítið frá okkur af hrossum í tamningu. Við ætlum að láta þetta þróast, byggja upp fyrirtækið og hafa gaman af þessu. Við erum með leigusamning hér og líður vel,“ segir Sveinn. „Það er lykilatriði að við erum hálftíma að fara í vinnuna frá Litlalandi og þurfum ekki að hírast í löngum bílaröðum til þess að komast hingað á Vagnhöfðann,“ segir Jenný.
 
Aldarfjórðungur er síðan Jenný og Sveinn eignuðust Litlaland í Ölfusi. Þar hafa þau byggt upp fyrirmyndar aðstöðu og rekið hrossarækt með góðum árangri.
 
Ætla að sjálfsögðu til Berlínar
 
Það er ekki hjá því komist að ræða almennt um hrossaræktina við formann Félags hrossabænda. Nú er heimsmeistaramót í Berlín fram undan en þaðan eiga þau hjónin Jenný og Sveinn góðar minningar. Sjálf áttu þau heimsmeistara í 5 vetra flokki stóðhesta á mótinu 2013 þegar Desert frá Litlalandi hreppti gullið. Þau segjast bæði ætla á mótið í ágúst. „Það er heldur betur tilhlökkun fyrir því. Við erum að senda öfluga sveit í öllum flokkum og menn eru bjartsýnir á góðan árangur,“ segir Sveinn. 
 
Farsælt samstarf við Íslandsstofu
 
Vel hefur tekist til í markaðssetningu og kynningu á íslenska hestinum í samstarfi við Íslandsstofu síðustu ár að mati Sveins. „Stutt frá sagt þá hefur verkefnið Horses of Iceland gengið mjög vel. Innan Íslandsstofu er horft til þess hversu vel okkur hefur gengið og hversu mikla athygli við höfum náð að skapa á samfélagsmiðlum en þar er íslenski hesturinn fádæma vinsæll.“ 
 
Töluverðar breytingar hafa orðið á rekstri Íslandsstofu síðustu mánuði og nú er unnið að nýrri stefnumótun fyrir útflutningsgreinarnar. Sveinn segir að það sé mikill áhugi hjá nýjum forsvarsmönnum að verkefnið haldi áfram. „Nú erum við á síðasta ári verkefnisins en alls eru fimm ár síðan undirbúningur hófst. Verkefnið var keyrt af stað árið 2016 og lýkur í ár. Við hrossabændur og þeir sem standa að verkefninu viljum eindregið að verkefnið haldi áfram, það þarf samstillt starf til að kynna hestinn, hestamennskuna og Ísland, en áframhaldið byggir á aðkomu ríkisins sem við höfum fulla trú á að verði. Samstarfið við Íslandsstofu hefur verið afar gott og viljum við eindregið halda því áfram.“ 
 
Nýliðun er nauðsynleg
 
„Útflutningur á reiðhrossum er nokkuð á pari við fyrri ár og áhugi hér heima á hrossaræktinni er jafn og góður,“ segir Sveinn en hann hefur vissar áhyggjur af nýliðun í greininni, þar megi menn ekki sofna á verðinum. „Það er sameiginlegt hlutverk Landssambands hesta­mannafélaga og Félags hrossabænda, að ýta undir nýliðun. Það er töluvert breytt umhverfi frá því sem áður var. Flestir kynntust hrossum í gegnum veru í sveit sem börn og unglingar en það má segja að sé liðin tíð. Nú þarf að vinna í því að kynna hestinn fyrir hestamönnum framtíðarinnar.“
 
Markaður með hrossakjöt að taka við sér
 
Fregnir um aukna hrossakjötssölu hljóta að kæta formann hrossabænda. Kjötmarkaðurinn hefur hins vegar ekki alltaf verið hrossabændum hagfelldur segir Sveinn.  
 
„Partur af því að það selst ekki meira af hrossakjöti en raun ber vitni er að það er hreinlega ekki í boði. Markaðssetningin og vöruþróun hefur almennt verið lítil og framboðið er ekki jafnt og þétt. Þú færð varla hrossakjöt í kjötborðum í dag en ég og fleiri myndum gjarnan vilja sjá meira af því. Ástæðan er kannski sú að það er slegist um bestu bitana hér innanlands, fille, lundir og innanlæri af fullorðnu og svo er folaldið auðvitað árstíðarbundið. Það er raunar eins með folaldakjötið og af fullorðnu að það eru valin stykki sem seljast og svo eru frampartar sem sitja eftir og eru verðlitlir.“
 
Útflutningur til Japans er spennandi
 
Sveinn segir að verið sé að vinna í útflutningi til Japans og nú með folaldakjöt. Í fyrravetur var sent talsvert magn og til stendur að senda meira í haust. „Hefðin í Japan er að þeir borða kjöt af fullorðnu en nú er aðili sem er tilbúinn að taka talsvert af folaldakjöti og fylgja því eftir og bindum við vonir við það.“  Sveinn telur þó að innanlandsmarkaður ætti að ráða við mun meira af því folaldakjöti sem framleitt er í landinu. „Þetta er ekki svo mikið magn en þetta snýst líka um vöruþróun og framsetningu. Jaðarafurðir seljast illa eða ekki hér á landi en Japaninn vill kaupa það sem við höfum hent, s.s tungur, þindar, fitu, garnir og kjálkavöðva. Það er allt annað hugarfar hvað varðar úrvinnslu og meðferð í Japan. Japanarnir vilja líka láta vinna kjötið á sinn hátt og eru mjög kröfuharðir. Við höfum verið að selja fitusprengda kjötið ferskt en það er ákveðið tímabil í því eftir sumarið, út haustið og fram yfir áramót þegar hross halda ákveðnu fituinnihaldi. Það er verðmætt kjöt og eftirspurn eftir því ytra. Það væri mikilvægt að koma fleiri pörtum af folaldinu á Japansmarkað. Erlendur Garðarsson kjötkaupmaður hefur verið að vinna í þessu með okkur hrossabændum og hann er mjög áhugasamur. KS reið á vaðið með útflutninginn á sínum tíma og nú hafa fleiri aðilar verið að koma inn í þetta. Það er langhaup að byggja upp viðskiptasambönd erlendis og því þurfa aðilar að vanda sig og hafa úthald ef vel á að ganga, skammtímahugsun á ekki við í svona viðskiptum,“ segir Sveinn.
 
Bændur þurfa að vanda sig
 
Blóðmerarnar eru svo enn einn tekjustofn hrossabænda og hefur vaxið gríðarlega síðustu ár. Sveinn segir að ef menn haldi rétt á spöðunum geti sú grein eflst enn frekar, en kapp sé best með forsjá. 
 
„Ég held að framtíðin þar velti á því hvernig bændur standi að framleiðslunni. Það á bæði við um velferð og ásýnd starfseminnar. Við megum passa okkur á því að hafa þetta ekki of stórt í sniðum á hverjum stað,  það þarf að vanda sig og meðferð á landi er stór þáttur í því.
 
Eins þurfa markaðir fyrir folaldaafurðir að vera fyrir hendi en mjög kostnaðarsamt getur verið fyrir bændur að þurfa að halda folöldin samhliða hryssunum langt fram eftir vetri. Í því sambandi er samtal milli framleiðanda og afurðasala afar mikilvægt,“ segir Sveinn Steinarsson að lokum.
 
Sveinn og Jenný hafa sinnt hrossarækt síðustu ár á Litlalandi. Sveinn er formaður Félags hrossabænda.
 
Hvað hefur áhrif á líðan bænda?
Fréttir 6. desember 2024

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?

Valgerður Friðriksdóttir stendur fyrir rafrænni könnun þar sem hún skoðar hefðir...

Lök kornuppskera á landinu
Fréttir 6. desember 2024

Lök kornuppskera á landinu

Samkvæmt bráðabirgðatölum bendir allt til að uppskera af þurru korni sé umtalsve...

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð
Fréttir 5. desember 2024

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð

Ný skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem fjögur erlend kúakyn voru borin s...

Skrásetja sögu brautryðjenda
Fréttir 5. desember 2024

Skrásetja sögu brautryðjenda

Sögur brautryðjenda í garðyrkju varpa ljósi á þá miklu þróun sem hefur átt sér s...

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Fuglaflensa á íslensku búi
Fréttir 5. desember 2024

Fuglaflensa á íslensku búi

Á þriðjudaginn greindist fuglaflensa af gerðinni H5N5 á kalkúnabúi Reykjabúsins ...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...