Hringrás næringarefna úr landeldi og landbúnaði
Deild landeldis varð hluti af félagskerfi Bændasamtaka Íslands um sumarið 2022. í upphafi var einungis fyrirtækið Landeldi innan vébandanna, en það skipti um nafn um sumarið 2023 og heitir síðan First Water.
Nú eru fjögur fyrirtæki innan deildarinnar og auk First Water eru það GeoSalmo, Thor Landeldi, sem öll eru í Þorlákshöfn, og Laxey í Vestmannaeyjum.
Landeldi er ört vaxandi atvinnugrein og miðað við þau verkefni sem eru í uppbyggingarfasa er gert ráð fyrir að ársframleiðsla á laxi frá landeldisstöðvum verði á bilinu 150 til 200 þúsund tonn árið 2031. Til samanburðar má nefna að fyrir yfirstandandi fiskveiðiár er heildarþorskskvóti rúm 160 þúsund tonn.
Mikið magn lífræns úrgangs
Ýmsar áskoranir fylgja slíkri uppbyggingu á stórri atvinnugrein. Mikið magn af lífrænum úrgangi fellur til úr landeldi, aðallega fiskeldismykjan en einnig slóg og afskurður. Bannað er með lögum að losa ómeðhöndlaðan úrgang í sjóinn. Affallsvatn og föst efni þurfa meðhöndlun í samræmi við starfsleyfi og vöktunaráætlanir.
Einnig fylgja tækifæri þessu mikla magni lífræna úrgangs sem fellur til, sem inniheldur mikið magn verðmætra næringarefna. Í júní 2023 veitti Umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins íslenska samstarfsverkefninu Terraforming LIFE, sem samsvaraði tæpum milljarði íslenskra króna. Aðilar að því verkefni voru Bændasamtök Íslands, Landeldi hf., Orkídea, Ölfus Cluster og færeyska ráðgjafarfyrirtækið SMJ. Verkefnið gengur út á að þróa nýja aðferð hér á Íslandi við áburðarog lífgasframleiðslu úr lífrænum úrgangi, sem fellur til við fiskeldi á landi og í landbúnaði – þar sem ekki er talið mögulegt að nýta fiskeldismykjuna eina og sér. Þar sem First Water nýtir sjó, sem dælt er í gegnum borholu, við sitt eldi var eitt af markmiðum þess varðandi styrkumsóknina að þróa búnaði til að gera fiskeldismykjuna nýtilega til áburðarframleiðslu, þrátt fyrir seltuna sem úr sjónum kemur.
Lokamarkmið verkefnisins er að reist verði áburðar- og lífgasverksmiðja, sem núna er gengið út frá að verði í Þorlákshöfn. Færeyska ráðgjafarfyrirtækið SMH hefur þegar hafið grunnvinnu við hönnun á slíkri verksmiðju en í áætlun er gert ráð fyrir að hún verði risin á árinu 2027 og framleiðsla hafin. Strax í byrjun er gert ráð fyrir að hún geti tekið við 30 þúsund tonnum á ári en að hægt verði að skala hana upp þannig að hún geti unnið úr 100 þúsund tonnum. Áætlað er að úrgangsmagn frá öllum landeldisfyrirtækjum á Íslandi geti orðið um 150 þúsund tonn árlega árið 2031.
Ný og stærri tromlusíustöð
Í september urðu þau tímamót í rekstri First Water í Þorlákshöfn að þó hófst vinnsla og pökkun á fimm kílóa laxi til útflutnings. Það er hluti af fyrsta uppbyggingarfasa fyrirtækisins, en stefnt er á því að hann verði kláraður næsta sumar og að þá muni framleiðslan vera komin í 8.500 tonn af fimm kílóa slægðum laxi á ári. Þegar öllum sex áföngum hefur verið náð, sem gert er ráð fyrir að verði á árinu 2031, verður framleiðslan komin 50 þúsund tonn.
Sigurður Trausti Karvelsson, verkefnastjóri rannsóknar og þróunar hjá First Water, segir að samhliða verði unnið að uppbyggingu á Terraforming LIFE-verkefninu. „Við höfum verið með tromlusíur í eldinu hjá okkur frá byrjun til að taka við útfallinu úr kerjunum. Nú er hinsvegar nýbúið að taka í notkun enn stærri tromlusíustöð sem getur annað útfalli frá allt að 20 þúsund tonna framleiðslu á ársgrundvelli. Sú fiskeldismykja sem síast frá í tromlusíustöðinni er mjög vatnskennd og þarf að vinna frekar til að hægt sé að gera hana hæfa til vinnslu,“ segir Sigurður.
Svínaskítur og kjötmjöl
Að sögn Sigurðar er gengið út frá því í þeirra áætlun að svínaskítur og kjötmjöl séu vænlegustu kostirnir til að blanda saman við fiskimykjuna, meðal annars vegna þess hversu aðgengilegt þetta hráefni sé.
Matís gaf út skýrslu árið 2022 þar sem sýnt var fram á að jafnmikið af næringarefnum væri til í landinu, í lífrænum úrgangi, og flutt væri til landsins í formi tilbúins áburðar. Þegar Sigurður er spurður um hvort þessar niðurstöður gefi tilefni til að binda vonir við að við getum orðið sjálfbær í áburðarmálum innan fárra ára, segir hann að það sé fræðilega hægt. „En það þarf ansi margt að ganga upp til að það raungerist. Til dæmis þarf regluverkið að þróast í takt við eldið, og vinnslan á úrganginum þarf að anna eftirspurn eftir réttu magni af köfnunarefni, fosfór og kalíum ─ ásamt öðrum næringarefnum. Það er samt algjörlega ljóst að við getum gert mun betur í endurnýtingu úrgangs og minnkað innflutning á tilbúnum áburði umtalsvert.“
Hann segir að viljayfirlýsing sé í gildi á milli fjögurra landeldisstöðva um endurvinnsluáætlanir fyrir lífræna úrganginn. Ef allar áætlanir gangi eftir, megi gera ráð fyrir að endurnýtingarferlið geti skilað um sex þúsund tonnum af 90% þurri meltu, sem hafi næringarhlutfall sem henti sem áburður. „Um 55 þúsund tonn af áburði voru innflutt árið 2024, og því gæti ein svona endurnýtingarstöð minnkað magn innflutts áburðar allavega um 10-12%. Þetta er þó háð þeim annmörkum að ég er ekki sérfræðingur í áburði, og lífrænn áburður hefur ýmsa eiginleika sem ólífrænn áburður býr ekki yfir. Þess vegna ber að taka þessu með með ákveðnum fyrirvara.“
