Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Fjöldi bænda hefur gert athuga­semdir við reglugerðardrögin. Þá leggst sveitarstjórn Rangárþings eystra alfarið gegn því að reglugerðin verði samþykkt óbreytt og án frekara samráðs við hagsmuna­­aðila.
Fjöldi bænda hefur gert athuga­semdir við reglugerðardrögin. Þá leggst sveitarstjórn Rangárþings eystra alfarið gegn því að reglugerðin verði samþykkt óbreytt og án frekara samráðs við hagsmuna­­aðila.
Mynd / HKr.
Fréttir 11. nóvember 2021

Hörð gagnrýni á reglugerðardrög umhverfis- og auðlindaráðuneytis

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Drög að reglugerð frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu um leiðbeiningar og viðmið um sjálfbæra landnýtingu hefur verið í umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda. Greinilegt er af fjölda umsagna að reglugerðardrögin eru mjög umdeild.

Fjöldi bænda hefur gert athuga­semdir við reglugerðardrögin. Í athuga­semd sem Bændablaðinu hefur borist er sagt að þetta séu verstu reglugerðardrög sem viðkomandi hafi augum litið en þau séu orðin mörg á undanförnum 40 til 50 árum.

Landgræðslulög voru samþykkt á Alþingi í desember 2018.  Markmið landgræðslulaga er að vernda, endurheimta og bæta þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands. Aðdraganda að þessum lögum má rekja allt til ársins 2011 þegar Svandís Svavarsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, skipaði nefnd um endurskoðun landgræðslulaga. Í reglugerðardrögunum um sjálfbæra nýtingu er Landgræðslunni ætlað að meta ástand lands, árangur af gróður- og jarðvegsvernd og eflingu og endurheimt vistkerfa með tilliti til mismunandi landnytja.

Algert samráðsleysi, ekkert samtal

Sveitarstjórn Rangárþings eystra gagnrýnir þau vinnubrögð sem höfð voru við vinnslu reglugerðarinnar en algert samráðsleysi var við þá vinnu. Sveitarstjórn leggst því alfarið gegn því að reglugerðin verði samþykkt óbreytt og án frekara samráðs við hagsmuna­­aðila. Undir þessa gagnrýni ritar Lilja Einarsdóttir sveitarstjóri. Segir hún að ekkert samtal hafi átti sér stað við sveitarstjórn Rangárþings eystra þrátt fyrir að fram komi í 11. gr. laga um landgræðslu nr. 155/2018 að:

„Ráðherra skal setja reglugerð með það að markmiði að tryggja sjálfbæra landnýtingu, sbr. 9. gr., með leiðbeiningum og viðmiðum þar að lútandi sem taki mið af ástandi lands, m.a. varðandi beit búfjár, umferð fólks og ökutækja, framkvæmdir og akuryrkju. Landgræðslan gerir tillögur að slíkum leiðbeiningum og viðmiðum að höfðu samráði við hlutaðeigandi stofnanir, sveitarfélög og hagsmunaaðila eftir því sem við á hverju sinni. Ráðherra birtir opinberlega drög að leiðbeiningum og viðmiðum og skal frestur til að skila athugasemdum vera að lágmarki fjórar vikur.“

Ekkert erindi barst heldur sveitarfélaginu um að drögin væru komin í umsagnarferli og þaðan af síður óskað formlega eftir umsögn um málið. Það geta varla talist ásættanleg vinnubrögð í máli sem þessu sem er þungavigtarplagg og getur haft veruleg áhrif á atvinnumöguleika í sveitarfélagi þar sem landbúnaður er ein stærsta atvinnugreinin.“ 

Skortir faglegan grunn og óskýrleiki viðmiða er áberandi

„Sveitarstjórn Rangárþings eystra bendir á að í efnistökum reglu­gerðarinnar skortir faglegan grunn að nokkru leyti, auk þess sem faglegri nálgun við matið er mjög ábótavant. Grunngögn vantar til að framfylgja beitarviðmiðum, eða svokölluð vistgetukort, auk þess sem þróun gróðurfars er ekki metið inn í viðmiðin sem þó hlýtur að vera meginmælikvarði á sjálfbæra þróun um not beitilanda.

Óskýrleiki viðmiða er áberandi, erfitt er að átta sig á hvað eru tilmæli, hvað eru reglur og hvað leiðbeiningar, sem leiðir til þess að afar erfitt er að koma auga á hver raunuveruleg áhrif reglugerðarinnar verða fyrir atvinnulíf og samfélag.

Ekki er að nokkru leyti lagt mat á kostnað

„Ekki er að nokkru leyti lagt mat á kostnað sem af þessu mun leiða en það má augljóslega gera ráð fyrir auknum kostnaði hjá sveitarfélaginu vegna krafna um aukið eftirlit og umsagnir. Ljóst má vera að reglugerð sem þessi mun hafa neikvæð áhrif á fjárhag sveitarfélagsins í því landbúnaðarhéraði sem Rangárþing eystra er. Ef reglugerðardrögin verða samþykkt óbreytt verður landbúnaði verulega þröngur stakkur sniðinn og við blasir að einhverjir munu þurfa að minnka bústofn sinn og draga saman rekstur. Á sama tíma mun rekstrarkostnaður þeirra aukast vegna reglugerðarinnar, því væntanlega þurfa bændur að bera kostnað af kröfum um landbótaáætlanir og 5 ára lögbundnu eftirlit Landgræðslunnar.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra leggst því alfarið gegn því að reglugerðin verði samþykkt óbreytt og án frekara samráðs við hagsmuna­­aðila.“ 

Skriður flokkaðar líkt og um mjög rofið beitiland

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson gerir marg­ar mjög alvarlegar athuga­semdir við reglugerðardrögin. Bendir hann m.a. á viðauka I, 2. grein og segir:

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson.

„Há fjöll og fell, hátt yfir sjávar­máli og með miklum landhalla, víða um land, er ekki raunhæft að girða frá öðru landi. Þar er heldur ekki raunhæft að banna lausagöngu sauðfjár og geitfjár. Mjög lítið beitarálag er á þessum stöðum og fer minnkandi. Sé miðað við endurheimt landgæða í slíku hálendi byggist hún mest á hitastigi, þ.e.a.s. gróðurmörkin færast ofar með hlýnandi loftslagi. Beitarfriðun stórra fjallgarða og hálendissvæða á ýmsum stöðum á landinu tel ég nær undantekningarlaust óþarfa og óframkvæmanlega.

Hin meingallaða rofflokkun, sem upphaflega kom frá Rannsókna­­stofnun landbúnaðarins og m.a. Búnaðarfélag Íslands gerði athugasemdir við á sínum tíma, er látin skína skært í reglugerðar­drögunum. Sem dæmi um slíka flokkun má nefna Flyðrurnar í Hafnar­fjalli og Hvammsskriður í Vatnsdal, þar sem grjót  hrynur undan eigin þunga. Slíkar skriður eru flokkaðar líkt og um mjög rofið beitiland væri að ræða þótt um þær sé ekki fært nema fuglinum fljúgandi og stöku kletta- og fjallaklifrurum.

Á meðal kosta við að hafa hálendissvæðin opin fyrir minni háttar beit er hömlun eða stöðvun útbreiðslu ágengra plantna á borð við Alaskalúpínu og kerfil.

Með tilliti til vaxandi ferða­þjónustu og frjálsrar farar útivistar­fólks á hálendum svæðum tel ég girðingar umfram varnargirðingar Matvælastofnunar óæskilegar.“

Fráleit skilyrði um bann við dreifingu búfjáráburðar

Þá bendir Ólafur á Viðauka II, 4. grein og segir:

„Dreifing búfjáráburðar skal skv. reglugerðardrögunum vera óleyfileg á öllu landi innan við 50 metra fjarlægð frá vötnum, ám, lækjum og skurðum. Að mínum dómi þarf að endurskoða slík ákvæði rækilega.

Búfjáráburður er af ýmsu tagi og hann er borinn á ræktunarland í margvíslegu formi, allt frá mikið vatnsblandaðri mykju eða jafnvel kúahlandi, yfir í safnhaugaáburð  og moltu með háu þurrefni sem venjulega dregur stórlega úr mengunarhættu.

Hvað lífræna ræktun varðar eru 50-metra fjarlægðarmörkin, frá t.d. framræsluskurðum, algjörlega fráleit enda mest notaður búfjáráburður úr safnhaug eða molta úr búfjáráburði og öðrum hráefnum, svo sem efnivið sem fellur til við lífræna akuryrkju.“ 

Framkvæmd reglugerðar yrði mjög erfið og kostnaðarsöm

Síðan kemur Ólafur með almennar ábendingar sem eru mjög alvarlegar hvað varðar samningu þessara reglugerðardraga. Þar segir: 

  1. Áður en lengra er haldið við reglugerðarsmíðina tel ég eðlilegt að ráðuneytið geri þá sanngjörnu kröfu til Landgræðslunnar að  hún taki fyrir a.m.k. 3-4 beitarsvæði með fjölbreytilegu landslagi og gróðurfari, setji upp raunveruleg dæmi þar sem beitarmatsreglunum í VIÐAUKA I er beitt, og hafi fullt samráð við staðkunnugt fólk á hverjum stað svo að beitarsagan fari ekki á milli mála.
  2. Drögin bera þess merki að íslenskt búvísindafólk þurfi að koma meira að samningu reglugerðarinnar, sérstaklega að endurskoðun texta leiðbeininga og viðmiða sem sett eru fram í drögunum.
  3. Þótt ljóst sé að lífræn ræktun, og búskapur sem byggist á henni, falli sérlega vel að sjónarmiðum umhverfis­verndar, líffræðilegrar fjöl­breytni og aðgerða til að létta kolefnisfótspor landbúnaðar, er hún ekki skilgreind eins og áður hefur verið bent á. Úr þessu þarf að bæta, m.a. með hliðsjón af ESB-reglugerðum sem áður var vikið að og Ísland hefur staðfest.
  4. Í heildina tel ég reglurnar óþarflega flóknar og við lestur þeirra hafa vaknað grunsemdir hjá mér um að sumir textarnir séu beinar þýðingar úr erlendum textum. Að ýmsu leyti hefur landnýting hér nokkra sérstöðu miðað við flest nágrannalöndin og hætt er við að framkvæmd reglugerðarinnar í núverandi formi yrði mjög erfið og kostnaðarsöm. Hún gæti jafnvel skaðað íslenskan landbúnað, stuðlað að frekari byggðaröskun og fækkun bænda og þar með veikt fæðuöryggi þjóðarinnar. 
  5. Flest horfir nú til bóta hvað viðvíkur áhrifum land­búnaðar á umhverfi hér á landi. Þegar öllu er á botninn hvolft verða bændur alltaf bestu vörslumenn landsins. Því er mikilvægt að yfirvöld haldi áfram á þeirri braut að viðhalda og byggja upp frekara traust og samvinnu við bændastéttina.“
Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...

Samdráttur í sölu á fræi
Fréttir 8. júní 2022

Samdráttur í sölu á fræi

Samkvæmt lauslegri könnun Bændablaðsins er búið að flytja inn rúm tvö tonn a...

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu
Fréttir 8. júní 2022

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu

Rúmlega tuttugu íslensk fyrirtæki sem tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu ...