Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Hin ástsæla azalea og annað skylt
Á faglegum nótum 20. apríl 2015

Hin ástsæla azalea og annað skylt

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Lyngættin er slungin og fjölbreytt plöntuætt með tæplega 150 ættkvíslum. Hér uppi á Íslandi á hún nokkra fulltrúa sem eru samt ívið ólíkir innbyrðis. Beitilyngið okkar stendur með sínum rauðfjólubláu blómum seinnipart sumars þegar fjarskyldir ættingjar þess, krækiber, bláberin bæði og sortulyngið svigna af berjum.

Í skógarhvömmum undir birkiskermi rekumst við víða á hinar sígrænu vetrarliljur með sígræn, leðurkennd blöð og lútandi klukkur á grönnum blómstönglum. Og utan í melbörðum og hraunreipum lætur sauðamergurinn fara lítið fyrir sér. En ef við lútum lágt og skoðum hann í blóma opinberast fegurð hins smáa. Því fáar íslenskar plöntur eru jafn snotrar í yfirlætisleysi sínu. Sauðamergurinn er nokkuð nálægt stórvaxnari frænkum sínum, lyngrósunum, í útliti og hegðun. En lyngrósirnar, Rhododendron, eru mun bosmameiri og státnari. Þær fara ekki framhjá neinum þegar þær eru í blóma.

Fjölbreytt ættkvísl

Ættkvísl lyngrósanna er afar fjölbreytt og flókin. Talið er að til hennar heyri um 650 tegundir dreifðar um allt Norðurhvel. Og ef gluggað er í nafnaskrár, þá eru fræðiheitin, gild sem ógild, hátt í 7000. Meginsvæði hennar er þó í Mið- og Austur-Asíu, einkum í svölum dölum og fjallahlíðum þar sem úrkoma er mikil en vetur fremur stuttir og mildir. En í Alpafjöllum Evrópu lífgar alparósin, Rhododendron ferrugineum, upp á vorkomuna í fjalladölunum. Hún kallast reyndar urðalyngrós formlega í íslenskum plöntulistum. Og norður í Lapplandi litar svarðlyngrósin, Rhododendron lapponicum, móa og börð eftir að snjóa leysir á vorin. Niðri á Bretlandseyjum hefur náttúruverndarfólk horn í síðu lækjalyngrósarinnar, Rhododendron ponticum, sem flutt var til eyjanna um 1760. Þrátt fyrir óneitanlega fegurð hennar þykir hún yfirgangssöm og einráð. Hún hefur haft mikil áhrif á undirgróður skóga þar sem hún hefur ílenst og helgað sér land. Í Norður-Ameríku eru nokkrar tegundir. Margar þeirra hafa komið við sögu í kynblöndun á þeim lyngrósum sem fyrst og fremst eru ræktaðar í görðum. Af slíkum lyngrósum, sem venjulega eru kallaðar alparósir, er til mikill urmull. Sumar þeira jafnvel nægilega harðgerar til að þrífast á Íslandi.

Furðu harðgerar

Í stórum dráttum þurfa lyngrósir fremur rakt, ófrjótt land til að þrífast. Rótarkerfi þeirra er afar fíngert og háð sk. svepparót. þ.e. örsveppa sem lifa í sambýli við plönturnar og sjá um eldhússtörfin fyrir þær. Sama gildir reyndar um allar tegundir Lyngættarinnar. Sammerkt er með lyngrósum og öðrum tegundum ættarinnar að mjög fáar þeirra þola kalkríkan jarðveg. Íslenskar berjabrekkur henta þeim svosem ágætlega ef þær fá nægan raka og skjól fyrir berfrosti, vetrarnæðingum og síðvetrarsól. Ekki sakar að gauka að þeim mulningi af sauðataði eða þurri kúamykju af og til. Og þær þola enga samkeppni frá grastegundum. Til að halda vextinum nettum og þéttum eru blómaklasarnir klipptir burt eftir blómgun. Þá vaxa frekar út stuttir hliðarsprotar sem bera blómbrum á hverjum enda þegar haustar að.

Lyngrósir þola ekki klippingu niðurfyrir græn blöð. Ef þarf að klippa þær til má því ekki fara niður á bera leggi, því þeir koma ekki til með að senda út ný brum og blöð.

Azaleur

En nú er komið að því að kynna til sögunnar þær lyngrósir sem fást í blómabúðum á veturna og fram eftir vori. Þar er um að ræða tvær tegundir sem kallast einu nafni stofulyngrós. En venjulega eru þær seldar og um þær talað undir gamla heitinu „azalea“. Báðar koma þær frá Austur-Asíu og hafa verið ræktaðar í Kína, Kóreu og Japan í meira en þúsund ár. Afbrigði þeirra eru því mörg og margbreytileg, og með blöndun þeirra innbyrðis hafa komið enn fleiri. Frá meginlandinu kemur indverska eða kínverska azalean, Rhododendron simsii (stundum skráð sem R. indica). En frá Japanseyjum kemur sú japanska, Rhododendron kiusianum (oft skráð sem R. obtusum. Báðar eru fremur nettar og sígrænar. Munurinn á þeim tilsýndar er ekki mikill og óþarfi að fara út í smáatriði. Helst eru það blómin sem segja til um hver upprunalega tegundin er. Kínverska azalean ber mun stærri og opnari blóm, oftast ofkrýnd en á þeirri japönsku eru blómin smærri og yfirleitt einkrýnd. Það bætir hún upp með mun fleiri blómum. Litaskali azaleublómanna spannar hvítt, bleikt, rauðfjólublátt og skarlatsrautt. Gul eða blá blóm þekkjast ekki á stofulyngrósum.

Umhirða, ending og hugsanlegt framhaldslíf

Stofulyngrósirnar eða azaleurnar eru ekki eiginleg stofublóm í þeim skilningi að þær lifi af árið um kring inni í upphituðum mannabústöðum. Þær þurfa svalt umhverfi og moldin þarf alltaf að vera blaut. En ekki má samt láta þær standa í vatni nokkra hríð. Þá deyr rótin og plönturnar visna. Til að þeim líði vel og blómin standi lengi er best að setja þær á bjartan stað þar sem ekki er of heitt og sól nær ekki til þeirra að neinu ráði. Best er að hitinn fari ekki mikið yfir 18°C, þá standa blómin lengst. Inni í stofuhita má búast við að blómgunin standi yfir í tvær vikur, ef plönturnar þorna aldrei upp. Best er að vökva azaleur daglega með því að dýfa pottinum á bólakaf í vatn – og láta vatnið svo síga vel af áður en plöntunum er aftur komið fyrir á sínum stað. Eftir blómgunina er plöntunum oftast fleygt. En hafi þær haldið laufi og frískleika fram á þann tíma að frostnætur eru liðnar hjá úti í garðinum, má grafa pottinn með plöntunni í niður í beð á skjólgóðum stað utandyra. Undir haustið, áður en frostnætur setur að, er henni svo kippt inn og hún höfð í björtum glugga þar sem ekki er of heitt. Tíu til tólf stiga hiti er fínt. Eins henta frostlausir gróðurskálar vel. En ávallt þarf að gæta þess að moldin í pottinum þorni aldrei. Þegar sól hækkar á lofti á útmánuðum er svo von um að blóm birtist, hafi allt verið azaleunni í hag. Ef farið er út í framhaldsræktun á azaleunni á þennan hátt, má gefa henni daufan skammt af „súrum“ blómaáburði.

Annars er ræktun á azaleum mjög sérhæfð iðja og allar plöntur sem hér koma á markað eru ræktaðar úti í Belgíu, mest kring um borgina Gent. Þar hentar jarðvegur og veðurfar sérlega vel fyrir ræktunina. Á þessu svæði er obbinn af öllum azaleum á Evrópumarkaðinum framleiddur. Og þaðan kemur líka fagurlyngið (stofulyngið, Erica gracilis) sem við skreytum, stofur okkar, tröppur og legstaði með á haustin.

Skylt efni: Azalea | Garðyrkja | ræktun

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...