Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hið feiknavæna beykitré
Fræðsluhornið 28. janúar 2016

Hið feiknavæna beykitré

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Þeir sem hafa komið í danskan eða skánskan beykiskóg í fullum skrúða skilja vel hugtakið „skógarsalur“ sem einhvers staðar komst inn í íslenskar bókmenntir – og gott ef ekki er í frægri Kjarvalsmynd líka.

Fáar ef nokkur af norðlægum trjátegundum myndar jafn hályftan skóg með súlulaga trjábolum með sléttum og gljáfægðum berki. Birtan fær dularfulla grágræna slikju og á skógarbotninum skrjáfar fallið lauf frá fyrra sumri. Á stöku stað eru breiður af blómstrandi snotrum, hvítum og gulum, innan um laufruskið meðan laufþekjan er enn ekki fullútsprungin. Og jafnvel hinn stæki hrammlaukur (Allium ursinum L.) þar sem raki og birta leyfir.

Evrópskt eðaltré í útrás

Beyki, Fagus sylvatica L., er eitt af megintrjám laufskóganna í Vestur-Evrópu. Útbreiðsla þess nær frá Kákasusfjöllum í austri og vestur um hálendið allt til Atlantshafs. Þegar norðar dregur er það frekar á láglendinu beggja vegna Ermarsunds og og teygir sig þaðan yfir Eyrarsundsbyggðir Danmerkur og Svíþjóðar. Á stöku stað má rekast á sjálfsána beykilundi upp eftir Oslófirði og í suðursveitum Smálandanna sænsku.

Alls staðar þar fyrir norðan er beyki komið fyrir tilverknað manna og þrífst sæmilega sem garðtré í Upplöndum Svía, norðan Stokkhólms. Á Íslandi og í Færeyjum hefur beyki verið gróðursett á nokkrum stöðum og virðist standa sig furðuvel. Þótt vöxtur sé hægur hafa trén tosast upp. Helstu og elstu eintökin af beyki hér á landi er að finna í Hellisgerði í Hafnarfirði sem hafa staðið þar síðan garðurinn var gerður. Og afar fallegt beykitré var, og er vonandi enn, við Laufásveg 67. Það óx upp af fræi sem fengið var í Osló í kringum 1950. Austan undir vegg gamla Miðbæjarskólans við Reykjavíkurtjörn kúrir sig myndarlegur beykibrúskur sem Morthen A. Hansen gróðursetti þar á skólastjóraárum sínum við þann skóla. Vonandi fær hann að vera þar um allan aldur, þótt hann sé orðinn ansi nærgöngull við hús og grunn. Á síðari árum hefur innflutt beyki verið staðalvara hjá flestum garðplöntusölum á höfuðborgarsvæðinu. Nú má því víða sjá all-vöxtuleg beykitré í görðum.

Berjablámi, tímgun og ástarlíf

Fullvaxið beykitré tekur mikið pláss. Þótt trén séu smá og nett til að byrja með, má alveg reikna með því að þau taki nokkra tugi fermetra undir sig þegar þeim vex fiskur um hrygg. Einkum eru það klónar og tilbrigði með purpurarauðum laufum sem virðast standa sig ágætlega hér. Purpurarauði liturinn stafar af litarefninu antósýani, sem við getum líka kallað berjabláma, og er eiginlega vörn trjánna gegn næturfrostum um laufgunartímann og hverfur eftir að sumarið er sest að fyrir alvöru. En hjá sumum einstaklingum gerist það ekki og um það bil helmingur afkomenda þeirra fær þennan lit í arf. Tilbrigðum með súluvöxt eða hangandi greinar verður að fjölga með ágræðslu á venjulega beykirót.

Enn sem komið er hafa beykitré á Íslandi ekki borið frjó fræ þótt þau hafi borið það við að blómgast. En hvort það er veðurfarinu, þ.e. skorti á sumaryl, að kenna eða því að hörgull er á kynþroska mökum í nágrenninu svo að aðfrjóvgun er engin. Líklega eru beykitré af því tagi að annan einstakling þarf til að úr blómguninni verði barn. Þótt trén beri bæði karlblóm og kvenblóm er hætt við að þau séu ekki sjálffrjó. Vísir að aldinmyndun, beykihnotum, hefur komið á trén en reynst geld þegar þeim hefur verið sáð. Beyki hefur sambýli líkt og birki. Blómin eru á greinaendum ofarlega á trjánum, kynin aðskilin í karlblóm sér og kvenblóm sér.

Frjóvgun á sér stað með vindfrævun. Beyki verður sjaldan kynþroska fyrr en það hefur náð þriggja metra hæð þar sem það stendur stakt. En í skógum eru trén oftast orðin 60–80 ára gömul áður en þau þroska aldin í fyrsta sinn.

Uppeldi og aðbúnaður

Aldin beykitrjánna kallast beykihnot. Þau falla til jarðar á haustin og þola ekki að þorna upp áður en þau komast í jörð og búa sig undir spírun með vorinu. Við eðlilegar aðstæður sjá villisvín og skógarmýs af ýmsu tagi um að koma beykihnotunum á heppilegt dýpi þar sem þau geta eftirþroskast, álað og skotið upp kímblöðunum um leið og vorið heldur innreið sína. En þrátt fyrir að framboðið af beykihnotum sé ríkulegt á hverju hausti er nýliðun fremur lítil. Hnot sem ekki kemst um 8–10 cm ofan í jörðina stuttu eftir að það fellur af trénu á enga von og verður afætum eða veðrum að bráð.

Ef menn ætla að sá beyki og ala það upp, þarf að safna hnotunum strax og koma þeim í deigan mosa eða sand og láta þau eftirþroskast við 3–6°C hita þar til fer að örla á kímrót. Þá þarf að sá þeim í djúpa potta með grófvikurblandaðri sáðmold, hverju fyrir sig, og hafa í frostlausu gróðurhúsi. Venjulega er þetta tímabært í mars. Fylgjast þarf með að plönturnar myndi ekki hringrót í sáðpottinum.

Hringrótarmyndun í beyki er afar erfitt að leiðrétta og beyki sem hefur fengið hringrót, þ.e. rótin hefur vafist í hringi í uppeldispottunum, þolir ekkert vindálag og kolfellur ef eitthvað hvessir vind eftir að trén hafa náð að auka umfang sitt. Ef hægt er, er betra að sá í vel unninn og varinn reit utanhúss eftir eftirþroskann (kaldörvunina) og hylja fræin með blöndu af mold og vikri til helminga. Lagið þarf að vera 6–9 cm þykkt ofan á fræjunum. Uppeldi fyrstu 2–3 árin þarf að vera í vörðum reit, plönturnar hafðar með 15–20 cm millibili í moldinni en skorið á milli þeirra árlega upp úr miðju sumri. Eftir það má setja plönturnar út á á beð eða gróðursetja þær á framtíðarstað. Beyki þolir ekki að vaxa á bersvæði eða í samkeppni við grastegundir. En það má reyna að planta því í gisinn aspar- eða sitkagrenisskóg. Það þarf góðan jarðveg sem í er komið gott örverulíf. Í eðli sínu er beyki kalkelsk tegund svo að ein lúka eða svo af skeljakalki í plöntunargrópina er gott veganesti fyrir plönturnar meðan þær eru að koma sér fyrir og finna heppilegar sveppaslæður og örverur til að mynda rótarsambýli með og auðvelda sér þannig lífsbaráttuna um alla framtíð sína.

Að bauka við beykið

Beykitimbur er þungt, hart og seigt. Vegna seiglunnar er auðvelt að sveigja það og forma í ýmsa nytjamuni. Beyki er þeim kostum búið að gefa ekki frá sér bragð og auðvelt er að halda því hreinu. Það hefur því mikið verið notað í skrínur og áhöld sem brúkuð eru við matartilbúning. Beykiviður var áður fyrr mikið notaður í ýmiss konar búsáhöld og kyrnur, axarsköft og pála. Hann er eftirsóttur í dyraumbúnað, þiljur, parketgólf og húsgögn. Sömuleiðis er beyki mikið notað í ýmsa smámuni, listiðnað, minjagripi og leikföng.

Um aldaraðir hefur beyki verið notað í tunnugerð. Af því er dregið starfsheitið „beykir“ og notað um þá menn sem höfðu þann starfa að setja saman tunnurnar og berja í þær hlemmana. Og hver man ekki eftir tunguspöðunum sem læknar ráku upp í okkur hér á árum áður. Öllu viðkunnanlegra notagildi hefur beykið þó í öllum þeim aragrúa íspinna sem kæta börn víða um heim.

Beykitimbur er fremur breytilegt og svarar öllum rakabreytingum með þenslu eða samdrætti. Þessi eiginleiki og sú staðreynd að beykiviðurinn er oft mjög maðksmoginn af bjöllulirfum gerir hann að óáreiðanlegra burðarvirki en krafist er af stoðviðum til húsbygginga og þykir beykiviðurinn því ónothæfur til þess brúks. Reyndar heitir beykitimbur einfaldlega beyki. En samt er ekki langt síðan að smiðir töluðu um „brenni“ og áttu þá við beykivið. Ástæðan mun vera sú að á tímum danskra kaupmanna hér var iðulega fluttur inn eldiviður, sem auðvitað heitir „brænde“ upp á dönsku. Íslenskir hagleiksmenn, sem ávallt bjuggu við langvarandi spýtnaskort, uppgötvuðu þarna úrvals smíðavið en kunnu ekki að nefna öðru nafni en danska heitinu á eldiviðnum. Beyki er orkumikið eldsneyti og eftirsóttur arinviður. En það þykir ótækt til pappírsgerðar vegna þess að trénið er dökkt og trefjarnar eru það stuttar að pappírinn verður fremur stökkur og endingarlítill. Aftur á móti hefur beyki þótt gott efni í sterklegar umbúðir.

Í Frakklandi er nokkur eftirspurn á koluðum beykikvistum sem listmálarar nota við myndgerð sína. Einnig er sagt að Gallar hafi unnið pottösku úr beykiöskunni og notað til að lýsa á sér hárið. Frökkum hefur sem sé ávallt verið annt um listina og útlit sitt!

Nafnið – og afleiður þess

Ættkvíslarheiti beykisins, Fagus, er ævagamalt og má rekja það aftur í frumtungu vestrænna tungumála, sanskrít, líkt og svo mörg önnur trjáheiti. Það er nokkuð á reiki hvað nafnið merkir, en líklegasta skýringin mun eitthvað hafa með æt fræ að gera. Í germönskum málum hefur F breyst í B. Stofninn fag- verður að bag- sem síðan þróast á ýmsa vegu. Þýska heitið er Buche, danska bøg, sænska bok o.s.frv. Í íslensku er heitið „bók“ (kvk) notað um eitt einstakt tré, fleirtölumyndin og safnheitið „beyki“ er notað um hóp af beykitrjám og timbrið sem fellur til af þeim. Orðmyndin „bæki“ er líka til í sömu merkingu og beyki. Í öðru samhengi könnumst við svo við orðið bók og í fleirtölu bækur, en þá erum við komin inn á bókmenntasviðið. Vegna þess hve beyki var auðfáanlegt á meginlandi NV-Evrópu, fíntrefjótt og auðvelt að fleyga úr því þunnar og jafnar flögur sem klofnuðu ekki á árhringjunum, hentaði það ágætlega í spjöld sem hægt var að rista í eða skrifa á. Og jafnvel betri kostur var að blekið sem notað var blæddi ekki inn í viðinn, heldur hélst vel á yfirborðinu. Ef reynt var að nota timbur annarra trjátegunda til þess arna varð skriftin subbulegri og oftast ólæsileg. Spjöldin var síðan hægt að binda saman með uppröðuðum texta í góðu samhengi og samfellu. Bókin var orðin til. Þetta var áður en á allra færi var að útvega sér pergament eða bókfell til að skrifa á. Því talar fólk á germönsku málsvæðunum um bækur en ekki „libres“ eins og tíðkaðist þar sem rómversk menning hafði sest að.

Skylt efni: Garðyrkja. Ræktun | beyki

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar
Fréttir 27. nóvember 2021

Vinstri grænir stýra ráðuneyti matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar

Samkvæmt heimildum Bændablaðsins mun þingmaður Vinstri grænna vera með ráðuneyti...

Bitbein um áburðarnotkun
Fréttir 26. nóvember 2021

Bitbein um áburðarnotkun

Lífrænir bændur í Danmörku geta nýtt sér húsdýraáburð frá ólífrænum búum í meira...

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega
Fréttir 26. nóvember 2021

Nær 36 milljónir íbúa ESB geta ekki kynt heimili sín sómasamlega

Í síðasta Bændablaði var greint frá því að samkvæmt könnun sem kynnt var af Euro...

Kolefnissporið kortlagt
Fréttir 26. nóvember 2021

Kolefnissporið kortlagt

Skútustaðahreppur hefur samið við nýsköpunarfyrirtækið Greenfo um að kortleggja ...

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki
Fréttir 25. nóvember 2021

Flestir bílaframleiðendur veðja á efnarafala fremur en rafhlöður í þung ökutæki

Vetnisvæðing, sem nú er rekin áfram af mikilli ákefð hjá öllum stærstu iðnríkjum...

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama
Fréttir 25. nóvember 2021

Rekstur vindorkugarða sagður brjóta á mannréttindum Sama

Norðmenn hafa upplifað spreng­ingu í uppsetningu vindorkustöðva á undanförnum ár...

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn
Fréttir 24. nóvember 2021

Rúlluplast í plastgrindur í göngu­stígum og bílaplönum slær í gegn

Fyrirtækið Ver lausnir í Garðabæ hefur verið að vinna að athyglisverðu verkefni ...

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts
Fréttir 24. nóvember 2021

Leiðbeiningar um hvernig hámarka megi gæði nautakjöts

Nýr upplýsingabæklingur hefur verið gefinn út undir merkjum Íslensks gæðanauts. ...