Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sindri Sigurgeirsson
Sindri Sigurgeirsson
Mynd / HKr.
Skoðun 6. janúar 2016

Hátíðarkveðjur úr Högum

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Það er orðið árvisst að landbúnaðurinn fær kaldar kveðjur um hátíðarnar frá Finni Árnasyni, forstjóra Haga sem er stærsta verslunarkeðja landsins. Árið 2014 birti hann hátíðarkveðju sína í Fréttablaðinu á aðfangadag jóla, en núna seinkaði henni örlítið því hún birtist í áramótablaði Viðskiptablaðsins. Uppistaðan í grein Finns er gagnrýni á starfsumhverfi landbúnaðarins og vangaveltur um gerð nýrra búvörusamninga.

Búvörusamningar í deiglunni
Síðustu mánuði hafa fulltrúar bænda og ríkisins setið við samningaborð vegna nýrra búvörusamninga. Viðræðunum er alls ekki lokið og ekkert er farið að ræða um fjárhæðir. Megininntak viðræðnanna er að treysta rekstrargrundvöll landbúnaðarins til lengri tíma. Meðal annars er rætt um að afleggja greiðslumarkskerfi í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt. Hugsunin er sú að stuðningurinn verði skilvirkari og skili sér betur til starfandi bænda fremur en þeirra sem eru á leið út úr greininni eða fjármálastofnana. Ef hugmyndir samningsaðila ná fram að ganga er um mestu breytingar að ræða um áratugabil á starfsumhverfi landbúnaðarins.

Ein af forsendum þess að semja með þessum hætti er að gera búvörusamninga til tíu ára. Á tímabilinu er þó gert ráð fyrir endurskoðun sem veitir báðum samningsaðilum svigrúm til breytinga. Í landbúnaði eru langir framleiðsluferlar og það er mikilvægt fyrir bændur að geta gert áætlanir til lengri tíma.

Hver er tilgangur stuðningskerfis í landbúnaði?
Stuðningur við landbúnaðarframleiðslu á sér langa sögu hérlendis og hefur verið framkvæmdur með ólíkum aðferðum. Fjölþætt rök liggja að baki, en megintilgangurinn hefur löngum verið sá sami: Að stuðla að nægu framboði innlendra matvæla á hóflegu verði fyrir neytendur. Hið opinbera beitir sömu aðferðum við að greiða niður margvíslega aðra starfsemi eða þjónustu, s.s. mennta- og menningarstarfsemi, velferðarþjónustu, samgöngur og fjölmargt annað. Notendur greiða þá mun minna fyrir þjónustuna en hún raunverulega kostar eða jafnvel ekkert. Þess í stað er þjónustan fjármögnuð úr sameiginlegum sjóðum. Það er einfaldlega talið sanngjarnara og hagkvæmara. Innlend matvæli kosta með þessum aðferðum minna en þau myndu annars gera.

1,8% af útgjöldum ríkisins renna til landbúnaðarins
Beinn stuðningur við landbúnað er um það bil 12,7 milljarðar króna miðað við fjárlögin í ár. Það er 1,8% af útgjöldum ríkisins á árinu. Afgangurinn er reiknuð markaðsvernd en ekki raunveruleg útgjöld. Markaðsverndin er reiknuð sem mismunur á heimsmarkaðsverði að viðbættum flutningskostnaði og innlendu verði. Sú tala tekur sífelldum breytingum í takt við verð á mörkuðum og gengisbreytingar.

Hvar liggja hagsmunir stærstu verslanakeðjunnar?
Það hefur lengi verið eitt helsta markmið þeirra sem standa í verslunarrekstri á Íslandi að brjóta upp starfsumhverfi landbúnaðarins. Þar er efst á blaði að minnka tollvernd. Með því getur verslunin sjálf flutt inn ódýrar búvörur og hagað verðlagningu þeirra eftir eigin höfði. Það verður tæplega keppikefli kaupmanna að tefla eingöngu fram vörum sem uppfylla gæðakröfur íslenskra neytenda, til dæmis hvað varðar lyfjanotkun, rekjanleika og aðra framleiðsluhætti. Dæmin sanna að áherslan er á lágt verð en ekki gæði.

Er trúverðugt þegar forstjóri Haga segist með gagnrýni sinni á íslenskan landbúnað fyrst og fremst bera hag neytenda fyrir brjósti? Í tæplega ársgamalli skýrslu Samkeppniseftirlitsins kemur fram að það ríkir fákeppni í smásölu á dagvörumarkaði. Þar er bent á að arðsemi stærstu íslensku verslunarsamstæðanna sé mjög góð í alþjóðlegum samanburði. Meðalarðsemi eigin fjár matvörukeðja í Evrópu er um 13% og um 11% í Bandaríkjunum samanborið við 35%-40% hér á landi.

Ýmsir efast um að verslunarfyrirtækin skili mögulegum ávinningi tollabreytinga til neytenda. Það hafa meðal annars rannsóknir Alþýðusambands Íslands staðfest. Undanfarin ár hafa talsverðar skattabreytingar orðið. Nær öll vörugjöld og sykurskattur hafa verið felld niður og nú hefur verið ákveðið að fella niður nær alla tolla nema á matvælum. Fyrri áfangi þess kom til framkvæmda um nýliðin áramót en sá síðari um þau næstu.

Bændur kjósa sátt um landbúnað
Bændum er umhugað að reka sinn landbúnað í sátt við land og þjóð. Þeir hafa fært rök fyrir því að það er hagkvæmt að reka landbúnað á Íslandi og framleiða eins mikinn mat og okkur er unnt, m.a. vegna markmiða um samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda vegna flutninga og einnig matvæla- og fæðuöryggis. Hjá öllum þjóðum sem við berum okkur saman við nýtur landbúnaðurinn opinbers stuðnings. Evrópusambandið er í grunninn tollabandalag og leitun er að víðtækara styrkjakerfi en í Bandaríkjunum.

Kollsteypur á starfsumhverfi landbúnaðarins eru engum til góða. Samkeppnisstaða innlendu framleiðslunnar mun skerðast ef innflutningur búvara verður óheftur og minnkandi stuðningsgreiðslur munu fækka fjölskyldubúum. Það mun hafa veruleg áhrif á byggðir landsins og fækka störfum í matvælageiranum. Niðurstaðan verður að verslunin nær stærri hluta virðiskeðjunnar til sín í gegnum aukinn innflutning á búvörum. Sjálfsagt myndi það bæta hag kaupmanna en skilja bændur og neytendur eftir á köldum klaka.

Skylt efni: verslun

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...