Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hænsni – stærsti fuglastofninn í heimi
Á faglegum nótum 29. febrúar 2016

Hænsni – stærsti fuglastofninn í heimi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Áætluð heimsframleiðsla á kjúklingakjöti árið 2015 er rúmlega hundrað milljón tonn og samkvæmt einni áætlun verpa hænur heimsins 1,1 trilljón eggjum á ári. Rómverjar töldu hænsn vera spádómsfugla og fólk klæðir sig upp þegar því er boðið í hanastél.

Ómögulegt er að gera sér grein fyrir því hversu mörg hænsni finnast í heiminum. Áætlaður fjöldi þeirra er allt frá því að teljast þrjár hænur á mann eða rúmlega 22 miljarðar, miðað við 7,4 milljarða af fólki, upp í 50 milljarða. Af húsdýrum í heiminum er fjöldi hænsnfugla langmestur og hænsni eru stærsti fuglastofninn í heimi.

Kjötframleiðsla

Heimsframleiðsla kjúklingakjöts árið 2015 er áætluð rúm 100 milljón tonn. Mest var framleiðsla í Bandaríkjunum, rúm 18,3 milljón tonn og næstmest í Brasilíu, tæp 13,5 milljón tonn. Í Kína, sem er í þriðja sæti yfir stærstu framleiðendur kjúklingakjöts í heiminum, nam framleiðslan 13,1 milljón tonna.

Sameiginleg framleiðsla í löndum Evrópusambandsins var rúm 10,8 milljón tonn og á Indlandi var hún um 4,2 milljón tonn árið 2015. Lönd í sjötta til tíunda sæti voru Rússland, Mexíkó, Argentína, Tyrkland og Taíland, þar sem framleiðslan var frá rúmlega 3,6 milljón tonn niður í rúmlega 1,6 milljón tonn.

Brasilía er stærsti útflytjandi kjúklingakjöts í heiminum og flytur út tæplega 3,9 milljón tonn, Bandaríkin eru í öðru sæti með útflutning upp á rúm 3,2 milljón tonn, samanlagt flytja lönd Evrópusambandsins út rétt tæp 1,2 milljón tonn. Því næst koma Kína og Taíland með 377 og 360 þúsund tonn.

Japan er stærsti innflytjandi kjúklingakjöts, um 875 þúsund tonn á ári, Sádi-Arabía er annar stærsti innflytjandinn með 850 þúsund tonn og Mexíkó er þriðji stærsti innflytjandi kjúklingakjöts í heiminum, 770 þúsund tonn. Því næst koma lönd Evrópusambandsins undir einum hatti með 720 þúsund tonn og Írak sem flytur inn rúm 700 þúsund tonn af kjúklingakjöti á ári.

Framleiðsla á kjúklingakjöti á Íslandi árið 2015 var tæp 7, 7 þúsund tonn og sama ár voru flutt til landsins 560 tonn af frystu kjúklingakjöti en í þeirri tölu er ekki talið kjúklingakjöt sem flutt er inn í unninni kjötvöru og tilbúnum réttum.

Eggjaframleiðsla

Hænur verpa eggjum sem eru gríðarlega mikilvæg fæða um allan heim. Egg eru gerð úr skurn sem er yst. Undir skurninu er himna sem kallast skjall. Innan við skjallið er hvíta og í henni rauða. Hænur hefja varp fjórum mánuðum eftir að þær klekjast úr eggi.

Áætlaður fjöldi varphæna í heiminum er tæplega 5 milljarður. Mestur er fjöldi þeirra í Kína, tæplega einn milljarður, næstflestar varphænur finnast í Bandaríkjunum, um 300 milljón, um 290 milljón í löndum Evrópusambandsins, 133 milljón á Indlandi og 115 milljón varppúddur eru sagðar vera í Mexíkó.

Framleiðsla á eggjum á Íslandi árið 2014 var 3.617 tonn.

Þýskaland flytur inn mest af eggjum en Bandaríkin eru stærsti útflytjandinn. Íbúar í Mexíkó neyta allra þjóða mest af eggjum eða um 321 egg á mann á ári. Næstmest er neyslan í Bandaríkjunum, 255, Frakkar borða tæp 250 egg á mann á ári, Portúgalar 186 og Indverjar 40. Framræktaðar varphænur geta orpið hátt í 300 eggjum á ári.

Samkvæmt einni áætlun verpa hænur heimsins 1,1 trilljón eggjum á ári. Trilljón er einn með tólf núllum á eftir.

Auk þess sem hænsni gefa af sér kjöt og egg eru fjaðrirnar notaðar í sessur og sængur og þurrkaður hænsnaskítur er góður áburður.

Hænsn eru skyld grameðlum

Rannsóknir á þróun fugla sýna að þeir eru skyldir forneðlum. Samanburður á erfðaefni sýnir talsverðan skyldleika hænsna og gram­eðlna, eða Tyrannosaurus Rex, sem dóu út fyrir 68 milljón árum.

Tannlausar alætur

Hænsni eru hópdýr og teljast vera miðlungs eða stórir fuglar, 1,5 til 2 kíló að þyngd. Vængir þeirra eru litlir miðað við stærð búksins og hænsni eru ófleyg. Fái hænur í hópum að unga út eggjum skiptast þær á að sitja á og ala ungana upp í sameiningu. Útungunartími frjórra hænueggja er 21 dagur.

Goggunarröð í hænsnahópum er mikil og dýr ofar í goggunarröðinni hafa forgang að æti. Finni ríkjandi hani fæðu kallar hann oft á hænurnar sínar og leyfir þeim að éta fyrst. Hænur sýna sömu hegðun gagnvart ungum.

Valdabarátta lausagöngu hæna í eldi þar sem pláss er takmarkað getur leitt til kannibalisma innan hópa.

Þegar hanar stíga í vængi við hænur dansa þeir tignarlegan dans hjá eða í kringum hænuna þar sem þeir sýna og lækka vængina frammi fyrir henni.

Í náttúrunni róta hænsn eftir fæðu á jörðinni. Þau eru tannlausar alætur sem aðallega lifa á fræjum og smádýrum. Hænsn gleypa matinn heilan með goggnum og þaðan fer hann í svonefndan sarp þar sem fæðan mýkist. Melting fæðunnar á sér stað í þremur stigum. Úr sarpinum fer fæðan í kirtilmaga þar sem eiginleg melting hans á sér stað og að lokum er hann mulinn í fóarninu.

Karldýr hænsna kallast hanar, kvendýrin hænur og ungarnir kjúklingar. Samheiti þeirra er hænsn og í eina tíð, þegar hænur, hanar og og ungar gengu frjáls til sveita, voru þau stundum kölluð skíthólahopparar. Sagt er að hænur gaggi eða gali.

Líftími hænsna er mismunandi eftir kynjum, fimm til tíu ár. Samkvæmt Heimsmetabók Guinness náði elsta hænsn sem vitað er um sextán ára aldri. Kvikindið var hani sem að lokum drapst úr hjartaáfalli.

Kambur og hálssepar eru kyntákn

Kamburinn og hálssepinn á höfði hænsna hefur það hlutverk að kæla blóð dýranna. Hænsni í heitari löndum hafa því stærri kamb en kyn sem hafa þróast á kaldari svæðum. Kamburinn og hálssepinn þjónar einnig hlutverki í félags- og hegðunarmunstri hænsna. Stór kambur og hálssepi eykur möguleika hana til mökunar og hanar makast frekar við hænur með stóran kamb en lítinn. Dökkur kambur og sepi eru merki um hreysti og fuglar með dökkrauðan kamb og sepa eru einnig líklegir í að makast en fuglar með ljósan kamb og sepa. Lögun kambsins er mismunandi milli kynja og stundum innan sama kyns og talað er um einfaldan kamb, ertu-, sessu-, rósa- og valhnetukamb, svo dæmi séu tekin til að lýsa lögun hans.

Tamdar fyrir 12.000 árum

Tamin hænsn, Gallus gallus domesticus, eru afkomendur villi- og skógarhænsna, G. bankiva, og er talið að fyrstu hænsnin hafi verið taminn í Suðaustur-Asíu og Kína fyrir um það bil tólf þúsund árum.

Auk G. bankiva teljast seylonhænsni G. lafayetii, leppahæna G. sonneratii og jövuhæna G. varius til ættkvíslarinnar Gallus eða kambhænsna.

Frá Kína bárust hænsni til Indlands og þaðan til Afríku. Talið er að hænsn hafi borist til Evrópu eftir tveimur leiðum. Til Grikklands um 700 árum fyrir Krist frá Afríku og með Mongólum í gegnum Rússland og Pólland.

Rómverjar höfðu mikið dálæti á hænsnum og ólu heilög hænsni í hofum sínum. Þau voru talin spásagnardýr og þeim var blótað fyrir orrustur. Rómverjar höfðu með sér hænsn í landvinningaferðum sínum og eiga því stóran þátt í útbreiðslu þeirra um Evrópu.

Rannsóknir benda til að hænsni hafi borist til Suður-Ameríku, með viðkomu á eyjum í Pólinesíu, nokkur hundruð árum fyrir sjóferð Kólumbusar þangað. Til Íslands bárust hænsni með landnámsmönnum.

Hanaat og hanastél

Fornleifar benda til að hanar hafi verið notaðir í hanaat 5.400 árum fyrir Krist. Hanar voru víða til forna tákn um karlmennsku og frjósemi. Egyptar náðu snemma mikilli leikni í hænsnarækt og kjúklingakjöt og egg voru mikilvæg fæða þeirra um það leyti sem Egyptar voru að reisa pýramídana. Hænur finnast á egypskum veggmyndum og Egyptar voru farnir að unga út eggjum í massavís í sérstökum útungunarhúsum fyrir rúmum tvö þúsund árum.

Hænsn gegna veigamiklu hlutverki við bálfarir hindúa í Indónesíu. Fuglarnir eru bundnir á fæti nálægt bálinu þar sem því er  trúað að illir andar sem geta sótt að þeim látna leiti í hænsnin og festist í þeim. Eftir að bálið brennur út eru hænsnin tekin heim þar sem sagt er að andarnir geti ekki gert þeim mein.

Í Matteusarguðspjalli segir Jesú: „Sannlega segi ég þér: Á þessari nóttu, áður en hani galar, muntu þrisvar afneita mér.“ En hann sór og sárt við lagði að hann þekkti ekki manninn. Um leið gól hani. Og Pétur minntist þess er Jesús hafði mælt: „Áður en hani galar muntu þrisvar afneita mér.“ Og hann gekk út og grét beisklega.

Vegna þessa hafa hanar verið sagðir tákn um svik og pretti.

Í dæmisögum hins gríska Esóps er sagt að ljón séu hrædd við hana. Hanar eru eitt af tólf kínversku stjörnumerkjunum og á Vesturlöndum þykir fínt að vera boðið í veislur sem kallast hanastél. 

Lohmann og Ross Cobb

Hundruð ólíkra hænsnakynja sem hafa þróast á mismunandi hátt finnast í heiminum. Kynin eru ólík að stærð, lit fjaðra og holds. Í Kína er til dæmis hænsnakyn sem er með svart hold. Stærð, lögun og litur kambsins er mismunandi, fætur með líkum fjölda táa. Auk þess sem eggin sem kynin verpa eru ólík að stærð og lit. Mörg þessara kynja eru ræktuð sem skrauthænur.

Í eldi eru nokkur hænsnakyn algengust hvort sem um er að ræða kjúklinga til kjötframleiðslu eða varphænur. Fyrir nokkrum áratugum var meirihluti varphæna á Íslandi af kyni sem kallaðist Leghorn eða Hvítir Ítalir. Í dag eru næstum allar varphænur af kyni eða öllu heldur vörumerki sem kallast Lohmann og koma frá Skotlandi. Kjúklingar til kjötframleiðslu eru kyn eða vörumerki sem kallast Ross Cobb og koma frá Þýskalandi. Auk þess sem margir rækta landnámshænur sér til yndis.

Íslenska landnámshænan

Nokkuð öruggt er að hænsn hafi borist til Íslands með landnámsmönnum frá Noregi. Landnámshænsn eru þekkt fyrir fjölbreytilega liti og litaafbrigði og sem dæmi má nefna litbrigði eins og guldröfnótt, svart- og hvítyrjótt, rauðdröfnótt, gráflikrótt, ljósgrá og appelsínugult. Stærð landnámshænsna er nokkuð mismunandi og kamburinn er talsvert  breytilegur að stærð og lögun. Mjög gekk á stofn landnámshæna þegar leið á 18. öldina og dó stofninn næstum út á tíma. Íslenskar landnámshænur eru hraustar og langlífar.

Getið er um hænur í Hænsna-Þóris sögu og sagt að hann hafi ræktað og selt fiðurfé og hana auk þess sem hænsna er getið í Flóamannasögu. Hanarnir Fjalar og  Gullinkambur eru nefndir í Völuspá. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson segja í Ferðabók sinni að þeir hafi séð svört hænsni í Öræfasveit.

Búkur landnámshæna er þéttur og hálsinn stuttur og breiður. Bakið er stutt og breitt og bringan hvelfd. Hausinn er fremur lítill og oft með fjaðratopp. Goggurinn er stuttur og breiður. Stélið er hátt sett og sporar hananna langir og uppsveigðir. Íslenskar hænur hafa gulgræn eða gulbrún augu.

Vinsældir þess að eiga nokkrar landnámshænur hafa farið vaxandi meðal borgarbúa undanfarin ár.

Hauslausar hænur

Fyrst eftir að hausinn er höggvinn af hænsnfuglum geta þeir tekið hraustlega á rás og jafnvel virst fljúga. Ástæða þess er að öll líkamsstarfsemi hænsnanna er virk og hjartað slær fyrst eftir hausmissinn. Að lokum hættir starfsemi líkamans vegna súrefnisskorts. 

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...