Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Eftir 20 ára þróunarvinnu kemur gufuvélin Soilprep frá norska fyrirtækinu Soil Steam International á markað í sumar sem mun valda byltingu við framleiðslu utandyra á grænmeti og berjum.
Eftir 20 ára þróunarvinnu kemur gufuvélin Soilprep frá norska fyrirtækinu Soil Steam International á markað í sumar sem mun valda byltingu við framleiðslu utandyra á grænmeti og berjum.
Á faglegum nótum 2. mars 2018

Gufuvélin eykur uppskeru og geymsluþol

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Fyrirtækið Soil Steam International kynnir til sölu í sumar gufuvélina Soilprep sem mun valda byltingu við ræktun á grænmeti og berjum utandyra. Vélin, sem kemur fyrir gufu á 30 sentímetra dýpi í jarðveginum, nær að eyða illgresi, sveppum og þráðormum með góðum árangri. Þetta getur þýtt allt að 40 prósenta meiri uppskeru á þeim svæðum sem gufuvélin er notuð. 
 
„Soil Steam International er tveggja ára gamalt fyrirtæki en verkefnið hóf faðir minn, Kjell Westrum, fyrir rúmum 20 árum, þegar hann byrjaði að gera tilraunir með að drepa sveppi, illgresi og þráðorma í jarðvegi með gufu. Þetta hafa bændur gert í meira en 100 ár en það hefur engum tekist áður að setja gufu í og á jarðveginn utandyra á sjálfbæran hátt. Það verður að ná að setja gufuna niður á 30 sentímetra dýpi og það eru ekki til aðrar vélar en okkar sem geta það. Við sýndum gufuvélina okkar í Noregi og Þýskalandi í fyrra og hún mun fara í sölu til viðskiptavina í júní á þessu ári,“ segir Hans Kristian Westrum, stjórnarformaður og sölustjóri fyrirtækisins. 
 
Gegn sveppum og þráðormum
 
Gufuvél Soil Steam International þéttir jarðveginn fullkomlega þegar hún gengur stöðugt úti á akrinum og nær að drepa nánast allan þráðorm.
 
„Fyrirtækið er lítið enn sem komið er og við einblínum eingöngu á gufuvélar fyrir landbúnað en markaðurinn fyrir slíkar vélar er mjög stór. Þegar faðir minn byrjaði á þessu verkefni var það upprunalega til að berjast gegn nokkrum sveppategundum og þráðormum sem ekki voru til varnarefni gegn. Eftir margra ára prófanir komumst við að því að tæknin sem við notumst við drepur þetta niður með góðum árangri,“ segir Hans Kristian og bætir við:
 
„Þar að auki náum við að eyða nánast öllu illgresi og illgresisfræjum með gufunni. Vélin hefur verið prófuð á gulrætur, púrrulauk og kínakál þar sem bændurnir fá 18–40 prósent betri uppskeru eftir notkun á henni. Ástæðan fyrir því er að grænmetið fær þá frið gegn illgresi sem er í samkeppni um vatn og næringu. Þar fyrir utan fær grænmetið ekki í sig eins mikið af varnarefnum sem verða ónauðsynleg með gufuaðferðinni. Eftir að gufuvélin hefur farið um akurinn verður rótargrænmetið ekki fyrir árás sveppa í jörðinni og það þýðir að geymsluþol þeirra verður lengra. Við höfum til dæmis séð allt að 4 mánaða lengra geymsluþol á gulrótum eftir að hafa notað þessa aðferð. Ef við náum að geyma hluta af gulrótarframleiðslunni hér í landi 4 mánuðum lengur þá getur Noregur til dæmis verið sjálfbær með gulrótarframleiðslu og getur sleppt því að flytja inn frá Ísrael á hverju vori.“
 
 
Mynd af vélinni sem nú er í framleiðslu og fyrstu viðskiptavinirnir fá í hendurnar í júní á þessu ári.
 
Vinnur á einum hektara á klukkutíma
 
„Við notum sömu kerfi og notuð hafa verið í gróðurhúsum í Hollandi í mörg ár en við gerum það utandyra, úti á akrinum. Með því að lofttæma náum við að dreifa gufunni niður í allan jarðveginn á ákveðið dýpi þar sem 30 sentímetrar eiga að duga til að virka fyrir rótargrænmetið. Þetta hljómar mjög einfalt en er í rauninni flókið ferli. Þegar gufan er kæld verður hún að vatni og ef hún verður að vatni efst í jarðveginum þá býr hún til eins konar vatnsspegil sem er mjög erfitt að komast í gegnum. Þetta þýðir að við verðum að ná gufunni í gegnum jarðveginn á meðan hún er enn gufa þannig að hún gefi frá sér sem mesta orku og verði að vatni á réttu dýpi. Við höfum ítarlega stjórnun á þessu ferli í gegnum tölvu og hluta af þessu kerfi höfum við fengið einkaleyfi á,“ útskýrir Hans Kristian og segir jafnframt:
 
„Það sem gerir vélina einstaka í sinni röð er að við náum að hita upp stóran hluta af jarðvegi við ákveðið hitastig sem drepur þráðorma á fljótan og skilvirkan hátt. Við náum að gera það utandyra og á dýpi sem enginn annar hefur getað. Vélin sem kemur á markað í júní getur unnið á um einum hektara á klukkutíma og nær að sótthreinsa um 100 rúmmetra jarðvegs á klukkutíma.“
 
Stjórnarformaður og sölustjóri fyrirtækisins, Hans Kristian Westrum, ásamt Kåre Jan Johansen, framkvæmda- og tæknistjóra Soil Steam International.
 
Gufuvélin hefur vakið heimsathygli
 
Þó að næg vinna sé hjá starfsmönnum fyrirtækisins við að koma gufuvélinni í sölu og að þróa fleiri lausnir samhliða henni gera þeir einnig tilraunir með að framleiða gufurafala sem knúnir eru áfram af hauggasi.
„Vélin okkar og hugvitið í kringum hana hefur vakið mikla athygli. Sem dæmi þá fórum við með vélina til Þýskalands í fyrrasumar til eins af stærstu jarðarberjaframleiðendum þar í landi til að setja gufu í jarðveg hjá honum sem hann var búinn að eiga í stökustu vandræðum með. Jarðvegurinn var fullur af sveppum og það var ómögulegt að rækta nokkuð í honum enda hafði það ekki verið gert í þrjú ár þegar við komum. Án þess að við vissum þá komu um 50 manns víðs vegar að úr heiminum til að sjá og upplifa þegar við notuðum vélina þarna. Þetta voru stórir alþjóðlegir framleiðendur sem hafa átt í miklum vandræðum með sinn jarðveg,“ segir Hans Kristian og bætir við:
 
„Þetta voru aðilar frá Malasíu, Kanada, Ástralíu, Afríku, Hollandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum, sem höfðu heyrt um okkur á einn eða annan hátt og vildu sjá vélina að störfum. Eftir þetta fengum við þó nokkra umfjöllun í þýskum fjölmiðlum, margir af leiðandi vísindamönnum í heiminum hafa haft samband við okkur og í mars munum við heimsækja háskólann í Kaliforníu til að hitta nokkra stóra berja- og grænmetisframleiðendur og kynna vélina okkar. Þetta eru því spennandi tímar fyrir okkur og þá aðila sem geta nýtt sér hugvitið eftir áralanga þróunarvinnu.“ 
Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum
Fréttir 1. júní 2023

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum

Nýstárleg tilraun var gerð við ósa Haffjarðarár síðasta sumar, þegar fuglavarnar...

Fjölgun nema í kjötiðn
Fréttir 1. júní 2023

Fjölgun nema í kjötiðn

Rúnar Ingi Guðjónsson segist finna fyrir mjög miklum áhuga hjá ungu fólki að lær...

Ferðamenn sækja í skóga
Fréttir 1. júní 2023

Ferðamenn sækja í skóga

Stjórn Félags skógarbænda á Suðurlandi harmar framkomnar órökstuddar fullyrðinga...

Ártangi til sölu
Fréttir 31. maí 2023

Ártangi til sölu

Hjónin Gunnar Þorgeirsson og Sigurdís Edda Jóhannesdóttir hafa sett garðyrkjustö...

Skýr afstaða í könnun
Fréttir 31. maí 2023

Skýr afstaða í könnun

Meirihluti þjóðarinnar er sammála því að íslenska ríkið eigi að leggja aukið fjá...

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun
Fréttir 31. maí 2023

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun

Ágúst Sigurðsson á Kirkjubæ á Rangárvöllum hefur nýlega tekið við starfi fagstjó...

Erlendir sérhæfðir garðyrkjuráðunautar á Íslandi
Fréttir 31. maí 2023

Erlendir sérhæfðir garðyrkjuráðunautar á Íslandi

Matvælaráðherra úthlutaði nýlega styrkjum til þróunarverkefna búgreina, um 93 mi...

Afhending eftir sauðburð
Fréttir 30. maí 2023

Afhending eftir sauðburð

Matvælastofnun hefur náð samkomulagi við sauðfjárbændur á nokkrum bæjum í Miðfja...