Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Kýr eru heilagar í Indlandi og Narendra Modi, forsætisráðherra landsins, hefur verið sérstakur talsmaður þess að tryggja stöðu þeirra.
Kýr eru heilagar í Indlandi og Narendra Modi, forsætisráðherra landsins, hefur verið sérstakur talsmaður þess að tryggja stöðu þeirra.
Fréttir 10. nóvember 2021

Griðasvæði kúa á Indlandi

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snsig@arlafoods.com

Það kannast líklega flestir við að litið er á kýr sem heilagar á Indlandi, þ.e. á meðal strang­trúaðra hindúa. Líklega vita færri að þar í landi eru ótal verndar­svæði fyrir kýr, þ.e. svæði eða bú þar sem kúm er komið fyrir og þar geta þær verið allt til dauðadags í friði og ró.

Þessi bú kallast Goshala, eða Gaushala í enskum framburði, en nafnið kemur úr hinu forna indverska tungumáli sanskrít og er samsett úr orðunum Go, sem merkir kýr, og Shala, sem merkir skýli eða skjól.

Heilagar kýr

Samkvæmt trú hindúa, sem um 80% Indverja aðhyllast, þá eru kýr og raunar allir nautgripir heilagir og má hvorki éta kjöt þeirra, sýna þeim óvirðingu eða yfirhöfuð skipta sér mikið af þeim.

Kýrnar sjálfar, þ.e. kvendýrið, hefur án nokkurs vafa hærri stöðu en aðrir nautgripir og mögulega má rekja það til fórnarathafna hér áður fyrr. Þá var kúm fórnað fyrir guðina til neyslu og því staða þeirra svona sérstök enda fólki ekki ætlað að leggja sér til munns það sem guðunum var ætlað. Talið er að þessi fórnarhefð hafi svo undið upp á sig og færst frá því að fórna gripum yfir í að færa guðunum matarfórnir s.s. úr mjólk. Ýmsar aðrar skýringar finnast á því af hverju hindúar líta á kýr sem heilagar og skal ekki farið nánar út í það hér. Þó er ljóst að eftir að Narendra Modi, núverandi forsætisráðherra landsins, komst til valda ásamt flokki sínum hefur staða hinna heilögu nautgripa vaxið mjög enda er hann ötull talsmaður þess að dýr megi ekki deyða.

Á þessum sérhæfðu nautgripabúum eru frá nokkur hundruð upp í þúsundir nautgripa.

Bann við slátrun

Indverska ríkisstjórnin setti m.a. á lögbann við slátrun nautgripa árið 2017 en þangað til gátu bændur selt gripi sína á markaði og til slátrunar enda leggja margir Indverjar sér nautakjöt til munns þrátt fyrir allt. 20% þjóðarinnar eru ekki hindúar og það er allverulegur fjöldi, eða um 250-300 milljónir! Nautakjötsátið hefur þó lengi farið fyrir brjóstið á strangtrúuðum hindúum og því voru lögin sett. Fyrst á eftir leystu bændurnir málið með því að selja gripi sína lifandi til nágrannalandanna, þar sem slátrun fór fram en ríkisstjórnin hefur nú að mestu stöðvað þá leið líka. Þessi staða hefur því svo leitt til þess að fjöldi kúa, sem bændur hafa tekið úr mjólkurframleiðslu, hefur hreinlega bara verið sleppt lausum.

Á Indlandi eru til sérstaklega útbúnir sjúkrabílar sem eingöngu eru fyrir búfé.
Sérstakir sjúkrabílar fyrir kýr

Vegna þessarar heilögu stöðu kúnna á Indlandi eru þær víða á ferli og oft þvælast þær um á götum landsins. Þetta hefur leitt til ótal slysa, þar sem bílar keyra á gripina og ef þeir lifa það af eru notaðir sérstakir gripaflutningabílar sem hefur verið í raun breytt í sjúkrabíla fyrir nautgripi! Þessir bílar eru sérútbúnir og geta tekið um borð slasaða gripi og ekið þeim á búin. Þar er þeim komið fyrir á sjúkradeildum þar sem dýralæknar hlúa að þeim þar til hægt er að færa þá yfir í hjarðirnar.

Aukin mjólkurframleiðsla eykur vandann

Frá þeim tíma sem bannið tók gildi hefur mjólkurframleiðsla landsins aukist verulega og þetta fer í raun ekki sérlega vel saman. Þetta er sú staðreynd sem blasir við á Indlandi og þar sem ekki sér fyrir endann á hinni auknu þörf fyrir mjólk og mjólkurvörur á Indlandi þá kallar það á breyttar áherslur og lausnir og ein þeirra er að koma upp einskonar griðasvæði fyrir nautgripi, hálfgerðu elliheimili fyrir kýr!

Upphaf griðasvæðanna

Líklegt er talið að upphaf þessara búa megi einfaldlega rekja til þess að of margar kýr voru á vergangi, vandalausar kýr, og voru jafnvel vannærðar og illa á sig komnar. Trúin leyfði þó ekki að slátra þeim og því var þeim fundinn samastaður þar sem séð var um þær og tryggt að þær myndu fá að éta. Svona staðir eða svæði voru við mörg þorp og sáu þorpsbúar þá um að fóðra kýrnar og sjá til þess að þær hefðu það gott enda á ábyrgð þeirra sem trúa, að kýrnar líði ekki fyrir trúna.

Fjölbreytt framleiðsla

Goshala-búin nýta kýrnar sem berast búunum eftir því sem hægt er. Flestar þeirra eru ekki lengur í mjólkurframleiðslu en sumar þó mjólkandi og þó svo að mjólkurframleiðsla hverrar kýr sé e.t.v. lítil þá safnast þegar saman kemur. Búin selja því svolítið af ferskri mjólk, hleyptri mjólk (curd) og smjörþykkni (ghee). Þá selja þau einnig skítinn frá kúnum sem áburð, en einnig sem flugnafælu en þá hefur skíturinn verið blandaður ákveðnum plöntuleifum og þurrkaður. Þegar hann brennur, gefur hann frá sér lykt sem flugur fælast og hjálpar það við að halda þeim frá og sér í lagi moskítóflugum, en sem kunnugt er geta þær borið með sér malaríu.

Margir trúa því að neysla á kúahlandi sé hin mesta heilsubót.

Eima og drekka hlandið

Þó svo að kúahland henti í raun ágætlega sem áburður á tún og akra þá er það einnig nýtanlegt í margt annað. Vel þekkt er notkun þess til hárþvotta, en líklega er notkun þess sem fæðubótarefni minna þekkt. Eitt glas af kúahlandi á morgnana er talið, af heimamönnum á Indlandi, geta læknað krabbamein, lungnaveiki, sykursýki og m.a. geta varið fólk gegn smiti af Covid-19 auk fleiri pesta og því eftirsótt á morgunverðarborð ákveðinna þjóðfélagshópa. Söfnun þess fer fram á morgnana en þá gengur starfsfólk búanna um hjörðina með fötu í hendi og grípur tækifærið og safnar hlandi þegar morgunbunan kemur! Hlandið er svo hitað upp, eimað og sett á drykkjarflöskur.

Um allt land

Í dag má finna bú sem þessi um allt Indland og er fjöldi þeirra vel á fjórða þúsund, þar af um þriðjungur rekinn af hinu opinbera. Flest búin eru með nokkur hundruð gripi en einnig eru til bú með mörg þúsund gripi og ekki bara kýr heldur einnig bæði kálfa og naut. Auk þeirra tekna sem þau afla sjálf þá njóta þau bæði styrkja og gjafa enda líta margir hindúar á það sem siðferðislega skyldu sína að leggja þeim til stuðning með einum eða öðrum hætti. Þá styrkir hið opinbera einnig rekstur þessara búa og nemur árleg fjárveiting til þeirra um 6 milljörðum íslenskra króna! Þess utan eru mörg búanna einnig með eins konar þjónustu fyrir bæði heima- og ferðamenn þar sem hægt er að heimsækja búin og fræðast um rekstur þeirra og jafnvel iðka trúna, stunda jóga o.fl.

Enn mikið vandamál

Þrátt fyrir útbreiðslu þessara griðasvæða fyrir nautgripi á Indlandi er mikið um vandamál sem tengjast því að ekki megi slátra þessum nautgripum. Þannig sleppa sumir bændur einfaldlega nautgripunum sínum lausum, þ.e. þeim sem þeir vilja ekki nota lengur, og skapar það eðlilega margþætt vandamál, enda er talið að um 5 milljónir nautgripa séu nú í raun eigendalausir á Indlandi! Þessir gripir þvælast um bæi, þorp og borgir, éta rusl og allan þann gróður sem þeir komast í og eins og áður segir skapa þeir verulega hættu í umferðinni. Til þess að sporna við þessu hafa sum héruð ákveðið að setja kröfu um örmerki í alla nautgripi. Þá verði hægt að skanna þá gripi sem finnast og sekta eigendur þeirra fyrir vanrækslu. Hvað gert verður við þessa 5 milljón gripi sem nú eru lausir er alls óvíst enda þyrfti margfalt fleiri griðasvæði til að taka við öllum þessum nautgripum.

Skylt efni: Indland | kýr á Indlandi

Mest aukning í svínakjöti
Fréttir 11. október 2024

Mest aukning í svínakjöti

Samkvæmt nýútgefnum tölum Hagstofu Íslands jókst innlend kjötframleiðsla um þrjú...

Um 30% samdráttur á hverja framleidda einingu
Fréttir 11. október 2024

Um 30% samdráttur á hverja framleidda einingu

Bændasamtök Íslands hafa lagt umsögn sína um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum inn ...

Vambir liðnar undir lok
Fréttir 11. október 2024

Vambir liðnar undir lok

Ekki fást lengur vambir með slátri frá SS. Neytendur sakna þeirra.

Beint: Dagur landbúnaðar á Suðurlandi
Fréttir 11. október 2024

Beint: Dagur landbúnaðar á Suðurlandi

Bændasamtök Íslands og Samtök fyrirtækja í landbúnaði standa fyrir málþingi á Hó...

Stýrihópur greiðir úr misfellum
Fréttir 11. október 2024

Stýrihópur greiðir úr misfellum

Fyrir liggur að matvælaeftirlit hér á landi er óskilvirkt og nýr stýrihópur hefu...

Arfgerðargreindir gripir standast ekki villupróf
Fréttir 10. október 2024

Arfgerðargreindir gripir standast ekki villupróf

Mikill gangur hefur verið í arfgerðargreiningum í sauðfé frá áramótum.

Upplýsa þarf um smithættu af vanelduðum hamborgurum
Fréttir 10. október 2024

Upplýsa þarf um smithættu af vanelduðum hamborgurum

Tvær nýlegar hópsýkingar hafa orðið í Noregi sem raktar voru til hamborgarakjöts...

Afkomutjón blasir við
Fréttir 10. október 2024

Afkomutjón blasir við

Forsendur ylræktar bresta augljóslega ef ekki er tryggt aðgengi að grunnþáttum f...