Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands garðyrkjubænda.
Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands garðyrkjubænda.
Mynd / smh
Fréttir 6. mars 2020

Grænkerum og veganistum fjölgar í takt við neyslubreytingar

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Það hefur sennilega ekki farið framhjá mörgum að svokallaður veganismi ryður sér til rúms hérlendis og sífellt fjölgar í þeim hópi fólks sem aðhyllist þann lífsstíl. Grænkerar neyta engra dýraafurða og sækja alla næringu úr plönturíkinu og borða þess vegna ekki kjöt, fisk, mjólkurvörur, egg eða aðrar dýraafurðir. Það eru helst þrjár ástæður fyrir því að fólk gerist vegan en það eru dýraverndunar-, umhverfis- og af heilsufarsástæðum.

Jákvæð ímynd grænmetisæta

Samtök grænmetisæta á Íslandi voru stofnuð árið 2013 af nokkrum grænmetisætum og grænkerum. Árið 2018 sameinuðust svo Vegansamtökin og Samtök grænmetisæta undir nafninu Samtök grænkera og í stjórn eru nú meðal annars Benjamín Sigurgeirsson formaður og Valgerður Árnadóttir varaformaður ásamt átta meðstjórnendum. Valgerður sat fyrir svörum um hlutverk samtakanna.

„Tilgangur samtakanna hefur frá byrjun verið að stuðla að ja´kvæðri i´mynd og fjo¨lgun grænmetisæta, standa vo¨rð um hagmuni þeirra og vinna að þvi´ að fjo¨lga valkostum nauðsynja- og neysluvara a´n dy´raafurða. Það má segja að upphaflegur tilgangur samtakanna hafi takist vel til, mikið úrval er af vegan matvöru í verslunum og á veitingastöðum og grænkerum fjölgar mjög hratt enda aukin vitund í samfélaginu um áhrif dýralandbúnaðar á umhverfi, heilsu og dýrin.“

Verða sjálfbærari í grænmetisframleiðslu

Valgerður segir verkefni samtakanna í dag snúast mikið um að halda viðburði eins og Veganúar, vegan festival, sýna heimildamyndir og halda málþing.

„Einnig erum við virk í að skrifa greinar, senda út álit og áskoranir, eins og til dæmis að hvetja skóla og stofnanir til að bjóða upp á grænkerafæði, að landlæknir hafi viðunandi upplýsingar um grænkerafæði á síðu sinni og í fræðsluefni og eitt af okkar aðal-áherslumálum er að Ísland rækti meira af grænmeti, ávöxtum og kornmeti hér heima, en eins og flestir vita er um 90% af þessum vörum innfluttar í dag,“ útskýrir Valgerður og segir jafnframt:

„Við teljum að með aukinni áherslu stjórnvalda og menntastofnana, lækkun raforku til grænmetisbænda og með aukinni áherslu með menntun og endurmenntun sé hægt að gera Ísland sjálfbært í grænmetisframleiðslu. Ef Holland, sem er hvorki með heitt vatn né endurnýjanlega orku, getur ræktað allt í gróðurhúsum þá getum við það.“

Bætist stöðugt við í hóp veganista

Þann 23. janúar síðastliðinn héldu samtökin málþing undir yfirskriftinni „grænmetisrækt, sjálfbærni og nýsköpun á Íslandi“ þar sem gestir fengu að heyra reynslusögur grænmetisbænda, álit Landverndar og Samtaka grænkera á málaflokknum og stefnu ólíkra stjórnmálaflokka frá þingmönnum.

„Málþingið gekk vonum framar og ánægjulegt var að sjá hve mikil þverpólitísk samstaða ríkti og að það þyrfti sannarlega að efla þennan málaflokk til muna til að uppfylla loforð okkar í loftslagsmálum, fyrir heilsu og dýralíf. Streymi frá fundinum má finna á síðunni okkar, graenkeri.is,“ segir Valgerður og aðspurð um þá breytingu í hugarfari sem orðið hefur í garð veganista undanfarin ár bætir hún við:

„Við höfum séð mjög mikla breytingu, ef við tökum þann tíma sem ég hef verið grænkeri þá voru um 2.500 manns í Vegan Ísland hópnum okkar árið 2016 en nú eru um 23.000 manns í hópnum og alltaf bætist við. Það er mjög gott úrval orðið í öllum stórmörkuðum og á veitingastöðum um allt land og lítið mál að vera grænkeri á Íslandi í dag. Ég tel aukna vitund um umhverfisáhrif dýralandbúnaðar vera helsta orsök þess að fólk prófar að taka upp þennan lífsstíl eða minnkar kjötát að einhverju ráði, en svo þegar það finnur mun á heilsunni og fræðist meira um aðstæður dýra í iðnaðinum þá heldur það áfram.“

Útiræktað grænmeti tekið kipp í sölu

Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands garðyrkjubænda, segir sína félagsmenn greina talsverða aukningu á neyslu grænmetis og að bændur undirbúi nú aukna framleiðslu.

„Ég veit ekki hvort það er einungis vegna aukins veganisma eða bara aukinnar neyslu almennt að meira selst af grænmeti en áður. Blómkálsframleiðendur upplifðu allavega mjög mikla eftirspurn í sumar og eru bændur að undirbúa aukna framleiðslu fyrir næsta sumar. Við höfum verið talsvert hugsi þegar frumvarp landbúnaðarráðherra í desember laut að því að opna fyrir innflutning meðan íslensk framleiðsla er á markaði. Sem betur fer náðum við árangri að fá að halda tollverndinni sem er lífsspursmál framleiðenda í útiræktuðum afurðum. Einnig tel ég að aukning ferðamanna til landsins hafi ekki síður áhrif á neyslumynstrið í þessum afurðum. En eins og áður segir þá eru bændur að undirbúa aukna framleiðslu á þessu ári þar sem allt grænmeti sem er útiræktað hefur selst mjög vel. Og þá er nánast engin afurð undanskilin.“

Valda sem minnstum skaða á dýrum og umhverfi

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir, blaðamaður á DV, hefur verið vegan í tvö ár ásamt manni sínum og ala þau dóttur sína upp á því fæði. Hún segir það hafa gengið vonum framar og að stórfjölskyldan styðji þau heilshugar í þessum breytta lífsstíl.

„Það mætti segja að áhugi minn á veganisma hafi byrjað þegar ég fór að taka viðtöl í vinnunni við vegan einstaklinga og ég meira að segja tók viðtal við vegan mömmur því mér fannst hugmyndin um að ala upp vegan barn svo áhugaverð. Á þessum tíma var ég sjálf ólétt og var þegar byrjuð að hugsa mikið meira út í heilsu og næringu en ég gerði áður. Eftir að hafa horft á nokkrar heimildamyndir tók ég ákvörðun um að þetta væri eitthvað sem ég vildi gera og hef ekki litið til baka síðan. Ég var svo heppin að maðurinn minn var með mér í þessu og við urðum vegan á sama tíma.“

Gerir sitt besta hverju sinni

Guðrún Ósk borðar ekki dýraafurðir og leitast eftir fremsta megni að útiloka og forðast hagnýtingu og ofbeldi gagnvart dýrum.

„Ég kaupi aðeins snyrtivörur og hárvörur sem eru bæði vegan og „cruelty free“. Ég kaupi skó úr gervileðri og ég fékk sængur í jólagjöf sem eru vegan. Þetta snýst um að gera sitt besta hverju sinni. Auðvitað er ekki hægt að forðast alla hagnýtingu á dýrum, því miður. En ég geri það sem ég get,“ útskýrir Guðrún Ósk og aðspurð um hvernig gangi að ala barnið sitt upp sem vegan segir hún:

„Það gengur mjög vel fyrir sig. Við erum mjög heppin með fjölskyldu en þau hafa öll sýnt okkar lífshætti mikinn skilning. Það er aldrei vesen að fara í matarboð og þegar stelpan fer í pössun þá fær hún vegan fæði hjá þeim. Síðan erum við líka mjög heppin með dagforeldra en við þurfum ekki að nesta stelpuna okkar heldur sjá þau um matinn fyrir hana. Við leiðbeindum þeim til að byrja með en svo hafa þau séð um það síðan.“

Fjölbreytt fæða

„Við erum mjög heppin með fólkið í kringum okkur þannig að ef fólk hefur hingað til haft eitthvað neikvætt að segja þá hefur það ekki sagt það við okkur. Við áttum okkur á að margir telja þetta vera „absúrd“ hugmynd að ala barn upp á vegan fæði og að við séum að gera barni okkar „mein“ með þessu. Okkur er kennt frá unga aldri að við þurfum kjöt og mjólk til að vera stór og sterk,“ segir Guðrún Ósk og bætir við:

„Stúlkan okkar hefur verið hraust frá fæðingu, borðar fjölbreytta fæðu og blómstrar með hverjum degi. Lykillinn er auðvitað að kynna sér vegan fæði mjög vel og næringarþarfir barna. Margir hugsa svo að þegar kjöt og mjólkurvörur séu teknar úr fæðu þá standi aðeins grænmeti eitt til boða. En það gleymist oft að það er til aragrúi af vegan vörum sem koma þar í staðinn. Hún fær síðan B12, D-vítamín og omega vítamín unnið úr þörungum.

Auðvitað er leiðinlegt að lesa neikvæð ummæli á netinu um veganisma og vegan foreldra þegar það eina sem við viljum gera er að valda sem minnstum skaða gegn dýrum og umhverfinu. En með hverju árinu breytist þetta hægt og bítandi og ég er mjög þakklát þeim skilningi sem við höfum mætt hingað til.“

Flytja inn helming matvæla

„Landbúnaður á Íslandi byggir eins og annars staðar á því að framleiða matvæli sem eftirspurn er eftir. Að sjálfsögðu þurfa framleiðendur að bregðast við þegar hún eykst frá neytendum sem hafa tileinkað sér vegan lífsstíl. Á sama tíma verður því ekki neitað að Ísland hentar ekki til ræktunar á öllum mat- eða nytjajurtum. Við flytjum nú þegar inn um helming þeirra matvæla sem við neytum og mér þætti það lakara ef þessi þróun verður til þess að það hlutfall hækki verulega. Ég er sannfærður um að innlendir framleiðendur munu gera það sem þeir geta til að bregðast við og vonandi gengur það vel. Við erum og verðum stolt af okkar framleiðslu og hvernig að henni er staðið, en framtíðin er fyrst og fremst undir neytendum komin,“ segir Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...