Góð uppskera í repju og byggi
Mynd / HKr.
Fréttir 14. september

Góð uppskera í repju og byggi

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Feðgarnir Ólafur Eggertsson og Páll Eggert Ólafsson, bændur á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, segja ræktun á repju og korni hafa gengið mjög vel í sumar. Þeir hófu þreskingu á repju í þurrki og góðu veðri 27. ágúst. Síðan kom smá stopp vegna rigningar en 4. og 5. september létti til og var þá hægt að halda áfram og í bygginu líka.

Ólafur segir að þeir hafi sáð haustafbrigði af repju 15. júlí 2019. Það hafi lifað af veturinn og komið snemma til þannig að uppskeran er nú mun fyrr á ferðinni en annars væri með repju sem sáð er að vori. Slíkt afbrigði er vart hæft til þreskingar fyrr en í október.

Með 5 hektara af repju og 40 hektarar af byggi

„Haustrepjan tekur landið að vísu frá í tvö ár þar sem henni er sáð um mitt sumar, en hún gefur hins vegar mun meira af sér í uppskeru. Við erum með fimm hektara undir af vetrarrepjunni og tæpa 40 í korninu. Þetta kemur allt saman mjög vel út núna og ágústmánuður hefur gert útslagið á þetta bæði með hita og rekju,“ sagði Ólafur í samtali við Bændablaðið.

Hann sagði að kornaxið hafi verið orðið vel þroskað um mánaðamótin ágúst-september og biðu þeir feðgar þá bara eftir að það þornaði. Á föstudag í síðustu viku brast hann á með þurrk og sólskini og var þá hafist handa við þreskingu.

Repjan á Þorvaldseyri gefur af sér dýrmæta jurtaolíu og um leið kjarngott fóður handa kúnum. Þá veldur ræktun á repju mikilli kolefnisbindingu.

Sjálfbærir með allt fóður

Ólafur segir að á Þorvaldseyri væru þeir nú orðnir nær algjörlega sjálfbærir með fóður fyrir skepnur. Repjan er öll pressuð og unnin úr henni olía. Hratið, eða mjölið sem þar fellur til, er síðan notað í fóður fyrir kýrnar á bænum ásamt bygginu sem þeir rækta.

„Við höfum ekki keypt neitt erlent fóður fyrir búið í tvö ár. Kornið er kjarngott og repjumjölið inniheldur 30% prótein og kemur mjög vel út. Við kaupum svo bara steinefni og blöndum fóðrið allt saman heima á búinu.“

Ólafur segir kornið í sumar með besta móti í gæðum.

Kornið fyrr á ferðinni en oft áður

„Varðandi byggið þá höfum við svo sem áður byrjað að þreskja í lok ágúst, en núna virðist þetta allt vera að færast framar sem betur fer. Þá reynum við forðast að geyma allt á akrinum fram í október til að ná meiri þroska, því það er svo mikil hætta á slæmum veðrum í september.“

Ólafur segir að þeir noti mest núna íslenskt afbrigði af byggi sem heitir Kría og Jónatan Hermannsson hjá Landbúnaðarháskóla Íslands hafi þróað. Það sé oft tilbúið til þreskingar um mánaðamótin ágúst-september. Krían gefi um 3 til 4 tonn á hektara, en vissulega séu til afbrigði sem gefi af sér meira, en þau séu ekki eins veðurþolin og heldur ekki eins kjarngóð.

„Annars er ágætt að vera með tvær til þrjár tegundir af korni.

Undanfarin ár höfum við notað startáburð með sáningunni sem gefur rótarkerfinu aukinn kraft þannig að kornið þroskast fyrr. Annars fer þetta allt eftir veðrinu, sumarið núna er jafnbetra en í fyrra þegar það sviðnaði gras hér á túnum sem var mjög sérstakt.“

Repjufræ í tonnavís beint af akrinum á Þorvaldseyri.

ISAVIA hyggst nýta repjuolíu frá Þorvaldseyri á sinn tækjabúnað

Þriðjudaginn 8. september undir­rituðu forstjórar Isavia og Sam­göngustofu viljayfirlýsingu um samstarf við tilraunaverk­efni um íblöndun repjuolíu í tæki á Keflavíkurflugvelli.

Meðal gesta við undirritunina voru Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, og Ólafur Eggertsson, bóndi á bænum Þorvaldseyri. Afhenti Ólafur repjuolíu við þetta tækifæri til íblöndunar í dísilolíu tækjabúnaðar flugvallarins.

Með íblöndu repjuolíunnar frá þorvaldseyri er verið að búa til lífdísilolíu sem annars yrði að flytja inn. Repjuolían leiðir til hreinni bruna dísilolíunnar, en tilraunir á Þorvaldseyri sýna að hrein repjuolía veldur engri sótmengun við bruna á dísilvélum. Það er einmitt sótmengunin sem valdið hefur hvað mestri andstöðu við notkun dísilbíla í þéttbýli.

Skylt efni: repja | Korn | bygg

Ekki dró úr hættulegustu rykögnunum við nær algjöra stöðvun umferðar í Skotlandi
Fréttir 30. september

Ekki dró úr hættulegustu rykögnunum við nær algjöra stöðvun umferðar í Skotlandi

Útgöngubann vegna COVID-19 og stöðvun bílaumferðar dró ekki úr hættulegustu loft...

Heilsuþættir þarans eru ótvíræðir
Fréttir 30. september

Heilsuþættir þarans eru ótvíræðir

Eftir fjögurra ára þróunar- og rannsóknarvinnu setti matreiðslumaðurinn Völundur...

Stjórn Bændasamtakanna veittar víðtækari heimildir
Fréttir 30. september

Stjórn Bændasamtakanna veittar víðtækari heimildir

Aukabúnaðarþingi, sem haldið var með fjarfundarbúnaði í gær, þar sem eina málið ...

Þegar maður á lífsblóm
Fréttir 30. september

Þegar maður á lífsblóm

Afskorin blóm sem prýða heimili eru af ýmsum toga og ólíkum uppruna. Sum gera kr...

Demantshringurinn formlega opnaður
Fréttir 25. september

Demantshringurinn formlega opnaður

Ferskt íslenskt grænmeti og salat
Fréttir 25. september

Ferskt íslenskt grænmeti og salat

Nú stendur uppskerutími sem hæst og grænmeti flæðir í búðir.  Þeir sem eru með m...

LS segja tækifæri til að hagræða í slátrun, vinnslu og markaðssetningu
Fréttir 25. september

LS segja tækifæri til að hagræða í slátrun, vinnslu og markaðssetningu

Skattafrádráttur vegna skógræktar
Fréttir 25. september

Skattafrádráttur vegna skógræktar

Frá og með tekjuárinu 2020 geta lögaðilar fengið frádrátt á tæpu prósenti tekjus...