Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Mikill fjöldi vörutegunda var kynntur í sýningarbásum Malmö Mässan og voru lífrænar afurðir mest áberandi.
Mikill fjöldi vörutegunda var kynntur í sýningarbásum Malmö Mässan og voru lífrænar afurðir mest áberandi.
Fréttir 9. desember 2016

Glæsileg kaupstefna með lífrænar afurðir í Málmey

Höfundur: Dr. Ólafur R. Dýrmundsson
Dagna 16.–17. nóvember  sl. var haldin í Mässan í Málmey við Eyrarsund norræna kaupstefnan Nordic Organic Food Fair. Þar voru sýndar margvíslegar lífrænt vottaðar vörur og náttúruafurðir frá öllum Norðurlöndunum, nema Íslandi. 
 
Einnig frá fjölmörgum öðrum svo sem frá Frakklandi, Eistlandi, Bretlandi, Hollandi, Þýskalandi, Grikklandi,  Spáni og Ítalíu.
 
Mikil fjölbreytni
 
Þetta var í fimmta skiptið sem slík kaupstefna er haldin og hefur henni vaxið mjög fiskur um hrygg.  Hún er sú eina sinnar tegundar á Norðurlöndum. 
 
Þótt mest væri sýnt af mat- og drykkjarvörum af ýmsu tagi var þarna mikið úrval snyrtivara og í samræmi við auknar kröfur til umhverfisverndar var sérstök deild sem fjallaði um umbúðir og pökkun með sem vistvænstum hætti. 
 
Auk deilda frá einstökum fyrirtækjum, stórum sem smáum, voru öll framangreind lönd með veglega bása og fólk fékk að smakka og prófa margvíslegar girnilegar vörur. Þá voru matreiðslumenn með samkeppni sem nemendur í matreiðsluskólum tóku þátt í og gestir fengu að bragða á ljúffengum réttum þeirra. Öllu var smekklega fyrir komið í sýningarhöllinni sem er skammt frá Eyrarsundsbrúnni.
 
Fræðsluerindi í þrem málstofum
 
Á þrem stöðum í salnum var hægt að setjast inn á málstofur á ákveðnum tímum samkvæmt vandaðri dagskrá og hlýða á erindi um fjölmörg efni tengd lífrænum landbúnaði og annarri sjálfbærri þróun.
Það sem ég heyrði þar var mjög athyglisvert, svo sem um fæðuöryggi, staðbundna framleiðslu og ýmsar nýjungar í lífrænum og vistvænum framleiðsluháttum. Sannkölluð veisla í anda alþjóðlegra samtaka á borð við Slow Food og lífrænu hreyfinguna IFOAM enda minnti kaupstefnan mjög á viðburði á vegum þeirra þótt smærri væri í sniðum. Þarna á Ísland vissulega heima með gæðaafurðir sínar af ýmsu tagi.  Þá er alltaf  upplífgandi að taka þátt í málþingum af því fjölbreytilega tagi sem boðið var upp á þarna í sýningarhöllinni.
 
Matvælaframleiðsla í borgum
 
Eitt hinna athyglisverðu erinda flutti Sepehr Mousavi frá Plantagon-fyrirtækinu sem vinnur að hönnun og byggingu margra hæða gróðurhúsa sem taka lítið landrými, nýta sólarorku og tengjast endurvinnslustöðvum er leggja til orku til lýsingar og hitunar, einkum að vetrinum. 
 
Til að byrja með er miðað við grænmetis- og ávaxtaframleiðslu.  Ekki yrði hægt að vera nær stærsta hluta markaðarins. Sepehr tók það skýrt fram að enn yrði þó þörf á fjölbreyttum landbúnaði á venjulegum sveitabýlum, bæði vegna búfjárræktar og akuryrkju, til þess að hægt væri að sjá stækkandi borgum fyrir matvælum með sjálfbærum hætti. Fæðuöryggi væri ekki sjálfgefið nú á dögum og ýmsar blikur á lofti. Stórlega þurfi að draga úr kolefnissótsporinu til að vinna gegn loftslagsbreytingum og því ætti matvælaframleiðslan að vera sem mest staðbundin og sem minnst byggð á innflutningi. Hefðu sumir íslenskir stjórnmálamenn og flokkar gott af því að kynna sér slíkar uppbyggjandi hugmyndir í stað þess að gagnrýna stöðugt innlendan landbúnað án tillits til fæðu- og matvælaöryggis þjóðarinnar.
 
Skortur á lífrænum búsafurðum
 
Eins og ég og fleiri hafa margoft vakið athygli á hér í Bændablaðinu um langt árabil fer markaður fyrir lífrænt vottaðar vörur stöðugt vaxandi. Þetta kom m.a. skýrt fram í markaðsskýrslu sænsku vottunarstofunnar KRAV fyrir 2016 og einnig í öðrum gögnum sem lágu frammi á sýningunni, t.d. frá Bretlandi.
 
Svipað er að gerast í Asíu og er Japan með stærstu markaðshlutdeildina þar í lífrænum vöruflokkum. Á Norðurlöndunum eru Danmörk og Svíþjóð í fararbroddi. Í Svíþjóð er staðan þannig að framboð er nú mun minna en eftirspurn í flestum greinum, lífrænu vörurnar seljast eins og heitar lummur og bændur eru hvattir til að laga bú sín að lífrænum búskaparháttum. 
 
Arla mjólkurbúin vilja meiri lífræna mjólk
 
Lífræn mjólk frá Arla.
Áberandi er hve mjög skortir lífræna mjólk í Svíþjóð, nautakjöt sem framleitt er á beit selst vel, sumar korntegundir skortir og svipaða sögu er að segja um grænmeti og ávexti. KRAV mælir með auknum aðlögunarstuðningi til bænda, góð sala og hærra verð nægi ekki alltaf til að réttlæta umskipti yfir í lífrænan búskap. Með þetta til hliðsjónar tekst vonandi að nýta stóraukið framlag til lífræns búskapar í hinum nýja búnaðarsamningi til að efla lífræna framleiðslu hér á landi. Það væri í góðu samræmi við t.d. markmiðin í Svíþjóð.
 
Þess má geta í lokin að í smekklegum bæklingi frá Arla mjólkurbúunum, sem dreift var á sýningunni, kemur fram að nú séu 375 sænskir kúabændur með lífrænt vottaða mjólkurframleiðslu og fyrirtækið býst við 62 nýjum slíkum framleiðendum þar í landi á næsta ári.
 
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson Höfundur er fyrrverandi landsráðunautur Bændasamtaka Íslands í lífrænum búskap, nú sjálfstætt starfandi ráðgjafi í landbúnaði.
Heitt vatn finnst á Ströndum
Fréttir 1. desember 2023

Heitt vatn finnst á Ströndum

Heitt vatn fannst nýlega við borun á Drangsnesi á Ströndum.

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki
Fréttir 1. desember 2023

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki

Tímamót eru í baráttunni gegn riðuveiki í sauðfé með nýrri nálgun stjórnvalda þa...

Birgðir kindakjöts aldrei minni
Fréttir 1. desember 2023

Birgðir kindakjöts aldrei minni

Birgðir kindakjöts í lok ágústmánaðar hafa aldrei verið minni en á þessu ári.

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið
Fréttir 30. nóvember 2023

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið

Í umræðum á Alþingi á mánudaginn um riðuveiki í sauðfé og bætur vegna niðurskurð...

Sala sýklalyfja dregst saman
Fréttir 30. nóvember 2023

Sala sýklalyfja dregst saman

Sala sýklalyfja fyrir búfé og eldisfiska í Evrópu dróst saman um 12,7% milli ára...

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið
Fréttir 30. nóvember 2023

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið

Í nýlegri skýrslu Ráðgjafar­miðstöðvar land­búnaðarins um rekstrarafkomu nautakj...

Kortlagning ræktunarlands
Fréttir 30. nóvember 2023

Kortlagning ræktunarlands

Gert er ráð fyrir að þings­ályktunar­tillaga um nýja lands­skipulagsstefnu til 1...

Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum
Fréttir 27. nóvember 2023

Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum

Nýtt fagstaðlaráð hefur verið stofnað undir hatti Staðlaráðs Íslands. Það verður...