Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Ellefu af 13 þátttakendum í INTERNORDEN 2016 á bryggjunni í Brattahlíð. Séð vestur yfir Eiríksfjörð, Narsarsuaq lengst t.v. undir brattri, skógi vaxinni fjallshlíð.
Ellefu af 13 þátttakendum í INTERNORDEN 2016 á bryggjunni í Brattahlíð. Séð vestur yfir Eiríksfjörð, Narsarsuaq lengst t.v. undir brattri, skógi vaxinni fjallshlíð.
Mynd / Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Á faglegum nótum 7. september 2016

Fundað á Grænlandi um sauðfjár-og geitfjárrækt á Norðurlöndum

Höfundur: Dr. Ólafur R. Dýrmundsson, er fyrrveandi landsráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands
Dagana 9.–11. ágúst var fundað í 33. skipti á vettvangi INER­NORDEN sem hefur staðið fyrir faglegu samstarfi um sauðfjár- og geitfjárrækt á Norðurlöndum um margra áratuga skeið. 
 
Það hófst með fundum sauð­fjárræktarráðunauta Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar á 6. áratug liðinnar aldar en síðar urðu bæði Færeyingar og Grænlendingar virkir þátttakendur.
 
Fagleg og félagsleg tengsl
 
Fundir INTERNORDEN hafa að jafnaði verið haldnir á tveggja ára fresti í hinum ýmsu aðildarlöndum og auk ráðunauta hafa sótt þá kennarar, rannsóknafólk, dýralæknar og bændur. Samstarfið er í senn faglegt og félagslegt og stuðlar að samskiptum og upplýsingamiðlun um málefni sauðfjár- og geitfjárræktar á Norðurlöndum. Drög hafa verið lögð að undirbúningi þátttöku Eystrasaltsþjóðanna, Eistlands, Lettlands og Litháen, í þessu samstarfi.
 
INTERNORDEN á Grænlandi
 
Að þessu sinni var komið saman í Narsarsuak á Grænlandi dagana 9.–11. ágúst og voru þátttakendur frá öllum löndunum nema Danmörku og Finnlandi, samtals 13, sem var með færra móti. Fundaraðstaða í hótelinu skammt frá flugvellinum reyndist prýðileg, líkt og á fyrsta INTERNORDEN-fundinum á Grænlandi 1998, en ég reyndist vera eini þátttakandinn sem hafði setið þann fund. Aqqalooraq Frederiksen, forstöðumaður Leiðbeiningaþjónustu landbúnaðarins á Grænlandi, undirbjó og stýrði fundinum með aðstoð Hendrik Frederiksen ráðunautar og Agnethe Egede Mathiessen, framkvæmdastjóra Félags sauðfjárbænda á Grænlandi, en þau hafa öll starfsstöðvar í bænum Qaqortoq  sem fyrrum hét Julianehåb.
 
Flutt voru yfirlitserindi um stöðu sauðfjárræktar á Norðurlöndum og í sumum þeirra var einnig vikið nokkuð að geitfjárrækt. Auk þess var fjallað um einstök efni svo sem skýrslu­hald, kynbótastarf, riðuveiki og fleiri sjúkdóma, vanhöld af völdum rándýra, fengieldi áa, rúning lamba og íslenskt forystufé. 
 
Breytilegar aðstæður fjárbænda
 
Þótt margt sé sameiginlegt með sauðfjárrækt í þeim löndum sem áttu fulltrúa á fundinum í Narsarsuak, svo sem beitarnýting úthaga og vetrarfóðrun á húsi, nema helst í Færeyjum, voru ýmis sérstök mál ofarlega á baugi. Þar bar hæst mikil vanhöld af völdum rándýra í Noregi og Svíþjóð. Aðstæður bænda eru því mjög breytilegar svo og viðhorf almennings, og þar með stjórnmálaflokka til þessara búgreina. Þá komu upp gagnlegar umræður um áhrif loftslagsbreytinga á búskaparskilyrði á norðurslóðum, einkum á Grænlandi. Afkoma bænda og viðhald blómlegrar sveitabyggðar, sérstaklega í strjálbýli þar sem búum hefur farið fækkandi, bar einnig töluvert á góma.
 
Kynnisferðir á fjárbú
 
Á öðrum degi var farið í blíð­skapar­veðri í mjög fróðlegar kynnisferðir á þrjú fjárbú. Fjárhús og tún voru skoðuð og rætt við fjárbændur en á Grænlandi eru engar geitur. Einnig gafst gott tækifæri til að skoða úthagabeit og fé í högum. Þannig var farið á tvö bú í Qussiarsuk, að fornu Brattahlíð við Eiríksfjörð, þar sem Dalamaðurinn Eiríkur rauði nam land og reisti bú árið 985. Sá staður er handan við fjögurra kílómetra  breiðan fjörðinn, á móts við Narsarsuaq. Þá var farið á fjárbú 7 kílómetrum vestar, í Tasiusaq við samnefndan vog sem gengur inn úr þeim firði sem nefndur var Ísafjörður til forna. Þar var meira um ísjaka en á Eiríksfirði enda nær Grænlandsjökli. Á hverju þessara búa eru um 600 vetrarfóðraðar kindur, dæmigerð fjölskyldubú, vel uppbyggð og með ágætan vélakost.  Alls staðar var okkur sýnd mikil gestrisni eins og Grænlendinga er háttur.
 
Fækkun fjár og fjárbúa á Grænlandi
 
Allar bújarðir á Grænlandi eru í ríkiseign og hafa bændur þær á leigu. Veittur er styrkur til jarðabóta, þar með til byggingar fjárhúsa, 75% af kostnaði. Fé fór nokkuð fjölgandi fram til 2008, þá orðið um 28.000 vetrarfóðrað á 47 býlum, en hefur fækkað í tæp 17.000, nú á 37 býlum. Árið 1990 var fé á 51 býli þannig að breytingarnar eru verulegar. Sauðfjárbúin eru dreifð, öll á Suðaustur-Grænlandi, vegalengdir eru miklar, mest á sjó, flutningskostnaður er hár og beitilönd eru víðáttumikil. Helstu kjarnar fjárbúskapar eru í Brattahlíð við Eiríksfjörð og í Vatnahéraði sem er við Einarsfjörð. Á öllum þessum stöðum er landslag stórbrotið og náttúrufegurð mikil. Þótt sauðfjárrækt sé aðalbúgreinin á Grænlandi er þar nokkur grænmetisrækt, all fjölbreytt, dálítið er um holdanautgripi (smávaxna Dexter og Galloway) og íslenskir hestar eru mikils metnir við smalamennskur. Þá eru töluverðar nytjar af hreindýrum og sauðnautum á beitilöndum sem sauðfé gengur ekki á. Á meðal nýbúgreina er býflugnarækt.
 
Féð af íslenskum uppruna
 
Skemmtilegt var að virða fyrir sér fé í sumarhögum en það er íslenskt að uppruna eftir innflutning 1915, 1921 og 1934 (sjá grein eftir mig í Bændablaðinu, 457. blaði, desember 2015). Áhrif frá minni háttar innflutningi kinda af öðrum erlendum kynjum fyrr á árum eru að mestu horfin samkvæmt nýlegum rannsóknarniðurstöðum  og  hið íslenska útlit leynir sér ekki, mest hyrnt, hvítt fé, sumt töluvert gult, og einnig er nokkuð um mislitt í því. Þar er  þó hvorki til ferhyrnt fé né forystufé.
 
Kindakjötsframleiðslan nam 250 tonnum á liðnu hausti. Meðalfallþungi  sveiflast töluvert til eftir árferði, var 15,05 kg haustið 2007, 16,54 kg haustið 2010 en féll niður í 13,35 kg  haustið 2015 vegna afleits árferðis. Öllu er slátrað í bænum Narsaq, samtals 22.000 lömbum haustið 2015, 800 á dag. Þangað er sláturféð dregið á stórum tveggja hæða prömmum, um 600 í ferð, á 2–10 tíma siglingu. Að jafnaði  er sláturfé tekið tvisvar frá hverju býli á haustin, frá miðjum september og fram í seinni hluta október. Allt kjötið fer á innanlandsmarkað en nú einnig er flutt inn dilkakjöt frá Íslandi og Nýja-Sjálandi. Töluverð vinnsla sláturafurða er allt árið í Narsaq en nýting á ull og gærum er mun lélegri en hér á landi. Auk dilkakjöts fengum við að smakka kæfu, rúllupylsu og reykta sauðapylsu sem allt bragðaðist vel. Á Hótel Narsarsuaq var einnig boðið upp á sauðnautakjöt, harðfisk, þurrkaða loðnu og selspik, allt hollur og góður matur.
 
Erfið ræktunarskilyrði
 
Fóðuröflun og fóðrun á grænlenskum fjárbúum er nú með allt öðrum hætti en fyrr á tímum þegar fé féll oft í stórum stíl í hörðum vetrum og vorum. Þetta hefur m.a. komið fram í stórbættum fénaðarhöldum og aukinni frjósemi áa sem þó er enn nokkuð minni en hér á landi. Lítið er um gott ræktunarland, jarðvegur víðast hvar þunnur og grýttur og spildur fremur litlar. Því er athyglisvert að frá 1981 til 2012 stækkuðu túnin úr 235 ha í 1027 ha sem sýnir að grænlenskir bændur hafa bætt búskaparaðstöðuna verulega á undanförnum 30 árum. Við túnrækt o.fl. hafa þeir notið verulegrar ráðgjafar frá Íslandi. Sérstaklega hafa bændur sem ég hef rætt við, bæði 1998 og nú í sumar, getið um Þór Þorbergsson sem um árabil leiðbeindi grænlenskum bændum um túnrækt og hvatti þá til dáða. Er ég ekki í nokkrum vafa um að mikill árangur varð af störfum hans. 
 
Um árabil hefur dr. Guðni Þorvaldsson hjá LbhÍ unnið við jarðræktartilraunir á Grænlandi. Þá hafa margir grænlendingar verið við verknám á íslenskum fjárbúum víða um land, á ýmsum tímum, og þar hafa þeir kynnst ræktunarbúskap hér af ýmsu tagi.  
 
Túnin eru slegin einu sinni og nær allur heyfengur er verkaður í plöstuðum rúllum. Auk túnræktarinnar eru sumir bændur með nokkra grænfóðurrækt, einkum bygg og hafra, sem er slegið og rúllað eftir að túnaslætti er lokið. Þegar við heimsóttum framangreind fjárbú var heyskap að mestu lokið og byrjað var að slá grænfóðrið þrátt fyrir  skerta sprettu vegna mikilla þurrka í sumar.  Heimaflað gróffóður nægir ekki í öllum árum og er því flutt inn nokkuð af heyi og töluvert af kjarnfóðri og graskögglum, aðallega frá Danmörku. Fyrr á árum var keypt mikið af fiskimjöli og graskögglum frá Íslandi.
 
Loftslagsbreytingar á seinni árum
 
Langvarandi þurrkar hafa háð sprettu á Grænlandi mikið undan­farin sumur, bæði á ræktuðu landi og í úthaga, mjög svo á þessu sumri. Þess eru dæmi að tún séu vökvuð. Alþekkt er hve jöklar á norðurhveli eru að hopa mikið vegna hlýnunar og lýstu Grænlendingar sem við ræddum við yfir áhyggjum sínum yfir loftslagsbreytingum er gætu skaðað landbúnað, þar með langvarandi þurrkar og miklar veðurfarssveiflur. Enn er þó alls ekki ljóst hver áhrifin gætu orðið.
 
Áhugi á Fjárvís
 
Á seinni árum hafa grænlenskir fjárbændur verið að efla skýrsluhald og hefur niðurstaðan orðið sú að nota skýrsluhalds- og gagnavörslukerfið Fjárvís sem Bændasamtök Íslands hafa þróað. Merete Rabölle á Hrauni á Skaga fór fyrir nokkrum árum á vegum BÍ til Grænlands til að koma skýrsluhaldinu af stað og nú hefur Eyjólfur Ingvi Bjarnason, sauðfjárræktarráðunautur RML,  umsjónina með höndum. Nú þegar eru níu bændur komnir með allt sitt fé í kerfið og lofar nýting þess góðu. Eyjólfur Ingvi sat INTERNORDEN 2016 auk mín og tók hann þar við af mér sem fulltrúi Íslands í stjórnarnefndinni. Báðir fluttum við erindi en auk þess efndi Eyjólfur Ingvi til sérstaks fundar í Narsarsuak 12. ágúst með ráðunautum og bændum, bæði þeim sem nú þegar nota Fjárvís, og nýliðum sem  vilja nota kerfið.
 
Efling kynbótastarfsins
 
Mér fannst sérlega ánægjulegt að verða vitni að því hve þátttakan var góð á bændafundinum hjá Eyjólfi Ingva. Þarna voru mættir tíu áhugasamir  fjárbændur, flestir ungir, sumir búnir að sigla allt að þrjá tíma snemma morguns úr fjarlægum byggðum á hraðbátum sínum. Auk þess að kynna Fjárvís með skýrum hætti var svarað fjölda fyrirspurna og náði Eyjólfur Ingvi góðu sambandi við ráðunautana og bændurna. Þá urðu ágætar umræður um nýtingu gagnanna við val líflamba og kynbætur almennt. Sýndar voru niðurstöður héðan til nánari skýringar, þar með úr kjötmatinu. Miðað við þann ágæta árangur sem íslenskir sauðfjárbændur eru að ná í kynbótastarfinu er ástæða til að ætla að grænlenskir starfsbræður þeirra geti nýtt sér betur þá þekkingu sem tiltæk er hér á landi til að bæta eigin fjárstofn og afkomu búa sinna. Í lok fundarins voru möguleikar á slíku samstarfi kynntir og ræddir, þar með aðstoð við gerð kynbótaáætlunar fyrir grænlenska fjárstofninn. 
 
Fundað á Íslandi 2018
 
Komin var röðin að Íslandi að halda INTERNORDEN-fund. Síðast var slíkur fundur haldinn hér sumarið 2002 og var ákveðið að sá næsti yrði haldinn á Íslandi upp úr miðjum ágúst 2018.
 

10 myndir:

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum
Fréttir 28. september 2023

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum

Algalíf, íslenska líftæknifyrirtækið, stefnir á að hasla sér völl í framleiðslu ...

Innviðauppbygging til 2025
Fréttir 28. september 2023

Innviðauppbygging til 2025

Fara á í 127 verkefni fram til ársins 2025 við uppbyggingu innviða til að mæta á...

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni
Fréttir 28. september 2023

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni

Sjávarútvegsráðstefnan 2023 verður haldin 2.–3. nóvember í Hörpu. Áhersluatriði ...

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu
Fréttir 27. september 2023

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins greindum við frá því að Halla Sigríður Steinól...

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi
Fréttir 26. september 2023

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi

Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands vinna fjölbreyttar rannsóknir og tilraunaver...

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar
Fréttir 26. september 2023

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar

25 af 33 eyfirskum bændum sem spurðir voru, sögðu að þeir myndu myndu nýta sér k...

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...

Ágúst verður forstöðumaður
Fréttir 25. september 2023

Ágúst verður forstöðumaður

Ágúst Sigurðsson hefur verið skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stof...