Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
ESB gerir nú kröfu um að franska ríkið ásamt 7 öðrum Evrópusambandsríkjum afsali sér eiganarhaldi á vatnsaflsvirkjunum og hleypi einkaaðilum að þeim peningamaskínum sem reistar voru með almannafé.
ESB gerir nú kröfu um að franska ríkið ásamt 7 öðrum Evrópusambandsríkjum afsali sér eiganarhaldi á vatnsaflsvirkjunum og hleypi einkaaðilum að þeim peningamaskínum sem reistar voru með almannafé.
Fréttaskýring 11. júní 2019

Þess er nú krafist að átta ríki ESB einkavæði sínar vatnsaflsvirkjanir

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Framkvæmdastjórn Evrópu­sambandsins hefur gert kröfu um að franska ríkið og 7 önnur ESB-lönd láti af yfirráðum sínum yfir vatnsaflsvirkjunum innan eigin landamæra og hleypi einkafyrir­tækjum að þeim rekstri. Þetta er þvert á fullyrðingar um að aðild Íslendinga að orkukerfi Evrópu (EU power grid) í gegnum orkupakka 3 skipti engu máli varðandi ríkiseign á íslenskum orkuverum.
 
Hefur framkvæmdastjórnin, sem hefur umsjón með frjálsri samkeppni í Evrópu, verið að þrýsta á Frakkland og sjö önnur lönd í langan tíma til að tryggja að opnað verði fyrir einkafjármagn í orkugeiranum. Þann 7. mars síðastliðinn var síðan höfðað samningsbrotamál gegn Frakklandi, Þýskalandi, Austurríki, Póllandi, Portúgal, Svíþjóð, Ítalíu og Bretlandi fyrir að hafa ekki farið í opin útboð á nýtingarrétti vatnsfalla og vatnsaflsvirkjana.
 
Hafa 107 þingmenn á franska þinginu staðið á móti þessari kröfu framkvæmdastjórnar ESB, en hægt og bítandi orðið að gefa eftir á ýmsum sviðum í orkumálunum. Hafa þeir þó verið að reyna að fá á hreint hvað Frökkum er heimilt í þessum efnum en deilt hefur verið um innihald tilskipana ESB. Eftir einkavæðingu Aéroports de Parísar, sem var endanlega samþykkt fimmtudaginn 9. maí sl. með atkvæðagreiðslu í þinginu, virðist raforkugeirinn ætla að verða næsta heita deilumálið. Þar stefnir allt í að franska ríkið verði neytt til að gefa eftir yfirráðarétt almennings yfir sínum orkuverum samkvæmt frétt L‘Express. 
 
Á frönskum vefmiðlum má sjá hörð orð um einræðistilburði ESB við að innleiða skefjalausan kapítalisma í franska orkugeirann án þess að stjórnvöld hreyfi þar legg né lið. Það sé allavega lágmarkið að þjóðin sé spurð um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún vilji afsala sér yfirráðum yfir eigin orkufyrirtækjum. Einnig er spurt hvort verið sé að færa franska orkugeirann í hendur kínverskra fjárfesta á silfurfati.  
 
Spurning um öryggi og jafnvel fullveldi Frakklands 
 
Þingmennirnir Hubert Wulfranc (PCF), Julien Aubert (LR), Jeanine Dubié (Libertés og Territories, Center), Marie-Noëlle Battistel (PS) telja skort vera á pólitískum vilja ríkisins til að verja það sem þeir segja vera spurning um öryggi og jafnvel fullveldi Frakklands. 
 
„Vatnsorkuver eru helsta uppspretta okkar af endurnýjanlegri raforku og skila 12% af rafmagni okkar. Þetta er jafnframt eina leiðin fyrir okkur til að geyma raforku,“ segir einn þessara þingmanna.  Hann bendir líka á að þetta sé mikil áskorun fyrir iðnað þar sem starfa um  25.000 manns og skilar um 1,5 milljörðum [evra] opinberra tekna.
 
Það verður að verja vatnsorku­verin okkar líkt og gert hefur verið varðandi kjarnorkuverin,“ sagði þingmaðurinn Marie-Noëlle Battistel við blaðið L'Express. 
 
„Það lítur út fyrir að við séum að reyna að ræða um afsal í smáatriðum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins frekar en að mótmæla í grundvallaratriðum einkavæðingu á okkar vatns­orkuverum.“
Hún segir að svo virðist sem ríkisstjórn Frakklands skammist sín fyrir að fá þessa tilskipun frá framkvæmdastjórn ESB og reyni að höndla það með diplómatískum hætti fremur en að setja hnefann í borðið og standa á sínu af fullri hörku. 
 
Fjármálaráðherrann Bruno Le Maire talaði fyrir hönd ríkis­stjórn­arinnar í mars 2019 og taldi rökin gegn einkavæðingu vera veik en óskaði eftir að halda áfram viðræðum og reyna að semja við fram­kvæmdastjórn ESB. Slík viðhorf eru hins vegar ófullnægjandi í augum margra þingmanna. 
 
Mun leiða til kostnaðarauka fyrir neytendur
 
„Vatnsorkuverin hafa verið fjármögnuð af frönsku þjóðinni  og eru rétt að byrja að skila arði. Það er ekki til umræðu að gefast upp,“ sagði þingmaðurinn Delphine Batho. 
„Spurningin snýst um öryggi og stjórnun sameiginlegs ágóða, en einnig um kostnaðarstjórnun. Ég óttast að einkavæðingin í orkumálunum verði á sama veg og varð við einkavæðingu hraðbrautanna sem leiddi til aukins kostnaðar fyrir neytendur.“
 
ESB vill einkavæða 399 virkjanir
 
Krafa framkvæmda­stjórnar­innar snertir yfirráð fransks almennings yfir 399 vatnsaflsvirkjunum víða um Frakkland. Með öðrum orðum er verið að neyða franska ríkið til að afsala sér yfirráðum yfir sínum vatnsorkuverum í hendur einkafyrirtækja. Það er nokkuð sem íslenskir þingmenn, sem hafa haft forgöngu um að innleiða orkupakka 3 á Íslandi, hafa þvertekið fyrir að væri nokkur hætta á að geti gerst hér á landi. 
Krafa framkvæmdastjórnarinnar í Brussel um að EDF verði opið fyrir einkafjármagn, miðast við að yfirráðaréttur franska ríkisins yfir 150 vatnsorkuverum falli úr gildi árið 2023. 
 
Ríkisfyrirtæki með um 22%
af raforkuframleiðslu ESB
 
Fram til þessa hefur Électricité de France (EDF), sem er að stærstum hluta í eigu almennings í Frakklandi í gegnum franska ríkið, haft yfirráð yfir 80% af frönskum vatnsaflsvirkjunum. Fyrirtækið er að formi til hlutafélag sem er opið að hluta fyrir einkaaðilum, en franska ríkið hefur þó haldið fast um sinn eignarhlut til þessa. Fyrirtækið framleiddi árið 2011 um 22% af allri raforku sem framleidd er í ríkjum Evrópusambandsins. Stærsti hluti þess er þó framleiddur með kjarnorku, eða 64,3% í 58 kjarnakljúfum sem staðsettir eru víðs vegar um Frakkland. Þar af eru 34 kjarnaofnar sem skila 200 megavöttum meira afli hver en Kárahnjúkavirkjun á Íslandi, eða um 900 MW. Þá voru framleidd 14,5% af raforkunni með kolum og 8,6% með gasi. Með endurnýjanlegum orkugjöfum voru framleidd 12,3% og 0,3% með öðrum orkugjöfum. Velta félagsins 2016 var um 71,2 milljarðar evra, eða sem svara rúmlega 9.754 milljörðum íslenskra króna.
 
Yfirvöld í Brussel krefjast einkavæðingar í orkugeiranum
 
Krafa framkvæmdastjórnar ESB nú mótast af því að í lok nóvember á síðasta ári sendi hún frá sér viðvörun til Frakka og óskaði eftir „nákvæmri  tímaáætlun“ um hvernig þeir hygðust koma verulegum hluta sinna vatnsaflsvirkjana á samkeppnismarkað. Virkjana sem verið hafa undir eignarhaldi EDF. Er þetta talið dæmi um óvenju harkalega einræðistilburði af hálfu yfirvalda í Brussel í garð Frakka, en framkvæmdastjórn ESB hefur  lengi kallað eftir einkavæðingu Frakka í orkumálum.
 
Innantóm yfirlýsing um
lokun 17 kjarnorkuvera
 
Árið 2017 lýsti Nicolas Hulton, franski umhverfisráðherrann, því yfir að stefnt væri að lokun 17 kjarnorkuvera fyrir 2025 til að mæta löggjöf sem segir að draga eigi úr hlutdeild kjarnorku í raforkuframleiðslu. Hann segir hins vegar ekkert um hvernig Frakkar ætla að mæta orkuþörfinni sem hlýst af lokun kjarnorkuveranna. Þjóðverjar hafa áður haft uppi svipaða yfirlýsingagleði um lokun kjarnorkuvera vegna þrýstings af umræðu sem græningjar ýttu af stað. Þeir hafa neyðst til að bakka út úr þeim áformum vegna mikillar eftirspurnar eftir raforku. 
Franska raforkudreifikerfið líka á leið til einkaaðila
 
Í Frakklandi er dreifikerfi raforku til stórnotenda í eigu EDF í sjálfstæðu fyrirtæki sem heitir Transport d'Électricité (RTE) og rekur það um 100.000 kílómetra af háspenntum raflínum. Það er líka með um 1.300.000 km af meðal-  og lágspenntum línum sem haldið er gangandi af fyrirtæki sem heitir Enedis gère le réseau d'électricité (ENDIS) sem stofnað var 2008 og hét upphaflega ERDF. Var það í  eigu EDF. Krafa framkvæmdastjórnar  Evrópusambandsins um aðskilnað eignarhalds ríkisins yfir þessari starfsemi leiddi svo til nafna­breytingar 2016 með einkavæðingu í huga. Þannig er dreifikerfið smám saman líka að lenda í höndum fjárfesta úr einkageiranum samkvæmt frétt L‘Express.
 
Fjárfestir krefst svara
 
Nýjasti snúningurinn í sápuóperunni um þriðja orkupakkann sem sýnd hefur verið í boði ríkisstjórnar Íslands, eru tíðindi af fjárfestinum Edmund Truell. The Times greindi frá því  mánudaginn 27. maí að Edi, eins og hann er kallaður, legði nú hart að breskum stjórnvöldum að samþykkja áætlun hans um að leggja rafstreng frá Íslandi til Bretlands. Er það í gegnum fyrirtæki hans, Atlantic Superconnection. Þrátt fyrir þetta hafa íslenskir ráðherrar og fleiri alþingismenn statt og stöðugt haldið því opinberlega fram að ekki standi til að leggja sæstreng.  Nú er spurningin, hver segir ósatt um fyrirhugaða sæstrengslögn til Bretlands, The Times, Edmund Truell eða íslenskir ráðherrar og verulegur fjöldi sitjandi þingmanna? 
Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...