Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Vænt karfahol um borð í Hring SH. Myndin er tekin árið 2005 á veiðum fyrir vestan land. Mynd / Guðlaugur Albertsson.
Vænt karfahol um borð í Hring SH. Myndin er tekin árið 2005 á veiðum fyrir vestan land. Mynd / Guðlaugur Albertsson.
Fréttaskýring 19. nóvember 2018

Rauðagull úr greipum Ægis

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Karfinn er meðal verðmætustu nytjastofna Íslendinga en það tók okkur marga áratugi að átta okkur á því að þessi rauði, litfagri fiskur er eftirsótt matvara víða um heim.

Að sækja gull í greipar Ægis er orðatiltæki sem menn grípa gjarnan til þegar lýsa þarf því hve gjöfult hafið getur verið. Það er vel við hæfi að líkja sjávarauðlindinni við gull þótt hafið sé ekki gullnáma í eiginlegum skilningi. Gullið verður fyrst til í greipum þeirra sem nýta fiskinn eða önnur sjávardýr.

Ýmsar dýrmætar tegundir sem nú eru eftirsóttar voru lengi vel taldar verðlausar og var hent fyrir borð áður en menn sáu tækifæri í því að nýta þær. Karfinn er gott dæmi um fisk sem lengi var vannýttur en nú skilar hann milljörðum í þjóðarbúið. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni voru fluttar út karfaafurðir fyrir um 11,3 milljarða króna á árinu 2017, sem eru tæp 6% af heildarútflutningi sjávarafurða. Því er óhætt að kalla karfann rauðagullið sem sótt er í greipar Ægis.

Karfi er ekki bara karfi

Dags daglega er oftast talað um karfa eins og um eina fisktegund sé að ræða. Málið er þó ekki svo einfalt því á Íslandsmiðum veiðast þrjár karfategundir; gullkarfi, djúpkarfi og litli karfi.

Til að flækja málið enn frekar þá er djúpkarfinn tvöfaldur í roðinu ef þannig má að orði komast. Alþjóðahafrannsóknaráðið skilgreinir djúpkarfa við Ísland og úthafskarfa í Grænlandshafi sem þrjá líffræðilega aðgreinda stofna þótt þeir beri eitt og sama latneska tegundaheitið.

Djúpkarfinn sem við veiðum á Íslandsmiðum er sem sagt sérstakur stofn og úthafskarfinn telur tvo stofna, efri og neðri stofn. Nú eru aðeins leyfðar veiðar á neðri stofni en hann má einkum finna á Reykjaneshryggnum utan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Hann gengur einnig inn í íslenska lögsögu þar sem íslensk skip veiða yfirleitt sinn hluta úthafskarfakvótans rétt innan lögsögulínunnar.

Ein mesta veiðiþjóð karfa

Íslendingar veiða einna mest allra þjóða af karfa og eru einnig ein stærsta útflutningsþjóð karfaafurða.
Í upphafi karfaveiða á fyrri hluta síðustu aldar veiddist nær eingöngu gullkarfi en veiðar á djúpkarfa hófust í kringum 1950. Gullkarfi og djúpkarfi eru mikilvægastir fyrir veiðar okkar en um tíma var veitt umtalsvert magn af úthafskarfa. Lítið veiðist hins vegar af litla karfa.

Íslendingar stunduðu einnig umtalsverðar karfaveiðar á fjarlægum miðum svo sem við Vestur-Grænland, við Austur-Grænland og Nýfundaland á 20 ára tímabili, frá 1953 til 1972.

Á nýliðnu fiskveiðiári veiddu Íslendingar 51.400 tonn  af gullkarfa, 10.500 tonn af djúpkarfa, 1.140 tonn af úthafskarfa og 150 tonn af litla karfa. Samanlagt gera þetta um 63.300 tonn.

Þegar best lét veiddu íslensk skip tæp 97 þúsund tonn af gullkarfa á Íslandsmiðum en það var árið 1982. Hæst fór djúpkarfaaflinn í tæp 57 þúsund tonn árið 1994. Mest veiddu Íslendingar rúm 57 þúsund tonn af neðri stofni úthafskarfa árið 1996.

Þess má geta að um og eftir miðja síðustu öld og fram undir seinni hluta áttunda áratugarins veiddu erlend skip gríðarlegt magn af karfa á Íslandsmiðum.

Gýtur lifandi seiðum

Karfategundirnar við Ísland eru keimlíkar í útliti en þó er nokkur munur á þeim í lit, svipmóti og stærð. Tegundirnar halda sig einnig á misjöfnu dýpi, litli karfi grynnst en djúpkarfi dýpst eins og nafnið bendir til.

Þar sem gullkarfinn er algengastur er við hæfi að lýsa honum aðeins nánar. Yfirleitt er gullkarfi í afla um 35 til 42 sentímetrar að lengd og vegur um 0,6 til 1,1 kíló. Hann getur þó orðið allt að 90 sentímetrar og vegið um 12 til 15 kíló og kallast þá „aldamótakarfi“.

Aðaluppeldissvæði gullkarfa er við Ísland og Austur-Grænland en hann fer einnig til Færeyja. Gullkarfinn er deilistofn þessara þriggja landa en stærstur hluti veiðkvótans kemur í hlut Íslendinga. Gullkarfi finnst víða á Íslandsmiðum en veiðist mest fyrir sunnan land og vestan.

Gullkarfinn, eins og aðrar karfategundir, hefur þá sérstöðu meðal beinfiska að hann gýtur lifandi seiðum. Hængar verða kynþroska á haustin og þá fer eðlun fram en hængurinn hefur til þess sérstakt ytra líffæri sem nefnist pintill.

Í fyllingu tímans þroskast eggin og klekjast út í hrygnunni og gýtur hún seiðunum suðvestur af Íslandi í apríl til júní. Fjöldi seiða í hverju goti er frá 40 til 400 þúsund.

Enginn happadráttur

Engum sögum fer af karfaveiðum Íslendinga fyrr á öldum en karfinn var þó þekktur sem matfiskur. Hann hefur væntanlega stöku sinnum slæðst um borð við veiðar á þorski.

Í upphafi botnvörpuveiða snemma á síðustu öld fór að bera meira á karfa sem meðafli við þorskveiðar. Var honum tíðast kastað í sjóinn aftur eins og hverjum öðrum verðlausum fiski. Eftir að veiðar íslenskra togara hófust á Halamiðum upp úr 1920 jókst karfi sem meðafli gríðarlega og var honum sem fyrr undantekningalítið mokað í hafið að nýju.

Karfinn hefur beitta gadda og ef sjómenn stungu sig á honum þegar hann var handleikinn gat grafið illa í sárinu. Það þótti líka nauðsynlegt að eiga góð stígvél þegar karfanum var sparkað fyrir borð. Karfinn þótti því enginn happadráttur.

Frá gúanó til manneldis

Það var ekki fyrr en á fjórða áratug síðustu aldar að fyrst var farið að nýta karfann að einhverju ráði. Þá hófust skipulagðar veiðar á karfa fyrir vestan land og var honum mokað upp til gúanóvinnslu í síldarverksmiðjum vestanlands og norðan. Jafnframt var lítilsháttar karfavinnsla í landi þar sem lifrin var brædd. Síðan var farið að flytja hann út ísaðan í einhverjum mæli, einkum til Þýskalands.

Á árinu 1950 hefst svo loks vinnsla á karfa til manneldis af fullum krafti, fyrst hjá Haraldi Böðvarssyni á Akranesi eins og rakið er hér í sérstakri grein.  

Fyrstu áratugina var karfinn unninn í landi en eftir að frystitogarar komu til sögunnar færðist vinnsla hans út á sjó í verulegum mæli. Allt að helmingur karfaaflans er nú sjófrystur.

Bandaríkin og Rússland voru lengi aðalmarkaðir fyrir karfann. Þýskaland er núna mikilvægasti markaðurinn en Rússlandsmarkaður er lokaður vegna viðskiptahafta. Japanir eru líka stórir kaupendur.

Mikil samþjöppun karfakvótans

Karfinn hefur þá sérstöðu í kvótakerfinu að hann er sú tegund sem hefur hæsta kvótþakið. Samkvæmt lögum má ekkert útgerðarfyrirtæki eiga meira en 12% af verðmætum heildarkvótans reiknað í þorskígildum. Sérreglur gilda svo fyrir einstakar tegundir. Enginn má eiga meira en 12% heildarkvótans í þorski, 20% ýsukvótans og 20% loðnukvótans, svo dæmi séu tekin. Kvótaþakið fyrir karfann er hins vegar 35%.


Fiskistofa birti nýlega yfirlit yfir hlutfallslega kvótaeign stærstu útgerða í upphafi fiskveiðiársins 2018/2019. Þar kemur fram að HB Grandi er með langstærstu hlutdeild í karfa, eða tæp 28% í gullkarfa og rúm 25% í djúpkarfa, Útgerðarfélag Reykjavíkur, áður Brim, er í öðru sæti með um 8,5% í gullkarfa og 15,7% í djúpkarfa.

Mikil samþjöppun er í kvótaeign í karfa. Þannig eru 10 kvótahæstu útgerðirnar með samanlagt um 80% kvótans í gullkarfa og um 84% í djúpkarfa, sem sjá má í meðfylgjandi töflu. Frá því Fiskistofa birti tölur sínar hefur hluthafafundur HB Granda samþykkt kaup félagsins á Ögurvík sem er í 8. og 7. sæti yfir stærstu útgerðir í gullkarfa og djúpkarfa.

Skylt efni: Karfi | Fiskveiðar

Ræktunarland verður kortlagt
Fréttaskýring 8. desember 2023

Ræktunarland verður kortlagt

Gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um nýja landsskipulagsstefnu til 15 á...

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls
Fréttaskýring 17. nóvember 2023

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls

Hugtakið „fæðuöryggi“ hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri. Ef litið ...

Ágreiningur um áhrif veiða
Fréttaskýring 11. nóvember 2023

Ágreiningur um áhrif veiða

Samkeppni um rými og auðlindir geta valdið misklíð milli manna og dýra. Í tilfel...

Beislun sjávarorku handan við hornið
Fréttaskýring 20. október 2023

Beislun sjávarorku handan við hornið

Virkjun sjávarorku er á margan hátt aðlaðandi kostur í þeim orkuskiptum sem fram...

Orka sjávar óbeisluð
Fréttaskýring 19. október 2023

Orka sjávar óbeisluð

Engin verkefni eru í gangi á vegum stjórnvalda varðandi nýtingu sjávarorku hér v...

„Grænmetið sprettur ekki upp af sjálfu sér“
Fréttaskýring 12. október 2023

„Grænmetið sprettur ekki upp af sjálfu sér“

Óli Finnsson og Inga Sigríður Snorradóttir tóku við garðyrkjustöðinni Heiðmörk í...

Enginn hvati til framleiðsluaukningar
Fréttaskýring 6. október 2023

Enginn hvati til framleiðsluaukningar

Garðyrkjubændur í útiræktun grænmetis eru nú í óða önn við að ljúka uppskeru úr ...

Varnarlínur og niðurskurður ekki lengur einu tólin
Fréttaskýring 29. september 2023

Varnarlínur og niðurskurður ekki lengur einu tólin

Hér á landi hafa verið lagðar ýmsar takmarkanir á sauðfjárræktina til að hindra ...