Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Rússneska gasfyrirtækið Gazprom er gríðarlega áhrifamikið í orkuiðnaði Evrópu. Stríð Rússa í Úkraínu hefur sett viðskipti Evrópuríkja varðandi olíu-, kola- og gaskaup af Rússum í uppnám. Hins vegar getur orið afar snúið fyrir Evrópuríkin að hverfa frá þeim viðskiptum þar sem 41% af gasinnflutningi ESB ríkja kemur frá Rússlandi sem og 46,7% af kolunum og 26,9% af innfluttri olíu ríkjanna.
Rússneska gasfyrirtækið Gazprom er gríðarlega áhrifamikið í orkuiðnaði Evrópu. Stríð Rússa í Úkraínu hefur sett viðskipti Evrópuríkja varðandi olíu-, kola- og gaskaup af Rússum í uppnám. Hins vegar getur orið afar snúið fyrir Evrópuríkin að hverfa frá þeim viðskiptum þar sem 41% af gasinnflutningi ESB ríkja kemur frá Rússlandi sem og 46,7% af kolunum og 26,9% af innfluttri olíu ríkjanna.
Fréttaskýring 19. maí 2022

Orkukostnaður heimila snarhækkar í Evrópu

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Þróun sameiginlegs innri orku­markaðar Evrópu og innleiðing skortstöðu á raforkumarkaði hefur leitt til stórhækkunar á verði raforku í álfunni. Þessi staða hefur líka leitt til orkuskorts sem er að hafa alvarlega áhrif á iðnaðarframleiðslu og landbúnað. Stríð í Úkraínu gerir málið svo enn verra.

Stjórnmálamenn hafa reynt að kenna Covid-19 faraldrinum um þá stöðu sem nú er uppi, sem og litlum vindi á síðasta ári og nú stríðinu í Úkraínu. Þegar leitað er frumorsaka samdráttar í orkuframleiðslu og hækkandi orkuverðs var þessi þróun hafin löngu fyrir tíma Covid og styrjaldar í Úkraínu. Samdráttur í raforkuframleiðslu hefur líka verið framkvæmdur meðvitað, m.a. með lokun á kjarnorkuverum í Þýskalandi og samningum um að danskir vindmyllueigendur slökkvi á sinni framleiðslu til að halda uppi orkuverði. Þetta hefur leitt til orkuskorts, hrikalegra hækkana á orkuverði og samdráttar í iðnaði. 

Vegna stöðunnar hefur Evrópu­sambandið hvatt þegna sína til að draga úr orkunotkun eftir mætti. Hins vegar er ósamstaða meðal ESB ríkjanna um með hvaða hætti eigi að taka á málum til að verja almenna neytendur gagnvart síhækkandi orkuverði.  Hafa Ítalir, Spánverjar og fleiri þjóðir kallað eftir sameiginlegum viðbrögðum ESB, ekki síst varðandi gaskaup. Ungverjar og Tékkar vilja hins vegar endurskoða mengunarþáttinn kolefnis­viðskiptaáætlun sam­bandsins væntanlega til að geta nýtt sínar kolabirgðir.

Þá vilja Frakkar endurskoða verðmyndunarþáttinn í sameiginlega orkumarkaði Evrópu. 

Milljarðar evra í ríkisstuðning

Sem dæmi tilkynntu Magnus Brunner, fjármálaráðherra Austur­ríkis, og Leonore Gewessler, loftslags- og orkumálaráðherra landsins, þann 20. mars sl. að veittir yrðu orkustyrkir að andvirði 2 milljarða evra í viðleitni til að létta byrðar vaxandi kostnaðar á hagkerfið. Inn í því eru skatta­lækkanir og launabætur.

Þá hafa yfirvöld í Austurríki áætlað að nýjustu ráðstafanir sem fela í sér 90% lækkun á gjaldskrám fyrir jarðgas og raforku til miðs árs 2023, muni kosta 900 milljónir evra og hærri samgöngustyrkir til vinnandi fólks kosti um 400 milljónir evra. Þá hyggst ríkisstjórn Austurríkis einnig bjóða fyrirtækjum stuðning með því að seinka einhverjum skattgreiðslum og veita 250 milljónir evra í fjárfestingarstuðning til að hætta notkun á rússnesku gasi.

Heimilin munu ekki ráða við hækkanir á orkuverði

Fjármálafyrirtækið Allianz í Þýskalandi gerir ráð fyrir að orkuverð í Evrópu hækki um að minnsta kosti 30% á yfirstandandi ári. Í greiningu fyrirtækisins segir að hækkun orkuverðs muni koma verst við heimilin í Þýskalandi og Bretlandi. Sparnaður heimila mun ekki geta mætt þessum aukna orkukostnaði að mati Allianz. Því muni þurfa að auka ríkisaðstoð við heimilin sem nemur 20 milljörðum evra í Þýskalandi, um 17 milljörðum í Frakklandi, um 10 milljörðum á Ítalíu og á Spáni og um sem nemur 14 milljörðum evra í Bretlandi.

Orkureikningur heimila gæti hækkað um allt að 70%

Samkvæmt útreikningum Allianz mun heildarorkureikningur heimila í Þýskalandi fara í 3.400 evrur á árinu, eða sem nemur 468.520 íslenskum krónum. Það er bæði fyrir kyndingu og almenna rafmagnsnotkun. Reikningurinn fari líka yfir 3.000 evrur í Bretlandi, í 2.800 evrur í Frakklandi og verði rétt fyrir neðan 2.000 evrur á Ítalíu og á Spáni.

Sérfræðingar segja að stríðið í Úkraínu hafi aukið kostnaðinn og ef allt fer á versta veg með lokun á gasflæði frá Rússlandi ásamt olíu og tilheyrandi samdrætti í orkuframboði í Evrópu þá geti kostnaðurinn aukist um 70% til viðbótar. Það gæti þýtt að orkukostnaður þýskra heimila fari að meðaltali í 4.600 evrur á yfirstandandi ári, eða sem nemur tæplega 634 þúsundundum íslenskra króna. Allianz segist þó frekar reikna með að kostnaðurinn aukist um 20%, sem þeir kalla reyndar „Black-out scenario“. Ofan á þetta bætist svo samdráttur í atvinnustarfsemi sem getur þýtt 2-4% samdrátt í tekjum heimila að mati Allianz.

ESB-ríkin eru afar háð Rússum

Evrópusambandið er gríðarlega háð Rússum varðandi orkugjafa. Þannig kemur 26,9% af innfluttri olíu Evrópusambandsríkjanna frá Rússlandi. Þá koma 46,7% af kolainnflutningi ESB-ríkja frá Rússlandi og 41,1% af innfluttu gasi. Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar getur reynst erfitt fyrir ESB-ríkin að komast undan þessum áhrifum Rússa. Í Evrópusambandinu er um 75% hitaorkunnar fyrir heimilin framleidd með kolum og olíu.

Sem dæmi þá er 63,7% af orku­þörf Þjóðverja mætt með inn­fluttri orku. Malta reiðir sig þó hlutfallslega mest á innflutta orku, eða 96,7%. Þá kemur Lúxemborg með 92,5%, Grikkland með 81,4%, Ítalía með 73,5%, Spánn með 67,9% og Portúgal með 67,9%. Frakkar eru öflugir í kjarnorkunni en þurfa samt að kaupa inn 44,5% af sinni orkuþörf. 

Gríðarlegur ríkisstuðningur við niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis þvert á loftslagsmarkmið

Aðrar ESB þjóðir hafa ákveðið að beita ríkisstuðningi í stórum stíl til að aðstoða almenning og fyrirtæki til að takast á við orkukreppuna, en ekkert samræmi er í þeim aðgerðum milli ESB landanna. Það er því eðlilegt að sumir spyrji sig hvar Evrópusambandið sé þegar á bjátar.

Ljóst er að niðurgreiðsla á raf­magni í einstökum ríkjum stangast á við orkuregluverk ESB. Mörg lönd eru síðan farin að nota innheimtan kolefnisskatt til að greiða niður gas- og raforkuverð í stað þess að nýta þá fjármuni til að binda kolefni eða virkja lausnir til að framleiða græna raforku. Raforkan er svo að um 75% hluta framleidd með kolum, olíu og gasi. Þar með er fögru fyrirheitunum í loftslagsmálum í raun sópað undir teppið í Evrópusambandinu.

Af þessum toga er t.d. lækkun Þjóðverja á aukaskatti á raforku um nær helming, eða úr 6,5 í 3,72 evrusent á kWst heildsöluverðs á rafmagni. (Erneuerbare-Energien-Gesetz - EEG).  Þetta tók gildi 1. janúar sl. og mun kosta þýska ríkið 3,3 milljarða evra.

Þjóðverjar hafa horft fram á að raforkuverð til heimila hækki að meðaltali um 63,7% á yfirstandandi ári og gasreikningarnir um 62,3% frá því sem var 2021. Þetta er afleiðing af því að orkuheildsalar velta sínum kostnaðarauka yfir á almenna notendur að því er fram  kemur í frétt Reuters.

Scholz Þýskalandskanslari metur það svo að aðstoð við orkunotendur í landinu muni kosta þýska ríkið um 30 milljarða evra.   

Frakkar niðurgreiða jarðefnaeldsneyti

Frakkar hafa m.a. farið þá leið að niðurgreiða jarðefnaeldsneyti. Fyrirtækjum er veittur styrkur til að mæta hækkandi orkukostnaði. Heildarkostnaður Frakka af slíku inngripi mun fara í 25-26 milljarða evra. Þann 19. mars tilkynnti Jean Castex forsætisráðherra að frá apríl til júlí gætu ökumenn notið 15 senta afsláttar á lítra við dælu og 35 senta afsláttar á lítra fyrir dísilolíu sem bátar í sjávarútvegi nota. Daginn áður, eða 18. mars 2022, var flutningsaðilum á vegum einnig tilkynnt að þeir myndu fá beinan styrk upp á 400 milljónir evra frá ríkinu. Þetta samsvarar aukningu upp á um 1.300 evrur fyrir dráttarbíla og 300 evrur fyrir sjúkrabíla. Þessi nýjustu inngrip munu kosta franska ríkið um 2 milljarða evra til viðbótar.

Írar greiða aukinn kostnað heimila með kolefnisskattstekjum sem heimilin borga sjálf

Frændur okkar Írar glímdu við fjórða hæsta orkuverð í Evrópu í ársbyrjun 2021. Við kynningu á fjárlögum fyrir 2022 kynnti Paschal Donohoe, fjármálaráðherrann,  30% skattaafslátt vegna aukins hita og rafmagnskostnaðar. Aðrar ráðstafanir fela í sér útgjöld upp á 202 milljónir evra sem verða teknar af kolefnisskatttekjum vegna íbúðarhúsnæðis og af samfélagsveitum.

Sem sagt almenningur borgar skattaafsláttinn sjálfur með kolefnissköttum sem búið var að leggja á heimilin og fara því  ekki í að virkja fram­leiðslu á grænni orku og ekki heldur í kolefnisbindingu. Ríkið getur samt áfram sagst vera að mæta loftslagsmarkmiðum með álagningu kolefnisskatta. Ætli nokkrum dirfist að láta sér detta í hug orðið hræsni í þessu samhengi?

Danir og Norðmenn með hæsta meðaltalsverðið á raforku

Í regluverki (orkupökkunum) fyrir sameiginlega orkukerfið er bann við því að mismuna orkukaupendum við raforkusölu milli landa.

Hafa Norðmenn og Danir fundið vel fyrir því og hefur þetta leitt til stór­hækkunar á orkuverði í þeim löndum.

Miklu munar á orkuverði eftir landsvæðum í Noregi

Raforkuverðið á seinni helmingi ársins 2021 var langhæst í Dan- mörku samkvæmt tölum Eurostat.

Þá var raforkuverðið að meðaltali 0,3448 evrur á kílówattstund (kWst).

Næsthæst var verðið í Þýska­landi, eða 0,3234 evrur á kWst. Norðmenn voru þá að greiða að meðaltali 0,2206 evrur á kWst. Hafði raforku­verðið til heimila í Noregi þá hækk­að á tólf mánuðum á bilinu 386,9% til 451,5%, en heildarverðið með flutningi og sköttum á bilinu 126,5% til 199,2% eftir tegund samninga. Þar var verðið hins vegar mjög mis­munandi eftir landshlutum, mun hærra syðst en lægra í nyrstu héruðunum, lægst í Finnmörku og Norður-Þrændalögum, samkvæmt Statistisk sentralbyråd. Með beinum tengingum og auknum útflutningi orku frá Norður-Noregi mun orkan þar líka snarhækka í verði.

Til samanburðar var Ísland á seinni árshelmingi í fyrra með meðalverð upp á 0,1387 evrur á kWst, samkvæmt tölum Eurostat.

Rúmlega 926% hækkun á raforkuverði á sex árum

Þegar litið er á verðþróun á markaðs­verði raforku í suðurhluta Noregs hjá Nord Pool, sem stýrir orku­markaðnum í Evrópu, hefur hækk­un­in verið hrikaleg. Í mars 2016 var kílówattstundin seld á 25,24 norska aura, en var komið í 233,80 aura í mars 2022. Þetta er rúmlega 926% hækkun á raforkuverði á sex árum. Verðið hefur þó verið mun lægra í norðurhluta Noregs vegna lélegra tenginga við flutningskerfið út úr landinu, en búist er við að það fari að breytast innan tíðar. Lægst var verðið í mars á svæði 5 nyrst í Noregi, eða 15,10 aurar á kWst. Vegna minna álags lækkar orkuverðið að jafnaði á sumrin, en það stóð samt í 217,49 aurum kWst í apríl í Suður-Noregi.

Samkvæmt tölum Nor Pool var verðið í suðurhluta Noregs í mars sem nemur 33,26 íslenskum krónum fyrir kílówattstundina. Til saman­burðar var hæsta raforkuverð að meðtöldum orkuflutningi á Íslandi nú í byrjun maí 2022 um 16,67 krónur kWst. Meðalheimili notar um 4-5.000 kWst á ári svo menn geta því rétt ímyndað sér hvaða afleiðingar beintenging íslenskra raforkuvera með sæstreng til Evrópu hefði í för með sér fyrir íslensk heimili ef orkuverðið hækkaði um mörg hundruð prósent. 

Norðmenn vonast eftir rigningarsumri

Í frétt E24 segir einnig að Norð­menn óski þess heitt að mikið rigni í sumar. Ástæðan er sú að lítill snjór er í fjöllum sem þýðir að raforkuframleiðsla í sunnanverðum Noregi verður í lágmarki. Því þarf að flytja inn orku sem framleidd er með kolum og olíu sem stöðugt hækkar í verði. Það verður ekki til að lækka orkuverð til norskra heimila. 

Raforkukostnaður fyrirtækja í Evrópu hefur líka snarhækkað

Raforkuverð til fyrirtækja í ESB löndunum fór að hækka mjög ört strax á fyrrihluta ársins 2020. Raforkuverð til fyrirtækja á Íslandi er ekki gefið upp hjá Eurostat, sem ræðst trúlega af sérstökum samn­ingum við stóriðjufyrirtækin hér á landi, sem er undarlegt ef litið er t.d. til Noregs.

Raforkuverð til fyrirtækja í ESB löndunum var að meðaltali um 0,14 evrur á kWst á sama tíma, en langhæst í Grikklandi, eða um 0,23 evrur á kWst. Í Noregi hafði raforku­verð til stórnotenda hækkað á 12 mánuðum um 65,7% en til minni framleiðslufyrirtækja um 488,1%.

Raforkuverð í Kósovó helmingi lægra en á Íslandi

Athygli vekur að lægsta raforku­verðið í Evrópu var á seinni helm­ingi síðasta árs í löndunum á Balkanskaga, Svartfjallalandi, Albaníu, Norður-Makedóníu, Serbíu, Bosníu-Herzegóvínu, Kósovó auk Georgíu, Moldóvu og í Tyrk­landi. Lægsta raforkuverðið var á seinni hluta ársins 2021 í Kósovó, eða 0,0607 evrur á kWst., eða meira en helmingi lægra en í okkar gnægtalandi hreinnar raforku á Íslandi.

Ef eingöngu er talað um ESB löndin þá var verð til heimilisnota um 92% hærra að meðaltali í ESB löndunum en á Íslandi.

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Leyfir ekki sandnám
18. september 2024

Leyfir ekki sandnám

Skýrsla um raunveruleikann
18. september 2024

Skýrsla um raunveruleikann

Subbu-Jobbi
18. september 2024

Subbu-Jobbi

Tjöldin dregin frá
18. september 2024

Tjöldin dregin frá

Mikill áhugi fyrir samfélagsbanka á Íslandi
19. september 2018

Mikill áhugi fyrir samfélagsbanka á Íslandi