Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Doosan Heavy Industries & Construction, sem er risafyrirtæki í orkuiðnaði í Suður-Kóreu, gekk í ágúst frá samningi sem metinn er á 220 milljarða dollara um að byggja nýrra sorporkuver í Olsztyn í  Póllandi. Dosan er þar í samstarfi við þýska dótturfélag sitt, Doosan Lentjes, sem áður hét AE&E Lentjes. Í þessu sorporkuveri á að framleiða 12 megawött af raforku og ráðgert er að stöðin verði tekin í notkun 2023, samkvæmt frétt Aju Business Daily í Suður-Kóreu.
Doosan Heavy Industries & Construction, sem er risafyrirtæki í orkuiðnaði í Suður-Kóreu, gekk í ágúst frá samningi sem metinn er á 220 milljarða dollara um að byggja nýrra sorporkuver í Olsztyn í Póllandi. Dosan er þar í samstarfi við þýska dótturfélag sitt, Doosan Lentjes, sem áður hét AE&E Lentjes. Í þessu sorporkuveri á að framleiða 12 megawött af raforku og ráðgert er að stöðin verði tekin í notkun 2023, samkvæmt frétt Aju Business Daily í Suður-Kóreu.
Fréttaskýring 25. nóvember 2020

Grunnhyggni, vanþekking og pólitísk þráhyggja einkennir enn sorpmál Íslendinga

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Enn bólar ekkert á framkvæmdum varðandi nýjar sorporkustöðvar á Íslandi og enn er haldið áfram að senda plast og annan úrgang til útlanda í brennslu og urða gríðarlegt magn af öðru sorpi á Íslandi.  

Sorporkustöðvar einar og sér leysa þó heldur ekki allan vanda. Því er greinilega orðin mjög brýn þörf á stefnumörkun sem tekur til margþættra úrræða sem fela í sér allt í senn. Það er umbreytingu á sorpi í orku með bruna, endurvinnslu alls úrgangshráefnis sem hægt er, kolun og efnavinnslu með „Pyrolysistækni“ ásamt gas og jarðvegsgerð.   

Riðuveiki sýnir fram á ófremdarástand

Enn á ný kviknaði umræða um þessi mál sem varpar ljósi á það ófremdarástand sem hér ríkir. Nú var það vegna riðuveiki sem kom upp í Skagafirði. Förgun á sýktum dýrum verður nefnilega ekki gerð með fullnægjandi hætti öðruvísi en að brenna hræin við hátt hitastig.

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, segir að það hafi verið slæmt að upplifa það ástand sem ríkir í landinu varðandi förgun dýrahræjanna. Áhrifaríkasta leiðin sé að brenna úrganginn, en brennsluofn sem til staðar er í Reykjanesbæ annar ekki allri brennslunni. Sá úrgangur sem eftir stendur fer til urðunar að Skarðsmóum í Skagafirði. Þar er um að ræða urðunarstað sem búið var að leggja af. Úrganginum var því fargað þar á  undanþágu. 

„Þetta sýnir okkur að við þurfum að taka okkur á í þessum efnum, það þarf að ráða bragarbót á þessum urðunarmálum sem fyrst. Við verðum að hafa tiltækar viðunandi leiðir ef atburður af svipuðu tagi kemur upp á ný,“ segir Sigfús Ingi.

Mikil tækniþróun

Mikil þróun hefur verið í hönnun sorporkustöðva víða um lönd sem umbreyta sorpi í varma sem nýttur er til húshitunar og til raforkuframleiðslu. Brennsla á sorpi í sorporkustöðvum er skilgreint sem endurvinnsla, þ.e. að umbreyta sorpi í orku. Slíkt er orðinn mjög álitlegur kostur í dag út frá umhverfismálum og aðkallandi að eitthvað verði gert til að draga úr uppsöfnun á sorpi af öllu tagi. Enda verður væntanlega óheimilt að urða rusl eftir tíu ár samkvæmt samningum Íslands við ríki innan ESB. Það er samkvæmt samþykkt ESB frá 2014 um að 70% af sorpi frá heimilum verði „endurunnið“ með einum eða öðrum hætti fyrir 2030 og 80% af umbúðum. Þá mun bann gilda um urðun á öllum endurvinnanlegum úrgangi eftir 2025. 

Alla tíð hefur viðgengist að brenna sorpi á opnum haugum nærri híbýlum manna, en tilraunir á alvöru sorpbrennslu með skilvirkum hætti voru fyrst gerðar í Þýskalandi á seinni hluta 19. aldar. 

Amager Bakke-sorporkustöðin í Kaupmannahöfn. 

Svíar hafa staðið framarlega í byggingu sorpbrennslustöðva

Brennsla í sérhönnuðum sorpbrennslustöðvum í lokuðu ferli var tekin upp í miklum mæli í Svíþjóð á sjöunda áratugnum. Vinsældir hennar þar drógust saman er menn fóru að hafa áhyggjur af afleiðingum losunar díoxíns sem myndaðist við ófullkominn bruna. Með stórbættri tækni breyttust viðhorfin og vegur sorpbrennslunnar fór mjög að vaxa á ný í Svíþjóð og víðar um lönd. Mikil þróun hefur verið í þessari tækni á síðustu árum. Nú hafa Svíar byggt um 34 sorpbrennslustöðvar sem nýta jafnfram hitaorkuna frá stöðvunum.  

Auk þess að brenna sitt eigið heimilissorp hafa Svíar flutt inn sorp  frá öðrum Evrópulöndum og umbreytt því í orku. Svíar „endurvinna“, að mestu með bruna, um 99% af sínu sorpi og flytja auk þess inn um 700.000 tonn af sorpi frá öðrum löndum árlega, þar á meðal frá Íslandi. Þá er líka framleitt lífgas úr sorpinu sem nýtt er m.a. á strætisvagna.

Svipaða sögu er að segja af Dönum, Norðmönnum og Finnum og hefur orkan þá líka verið nýtt til raforkuframleiðslu. Er þetta í takti við þróun sem er að eiga sér stað úti um allan heim. Ríki í SuðausturAsíu eru að hella sér út í uppbyggingu á sorporkustöðvum, enda umhverfisvandi vegna sorpförgunar víða orðinn gríðarlegur. Samt virðist lítið hafa miðað í þessum málum á Íslandi.

Sorporku og sorpeyðingarstöðvum fjölgar hratt víða um heim

Í skýrslu þýska ráðgjafarfyrirtækisins Ecoprog sem kom út 2019 voru um 2.450 sorpvinnslustöðvar starfandi um heim allan og í þeim voru yfir 4.800 sorpbrennslutæki auk margvíslegrar annarrar meðhöndlunar á sorpi. Þá voru í gangi yfir 1.100 verkefni sem þeir nefna „Úrgangi breytt í orku“, eða Waste to Energy (WtE).

Sorpvinnslustöðvar sem nýta það sem Ecoprog kallar hitameðferðarverksmiðjur á sorpi, eða „thermal waste treatment plants“, sem eru ekkert annað en sorpbrennslustöðvar á mannamáli, voru 2.450 árið 2019. Þær réðu við að eyða 368 milljónum tonna af sorpi á ári. Af þeim voru 60 nýjar stöðvar reistar á árinu 2018 sem geta eytt yfir 14 milljónum tonna af sorpi á ári. Áætlar Ecoprog að um 2.700 sorporku eða sorpeyðingarstöðvar verði byggðar í heiminum  fram til 2028 sem geti fargað 530 milljónum tonna á ári. 

Þróun og uppbygging sorporkustöðva tók mikinn kipp eftir að Kínverjar bönnuðu innflutning á sorpi frá Vesturlöndum og víðar um áramótin 2017/2018. Olli bann Kínverja miklu uppnámi og fór plast og annað rusl að hlaðast upp í stórum stíl, m.a. í Evrópu og Bandaríkjunum. Þar á meðal var úrgangsplast frá Íslandi.  

Ein sorpbrennslustöð eftir á Íslandi

Eina sorpbrennslan sem eitthvað kveður að á Íslandi og er með starfsleyfi samkvæmt reglum um mengun er sorpbrennslustöðin Kalka við Helguvík á Suðurnesjum. Stöðin hefur verið að brenna nálægt 12.000 tonnum af sorpi á ári. Hitaorkan sem þar verður til er þó ekki nýtt eins og gert er í sorporkustöðvum víða um heim, m.a. til raforkuframleiðslu, en það var þó gert um tíma. Kalka er eina stöðin sem hefur t.d. heimild til að farga sýktum úrgangi frá sjúkrahúsum og hefur verið nýtt að undanförnu við að eyða hræjum af riðuveiku fullorðnu fé úr Skagafirði. Ef sú kvöð hefði verið uppi um að brenna þyrfti öllum þeim skrokkum sem til falla vegna niðurskurðar á riðuveiku fé í Skagafirði, þá hefði Kalka illa ráðið við það verkefni. Sorporkustöðvar snúast því ekki bara um að breyta því rusli sem til fellur í orku og minnka þannig sóðaskap í umhverfinu, heldur snúast þær líka um heilbrigðismál, bæði hjá dýrum og mönnum. 

Sorpbrennsla hefur verið tabú á Íslandi alla þessa öld þrátt fyrir byltingu í brennslutækni 

Um árabil hefur ekki af umhverfispólitískum ástæðum mátt minnast á brennslu á sorpi sem mögulega leið til að endurnýta þau úrgangsefni sem falla til vegna umsvifa venjulegra borgara á Íslandi. Sorpbrennsla hefur einfaldlega verið tabú sem byggt er á mistökum sem átt hafa sér stað við sorpeyðingu á Íslandi á liðnum áratugum. Þar flaug hæst umræða um stórgölluðu sorpeyðingarstöðina Funa á Ísafirði sem átti að vera umhverfisvæn og leysa af mjög frumstæða sorpbrennslu sem starfrækt hafði verið á Skarfaskeri í Hnífsdal. Þar voru uppi áhyggjur vegna þess að sú sorpbrennsla var talin leiða til þess að þungmálmar eins og blý og kvikasilfur voru losuð út í umhverfið svo og díoxín, brennisteinsoxíð og sýrur. 

Í Funa átti að leysa þau mál með reykgashreinsun og bættum brennsluaðferðum. Það varð ekki raunin, kannski ekki síst fyrir það að til að slík stöð virki almennilega þarf hún að vera í fullri vinnslu allan sólarhringinn. Í þessu ferli virðist aldrei hafa verið hugsað um að nýta þá orku sem myndaðist við brunann og því var sorpbrennsla í hugum sveitarstjórnarmanna yfirleitt aldrei annað en endalaus kostnaður. Það að sorpbrennsla sé enn litin hornauga á Íslandi virðist því að mestu byggjast á einstrengingslegri pólitískri stefnumörkun, fremur en upplýstri umræðu eða þekkingu um þá þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum.

Vandinn ekki leystur í öllum endurvinnslustöðvum

Þessi hugsunarháttur, sem enn virðist nokkuð ríkjandi, sérstaklega meðal fólks sem kennir sig við umhverfisvernd, er algjörlega á skjön við umræðuna víða um heim, eins og á hinum Norðurlöndunum. Þar er mikið talað um sjálfbæra hringrás sorps í hagkerfinu og sjálfbærar sorporkustöðvar. Á sama tíma reisa menn milljarða mannvirki á Íslandi í „sorpendurvinnslustöð“ eins og gas og jarðgerðarstöðina GAJA í Álfsnesi sem er ágæt til síns brúks en leysir dæmið samt ekki til fullnustu. Þar á vissulega að framleiða gas úr lífrænum úrgangi og moltu, en þaðan mun líka mun koma verulegt magn af plasti og öðrum efnum, sem óhæf eru til endurvinnslu og annaðhvort verður að urða eða flytja til brennslu í Svíþjóð eða öðrum löndum. 

Hægt að umbreyta rusli í margvísleg efnasambönd  með „Pyrolysestækni“

Úrgangsplasti, timbri, pappír  og lífrænum efnum er líka hægt að umbreyta í olíu, gas og ýmis efnasambönd með „Pyrolysestækni“ sem byggir að kolun efnisins með hita. Með slíkum aðferðum er hægt að framleiða dísilolíu, bensín, plast og margvísleg önnur efni. Slíkri tækni er talsvert beitt t.d. í Þýskalandi, Bretlandi og víðar með góðum árangri. Þjóðverjar nýttu þessa tækni t.d. mikið, m.a. til eldsneytisframleiðslu í síðustu heimsstyrjöld. Þá stendur samt eftir sýktur úrgangur og ýmislegur efnaúrgangur sem ekki má urða og einungis er hægt að farga með bruna með mjög háu hitastigi. Einnig steinefni og málmar.

Sorporkustöð Lietuvos Energija í Vilnius í Litháen sem taka átti í notkun nú á árinu 2020. Mun stöðin geta brennt um 160.000 tonnum af óendurnýtanlegu sorpi á ári. Mun hitaorka frá stöðinni fullnægja 20% af húshitunarþörf Vilniusborgar og skaffa 90.000 heimilum rafmagn.  

Sorporkustöðvar í Evrópu spara brennslu á milljónum tonna af kolum og olíu

Babcock & Wilcox er fyrirtæki sem framleiðir sorporkustöðvar. Fyrirtækið nefnir að í Norður Ameríku séu nú reknar 100 sorporkustöðvar, um 500 í Evrópu og 1.600 í Asíu.

Í Evrópu eru nú 50 milljónum tonna af úrgangi breytt árlega í dýrmæta raf og hitaorku. Með því er 27 milljón Evrópubúum séð fyrir raforku. Samt er enn verið að urða um 50 milljón tonn af sorpi árlega. 

Um 4 tonn af sorpi jafnast á við orku úr 1 tonni af olíu. Um 2 tonn af sorpi jafnast á við orku sem fæst úr 1 tonni af kolum. Bruni á 50 milljónum tonna af sorpi í sorporkustöð kemur því í stað brennslu á 12,5 milljónum tonna af olíu eða 25 milljónum tonna af kolum á hverju ári. 

Brennt við mjög háan hita

Við brennslu á sorpi undir miklum hita (1.1001.200°C) er búin til gufa sem síðan er ýmist nýtt til húshitunar eða til að framleiða raforku í gufuhverflum. Hitinn í brunanum er lykilatriði til að eyða margvíslegum eiturefnum úr reyknum. Þar er líka hægt að eyða með öruggum hætti margvíslegum efnaúrgangi og smituðum dýrahræjum ásamt smitefnum frá sjúkrahúsum. Með efnahvötum við brennsluna er svo hægt að eyða NOx, díoxíni og rokgjörnum vökvum og efnasamböndum úr reyknum. 

Í öskunni sem verður eftir má svo nýta um 90% af þeim málmum sem eru í sorpinu sem brennt er. Það sem eftir er má síðan nota sem íblöndunarefni í vegagerð. 

Eitt af leiðandi fyrirtækjum í smíði sorporkustöðvar sem nota „Pyrolysistækni“ 

Samkvæmt gögnum Babcock & Wilcox koma sorporkustöðvar í veg fyrir losun á metangasi sem annars verður til í sorphaugum. Þá minnka þær losun gróðurhúsalofttegunda sem annars verða til við framleiðslu á rafmagni með kolum og olíu. Slíkar stöðvar eru líka sagðar framleiða staðbundna áreiðanlega raf og hitaorku um leið og þær koma í veg fyrir að sorp hlaðist upp í landfyllingum og skaði grunnvatn, haf og annað umhverfi. Babcock & Wilcox segir sorporkustöðvarnar vera sjálfbærar og hagkvæmar með tilliti til bæði sól og vindorkustöðva. 

Sorgarsaga Funa og fleiri íslenskra sorpbrennslustöðva 

Sorpbrennslunni Funa var lokað um áramótin 2010/2011 í kjölfar þess að díoxínmengun hafði mælst í mjólk frá býli í nágrenni stöðvarinnar. Það voru því í raun sérfræðingar Mjólkursamsölunnar MS sem veltu þeim bolta af stað er þeir voru að rannsaka efnainnihald mjólkur frá viðkomandi sveitabæ, en ekki umhverfisyfirvöld sem áttu lögum samkvæmt að fara með eftirlitshlutverkið. 

Þá voru eftir þrjár sorpbrennslustöðvar sem voru líklega síst skárri. Þar var um að ræða sorpbrennslu í Vestmannaeyjum þar sem díoxín hafði mælst fjórfalt meira en í Funa og á Kirkjubæjarklaustri þar sem díoxínmagnið var mælt tæplega fimmfalt meira en í Funa. Síðan var stöð í Svínafelli í Öræfum þar sem díoxínmengun hafði hreinlega ekki verið mæld. Þá hafði 18 ára starfsleyfi stöðvarinnar ekki heldur verið endurskoðað. 

Fordómar hafa haldið aftur af þróuninni á Íslandi

Öll umræðan sem spannst út af vandræðagangi í sorpbrennslu á Íslandi setti ráðamenn í mikla vörn og skapaði fordóma gagnvart þeim möguleikum sem falist gætu í að umbreyta sorpi í orku í fullkomnum brennslustöðvum. Vegna þessara fordóma hafa Íslendingar setið eftir og eru nú miklir eftirbátar hinna Norðurlandaþjóðanna í þeim efnum og hreinlega til skammar í samfélagi Evrópuþjóða hvað varðar meðferð á sorpi. Nær öll sorpbrennsla lagðist því af að Kölku í Helguvík undanskilinni, en þess í stað er sorp nú urðað í stórum stíl á 23 urðunarstöðum auk þess sem mikið magn af „endurvinnslusorpi“ hefur verið flutt til útlanda og þá að stórum hluta til brennslu í orkuvinnslustöðvum. Talsverðu af íslensku plasti hefur þó líka verið brennt á ruslahaugum.  Það er sem sagt allt í lagi að brenna íslensku rusli í stórum stíl, en bara ef það er gert þar sem við sjáum það ekki í útlöndum og að það sé kallað endurvinnsla. 

Hugmynd um stóra og fullkomna  sorporkustöð á Vestfjörðum

Nokkur vonarglæta kviknaði að eitthvað færi að gerast í þessum málum hérlendis þegar grein birtist í Bændablaðinu 9. maí 2018 eftir Edvarð Júlíus Sólnes, verkfræðing, prófessor og fyrrum umhverfisráðherra, Stefán Guðsteinsson skipatæknifræðing og Braga Má Valgeirsson vélfræðing um sorporku. Var hún undir fyrirsögninni „Fullkomin sorpbrennslustöð verði reist til orkuframleiðslu á Vestfjörðum“. 

Hugmynd þremenninganna gekk út á að stöðin yrði mjög tæknilega fullkomin, byggð skv. ströngustu reglum Evrópusambandsins í líkingu við þær stöðvar sem nýlega hafa verið teknar í notkun á Norðurlöndunum, m.a. á Amager, nærri miðborg Kaupmannahafnar. 

Um er að ræða háhitabrennslu (um 1100 til 1200°C) með mjög fullkomnum mengunarvarnabúnaði, þannig að loftmengun er í lágmarki og margfalt minni en frá urðuðu sorpi. Hugmynd þeirra félaga um Vestfirði sem ákjósanlegan stað byggðist ekki síst á þeirri staðreynd að þar er raforkuöryggi langminnst á landinu. 

Mikil verðmæti geta falist í 230 þúsund tonnum af sorpi 

Talið er að um 220–230.000 tonn af sorpi falli til á Íslandi árlega, en í þessu „vandamáli“ geta líka falist mikil verðmæti fyrir þjóðina. Stærstu urðunarstaðirnir eru á Vesturlandi, í landi Fíflholts á Mýrum, sem hefur haft heimild fyrir urðun á um 15.000 tonnum á ári. Einnig í landi Reykjavíkurborgar í Álfsnesi sem má urða allt að 120.000 tonn á ári. Þriðji stóri urðunarstaðurinn er svo í Stekkjarvík, rétt norðan við Blönduós, sem tekur við sorpi frá öllum sveitarfélögum á Norðurlandi. Þar getur verið um að ræða 30.000 tonn á ári.

Nýja dýra sorpeyðingarstöðin GAJA í Álfsnesi mun ekki leysa þann vanda sem við er að kljást á höfuðborgarsvæðinu nema að hluta. Áfram verður óendurnýtanlegt plast, málmar, steinefni og hættulegur úrgangur vandamál og vandinn sendur með skipum með tilheyrandi kolefnisspori til Svíþjóðar til eyðingar. Þar er plastinu að stærstum hluta brennt í sams konar stöðvum og hægt væri að reka á Íslandi. 

Sorporkustöð þarf ákveðið lágmark af sorpi á ári til að geta starfað eðlilega allan sólarhringinn. Svona stöðvar keyra menn einfaldlega ekki á venjulegum skrifstofutíma, því töluverð mengun getur skapast á uppkeyrslutíma sem og við niðurkeyrslu á brunanum. Því er lykilatriði út frá umhverfissjónarmiðum að bruninn sé stöðugur allan sólarhringinn.  

Nýta þarf alla möguleika

Í dag spyrja menn sig hvað hafi breyst. Vissulega er komin í gang flott endurvinnsla á hluta af því plasti sem til fellur, m.a. frá landbúnaði. Það er í gegnum fyrirtækið Pure North Recycling í Hveragerði. Fyrirtækið endurvinnur plast með ,,grænni orku“ það er gufuorku og raforku frá gufuaflsvirkjun með það að markmiði að fullvinnslan skilji eftir sig sem minnst eða ekkert kolefnisspor.

Í dag er Pure North Recycling eina fyrirtækið  á Íslandi sem endurvinnur plast að fullu. Vinnsluaðferðin er einstök á heimsvísu þar sem jarðvarminn er nýttur í vinnsluna sem bæði gerir ferlið umhverfisvænna og rekstrarkostnaður er lægri. Þar er plastúrgangi breytt í plastperlur sem seldar eru til framleiðslu á nýjum plastvörum hér á landi og erlendis.

Fyrirtækið er fjögurra ára gamalt og endurvinnur megnið af því heyrúlluplasti sem til fellur á Íslandi, eða um 2000 tonn á ári. Pure North Recycling er að taka sín fyrstu skref í endurvinnslu á harðplasti og stefnir að því að endurvinna að auki umbúðaplast en 95% af óendurunnu umbúðaplasti er flutt úr landi. Það er því til mikils að vinna en áætlað er að fyrir hvert tonn sem endurunnið er af plasti sparist um 1,8 tonn af olíu.

Endurvinnslustöðin GAJA er líka stór, en dýr áfangi í þessu ferli. Þar verður hægt að framleiða metnagaseldsneyti úr sorpi og moltu til jarðvegsgerðar. Bæði þessi fyrirtæki eru mikilvægur áfangi, en hvorugt dugar þó til að klára það verkefni sem fyrir höndum er, að eyða öllu sorpi án þess að koma þurfi til urðunar. Sorporkustöð gerir það svo sem ekki heldur, en hún gengur þó skrefi lengra en flestar aðrar lausnir. Þar munu alltaf falla til málmar og steinefni eins og í öðrum þekktum sorpeyðingar og endurvinnslulausnum. Málmana er hægt að endurnýta og steinefnin má líka endurnýta í landfyllingar og fleira. 

Kwinanna soprbrennslustöðin sem hönnuð var fyrir Ástrali. Þar hafa menn horft fram á mikinn vanda eftir að Kínverjar hættu að taka við sorpi frá þeim til endurvinnslu. Áætlað er á árinu 250 muni um 100 milljón tonn af sorpi falla til í Ástralíu. Í dag fer um 1 tonn af sorpi að meðaltali á ári í urðun frá hverjum einasta íbúa Ástralíu á meðan Svíar eru sagðir urða um 3 kg á mann.  

Tíminn hleypur frá okkur og þöggun leysir ekki vandann

Það virðist því ljóst að engin ein lausn getur leyst vandann við eyðingu á sorpi, heldur þarf að hafa opinn huga fyrir öllum möguleikum. Tæknin til þess er vel þekkt og þrautreynd og því ekki þörf á að finna upp hjólið. Þar er tíminn ekki að vinna með okkur Íslendingum. Áhyggjur Sigfúsar Inga Sigfússonar, sveitarstjóra Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sýna að það er löngu tímabært að stjórnvöld marki nú þegar ákveðna framkvæmdastefnu án frekari málalenginga. 

Ekki veitir af að klára þetta verkefni því önnur risastór og mjög fjárfrek verkefni blasa þegar við okkur Íslendingum. Það er meðhöndlun á skólpi. Þar eru Íslendingar sannarlega miklir eftirbátar flestra Evrópuþjóða. Á sama tíma stæra menn sig af fiskveiðum úr hreinum og „ómenguðum” sjó. Það versta sem við gætum gert í þeim efnum er að þagga málið niður eins og sagan sýnir að gert hefur verið hvað eftir annað í sorpmálum Íslendinga. 

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...

Ræktunarland verður kortlagt
Fréttaskýring 8. desember 2023

Ræktunarland verður kortlagt

Gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um nýja landsskipulagsstefnu til 15 á...