Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Framboðin svara bændum um innviðauppbyggingu
Mynd / BBL
Fréttir 18. október 2017

Framboðin svara bændum um innviðauppbyggingu

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

Bændablaðið sendi spurningar um landbúnaðarmál til allra framboða sem bjóða fram lista í komandi alþingiskosningum. Svörin munu birtast hér á vefnum og að hluta til í Bændablaðinu. Alls voru 11 framboð sem sendu svör til blaðsins.  

Öll framboðin voru spurð sömu spurninganna og óskað var eftir hnitmiðuðum svörum í stuttu máli. Öllum var gefinn sami skilafrestur.

Fyrstu svörin sem við setjum í loftið lúta að innviðum, ástandi þeirra og framtíðaruppbyggingu. 

Spurt var: Hvernig metur framboðið ástand innviða í hinum dreifðu byggðum, svo sem vega, póstþjónustu, fjarskipta, flutningskerfis raforku og annarrar samfélagsþjónustu? Á að beita sér fyrir einhverjum breytingum þar, þá hverjum og á hvað löngum tíma?
 

Dögun

„Skemmst er frá að segja að víða er ástand vega og öðru sem spurt er um í algjöru ólestri. Sérstaklega á það við um samgöngur, malarvegum illa við haldið og ekki bjóðandi hvorki íbúum né ferðafólki. Símasamband víða stopult. Flutningskerfi raforku t.d. á Vestfjörðum nær því ónýtt og eru truflanir tíðar og standa jafnvel dögum saman. Góð fjarskipti er framtíðin og frumskilyrð svo hægt sé að njóta rafrænnar þjónustu. Flutningsgeta raforku er full nýtt. Átak er þörf í þeim málum. Leggja skal rafstrengi í jörð þar sem því er við komið. Gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu eru mannréttindi. Til skammar er að konur geti ekki fætt börn sín í heimabyggð.“
 

Flokkur fólksins

„Flokkurinn telur að auka verði fjárframlög verulega til að takast á við þessa uppbyggingu. Einnig með nýjum sóknarmöguleikum í landbúnaði og heimild til strandveiða krókabáta allt að 6 tonnum án dagatakmarkana, en með þeim skilyrðum að eigandinn sigli. Flokkurinn hefur í málefnaskrá sinni og fimm áhersluatriðum á vef sínum, www.flokkurfolksins.is lagt fram þau málefni, sem staðið verður við, njóti flokkurinn fylgi til þess. Einnig eru tillögur flokksins fjármagnaðar með tillögu um að inngreiðslur í lífeyrissjóðina séu skattlagðar, ásamt mörgum fleiri tillögum.“ 
 

Miðflokkurinn

„„Ísland allt“ er eitt af grunn stefnumálum Miðflokksins. Áætlunin Ísland allt, er heildstæð áætlun um ólíkar aðgerðir en samstilltar til að hvert atriði styðji og styrki hitt. Þessu verður stjórnað frá einum stað helst Forsætisráðuneyti og einn ráðherra bæri ábyrgð. Fjárveitingar yrðu tryggðar beint til verkefnisins til að tryggja árangur. Undir er allt: orkumál, samgöngur, flutningar, heilbrigðismál, ferðaþjónusta á „kaldari“ svæðum, fjarskipti, menntun o.s.frv. „Ísland allt“  boðar grundvallar breytingu á byggðamálum til að tryggja innviði og búsetu um land allt. Horft er til þess árangurs sem aðrir hafa náð t.d. Bretar og Norðmenn. Ein áætlun, einn ráðherra, fjármagn tryggt, lögum breytt ef þess þarf og hafist handa strax.“
 

Framsóknarflokkurinn

„Setja þarf 20 milljarða í heilbrigðis-, samgöngu- og menntamál til að bregðast við brýnni þörf. Framsókn telur mikilvægt að nota ríflegan afgang af ríkisrekstri til að fjárfesta í betra heilbrigðiskerfi, betri lífsgæðum og betri samgöngum ásamt því að lækka skuldir ríkissjóðs. Vegakerfið hefur stórlega látið á sjá vegna viðhaldsleysis á stuttum tíma. Ein mikilvægasta fjárfesting landsmanna er fólgin í áframhaldandi uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins. Gott fjarskiptasamband er grundvöllur nútímasamfélags og ljúka þarf við uppbyggingu ljósleiðaranets um landið. Framsókn vill jafnframt tryggja afhendingaröryggi raforku og flýta þrífösun rafmagns um land allt.  Það er því mikið verk framundan sem mun taka tíma.“
 

Samfylkingin

„Samfylkingin vill að allir Íslendingar njóti ákveðinna grunngæða óháð búsetu. Nýting auðlindaarðsins til að byggja upp atvinnulíf framtíðarinnar getur verið lykill að farsælli byggðastefnu. Með sóknaráætlunum landshluta forgangsraði heimamenn fjárfestingu og uppbyggingu. Auk þess þarf hið opinbera að bjóða störf án staðsetningar og setja á fót dreifðar stjórnsýslustarfsstöðvar. Háhraðanet þarf um allt land, aukið raforkuöryggi, dreifa ferðamönnum betur og styðja við fjölbreytta framhaldsskóla um landið með áherslu á símenntun og fjarnám. Öflugri opinber þjónusta, einkum í mennta- og heilbrigðismálum, er nauðsynlegur hluti af góðu samfélagi og hjartað í byggðastefnu Samfylkingarinnar.“
 

Sjálfstæðisflokkurinn

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitt stórátak í lagningu ljósleiðaratenginga um dreifbýli, Ísland ljóstengt, og þannig gjörbreytt ástandi fjarskipta  og hefur í fjármálaáætlun tryggt fjármagn til að ljúka því verki árið 2021. Sjálfstæðisflokkurinn boðar stórátak í lagfæringum á vegum. Samgönguráðherra hefur leitað fjölmargra leiða til að bæði einfalda og nota ódýrari lausnir til að bæta vegakerfi landsins. Þar er helst horft til malarvega sem börn og íbúar þurfa daglega að aka til skóla og vinnu. Frumvarp um umhverfi póstþjónustunnar er á lokastigi. Þar er m.a. horft til þeirra þátta sem aftur geta breytt og nútímavætt póstdreifingu og samþætt öðrum þáttum, nýtt fyrirkomulag verði komið þegar á árinu 2019. Iðnaðarráðherra hefur skipað starfshóp um að flutningskerfi raforku verði endurnýjað þannig að t.d. 3ja fasa rafmagn verði aðgengilegt flestum á næstu 5 – 6 árum í stað þess að horfa til næstu 18 ára eins og núverandi áætlun hljóðar.“         
 

Björt framtíð

„Björt framtíð telur lykilatriði að ástand innviða í dreifðu byggðum landsins sé gott og þeir styðji þannig þétt við uppbyggingu og þróun fjölbreytts atvinnulífs á landsbyggðinni. Þéttbýlið þarfnast öflugs dreifbýlis og öfugt til að dafna sem best. Byggðaáætlun á að vera markviss og lifandi áætlun um sterka landsbyggð sem laðar fólk á öllum aldri til sín vegna fjölbreyttra atvinnutækifæra og lífsgæða. Áætlunin á að vera hluti af fjármálaáætlun ríkisins svo tryggt sé að gert sé ráð fyrir fjármögnun í verkefni hennar til fimm ára í senn. Nýta á alla fáanlega tækni til að bjóða upp á öfluga opinbera þjónustu heima í héraði. Þar má nefna fjarheilbrigðisþjónustu, fjarkennslu og fleira.“
 

Vinstri græn

„VG leggur í þessum kosningum höfuðáherslu á að ráðist verði tafarlaust í löngu tímabært viðhald og uppbyggingu félagslegra og efnislegra innviða. Áherslur fráfarandi ríkisstjórnar í samgöngumálum eru forkastanlegar.

Til að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi um allt land er mikilvægt að tryggja að til staðar séu forsendur fyrir atvinnusköpun. Efnislegir innviðir, þ.m.t. vegakerfi, raforkuflutningakerfi, fjarskipti og póstþjónusta leika hér lykilhlutverk. Áfram þarf að byggja upp almenningssamgöngur um land allt og gera innanlandsflug að hluta þess. Hrinda þarf af stað stórátaki í þrífösun rafmagns í dreifbýli og gera tímasetta áætlun um að ljúka háhraðanettengingu um allt land.

Félagslegir innviðir skipta ekki síður miklu máli. Sjúkrahús og heilsugæsla á landsbyggðinni verður að efla. Bæta verður tækjabúnað og húsakost sjúkrahússins á Akureyri, og efla um leið sjúkraflutninga og sjúkraflug um land allt.“
 

Alþýðufylkingin

„Vegakerfið er í molum og þar vill Alþýðufylkingin leggja til 20 milljarða neyðarframlag þegar í stað sem færi í að bæta úr bráðasta vandanum, s.s. að útrýma malarvegum og einbreiðum brúm. Einnig yrði að efla samgönguáætlun mjög á næstu 5 árum.

Pósturinn er á hraðri leið til einkavæðingar og það ferli þarf að stöðva með hagsmuni samfélagsins alls að leiðarljósi. Sömu hagsmunir eiga að ráða hvað varðar fjarskipti og best væri að ríkisvæða grunnnet fjarskipta upp á nýtt og skipuleggja með hagsmuni samfélagsins alls í huga. Um orkuflutning og aðra samfélagsþjónustu gildir hið sama, Alþýðufylkingin vill félagsvætt kerfi í stað markaðslausna.“
 

Viðreisn

„Viðreisn mun beita sér fyrir uppbyggingu innviða um allt land og hefur lagt til stofnun innviðasjóðs sem fjármagnaður verði með gjöldum fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar. Í því sambandi er horft til samgöngu-, raforku- og fjarskiptakerfa, heilbrigðisþjónustu og annarra innviða sem nauðsynlegri eru til þess að standa undir blómlegri byggð og framsæknu atvinnulífi í nútímasamfélagi.“
 

Píratar

„Innviðirnir á landsbyggðinni eru víða of lélegir, þó margt sé í góðu lagi. Það er langtímaverkefni stjórnvalda að bæta hér úr eins hratt og mikið og hægt er án þess að önnur mikilvæg samfélagsverkefni séu skilin eftir.  Gera þarf langtímaáætlun um skipulag og uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi.  Til að treysta ferðaþjónustuna í sessi sem atvinnugrein og njóta ávaxtanna þarf að bæta innviði og auka ýmsa grunnþjónustu, sem kemur landsmönnum vel með ýmsum hætti.“

 

Passíusálmar sr. Hallgríms
Fréttir 29. mars 2024

Passíusálmar sr. Hallgríms

Passíusálmarnir verða fluttir í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...