Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fólksfækkun í hreppnum grafalvarlegt mál
Líf og starf 13. júlí 2016

Fólksfækkun í hreppnum grafalvarlegt mál

Höfundur: Vilmundur Hansen

Árneshreppur er með fámenn­ustu hreppum landsins og þaðan flytja um tíu manns í haust sem er grafalvarlegt mál. Oddviti hreppsins segir hreppinn fjárhagslega vel stæðan og þar leynist ýmis tækifæri fyrir fólk sem þangað vill flytja. Flest bendir til að kennsla við Finnbogastaðaskóla falli niður í vetur.

Eva Sigurbjörnsdóttir og Ásbjörn Þorgilsson hófu hótelrekstur í Djúpavík fyrir þrjátíu og einu ári. Eva hefur lengst af séð um daglegan rekstur hótelsins en í dag eru börn þeirra og tengdabörn sífellt meira að taka við. Auk þess að vera lausráðin hótelstýra er Eva oddviti Árneshrepps.

„Reksturinn fór hægt af stað en hefur aukist ár frá ári og tekið talsvert stökk síðasta áratuginn. Fólk kemur mest hingað yfir sumarmánuðina og alls staðar að úr heiminum en mest er af Þjóðverjum og fólki frá Austurríki og Sviss.

Ferðamannatíminn hefur einnig verið að lengjast þannig að hingað kemur fólk fyrr á vorin og lengra fram á haust og svo er alltaf eitthvað um að hingað komi fólk á veturna. Tengdasonur minn tók að mestu við rekstri hótelsins um síðustu áramót en ég geri það sem ég get til að hjálpa til,“ segir Eva.

Fólksfækkun í hreppnum

Eva var kosinn oddviti Árneshrepps eftir sveitarstjórnarkosningarnar, 2014. Þrátt fyrir að Árneshreppur sé fámennur er ýmislegt sem oddviti þarf að gera. „Því miður er staðreyndin sú að í haust flytja að minnsta kosti ellefu manns úr hreppnum og fyrir sveitarfélag með rétt rúmlega 50 íbúum er slíkt grafalvarlegt mál.

Við sem eftir verðum erum ákveðin í að horfa jákvætt á aðstæður og reyna að vinna úr þeim eftir bestu getu. Sjálf vil ég líta á breytinguna sem sóknarfæri fyrir einhverja sem hingað vilja flytja og vona að svo verði.“

Samkvæmt lögum um íbúafjölda sveitarfélaga ber velferðaráðuneytinu að sameina sveitarfélag sem er með undir fimmtíu íbúum tvö ár í röð við annað sveitarfélag til að halda lágmarks íbúafjölda.

Virkjun Hvalár

Eva bindur talsverðar vonir við að íbúafjöldinn í hreppnum aukist aftur, að minnsta kosti tímabundið, ef verður af áætlunum um virkjun Hvalár. „Ef hingað koma útlendingar til starfa munu þeir eiga lögheimili í hreppunum og borga hér skatta meðan á dvöl þeirra stendur.

Hér eru tvær jarðir komnar á sölu og hugsanlega munu fleiri bætast við en ég sé fyrir mér að jarðir sem eru í miðri Trékyllisvík eigi framtíð fyrir sér þótt þar sé ekki stundaður hefðbundinn búskapur. Jarðirnar eru vel í sveit settar og örugglega hægt að reka þar gistiaðstöðu og þjónustu fyrir ferðamenn.“

Styrkur til búfjárkaupa

„Við verðum því að vera jákvæð og ég er ekki til í að leggjast í þunglyndi vegna ástandsins. Þrátt fyrir að það sé bæði leiðinlegt og erfitt að horfa á unga fólkið flytja burt.

Hreppurinn veitir ungu fólki, sem hingað flytur til að hefja búskap, styrk sem það getur notað til sauðfjárkaupa. Síðast þegar þessi styrkur var veittur nam hann einni milljón króna en myndi væntanlega hækka næst eins og allt annað. Sveitarfélagið hefur einnig veitt flutningsstyrk til þeirra sem hingað flytja.“

Höfnin stækkuð

Árneshreppur hefur staðið í stórframkvæmdum í sumar sem felast í stækkun hafnarinnar og uppgerð íbúðar í gamla kaupfélagshúsinu í Norðurfirði. Eva segir að Árneshreppur eigi fimm íbúðir í dag og nægt húsnæði sé í hreppnum.

Eitt barn í skólanum og enginn skólastjóri

„Ástandið í skólamálum í hreppnum er líklega helsta vandamál okkar í dag. Núverandi skólastjóri er að hætta og tvær barnafjölskyldur að flytja burt. Eins og staðan er í dag er eitt barn skráð í skólann næsta haust og við ekki búin að ráða nýjan skólastjóra.

Við erum búin að auglýsa eftir nýjum skólastjóra og vonumst að sjálfsögðu til að hingað ráðist fjölskylda með börn á skólaaldri, að öðrum kosti er nokkuð ljóst að skólanum verður lokað.

Þótt við glöð vildum er ekki hægt að halda hér úti skóla fyrir eitt barn. Það er einfaldlega ekki hægt að bjóða barninu upp á slíkt. Eflaust væri hér hægt að veita bestu kennslu í heimi en félagslega er óhugsandi að halda úti skóla fyrir eitt barn.

Þetta er náttúrlega skelfilegt ástand og það verður mun erfiðara að laða hingað barnafólk ef skólinn er lokaður. Hreppsnefnd stendur því frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun hvort það eigi að loka skólanum eða ekki,“ segir Eva.

Ekkert mál að fjölga ferðamönnum

Eva er ekki í neinum vafa um að fjölga megi ferðamönnum í Árneshreppi og að það megi koma upp ferðaþjónustu á þeim bæjum sem eru til sölu í Trékyllisvík.

„Samfélagið er alltaf að breytast og hugsanlega er sá tími liðinn sem menn hér lifa eingöngu af fjárbúskap.

Ferðaþjónusta er ört vaxandi um allt land og sveitin hér hefur upp á gríðarlega margt að bjóða. Ég sé til dæmis fyrir mér aukið framboð á gistingu á veturna og snjósleðaferðum henni tengdri.“

Vegurinn oft lokaður á veturna

Vegasamgöngur í Árneshrepp eru stopular yfir vetrartímann og oft er vegurinn lokaður frá því um áramót og fram í miðjan mars. Eva efast ekki um að erfiðar samgöngur séu hluti ástæðunnar að fólk er að flytja.

„Ungt fólk sættir sig einfaldlega ekki við að árið 2016 sé enn vesen með að komast leiðar sinnar til og frá hreppnum. Ég tel líklegt að framkvæmdir við virkjun Hvalár hefjist fljótlega, eða um leið og verður búið að samþykkja að byggja tengivirki til miðl­unar á rafmagninu yfir í Djúp og þegar það verður gert er nauðsynlegt að laga veginn yfir Veiðileysuháls og gera hann vetrarfæran.“

Eva segir að árið 2008 hafi verið settar til hliðar 60 milljónir króna sem átti að nota til að bæta veginn yfir Veiðileysuháls og annað eins átti að setja í veginn 2009. Svo kom hrunið og ekkert varð úr framkvæmdunum. Þrátt fyrir að nú sé komið árið 2016 hefur ekkert bólað á þessum peningum enn.
„Þrátt fyrir það vil ég hrósa Vegagerðinni fyrir hvað hún hefur sinnt veginum vel það sem af er þessu ári og á því síðasta,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, að lokum. 

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...