Fæðuöryggi byggir á alþjóðaviðskiptum
Torfi Jóhannesson, ráðgjafi hjá Nordic Insights, er höfundur skýrslu um neyðarbirgðir fyrir íslenska matvælaframleiðslu. Hann stýrði jafnframt vinnu að mælaborði um stöðu og horfur fæðuöryggis á Íslandi.
Torfi segir skýrsluna horfa með þröngu sjónarhorni á hver mikilvægustu aðföngin eru fyrir íslenska matvælaframleiðslu og hversu lengi framleiðslan geti haldið áfram ef aðfangakeðjur bresta. Á meðan er mælaborðið lifandi plagg þar sem horft er á stöðu fæðuöryggis með víðara sjónarhorni.
„Staðan er alls ekki slæm og geta Íslendingar klappað sér á öxlina,“ segir Torfi í samtali. „Við stöndum býsna vel með öflugan og umfangsmikinn sjávarútveg og fiskeldi. Hvort tveggja mjög samkeppnishæfar útflutningsgreinar. Eins erum við með búfjárrækt sem kemst ansi nálægt því að uppfylla innanlandsþarfir. Svo erum við með grænmetisframleiðslu þar sem leynast mikil sóknarfæri.
Við erum hins vegar háð innflutningi hvað varðar kornvöru fyrir fólk og dýr. Eins þegar kemur að ávöxtum, sykri, hnetum, olíum og fleiru. Þá þurfum við að flytja inn töluvert af öðrum aðföngum til matvælaframleiðslu.“
Einangrað raforkukerfi veikleiki
Torfi segir að í ljósi þess að Ísland reiði sig á útflutning sjávarafurða og innlend matvælaframleiðsla sé háð innfluttum aðföngum sé grundvallaratriði fyrir Íslendinga að viðhalda öflugum alþjóðlegum viðskiptum.
„Við þurfum að geta selt og við þurfum að geta keypt ef við ætlum að tryggja fæðuöryggi. Einangrunarstefna er því ekki leiðin þar sem við getum ekki framfleytt okkur alfarið sjálf, frekar en nokkur önnur þjóð. Það er varasamt að smætta fæðuöryggi með því að segja að lausnin sé bara að framleiða meira lambakjöt. Til þess að framleiða lambakjöt þurfum við líka rúlluplast, traktora, lyf, áburð og fleira.
Við þurfum virkilega að horfa til orkumálanna, en við erum í rauninni bara með tvo orkugjafa á Íslandi. Það er annars vegar innflutt olía og hins vegar einangrað raforkukerfi. Við erum með allt niður í tveggja vikna olíubirgðir á meðan öll Evrópusambandsríki þurfa að eiga lager af olíu sem endist í níutíu daga. Það eru ekki miklar líkur á því að það verði skortur á olíu, en ég held að tvær vikur sé nokkuð tæpt.
Þar sem raforkukerfið er einangrað og ekkert varaafl fáanlegt með sæstreng getum við lent í nokkurra daga rafmagnsleysi ef það verður alvarlegt áfall í raforkukerfinu. Það getur til að mynda orsakast af ísingarstormi, hryðjuverki eða sólstormi.“
Þurfum að tryggja varalager af korni
„Við erum ein af fáum þjóðum í heiminum sem eru með umfangsmikla búfjárframleiðslu án þess að byggja hana á innlendri kornframleiðslu, sem er gríðarlega mikill árangur. Það er miklu betra að vera í þeirri stöðu að við höfum fersk innlend egg sem koma daglega í verslanir í staðinn fyrir að flytja þau inn. Mun auðveldara er að flytja inn hráefni, sem í þessu tilfelli er korn, heldur en að flytja inn neysluvarning.
Til skemmri tíma litið tel ég að við ættum að fylgjast með kornbirgðum á hverjum tíma, nýta þær geymslur sem þegar eru í notkun og koma upp utanumhaldi. Við þurfum að rýna í þessa keðju og tryggja að í landinu sé alltaf einhver varalager af korni sem megi líka nota til manneldis. Til lengri tíma eigum við að hafa metnað til þess að byggja upp eigin kornframleiðslu. Þar vinna loftslagsbreytingar með okkur, en það þarf að halda áfram með kynbætur, rannsóknir og að styrkja innviðina í kringum kornræktina.“
Sjálfsaflahlutfall hefur lækkað
Torfi bendir á að sjálfsaflahlutfall Íslands í framleiðslu á kjöti, mjólk og grænmeti hafi lækkað. „Við þurfum ekki endilega að vera með hundrað prósent sjálfsaflahlutfall í öllum greinum en það er mikilvægt að stjórnvöld fylgist með og hafi á því einhverja skoðun hvar sársaukamörkin liggja.
Við getum beitt verndartollum sem hækka verð á erlendum afurðum og skapa vernd fyrir íslenskar. Eins getum við beitt beinum ríkisstuðningi sem hjálpar bændum og í mjólkurframleiðslunni erum við með opinbera verðlagningu. Það eru alltaf einhver takmörk á þessu, en grunnurinn er að innlend framleiðsla sé samkeppnishæf.
Í sumum tilfellum er innflutningur eðlilegur, eins og þegar kemur að beikoni sem við seljum áfram til skemmtiferðaskipa. Eins eru fluttir inn stórir nautavöðvar sem við náum ekki að framleiða í nægjanlegu magni. Við þurfum að hafa skoðun á þessu, meta hvort þetta sé vandamál og ákveða hvað þurfi að gera. Sú spurning er alltaf undirliggjandi hvernig við bætum samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar og hvernig við getum beitt okkar umfangsmikla stuðningskerfi landbúnaðar til að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur.“
