Starfsmenn Benchmark Genetics í hrognahúsi í Vogum. Á Íslandi eru í kringum níutíu sem starfa hjá fyrirtækinu sem framleiðir öll hrogn fyrir eldislax hérlendis og er mjög stór aðili á heimsvísu.
Starfsmenn Benchmark Genetics í hrognahúsi í Vogum. Á Íslandi eru í kringum níutíu sem starfa hjá fyrirtækinu sem framleiðir öll hrogn fyrir eldislax hérlendis og er mjög stór aðili á heimsvísu.
Mynd / Benchmark Genetics
Viðtal 5. desember 2025

Gífurlegt svigrúm til kynbótaframfara

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Allt laxeldi á Íslandi fær sín hrogn frá fyrirtækinu Benchmark Genetics, sem er með starfsemi á Suðurnesjunum. Fyrirtækið er meðal þeirra stærstu á heimsvísu og sendir hrogn til tugi landa.

Þar sem lax hefur ekki verið kynbættur nema í nokkra áratugi eru miklar framfarir með hverri kynslóð þar sem valið er fyrir ákveðnum eiginleikum. Vaxtarhraðinn hefur margfaldast á skömmum tíma, ásamt viðnámi gegn ýmsum sjúkdómum. Eins ríkir mikil bjartsýni um að hægt verði að rækta lax fyrir sjókvíaeldi sem ekki myndar kynfrumur.

Benedikt Hálfdanarson, framkvæmdastjóri Benchmark Genetics á Íslandi.

Benedikt Hálfdanarson, framkvæmdastjóri Benchmark Genetics á Íslandi, segir fyrirtækið eiga rætur að rekja til Laxeldisstöðvar ríkisins sem sett var á laggirnar í Kollafirði snemma á sjöunda áratugnum. Árið 1991 breyttist nafnið í Stofnfisk, en síðan árið 2014 hefur fyrirtækið heitið Benchmark Genetics eftir að það var keypt af bresk/norska félaginu Benchmark Holdings. Snemma á þessu ári færðist eignarhaldið til Novo Holdings, sem er danskur fjárfestingasjóður.

Benedikt segir að Benchmark Genetics á Íslandi og í Noregi framleiði saman um þriðjung allra laxahrogna sem notuð eru í eldi á Atlantshafslaxi í heiminum. Þessi systurfyrirtæki séu með álíka stóra framleiðslu hvort.

Ekki hefðbundið landeldisfyrirtæki

„Þó svo að við séum í landeldi er okkar framleiðsla fyrst og fremst frjóvguð hrogn sem við seljum til annarra laxeldisstöðva. Hátt í tuttugu prósent af þeim hrognum sem við framleiðum eru seld á Íslandi, en hitt er til útflutnings,“ segir Benedikt. Helstu viðskiptalöndin eru Færeyjar, Skotland og Noregur og framleiðir fyrirtækið um 200 milljón hrogn á ári hverju.

Starfsemi Benchmark Genetics á Íslandi er á tveimur stöðum á Suðurnesjunum. Annars vegar skammt sunnan við Voga á Vatnsleysuströnd og hins vegar í Kalmanstjörn sunnan við Hafnir. Starfsmenn eru rúmlega 90 hér á landi.

„Okkar starf gengur út á að velja alltaf besta fiskinn sem verður síðan að foreldrum næstu kynslóðar. Það eru ýmsir þættir sem við veljum út frá en fiskurinn getur verið bestur af því að hann vex hraðast, er með viðnám fyrir sjúkdómum eða eitthvað annað.

Þó svo að við séum í landeldi erum við með annað fyrirkomulag á okkar starfsemi en hinar landeldisstöðvarnar – sérstaklega samanborið við þessar nýju sem First Water, Laxey, Samherji og fleiri eru að byggja. Þeirra starfsemi gengur fyrst og fremst út á stærðarhagkvæmni og að framleiða sem mest af lífmassa.“

Seiðastöðvar, sem oft eru í eigu sjálfra laxeldisfyrirtækjanna, taka við hrognunum sem Benchmark Genetics framleiðir. „Þau setja hrognin í klakskápa í nokkrar vikur þangað til að seiðin verða klár í startfóðrun,“ segir Benedikt. Með því að pakka hrognunum með ís í frauðkassa sé hægt að senda þau með flugi út um allan heim. „Varan sem við afhendum viðskiptavinum okkar er sniðin að þörfum þeirra, miðað við staðsetningu og umhverfi. Hrogn sem eiga að fara í landeldi suður í Flórída eru valin út frá öðrum erfðaþáttum en þau hrogn sem eiga að fara í sjóeldi vestur á fjörðum.“

Miklar framfarir með hverri kynslóð

Benedikt bendir á að kynbætur á húsdýrum hafi átt sér stað í árþúsund, á meðan laxinn hafi eingöngu verið kynbættur í nokkra áratugi. „Þar sem það er svo stutt síðan laxinn var villt dýr er enn þá mikið sem við getum náð í með hefðbundnum kynbótum. Á síðustu þrjátíu árum höfum við náð að tvöfalda vaxtarhraða á laxi. Þá erum við búin að reikna það út að með hverri nýrri kynslóð séum við að bæta vaxtarhraða um tíu prósent.

Þar sem hver kynslóð tekur þrjú og hálft til fjögur ár frá hrogni til hrogns tekur það langan tíma að ná einhverjum umbótum. Þú ert með hrogn sem þarf að þroskast í seiði, seiðið þarf að breytast í smolt, smoltið þarf að vaxa og verða stór fiskur og fiskurinn þarf að verða kynþroska til að gefa aftur af sér hrogn. Kosturinn við okkar starf er hins vegar að við erum kannski með 10.000 alsystkini, á meðan í nautgriparækt ertu kannski með einn kálf eða tvö lömb í sauðfjárrækt.“

Benedikt segir að laxinn sem ræktað sé upp frá núna hafi verið sóttur í stór vatnsföll í Noregi fyrir fjórum til fimm áratugum. „Það voru heilmiklar tilraunir gerðar með eldi á íslenskum fiski, en hann varð ekki eins stór og svo varð hann mjög snemma kynþroska. Því náðist aldrei sérlega góður árangur af því að vera með íslenska laxa í eldi.“ Síðan þá hafi ekki verið sótt nýtt erfðaefni úr villtum stofnum þar sem það geti aukið hættuna á sjúkdómum. Með því að halda vel utan um stofninn hafi innræktun ekki verið vandamál.

Örfá ár í geldan fisk

Nú horfi Benchmark Genetics mikið til ræktunar á geldum fiskum, sem gætu skipt miklu máli fyrir fiskeldi í sjó. „Það eru svokallaðir þrílitna fiskar, en þeir geta ekki fjölgað sér. Í gegnum tíðina hafa verið ýmsar áskoranir sem fylgja því að ala þrílitna fisk. Áður fyrr varð eitthvað af honum vanskapaður með lélega beinabyggingu sem þýddi afföll. Nú er búið að leysa mikið af þessum áskorunum.“

Þrílitna fiskur sé búinn til með því að setja hrognin undir verulegan þrýsting strax eftir frjóvgun. Hingað til hafi íslensk eldisfyrirtæki ekki verið áhugasöm um að nota svona hrogn, því að fiskurinn þurfi sérstakt fóður og eldið krefjist annars vinnulags. „Við höfum afhent mikið af þessum hrognum til austurstrandar Kanada, því að þar er bannað að ala Atlantshafslax nema hann sé ófrjór eða komi úr ám þaðan. Þeir ná verulegum árangri og er vöxturinn ekki síðri.

Við erum að vinna að því í rannsóknum að búa til venjulegan tvílitna fisk þar sem við beitum svokallaðri genaþöggun og slökkvum á þeim genum sem stýra þroska kynfrumnanna. Hann mun því ekki búa til svil né hrogn, en er algjörlega eðlilegur að öðru leyti. Við höfum búið til svona fisk, en vandinn er enn þá að skala þetta upp þannig að hægt sé að afhenda hrognin í nægjanlegu magni.

Við erum vongóð að innan örfárra ára munum við finna lausn á þessu og erum við að setja verulega fjármuni í rannsóknir. Allt eldi á Íslandi, Noregi, Skotlandi og víðar myndi gjarnan vilja vera með fisk í sjókvíum sem getur ekki blandast við villta stofna ef hann sleppur.“ Benedikt getur ekki fullyrt hvenær þessi lausn verði orðin almenn, en er bjartsýnn á að það náist á næstu fimm til tíu árum.

Skylt efni: laxeldi

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt