Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Stefán Tryggva- og Sigríðarson.
Stefán Tryggva- og Sigríðarson.
Lesendarýni 28. ágúst 2017

Er sauðfjárbændum fyrirmunað að lifa í nútímanum?

Höfundur: Stefán Tryggva- og Sigríðarson
Sauðfjárbúskapur er í eðli sínu hirðingjabúskapur frá fornu fari líkt og t.d. geitfjár- og úlfaldabúskapur. Flestar þjóðir hafa þó aðlagað hann nútímabúskaparháttum sem þýðir að tekið er tillit til landgæða, fastrar búsetu og þeirrar staðreyndar að kjötframleiðsla af sauðfé stenst nánast engan samanburð við aðra kjötframleiðslu frá hagkvæmnisjónarmiðum. Þetta hefur enda orðið til þess að víðast hvar í heiminum er sauðfjárrækt stunduð sem láglendisbúskapur í fremur litlum hjörðum og/eða tekjur af ull og gærum vega þungt í heildartekjum af greininni. 
 
Frá þessu eru þó ákveðnar undantekningar. – Hér á landi hefur föst búseta verið alls ráðandi frá landnámi en samt sem áður hafa einkenni hjarðmennskunnar, um breytilega haga efir árstíðum, haldið sér. Ekki einasta hafa þeir hagar verið lítt háðir ástandi gróðurs hverju sinni heldur hafa þeir að litlu leyti lotið lögmálum eignarréttarins. Hér á landi hefur semsé viðgengist að sauðféð hafi fyrsta rétt til nýtingar lands, að mestu óháð eignarhaldi. Þróuð hefur verið löggjöf sem er svo gjörsamlega úr takt við anda og eðli stjórnarskrárinnar og viðhorf og venjur annarra þjóða að undrun má sæta. Dæmi þessu til sönnunar má m.a. finna í lögum um afréttarmálefni, fjallskil o. fl. og girðingarlögum. Í stuttu máli má segja að íslensk löggjöf geri ráð fyrir að ekki einasta hafi sauðfjárhaldarar rétt til að nýta annarra land til beitar, heldur eru lagðar ríkar skyldur á fjárlausa landeigendur að verja og hreinsa sitt land rétt eins og það sé eitt af náttúrulögmálunum að sauðfé fái að ganga laust um landið óháð öllu og öllum. Minna má á að í Grágás og Jónsbók voru ákvæði um vörsluskyldu og hvernig skyldi tekið á ágangi búfjár en hagsmunagæslumenn sauðkindarinnar á löggjafarþinginu snéru öllu á annan veg þegar girðingar komu til sögunnar og ákváðu að girðingar væru til að aðrir gætu varið sig og sitt fyrir ágangi sauðkindarinnarinnar en ekki til að halda henni í skefjum. 
 
Glansmynd eða glórulaus atvinnugrein
 
Hvort þessi skipan mála á sinn þátt í þeirri ímynd sem sauðkindin og sauðfjárbændur hafa meðal þjóðarinnar skal ósagt látið. Ég hygg að flest okkar hafi mikla samúð með sauðfjárbændum. Við lítum flest svo á að þetta sé tekjulág stétt sem vinni mikið og eigi einhvern veginn alltaf undir högg að sækja og að dreifð byggð í landinu byggist að verulegu leyti á sauðfjárbændum. Sauðkindin sjálf á einnig sinn stað í hjarta okkar, ekki einasta er lambakjöt í efsta sæti á gæðalistanum hjá okkur flestum, heldur hafa sauðburður og smalamennskur grafið um sig í þjóðarsálinni sem ímynd þess besta og fallegast sem íslensk sveit hefur uppá að bjóða.
 
Sauðfjárhaldi fylgja þó líka neikvæðari myndir. Lausaganga með þjóðvegum hefur orðið tilefni ófárra aðfinnslna, útigangur sauðfjár hefur ítrekað komist í fréttir að ekki sé minnst á slæman aðbúnað  á einstökum búum. Og svo er það þessi eilífa fjárþörf greinarinnar og endalaus umfjöllun um ofbeit. Sauðfjárbændur þurfa ríkisframlög til að framleiða, til að hætta að framleiða, til að selja framleiðsluna, til að þróa úrvinnslu afurðanna og til að vinna að landbótum sem í einhverjum tilfellum kunna að vera afleiðingar ofbeitar. 
 
Það sem heitast brennur á sauðfjárbændum sjálfum er þó væntanlega lágar tekjur. Síðustu áratugi hefur fénu vissulega fækkað verulega, enda hefur innanlandsneysla dregist mikið saman, en það er einsog sauðfjárbændur sjálfir vilji aldrei horfast í augu við raunveruleikann. Þeir vilja endalaust framleiða fyrir útflutning, ekki bara til sveiflujöfnunar vegna breytinga á innanlandsmarkaði frá ári til árs, heldur hafa stefnt að því að alltað þriðjungur heildarframleiðslunnar fari til útflutnings. Greinin og stjórnvöld hafa farið nokkra hringi til að takmarka framleiðsluna en einhvern veginn fer alltaf allt úr böndum þó árangur náist tímabundið. - Ábyrgðina á þessum takmarkaða árangri verður einnig að skrifa á ótal Guðna og Jóna á stóli landbúnaðarráðherra undanfarna áratugi sem hafa viðhaldið sjálfsblekkingum um mikilvægi sauðfjárframleiðslunnar með gerð mjög misráðinna búvörusamninga við sauðfjárbændur í gegnum árin. Nú kann e.t.v. að hylla undir breytingar á viðhorfi stjórnvalda þó óvarlegt sé að gera sér of miklar væntingar þar um. 
 
Allt breytist ... nema sauðfjárræktin
 
Þjóðfélags- og atvinnuhættir taka hröðum breytingum þessi árin og því full ástæða fyrir jafn viðkvæma grein og sauðfjárræktina að huga að stöðu sinni. Ég tel að það sé t.d. aðeins tímaspursmál hvenær lausaganga sauðfjár verður bönnuð nema í undartekningartilfellum. Kannski þurfa að ganga hæstaréttardómar, og jafnvel dómar fyrir Mannréttindadómstól Evrópu til að sýna framá hvernig íslensk stjórnvöld margbrjóta jafnréttis- og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar með núverandi lagasetningu. Vonandi átta Alþingismenn sig þó í tíma á því óréttlæti sem nú viðgengst.
 
Í annan stað er búseta í sveitum landsins að taka miklum breytingum m.a. með ört vaxandi ferðamennsku. Ungt fólk sest í vaxandi mæli að utan höfuðborgarsvæðisins, stundar margvíslega þjónustu við ferðamenn, framleiðir minjagripi og fullvinnur afurðir frá landbúnaði og sjávarútvegi, vinnur við hugbúnaðargerð, list, hönnun og fjölþætt störf sem eru óháð búsetu en byggja fyrst og fremst á góðum samgöngum og góðu netsambandi. Myndarlegum hestabúgörðum fjölgar stöðugt, skógrækt eykst og ekki má gleyma fiskeldinu sem trúlega á eftir að gerbreyta búsetu einkum á sunnanverðum Vestfjörðum og Austurlandi.  
 
Með þessu breytta búsetumynstri mun þolinmæði gagnvart sauðfjárrækt, einsog hún er nú stundum, minnka. Við þetta bætast svo umhverfissjónarmið sem hvetja til fækkunar búfjár vegna gróðurverndar og metanlosunar. Þó þjóðin hafi sýnt ótrúlegt langlundargeð gagnvart fjárútlátum til greinarinnar gegnum árin, verður að ætla að eftir því sem fólki sem á bein tengsl við hefðbundinn landbúnað fækkar, muni andstaða við stuðninginn aukast. Ég hygg hins vegar að beinn byggðastuðningur verði það sem koma skal en framleiðslutengingin verði með öllu afnumin.
 
Enn hef ég minnst fjallað um þann þátt sem mér er þó hugleiknastur en það er afkoma sauðfjárbænda sjálfra. Margir lesendur telja kannski að ég beri eitthvert hatur í garð sauðfjárbænda en því fer fjarri. Mér finnst hins vegar grátlegt að horfa uppá greinina tærast upp vegna fyrirhyggjuleysis og raunveruleikafirringar. Ég kalla það raunveruleikafirringu að telja sér trú um að útflutningur á dilkakjöti sé réttlætanlegur. Því eru líka takmörk sett hve mikilli söluaukningu aukning ferðamanna skilar. Menn virðast gleyma því að mjög fáar þjóðir eru vanar neyslu á dilkakjöti sem nokkru nemur. Ég kalla það fyrirhyggjuleysi að greinin sætti sig við að hver sem er geti hafið sauðfjárrækt og lagt inn afurðir í afurðastöð. Greinin hefur því miður ítrekað staðið gegn starfsleyfisskyldu sem hefur leitt til þess að töluverður hluti framleiðslunnar er í höndum aðila sem hafa ófullnægjandi framleiðsluaðstæður. Ég kalla það líka óraunsæi að telja eðlilegt að beita sauðfé á fjöll og firnindi á eldfjallaeyju norður undir heimskautsbaug meðan nægt láglendi stendur ónýtt. Og ég kalla það óraunsæi að horfast ekki í augu við þá staðreynd að offramleiðsla leiðir ætíð til verðlækkunar til framleiðenda.
 
Á sauðfjárræktin sér framtíð?
 
Í mínum huga er svarið einfalt. Aðeins tvennt kemur til greina. Að allir slátri annarri hverri fullorðinni á í haust, sem þó leiðir aðeins til tímabundinnar lausnar, eða að sett verði upp áætlun til t.d.næstu tíu ára um að greinin breytist úr því að vera hjarðbúskapur með fastri búsetu í að verða láglendis ræktunarbúskapur í takti við aðra búvöruframleiðslu. Lögum verði strax breytt þannig að lausaganga verði bönnuð. Beit á óvarið land verði aðeins heimil með undantekningum og þá aðeins að fyrir liggi samþykki allra hlutaðeigandi landeigenda. Tíu ára aðlögunartími gerir núverandi sauðfjárbændum kleift að meta hvort breytingar á búskaparháttum með auknum hagagirðingum og ræktun réttlæta áframhaldandi sauðfjárhald. Ef ekki er sjálfhætt. Auðvitað hefur þetta í för með sér verulega breytingu á því hvar sauðfjárrækt verður stunduð í framtíðinni en atvinnugrein sem hefur frestað því áratugum saman að horfast í augu við nútímann hverju sinni, hlýtur á endanum að standa frammi fyrir róttækari breytingum en ella hefðu orðið.  Aðeins með róttækum breytingum nú verður hægt að draga úr framleiðslunni og hækka skilaverð til sauðfjárbænda. 
 
Auðvitað veit ég að margir verða vitlausir yfir þessum skrifum. Sumir munu telja mig hafa lítið vit á málefninu, aðrir munu telja að það komi mér ekkert við o.s.frv. Við ykkur sem þannig bregðist við vil ég aðeins segja þetta. Þó þið skrifið langhunda til að skamma mig mun það ekki leysa þann vanda sem við blasir nú þegar. Ef þið kunnið aðrar leiðir en þær að aðlaga framleiðsluna að innanlandsmarkaði þá endilega fjallið um. – Ég skal hins vegar fúslega játa að af langri reynslu minni af íslenskum bændum og íslenskum stjórnvöldum tel ég mjög litlar líkur á að við verði brugðist og að því leytinu munu skrif sem þessi litlu breyta en mögulega valda reiði og gremju hjá einhverjum. Fari svo vil ég biðja hlutaðeigandi velvirðingar. En telji menn mig ekki því verr innrættan þá vona ég að lesendur virði við mig þann eina tilgang þessara skrifa, sumsé þann að sjá bættum hag sauðfjárbænda borgið til lengri framtíðar.  
 
Stefán Tryggva- og Sigríðarson,
Þórisstöðum, Svalbarðsströnd
 
Áfellisdómur um eftirlit MAST með dýravelferð
Fréttir 11. desember 2023

Áfellisdómur um eftirlit MAST með dýravelferð

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluúttekt á eftirliti Matvælastofnunar (MA...

Ungmenni berjast gegn stöðnun í dreifbýli
Fréttir 11. desember 2023

Ungmenni berjast gegn stöðnun í dreifbýli

Norrænt ráð 25 ungmenna frá öllum Norðurlöndum sat nýlega fund með norrænum ráðh...

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...