Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Áætlað er að  búfjárrækt losi um 14,5 prósent af því magni gróðurhúsalofttegunda sem losna beinlínis af manna völdum. Nautgriparækt er þar stórtækust, með um 65 prósenta hlutdeild.
Áætlað er að búfjárrækt losi um 14,5 prósent af því magni gróðurhúsalofttegunda sem losna beinlínis af manna völdum. Nautgriparækt er þar stórtækust, með um 65 prósenta hlutdeild.
Mynd / smh
Fréttir 3. desember 2015

Ekki minnst einu orði á landbúnað í samkomulagsdrögunum fyrir Parísarráðstefnuna

Höfundur: smh
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP21) stendur nú yfir í París en hún var sett síðastliðinn mánudag. Markmiðið er að ná samkomulagi um aðgerðir til að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum í heiminum til að sporna megi við hlýnun jarðar.
 
Ætlunin er að það samkomulag muni taka við af Kyoto-bókuninni þegar hún rennur út árið 2020. Með þessum aðgerðum freista ríki heims þess að koma í veg fyrir að hlýnun á jörðinni verði meiri en tvær gráður, frá dögum iðnbyltingarinnar að telja. 
 
Ekki orð um landbúnað
 
Samkomulagsdrög milli ríkjanna voru gefin út fyrir ráðstefnuna og gagnrýndi Slow Food-hreyfingin að ekki væri minnst einu orði á landbúnað á þeim 57 blaðsíðum þar sem þau eru útlistuð. Hins vegar komi orðið fæðuöryggi fyrir í ýmsu samhengi. Í tilkynningu frá Slow Food er því mótmælt að mikilvægi tengsla matarframleiðslu og loftslagsmála sé ekki viðurkennt og talað um alvarlega yfirsjón í því sambandi. 
 
Það má þó ljóst vera að landbúnaður er gríðarlega áhrifamikill þáttur í losun gróðurhúsalofttegunda – einkum búfjárrækt. Áætlað er að hún losi um 14,5 prósent af því magni gróðurhúsalofttegunda sem losna beinlínis af manna völdum. Nautgriparækt er þar stórtækust, með um 65 prósenta hlutdeild. 
 
Í sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar íslensku í loftslagsmálum, sem var kynnt þann 25. nóvember síðastliðinn, eru þrjú verkefni af átta sem verða unnin í samvinnu við bændur og hagsmunasamtök þeirra. 
Í verkefninu Loftslagsvænni landbúnaður verður unninn vegvísir um minnkun losunar í landbúnaði með samvinnu stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands. Vegvísirinn mun taka mið af sambærilegri vinnu í sjávarútvegi.
 
Í verkefninu um Eflingu skógræktar og landgræðslu verður aukið fjármagn til skógræktar og landgræðslu, sem á meðal annars að auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Framkvæmdir verða auknar á árinu 2016 og stefnt að frekari styrkingu á næstu tveimur árum eftir það. Þetta mun skila bindingu kolefnis úr andrúmslofti umfram það sem verið hefði. 
Þá verður eitt verkefni helgað endurheimt votlendis. Ráðist verður í fyrstu verkefnin undir þeim hatti sumarið 2016. 
 
Landbúnaðurinn leggi sitt af mörkum
 
Sigurður Eyþórsson, framkvæmda­stjóri Bændasamtaka Íslands, skrifaði um loftslagsmálin í leiðara  síðasta Bændablaðs. Þar sagði hann að margir möguleikar væru fyrir hendi og miklu skipti að landbúnaðurinn legði sitt af mörkum í þessu stóra verkefni. Sigurður segir að Bændasamtök Íslands vilji vinna með stjórnvöldum að því að útfæra verkefni sóknaráætlunarinnar á sviði landbúnaðar.  Sett verði markmið og farið yfir hvernig best verði að þeim staðið til að árangur náist.
 
Eftir að sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar var kynnt heyrðust óánægjuraddir um að skýr markmið hefði vantað í málaflokka landbúnaðar og samgangna; sumsé tímasett markmið um tiltekinn samdrátt eins og komið hefði fram í vegvísi íslensks sjávarútvegs. Þar kemur fram að markmiðið sé að draga úr losun koldíoxíðs um 40 prósent til 2030, frá árinu 1990. 
 
Sigurður segir að ekki sé von á slíkum markmiðum af hálfu landbúnaðarins fyrr en tími gefist til að setjast niður með stjórnvöldum til að útfæra markmiðin.
 
„Það mun taka einhvern tíma, en mestu skiptir að útfæra markmiðin vel og á raunhæfan hátt.  Það er fullur stuðningur við þessa vinnu af hálfu samtaka bænda. Landbúnaðurinn mun vinna að því að draga úr losun á sínu sviði en við þurfum að undirbúa aðgerðirnar vel til að við náum árangri,“ segir hann.
 
Átta verkefni í sóknaráætlun
 
Í sóknaráætlun eru átta verkefni út­­listuð sem miða eiga að samdrætti á nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Áhersla verður lögð á samstarf stjórnvalda og atvinnulífs, samstilltar aðgerðir og breiða þátttöku, svo árangur geti náðst. 
 
Hin fimm verkefnin í sóknaráætluninni, fyrir utan þau sem snúa að landbúnaði og skógrækt, eru eftirfarandi:
 
Orkuskipti í samgöngum: Aðgerðaáætlun til næstu ára vegna orkuskipta, jafnt á
landi sem á hafi, verður lögð fram á Alþingi sem tillaga til þingsályktunar á vorþingi
2016. Áætlunin er unnin á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Grænu
orkunnar, sem er samstarfsvettvangur um orkuskipti, sem miðar að því að auka hlut
visthæfra innlendra orkugjafa á kostnað innflutts kolefnaeldsneytis. Íslensk stjórnvöld
hafa sett sér það markmið að árið 2020 verði hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í
samgöngum orðið 10% og mun starf á grunni væntanlegrar þingsályktunar miða að
því að ná því marki.

Rafbílar – efling innviða á landsvísu: Átak verður gert til að efla innviði fyrir
rafbíla á landsvísu á komandi árum. Mikil aukning hefur orðið í framboði og sölu
rafbíla að undanförnu, en margir telja að ónógir innviðir hamli þessari þróun. Til
lengri tíma er reiknað með því að uppbygging innviða, s.s. hraðdælna á rafmagni verði
sjálfbær, þar sem margir hafa hag af því að setja upp rafdælur. Það er þó talið rétt að
ríkisvaldið styrki tímabundið átak til að byggja upp innviði fyrir rafbíla þannig að
hægt sé að tryggja aðgengi sem flestra landsmanna að loftslagsvænum samgöngumáta,
sem hefur nýlega orðið aðgengilegur almenningi. Vanda þarf til verka hvað þetta
varðar og taka tillit m.a. til samkeppnissjónarmiða og reynslu Norðmanna og fleiri
ríkja af verkefnum af þessu tagi. Grænu orkunni - samstarfsvettvangi um orkuskipti í
samgöngum - verður falið að útfæra slíkt átak, sem verði fellt inn í framangreinda
aðgerðaáætlun um orkuskipti sem lögð verður fram á Alþingi á vorþingi 2016. Sett
verður til hliðar fjármagn til að tryggja að hægt verði að vinna að þessu verkefni strax
á næsta ári.

Vegvísir íslensks sjávarútvegs um samdrátt í losun: Vegvísirinn verður unninn á
vegum Hafsins – Öndvegisseturs um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins. Farið
verður yfir tækifæri og hindranir við að draga úr losun í sjávarútvegi með innleiðingu
nýrrar loftslagsvænnar tækni og markvissra aðgerða á öðrum sviðum, með það að
markmiði að draga úr losun koldíoxíðs (CO2) um 40% til 2030 miðað við 1990.
Vegvísirinn verður kostaður af stjórnvöldum og samtökum í atvinnulífi.

Kolefnisjöfnun í ríkisrekstri: Styrkt verða verkefni sem miða að kolefnisjöfnun í
ríkisrekstri.
 
Átak gegn matarsóun: Matarsóun veldur óþarfa álagi á umhverfið, m.a. hvað varðar
meiri losun gróðurhúsalofttegunda en ella. Ef gert er ráð fyrir að losun á hvern íbúa á
Íslandi sé sambærileg meðallosun á hvern íbúa Evrópu þá er losun frá matarsóun
Íslendinga á ári hverju áætluð rúmlega 200 Gg koldíoxíðígilda, sem jafngildir um 5%
af árlegri heildarlosun Íslands árið 2013. Verkefni á vegum Umhverfisstofnunar sem
og fleiri aðila hafa að markmiði að draga úr matarsóun með fjölþættum aðgerðum,
sem gæti lækkað útgjöld almennings og stofnana og ná um leið ávinningi með
minnkun losunar.
 
Að auki eru önnur átta verkefni lögð fram í sóknaráætluninni sem eru með alþjóðlegum áherslum til að draga úr losun á heimsvísu, sem Ísland verður þátttakandi í.
Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...