Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Alhvíti hesturinn Alur með móður sinni Kolku frá Ártúnum 2017. Kolka er fædd 2012. Hún er ljósmóálótt, vindótt og blesótt.
Alhvíti hesturinn Alur með móður sinni Kolku frá Ártúnum 2017. Kolka er fædd 2012. Hún er ljósmóálótt, vindótt og blesótt.
Mynd / Páll Imsland
Fréttir 2. janúar 2019

Einstakt litaafbrigði alhvítra hesta komið fram í íslenska hrossastofninum

Höfundur: Páll Imsland og Freyja Imsland
Á haustráðstefnu Fagráðs í fyrra gerði annar höfundur þessarar greinar stuttlega að umræðuefni samsett litmynstur í hrossum. Þetta beindist einkum að samtvinnun litförótts og arfhreins slettuskjótts. Þannig hross eru afar fátíð og þau tvö hross sem upp hafa komið á síðustu árum voru seld úr landi fljótlega eftir fæðingu.
 
Þannig uppákomur sýna okkur að erlendis er vakað yfir sérstæðum og fágætum litum og litasamsetningum í hrossastofninum hér heima. Þeir gripir sem áhuga vekja meðal litaáhugafólks eru hremmdir, nánast án þess við tökum eftir því hér heima. Þannig var til dæmis áhugi á Ellerti frá Baldurshaga strax á folaldsári hans. Sem betur fer sáu eigendur hans við áhuganum og skynjuðu sérstöðu hans og ljáðu ekki máls á sölu. Nú þarf að vinna enn frekar úr því máli.
 
Alhvít hross
 
Það sem hér verður hins vegar gert að umræðuefni eru alhvít hross, einstaklingar sem eru fæddir alhvítir. 
 
Núna eru til tveir ógeltir ungir folar þannig fæddir, alhvítir glaseygir. Þeir eru þó ekki fölir á lit, albínóar eða hvítingjar, þeir bera ekki leirlitargen, eins og föl hross gera sem eru rjómagul fremur en hvít. Þeir Lýsingur frá Reykjavík, eign Jens Péturs Högnasonar, og Alur frá Ártúnum, eigna Páls Imsland, eru báðir fæddir alhvítir og hafa ekki breyst að þessu leyti síðan þeir fæddust. Alur er á annan vetur en Lýsingur er á fjórða vetur og hefur eignast folöld. 
 
Ættirnar að þessum folum gefa til kynna hvernig litaerfðum þeirra er háttað. Í báðum tilvikum benda ættirnar til þess að þessir folar séu bæði skjóttir á hefðbundinn hátt og hjálmskjóttir og verður það betur skýrt hér á eftir. 
 
Skjóttu mynstrin
 
En nú þegar skjóttu mynstrin í íslenska hrossastofninum eru orðin þrjú, er nauðsynlegt að greina skýrt á milli þeirra. Hér verða helstu einkenni mynstranna þriggja rakin stuttlega. 
 
Hefðbundið skjótt 
 
Fyrst ber að telja hefðbundið skjótt, mynstur sem er mjög fjölbreytilegt. Það erfist með ríkjandi erfðum, þannig að skjótt hross á ætíð að minnsta kosti annað foreldrið skjótt.
 
Lágmarkshvít hross eru gjarnan sokkótt og kannski með örlítinn hvítan flekk einhvers staðar á skrokknum. Á hinum enda skjótta rófsins eru svo höttótt hross, sem eru alhvít nema að hausinn er dökkur. Algengast er þó að skjótt hross séu einhvers staðar milli þessara öfga, séu til dæmis toppótt, vængskjótt, kápótt eða kúfótt og þar fram eftir götunum. Hvítu flekkina er oftast að finna milli höfuðs og tagls, auk þess sem skjótt hross eru mjög gjarnan sokkótt.
 
Hross sem eru arfhrein um hefðbundið skjótt mynstur líta iðulega út mjög svipað arfblendnum skjóttum hrossum, en þau hafa þó sterkari tilhneigingu til að sýna syrjur. Syrjur eru litlir óreglulegir litblettir frekar en flekkir sem koma fyrir inni á hvítum svæðum. Syrjur eru þó ekki bundnar við arfhreint skjótt, og geta komið fyrir í hvaða hvítum flekk sem er.
 
Slettuskjótt eða hjálmskjótt
 
Slettuskjótt, eða hjálmskjótt er annað mynstur sem stjórnast af öðrum erfðum en hefðbundið skjótt. Birtingarmynd slettuskjótta mynstursins er ólík hjá arfblendnu og arfhreinu slettuskjóttu.
 
Hross sem eru arfhrein um slettuskjóttar erfðir verða hjálmskjótt. Hausinn er hvítur framan í, allt frá því að vera breiðblesóttur í að vera hjálmóttur, hvítt undir kverk og upp fyrir augu. Augnliturinn er einnig einkennandi, lithimnan er ísblá þannig að hrossið er ýmist hringeygt eða glaseygt. Fætur eru sömuleiðis hvítir, gjarnan alla leið upp undir kviðinn sem einnig er oft hvítur. Hvíti liturinn getur teygt sig upp síðurnar og jafnvel í stöku tilvikum alla leið yfir bakið. Það er því yfirleitt hálsinn, makkinn og bakið, lendin og taglið og mismikill hluti síðanna sem er dökkt.
 
Hross sem eru arfblendin um slettuskjótt eru einhvers staðar á milli þess að vera hjálmótt og einlit. Einkennin eru margvísleg, en birtast fyrst og fremst í hvítu hausmynstri, hvítu á fótum og ísbláum lit í augum. Hausmynstrin geta verið glámblesa, breiðblesa, hamarblesa, skakkblesa, þráðarblesa, tvístjarna, stórstjarna, jafnvel smástjarna og þar fram eftir götunum. Þau geta jafnvel verið án hvíts hausmynsturs. Stundum eru fætur allir dökkir, en þeir geta einnig verið með hvítu, allt frá hvítum flekk í hófbotni eða undir hófskeggi og upp í hásokka, á einum fæti eða fleirum. Arfblendin slettuskjótt hross geta haft aldökk augu, en vagl í auga, hringur eða ægishjálmur (hvít augnhvíta en ekki brúnleit) eða glasaugu eru algeng.
 
Ýruskjótt
 
Nýjasta skjótta mynstrið í hrossastofninum hér á Íslandi, það sem upp kom með Ellerti frá Baldurshaga 2013, hefur verið nefnt ýruskjótt. Enn sem komið er eru ýruskjóttu einstaklingarnir það fáir að við vitum lítið um hverjir mynsturmöguleikarnir eru á heildina litið, en ef við tökum mið af þeim fimm ýruskjóttu einstaklingum sem til eru í dag lýsir mynstrið sér í háum hvítum sokkum, breiðri blesu, vagli eða hring í augum og ýrðum lit um skrokkinn, þar sem blandast saman hár af dökkum lit og hvítum. Ýringin er sterkari undir kviðinn, en yfirlínan dekkri. Hrossið er því í heildina dekkra ásýndum ofanvert en neðanvert. Eftir á að koma í ljós hvaða möguleika þetta nýja mynstur hefur fram að bjóða eftir því sem einstaklingunum sem það bera fjölgar.
 
Litaþróun alhvítra hrossa
 
Eins og að ofan segir benda ættir alhvítu folanna Als og Lýsings til þess að þeir séu bæði hjálmskjóttir og skjóttir á hefðbundinn hátt. Mæður þeirra beggja bera erfðir fyrir slettuskjóttum lit, og feður þeirra eru hefðbundið skjóttir með slettuskjótt einkenni að auki. Ekkert foreldranna ber erfðir fyrir leirlitum.
En ólíkt öðrum skjóttum hrossum bera þessir tveir alhvítu folar engan lit. Hvernig má það vera?
 
Einfaldast er að hugsa sér þetta þannig að á fósturskeiði sé fylið í raun litlaust, en þegar fóstrið þroskast myndast á því litflekkir, þessir litflekkir eru margir. Þeir stækka, tengjast og leggjast hver yfir annan með vaxandi þroska fóstursins, þannig að lokaútkoman verður einlitt folald. Þannig fær folald lit sinn.
Hvítu mynstrin verða þannig til að suma af þessum litflekkjum vantar og þeir þroskast ekki hjá fóstrinu. Ef hross er sokkótt, þá urðu litarflekkirnir sem hefðu gefið löppunum lit ekki til. Ef hross er blesótt, þá vantar litarflekkinn sem hefði gefið lit framan á hausinn o.s.frv.
 
Þannig getum við séð viss mynstur í því hvernig skjóttu litirnir verða til. Hjá hjálmskjóttu hrossi sem er mikið hvítt þroskuðust ekki litflekkir á fótum, kvið, síðum og haus. Höttótt hross (mikið hvítt hefðbundið skjótt) þroskaði ekki litflekki hér og þar á búknum en gerði það hins vegar á hausnum.
 
Í tilfellum Als og Lýsings hefur samspilið af þessum tveim litflekkjamynstrum orðið þannig á fósturþroskastiginu að engir litflekkir urðu til. Þeir þroskuðu aldrei lit og eru enn alhvítir.
Sönnun erfðanna
 
Lærdómsríkasta leiðin til að sanna, að erfðir folanna, Lýsings og Als séu svona blanda tveggja skjóttra mynstra, er að láta þá eignast afkvæmi. Alur er of ungur til þess að hafa eignast afkvæmi enn en Lýsingur er búinn að eignast tíu afkvæmi.
 
Lýsingur eignaðist þessi tíu folöld nú í sumar er leið með átta einlitum og tveim skjóttum hryssum austur á Hæringsstöðum í Flóa. Í stuttu máli sagt bera öll folöldin hvít mynstur. Þrjú folaldanna bera einkenni þess að vera arfblendin slettuskjótt. Þau eru einlit á skrokkinn en með grófar blesur, eða stjörnur, leista og hafa ísblátt í augum. Hin sjö folöldin bera ýmislega mynstraðar blöndur af slettuskjóttu og hefðbundnu skjóttu. Öll folöldin tíu hafa fengið slettuskjóttar erfðir frá Lýsingi eins og vera ber þar sem er arfhreinn hjálmskjóttur. 
 
Þessi niðurstaða sem folöldin sýna kemur greinilega upp um erfðaeiginleika Lýsings hvað litmynstur varðar, þetta alhvíta ástand er sem sagt samsett úr hjálmskjóttu og höttóttu (hefðbundnu skjóttu). 
 
Fágæti og erfðaauður
 
Mér vitanlega hefur ekki áður verið svona hestur í íslenska hrossastofninum sem hefur uppgötvast og komist á skrár og upplýst hefur verið hvernig á lit hans stendur. Ugglaust hefur samt fæðst svona hross áður.
 
Lýsingur er búinn að sanna sínar litaerfðir. Alur er hins vegar ekki faðir ennþá, en hann er ógeltur og vonandi fær hann að sanna sig . Af foreldrum hans að dæma þá er hann sömuleiðis bæði hjálmskjóttur og höttóttur. 
 
Þessir tveir hestar sýna okkur ljóst að það eru möguleikar í litum í íslenska hrossastofninum sem ekki eru á allra vitorði og það eru flækjur í erfðunum. Mynsturmöguleikar eru fyrir hendi sem ekki eru auðséðir af því sem áður hefur verið ritað um íslensk hross og þeir eru ekki auðskráðir í litskráningakerfið í VF.
 
Litirnir eru erfðaauður í stofninum. Erlendis er áhugi á fágætum litum á folöldum hér heima. Slík folöld hafa tilhneigingu til að hverfa úr landi svo þau verða ekki að liði í ræktun hér heima á Íslandi. Það má öllum vera ljóst að það er markaður fyrir hendi fyrir hross í fágætum litum og sjaldséðum litasamsetningum. Við þurfum hins vegar að vanda betur þessa litaræktun og verðleggja hana mun hærra en gert hefur verið, sinna þessum markaði og efla um leið afrakstur ræktunarinnar hér heima, skjóta fleiri stoðum undir starfsemina í hrossageiranum.
 
Ætt Lýsings frá Reykjavík
Lýsingur frá Reykjavík, f. 2015, alhvítur (líklegast rauður að grunnlit)
F: Lykill frá Skjólbrekku, 2009, rauðskjóttur hringeygur
FF: Baugur frá Víðinesi, 2001, rauðskjóttur hringeygur
FFF: Hróður frá Refsstöðum, 1995, rauðblesóttur sokkóttur
FFM: Gáta frá Hofi, 1984, rauðskjótt
FM: Ófeig frá Skjólbrekku, 1992, móbrún
FMF: Eilífur frá Sveinatungu, 1977, leirljós
FMM: Sokka frá Kárastöðum 1978, brúnsokkótt
M: Draumadís frá Melum, 1998, dökkjörp glámblesótt leistótt hringeyg
MF: Glitfaxi frá Kílhrauni, 1995, jarpvindóttur 
MFF: Mjölnir frá Sandhólaferju, 1981, rauðjarpur
MFM: Dögg frá Kílhrauni, 1987, jarpvindótt
MM: Bógadýr frá Grundarfirði, 1981 jarpskjótt
MMF: Brúnblesi frá Hoftúnum, 1975, brúnblesóttur
MMM: Indíra frá Hnjúki, 1969, jarpskjótt
 
Ætt Als frá Ártúnum
Alur frá Ártúnum, f. 2017, alhvítur (grunnlitur óþekktur, líklegast brúnn, móálóttur, móvindóttur eða móálóttur vindóttur)
F: Óður frá Ártúnum, 2010, brúnhöttóttur tvístjörnóttur hringeygur með svart í tagli
FF: Óðinn frá Eystra-Fróðholti, 2004, jarpur
FFF: Sær frá Bakkakoti, 1997, móálóttur
FFM: Særós frá Bakkakoti, 1992, jörp
FM: Hetta frá Ártúnum, 2002, brúnskjótt höttótt hamarblesótt syrjótt með svart í tagli og ægishjálm
FMF: Skrúður frá Framnesi, 1993, brúnskjóttur
FMM: Gína frá Ártúnum, 1996, fagurjörp
M: Kolka frá Ártúnum, 2012, ljósmóálótt vindótt blesótt
MF: Landi frá Skarði, 2002, ljósmóálóttur
MFF: Vígar frá Skarði, 1997, móálóttur
MFM: Skessa frá Svínafelli, 1996, fífilbleik litförótt stjörnótt
MM: Glyrna frá Ártúnum, 2007, móvindótt hringeyg
MMF: Rúmur frá Forsæti, 2003, móvindóttur skjóttur
MMM: Gjöf  frá Ártúnum, 2003, brún
 
Páll Imsland og Freyja Imsland.

18 myndir:

Starfshópur um stofnun þjóðgarðs
Fréttir 9. september 2024

Starfshópur um stofnun þjóðgarðs

Drífa Hjartardóttir hefur verið skipuð formaður starfshóps sem á að undirbúa og ...

Atrenna að minni losun landbúnaðar
Fréttir 6. september 2024

Atrenna að minni losun landbúnaðar

Í uppfærðri aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, sem kynnt var í vor og e...

Verkefnisstjórn loftslagsaðgerða
Fréttir 6. september 2024

Verkefnisstjórn loftslagsaðgerða

Ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var kynnt um miðjan júní. Nýlega var skipuð ve...

Nýr hornsteinn lagður að Sögu
Fréttir 5. september 2024

Nýr hornsteinn lagður að Sögu

Lagður var nýr hornsteinn að húsinu sem lengst af gekk undir nafninu Bændahöllin...

Upplýsingasíða um riðuvarnir
Fréttir 5. september 2024

Upplýsingasíða um riðuvarnir

Karólína Elísabetardóttir í Hvammshlíð, frumkvöðull í riðumálum, hefur tekið sam...

Hálfíslenskur bóndi á lífrænu búi
Fréttir 5. september 2024

Hálfíslenskur bóndi á lífrænu búi

Á ferð sinni um Jótland hitti Magnús Halldórsson, umsjónarmaður Vísnahorns Bænda...

Viðfangsefnin spanna alla virðiskeðjuna
Fréttir 5. september 2024

Viðfangsefnin spanna alla virðiskeðjuna

Matís gaf Grænmetisbókina út í sumar, sem er heildstætt vefrit um margar hliðar ...

Óviðjafnanleg fágun
Fréttir 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...

Brögðóttur Aðalsteinn
10. september 2024

Brögðóttur Aðalsteinn

Heimsframleiðslan 37 milljarða virði
10. september 2024

Heimsframleiðslan 37 milljarða virði

Manstu vorið?
10. september 2024

Manstu vorið?

Berjaflóra Íslendinga
10. september 2024

Berjaflóra Íslendinga

Af hverju lífræni dagurinn?
10. september 2024

Af hverju lífræni dagurinn?