Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 ára.
„Ég vil endilega að fólk noti sápurnar, til þess eru þær,“ segir Hrefna Waage á Egilsstöðum en hún býr til margs konar skrautlegar sápur.
„Ég vil endilega að fólk noti sápurnar, til þess eru þær,“ segir Hrefna Waage á Egilsstöðum en hún býr til margs konar skrautlegar sápur.
Mynd / MÞÞ
Viðtal 4. nóvember 2014

Dreymir stundum sápur

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Þetta er óskaplega gaman, mig dreymir stundum sápur á nóttunni,“ segir Hrefna Waage sem undanfarin ár hefur búið til skrautlegar sápur af ýmsu tagi. Hrefna kallar starfsemi sína Sápugaman og hægt er að fræðast nánar um þær á samnefndri vefsíðu og á Facebook.

Hrefna hefur líka  jafnan blað og penna innan seilingar, því aldrei er að vita hvenær ný hugmynd að skemmtilegri sápu kviknar og því um að gera að hripa hana niður um leið og hún fæðist.

Heilbrigðisvottað eldhús

Hrefna  er Hornfirðingur að ætt og uppruna en býr á Egilsstöðum og hefur aðsetur fyrir sápugerð sína að Þrándarstöðum í Eiðaþinghá, en þaðan er maður hennar, Benedikt Hlíðar Stefánsson. Hrefna hefur komið sér fyrir í húsi sem þar stendur, Grenisöldu, sem áður stóð á samnefndum stað við Kárahnjúka, en var flutt að Þrándarstöðum fyrir nokkrum árum. Þar hefur hún komið sér upp góðri aðstöðu, fullkomnu sápueldhúsi fyrir sig og aflaði sér þeirra leyfa sem til sápugerðar þarf, „heilbrigðisvottað eldhús til framleiðslunnar frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands, þannig að betra verður það ekki,“ segir Hrefna sem kann einkar vel við sig í Grenisöldu og er þar gjarnan um helgar að sýsla við sápugerð.  Virka daga sinnir hún annarri vinnu á Egilsstöðum.

Hrefna segist hafa óskaplega gaman af því að breyta inni á baðherberginu heima hjá sér.

„Ég breyti reglulega um liti inni á baði og því fylgir að hafa allt í stíl, handklæði, mottu, kerti, skraut og að sjálfsögðu sápur.  Í framhaldinu fór ég að kanna hvort ég gæti ekki gert þær sjálf og leitaði fyrir mér á netinu.  Þar fann ég alveg heilan helling af flottum sápum og uppskriftum og ákvað þá að gera sjálf mínar eigin sápur,“ segir Hrefna.

Hefur vaxið stig af stigi

Í fyrstu fikraði hún sig áfram og bjó til sápur fyrir eigið heimili, en ekki leið á löngu þar til hún fór að gefa ættingjum og vinum eina og eina sápu og það vatt svo upp á sig, ættingjar og vinir fóru að falast eftir sápum til að gefa sínum vinum. 

„Þannig hefur þetta vaxið stig af stigi frá því ég byrjaði fyrir rúmlega þremur árum,“ segir hún.
Auk þess að framleiða sérlega skrautlegar og skemmtilegar sápur af ýmsu tagi, sóda-, basa-, raka-, og fljótandi, útbýr Hrefna einnig skrúbba, baðbombur, baðsölt og tepoka í bað og ilmvax fyrir hitara.

Góðar viðtökur

„Það er ágætt að gera í þessu og ég hef mjög gaman af því. Viðtökur hafa verið góðar og ég er þakklát fyrir það,“ segir Hrefna. Nefnir hún að um aukavinnu eða tómstundagaman sé þó fyrst og fremst að ræða, en samt deymi hana stundum sápur á nóttunni. 

„Það er virkilega gaman að fást við þetta, fara í sveitina og sinna þessu skemmtilega áhugamáli. Það eru endalausir möguleikar og það er líka ánægjulegt að fólki líkar varan vel, það gefur byr í seglin.“

Annatími fram undan

Annatími er fram undan, en sápur Hrefnu og baðvörur eru vinsælar til jóla- og tækifærisgjafa.

„Það er yfirleitt mikil eftirspurn á haustin og ég reyni að fara sem mest í sveitina og birgja mig upp af vörum fyrir jólin,“ segir hún.  Einnig annar hún sérpöntunum. Yfir sumarið eru svonefndar ferðamannasápur eftirsóttar, sápur sem m.a. eru mótaðar eins og Ísland, svo og jurtasápur og þæfðar sápur, Þær eru seldar á fjölsóttum áningarstöðum ferðamanna, einkum á Suðausturlandi, og eru mikið keyptar af erlendum ferðamönnum.  Hrefna fer einnig með vörur sínar á markaði, einkum innan fjórðungsins og um Suðausturland.  Benedikt er að hanna hillur sem notaðar verða undir vörurnar, pabbi Hrefnu, Ingólfur, smíðar mót og þá segir hún að áður en nýjar sápur komi á markað prófi fjölskyldumeðlimir þær fyrst.

„Þannig að það eru allir meira og minna í þessu með mér,“ segir hún.  „Ég vil endilega að fólk noti sápurnar, til þess eru þær, en auðvitað veit ég að sumir nota þær bara til skrauts.“ 

12 myndir:

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...