Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Eyri í Mjóafirði.
Eyri í Mjóafirði.
Mynd / Ingvar Jakobsson
Líf&Starf 11. janúar 2019

Dreifar frá Djúpi

Höfundur: Indriði Aðalsteinsson
Stundum slær maður inn skakkt símanúmer. Síðast þegar það henti mig varð fyrir svörum bóndi austur á Hornafirði. Þegar ég hafði aðspurður kynnt mig virtist hann vita á mér öll deili. Sagðist hann hafa þann fróðleik mest úr Bændablaðinu og saknaði þess hvað langt væri síðan ég hefði þar látið í mér heyra. 
 
Þar sem mér hefur oft fundist sjálfum að bændafólk mætti gera mikið, mikið meira af því að tjá sig í þessu málgagni sínu um sitt nærumhverfi, athyglisverða viðburði og áhugamál, ákvað ég að taka Hornfirðinginn á orðinu og stinga niður penna. 
 
Músafárið gengið yfir
 
Í fyrrahaust greindi ég hér frá yfirgengilegu músafári og var veiðin á þeim komin vel á sautjánda hundrað undir jól þegar bókhaldi var hætt. Voru þá eiturdauðar mýs og kattarétnar því til viðbótar. Heyrúllur voru stórskemmdar, renndur við jörð eða gólf, nánast burt nagaðar og vonlaust verk að hreinsa skemmt hey úr og því allt gefið. Aðeins tvær ær fengu fóðureitrun og náðu báðar heilsu aftur með lyfjagjöf. 
 
Nú er sveiflan á hinn veginn. Nánast músalaust og vandséð hvað veldur nema þá að áðurnefnt gjöreyðingarstríð hafi borið þennan árangur. 
 
Kötturinn Mjölnir
 
Á öllum sveitabæjum þar sem músaplágan er næsta árviss er brýnt að hafa góðan veiðikött. Auðvitað verður að loka þá inni að sumrinu svo að þeir gangi ekki of nærri fuglalífi. Hér hafa oft verið öflugir kettir og er þar skemmst að minnast fressins Mola sem fékk svo nafnbótina Minka-Moli eftir að hann varð sannur að sök um að hafa banað þrem minkum sem komu í heimsókn í hlöðuna til hans. 
 
Indriði Aðalsteinsson.
Nú er annað og ekki minna stórveldi hér á vettvangi upprunninn í Garðabæ. Heitir sá Mjölnir og lætur sér fátt fyrir brjósti brenna. Því til sönnunar skal hér tíunda atvik síðkvölds í október. Ég sat við eldhúsborðið sauðfjárbókhald, glugginn opinn en það var logn og blíða úti og svarta myrkur. Þá barst að utan þvílíkt hvæs að erfitt var að ímynda sér að það gæti komið úr kattarbarka. Þegar ég gægðist hljóðlega út um dyr, stendur Mjölnir í hlaðkantinum undir ljósastaurnum og horfist í augu við fullorðinn ljósmórauðan ref sem stendur í miðri ljóskeilunni fimm til sex metra frá kantinum. Áður en ég gat seilst í byssu, sló rebbi aðeins undan. Þá stökk Mjölnir niður af kantinum og rebbi tók til fótanna og hvarf út í myrkrið með köttinn á hælunum. 
 
Ekki leist mér gæfulega á þessa landvörslu hjá Mjölni og átti allt eins von á að ég sæi hann ekki meir, en næsta morgun hafði hann skilað sér óskaddaður. 
 
Rjúpa og refir
 
Í vor og sumar bar meira á rjúpu en líklega síðustu tvo áratugi. Vöknuðu vonir um að rjúpnastofninn á þessum fyrrum gjöfulu rjúpnalendum við Djúp væri að ná sér aftur á strik. Því miður reyndist það óskhyggja. Þá sjaldan fyrri veiðihelgarnar að skyttur sæju ummerki eftir rjúpu í nýsnævi, hafði rebbi verið þar á ferðinni líka. Síðasta veiðihelgin var fádæma hagstæð hvað allar kringumstæður snerti, en það vantaði bara fuglinn. 
 
Þegar vanir menn á slíkum dögum eru að ná þrem til fjórum rjúpum og sjá lítið meira, segir það allt sem segja þarf. Rjúpan er aðalfæða refa allan ársins hring, sé hún á annað borð í boði. Síðan 1994 hefur ríkisrefurinn að norðan hellst yfir okkur Djúpmenn haust hvert og ber verndurum sínum í umhverfisráðuneyti fagurt vitni. 
 
Skelfilegur fjárdauði
 
Rétt við þjóðveginn vestan Djúps, sunnanvert við Mjóafjörð er ríkisjörðin Eyri. Á Inn-Djúps áætlunarárunum 1970 til 1974 voru reist þar fjárhús, en jörðin er fyrr allnokkru komin í eyði. Nokkru innan er ferðaþjónustubærinn heydalur en nokkru utar eru Látrar, þar sem Stefán Sigmundsson býr með sauðfé. Þar voru heimtur afar slæmar í haust og í eftirleit sá hann á Eyrartúni sauðkind afar smávaxna sem við styggð leitaði skjóls í fjárhúsum. Þegar inn var komið gaf svo á að líta hræ af níu ám og fjórum lömbum sem höfðu lokast inni. Líklega snemma í júlí að mati dýralæknis sem kallaður var á vettvang. Einnig styður það þessa tímasetningu að lömb sem heimtust undan dauðu ánum voru flest aumingjar og þriðjunginn vantar enn. 
 
Fregnir af þessum ömurlega atburði hafa farið of hljótt, því það eru mörg eyðibýlin í landinu sem geta skapað svipaðar slysagildrur og á Eyri og til þess eru vítin að varast þau.
 
Kindur leita grimmt í hús, undan úrkomu, flugnavargi, eða bara til að komast í skugga. Víst er að tjón Stefáns á Látrum, nýgræðings í röðum okkar Djúpbænda, er verulegt og óvíst að búfjártryggingar bæti hann og hver ábyrgð ber á afleiðingum slíks, hvort það er jarðeigandi, eða jarðarleigjandi. Fólk sem heimsækir hús á eyðijörðum þarf líka að vera vel á verði. Gólf og veggir geta brostið og innréttingar hrunið. Svo bætast við milljónir útlendinga og þar eru misjafnir sauðir í mörgu fé. Gæti ekki einhver slíkur hafa átt hlut að máli á Eyri og skilið við fjárhúshurðina öðruvísi en hann kom að henni. 
 
Smávegis af túristum
 
Þó túrisminn sé ekki allt um lykjandi hér við Djúp verður hans samt vart með ýmsum hætti. Hafa þarf vit fyrir útlendingum, losa bíla þeirra úr sköflum og keldum og bjarga þeim þegar þeir lenda i hremmingum. Ég er búsettur á vegarenda og til að draga úr ónæði og yfirtroðslum, setti ég upplýsingaskilti á heimreiðarhlið, að vísu aðeins á íslensku, ásamt því að hafa þar gott snúningspláss.  Samt er hliðið stundum opnað og tekinn stór snúningshringur úti á túni eins og viðkomandi viti ekki af afturábak gírnum. 
 
Þegar ferðamenn langar fram í dal og fá til þess leyfi, þá liggur leiðin í gegnum hagagirðingu sem geymir hrúta og stundum kviðrifnar og vanfærur. Þó áhersla sé lögð á að loka hliðunum af viðkomandi, kann enginn lengur að binda réttan hnút, eða stinga stikuenda í vírlykkju. Nógu eru smalamennskur hér erfiðar og mannfrekar. Þó vandræðapeningur af þessu tagi sleppi ekki út og á fjall. Því er það að verða regla að kanna hnútafærni áður en leyfi til dalaferðar er veitt. En stundum er alls ekki verið að ómaka sig við að biðja um leyfi. 
 
Heimavarnarliðið
 
Um hádegi á Jónsmessu 2016 komu tveir stórir torfærujeppar brunandi yfir ristarhlið og síðan gegnum áðurnefnd heimreiðarhlið og slökuðu lítið á hraðanum á hlaði eða húsasundum og hurfu í reykmekki fram í dal. Nú vildi svo vel til að hér voru grenjaskyttur á mínum vegum sem voru að ferðbúast til grenjaleitar fram í dalbotn.  Voru þeir meira en fúsir til að minni beiðni að slá tvær flugur í einu höggi og reka þessa yfirgangsmenn öfuga til baka. Þegar þeir komu á smalaslóðarenda er áðurnefndur stefnuvargur kominn inn í Hrynjandisskóg sem dregur nafn af á sem hrynur niður bratta hlíð og er hann ígildi Teigsskógs þess sem nú er frægastur slíkra á landi hér. Þegar aðkomumenn sjá í sjónaukum sínum eftirförina og að þeim stefna þungvopnaðir menn í felubúningum, hverfa þeir þegar í skóginn. Mínum mönnum þótti nú vandast málið og voru þó fljótlega svo heppnir að ganga fram á Frakka sem var sæmilega enskumælandi og viðurkenndi að vera forsprakki hópsins. Honum var allmjög brugðið, en gat þó ekki leynt aðdáun sinni á hvað íslenska heimavarnarliðið væri fljótt að bregðast við. Mínir menn voru ekkert að leiðrétta þann misskilning, en skipuðu honum að kalla á sína menn. Það bar engan árangur, því bæði var sá franski raddlaus af skelfingu og fossdunur og vatnaniður yfirgnæfandi. Var á tekið það ráð til að undirstrika alvöru málsins að skjóta af haglabyssu upp í loftið og heimtust þá Fransmenn fljótlega til fyrirliðans. Var þeim þá kynnt rétt hegðun gagnvart bændum á þessum slóðum og að landeigandi ætlaði af góðmennsku sinni að láta vera að sekta þá, en nú skyldu þeir hypja sig hvað Frakkar gerðu hið snarasta. 
 
Læt ég hér staðar numið að sinni og óska mínu fólki árs og friðar og öllum lesendum Bændablaðsins. 
 
Kaupmenn og Klausturdónar
 
Eftirfarandi vísa varð til vegna Kastljósþáttar þar sem málpípa verslunarauðvaldsins, Ólafur Stephensen, var að reyna að verja innflutning á hráu kjöti. 
 
Það löngum var sagt að köld væri kaupmannslundin
til klækjabragða notuð mörg vökustundin
og til þess að geta nú safnað gróða án grensu
skal gæta oss á kamfílóbakter og svínaflensu.
 
Og þessi vísa skýrir sig væntanlega sjálf:
 
Að ganga í klaustur var góður siður
þar gafst þér umhyggja, hvíld og friður
nú þingmannsdónar þar vondir vaða
og valda þjóðinni hrygg og skaða.
 
Indriði Aðalsteinsson
bóndi á Skjaldfönn við Ísafjarðardjúp
Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...

Friðarlilja – falleg allt árið
26. ágúst 2019

Friðarlilja – falleg allt árið

Fjár- og stóðréttir 2023
24. ágúst 2023

Fjár- og stóðréttir 2023

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Manstu vorið?
10. september 2024

Manstu vorið?

Smalað vegna óveðurs
12. september 2024

Smalað vegna óveðurs